Hoppa yfir valmynd
13. júní 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Þátttaka Íslands í Erasmus+ og European Solidarity Corps áhrifarík fyrir íslenskt samfélag

Ný úttekt á árangri Erasmus+ og European Solidarity Corps (ESC) á Íslandi sýnir fram á jákvæð áhrif áætlananna á íslenskt menntakerfi og æskulýðsstarf. Umsóknarferlið mætti einfalda en þjónusta Landskrifstofu veitir umsækjendum og styrkhöfum mikilvægan stuðning. Áhersla í áætluninni á inngildingu hefur skilað sér í þátttöku fjölbreyttra hópa og stuðningur starfsfólks landsskrifstofu hefur skipt sköpum í þeirri þróun.

Mennta- og barnamálaráðuneytið ber ábyrgð á eftirliti með framkvæmd Erasmus+ og ESC á Íslandi en Landskrifstofa Erasmus+, sem hýst er hjá Rannís, hefur umsjón með rekstri, framkvæmd og kynningu áætlananna. KPMG gerði úttektina og safnaði upplýsingum gegnum rýnihópa, djúpviðtöl og rafrænar kannanir meðal verkefnastjóra.

Meðal helstu niðurstaðna eru mikil og jákvæð áhrif sem áætlanirnar hafa haft. Erasmus+ hefur leitt til alþjóðlegra áhrifa á stefnumótun menntunar og æskulýðsmála hér á landi og aukið tækifæri til símenntunar og starfsþróunar. Þá hefur ESC-áætlunin aukið alþjóðavitund og evrópska samvitund. Helsta gagnrýni svarenda beinist að tölvu- og upplýsingakerfi áætlananna og umsóknarferlinu almennt, sem getur verið hindrun fyrir þátttöku, sérstaklega hjá óvönum umsækjendum. Þeir þurfa því mikinn stuðning og er Landskrifstofa Erasmus+ og ESC á Íslandi talin hafa staðið sig vel í þeim efnum með faglegri, lausnamiðaðri og persónulegri þjónustu. Þá eru breytingar á ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands ekki taldar hafa haft teljandi áhrif á árangur Erasmus+ að mati þátttakenda og er fastmótuðum verkferlum að þakka.

Sem dæmi um mögulegar úrbætur til að bæta framkvæmd og árangur áætlananna enn frekar má nefna sameiningu Erasmus+ og ESC í eina áætlun, aukinn sveigjanleika í reglum, virkara samtal milli styrkhafa til að hægt sé að læra hvert af öðru og sterkari tengsl Landskrifstofu við landshlutasamtök sveitarfélaga.

Samskonar úttektir hafa farið fram í öllum þátttökulöndum Erasmus+ og ESC og renna niðurstöður þeirra inn í miðmat áætlananna (e. mid-term evaluation) sem framkvæmdastjórn ESB er skylt að inna af hendi fyrir lok árs 2024. Niðurstöður miðmatsins munu skipta máli við undirbúning næstu kynslóðar áætlananna sem ná yfir árin 2028-2034. Úttektirnar eru því mikilvæg heimild um framkvæmd og áhrif áætlananna í hverju landi fyrir sig.

Nánar má lesa um úttektina í landsskýrslum KPMG um Erasmus+ og ESC.

Uppfært 18.7.24 kl. 15:09


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta