Ýmsar fjármálatengdar upplýsingar á Mínum síðum á Ísland.is
Undir Fjármálum á Mínum síðum á Ísland.is má finna ýmsar fjármálatengdar upplýsingar fyrir einstaklinga, fyrirtæki og opinbera aðila. Þar geta þessir aðilar séð skuldastöðu sína við ríkissjóð og stofnanir, allar hreyfingar, greidda og ógreidda greiðsluseðla og greiðslukvittanir.
Þá geta bæði einstaklingar og fyrirtæki sem eru í skuld við ríkissjóð eða stofnanir dreift greiðslum á skuld sinni með því að gera greiðsluáætlun. Sé þörf á skuldleysisvottorði má sömuleiðis sækja um slíkt og berst það í Stafrænt pósthólf umsækjanda.
Einstaklingar og prókúruhafar geta skráð sig inn og fengið þessar upplýsingar. Á einfaldan hátt er hægt að veita þriðja aðila aðgang að þessum upplýsingum með rafrænum hætti. Sé vilji til að gefa t.a.m. maka, endurskoðanda eða fjármálastjóra aðgang má gera það með aðgangsstýringu Minna síðna. Þeir skrá sig inn með rafrænu skilríki eða með auðkennisappi og veita þannig aðganginn. Umboðshafi skráir sig svo inn með rafrænum hætti og velur þann notanda sem hann vill skoða.
Snorri Olsen ríkisskattsstjóri
„Með rafrænum skilríkjum geta viðskiptavinir Skattsins nú nýtt sér sjálfsafgreiðslulausnir á Ísland.is og nálgast þar upplýsingar og gögn sér að kostnaðarlausu á öruggan og fljótlegan hátt.“
Ingþór Karl Eiríksson, fjársýslustjóri hjá Fjársýslu ríkisins
„Bætt upplýsingagjöf um stöðu einstaklinga og lögaðila við ríkissjóð á Ísland.is bætir almenna þjónustu ríkisins og er mikilvægt skref í stafrænni vegferð Fjársýslunnar.“
Andri Heiðar Kristinsson framkvæmdastjóri Stafræns Íslands
„Samstarf við Fjársýsluna og Skattinn hefur gengið vel og þessar stofnanir verið leiðandi í að bæta aðgengi og þjónustu við notendur gegnum Mínar síður Ísland.is."
Fjársýslan og Skatturinn í samstarfi við Stafrænt Ísland vinna markvisst að því að auka upplýsingagjöf og sjálfsafgreiðslu tengda fjármálum einstaklinga og fyrirtækja á Mínum síðum Ísland.is og er það gert í takti við eftirspurn notenda.