Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 452/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 30. apríl 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 452/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24040098

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 450/2022, dags. 2. nóvember 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 12. október 2022 um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Srí Lanka (hér eftir kærandi), um vegabréfsáritun til Íslands.

Hinn 30. september 2022 lagði kærandi fram umsókn um vegabréfsáritun til Íslands í þrjá mánuði, með áætlun um að dvelja hér á landi í tvo daga og í Noregi í tvo daga. Hinn 12. október 2022 synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda og 2. nóvember 2022 staðfesti kærunefnd niðurstöðu Útlendingastofnunar. Hinn 6. nóvember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Með úrskurði nefndarinnar nr. 464/2022, dags. 14. nóvember 2022, var beiðni kæranda hafnað. Hinn 15. apríl 2024 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins að nýju.

Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á  24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að misskilnings hafi gætt um tilgang ferðar hans til Íslands. Frá því að íslensk stjórnvöld fjölluðu um umsókn kæranda hafi kærandi fengið útgefna vegabréfsáritun og ferðast til margra Schengen-ríkja án vandkvæða. Að sögn kæranda hafi stuttur tími fyrirhugaðrar ferðar verið meðal ástæðna fyrir því að umsókn hans hafi verið synjað. Kærandi bendi þó á að nýlegar ferðir hans hafi einnig verið stuttar.

Þar að auki hafi kærandi verið ósáttur við túlkun á mögulegri dvöl umfram heimilaðan tíma og svonefndu áritanasnapi (e. visa-shopping). Kærandi hafi t.a.m. dvalið löglega í Bretlandi í eitt og hálft ár sem sýni fram á ábyrgð hans gagnvart regluverki um dvöl innflytjenda. Þar að auki ætti stutt helgarferð að takmarka allar grundsemdir gagnvart dvöl umfram heimild, einkum í ljósi þess að kærandi hafi haft fjárhagslega burði til þess að dvelja lengur. Að lokum hafi ný umsókn kæranda um áritun til Noregs ýtt undir áhyggjur stjórnvalda um að kærandi gæti brotið gegn regluverki um vegabréfsáritanir og skyldu hans til þess að yfirgefa Schengen-svæðið að dvöl lokinni.

Kærandi kveðst vera spenntur fyrir tækifæri til þess að heimsækja Ísland í sumar og haust og óski því eftir endurskoðun á umsókn sinni, þar sem tekið sé tillit til annarra stuttra ferða kæranda inn á Schengen-svæðið.

Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. ákvæðisins, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. ákvæðisins.

Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verður endurupptökubeiðni ekki tekin til greina eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Með úrskurði nr. 450/2022 frá 2. nóvember 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um vegabréfsáritun til Íslands á grundvelli 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með úrskurði nefndarinnar nr. 464/2022, dags. 14. nóvember 2022, var beiðni kæranda um endurupptöku fyrrnefnds úrskurðar hafnað.

Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á því að úrskurður kærunefndar nr. 450/2022 hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum.

Í fyrrgreindum úrskurði kærunefndar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar á Íslandi, sbr. ii-liður a-liðar 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, með síðari breytingum. Niðurstaða kærunefndar byggði m.a. á því að kærandi hugðist dvelja hér á landi í hálfan sólarhring, en á þeim tíma hugðist kærandi leigja bíl, sjá Geysi og gista á farfuglaheimili í Reykjavík. Kærandi hafi þá einnig ætlað að dvelja í Osló í febrúar í sólarhring og hafi ekki gefið upp ástæðu ferðar sinnar þangað. Að mati kærunefndar var ferðaáætlun kæranda hvorki vel ígrunduð né raunhæf og því talin ótrúverðug.

Í síðari beiðni kæranda um endurupptöku greindi hann m.a. frá öðrum ferðum sínum á Schengen-svæðið eftir að kærunefnd kvað upp úrskurð sinn. Kærandi greindi einnig frá því að hafa ekki verið að stunda svokallað áritanasnap. Af meðferð málsins er ljóst að endurupptökubeiðni kæranda er lögð fram meira en ári frá uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar nr. 450/2022, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd hefur yfirfarið málsástæður kæranda og er það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu fyrir hendi veigamiklar ástæður sem mæli með endurupptöku úrskurðarins að svo löngum tíma liðnum.

Lítur kærunefnd einnig til þess að kærandi hafi fengið útgefnar vegabréfsáritanir eftir uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar nr. 450/2022, og er ekkert sem bendir til annars en að kærandi geti sótt um vegabréfsáritun að nýju hafi hann hug á ferðalagi til Íslands.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request to re-examine the case is denied.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta