Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2012

Miðvikudaginn 3. apríl 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 34/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 14. febrúar 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 25. október 2011 um synjun Íbúðalánasjóðs frá 22. nóvember 2011 á niðurfellingu skuldar sem glataði veðtryggingu við nauðungarsölu á fasteign að B

 

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Þann 1. september 2006 keypti kærandi fasteign að B og fjármagnaði hún kaupin meðal annars með ÍLS-veðbréfi. Kærandi afsalaði fasteigninni til C þann 24. mars 2009 og var afsalinu þinglýst sama dag en þá hafði ekki verið gengið frá yfirtöku hans á áhvílandi láni. Samkvæmt kaupsamningi sem undirritaður var þann 27. mars 2009 og þinglýst sama dag var kaupverð 12.450.000 kr. sem greitt skyldi með útborgun að fjárhæð 2.200.000 kr. við kaupsamning og yfirtöku láns nr. X hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 10.250.000 kr. Beiðni kaupanda um yfirtöku lána barst Íbúðalánasjóði í ágúst 2009 en þá var eignin komin í uppboðsmeðferð og varð því ekki af yfirtöku.

 

Uppboðsferlið sem Íbúðalánasjóður gekk inn í hófst á grundvelli nauðungarsölubeiðni frá Akureyrarbæ vegna ógreiddra fasteignagjalda frá árinu 2008. Nauðungarsölubeiðnin var dagsett 16. desember 2008 og var greiðsluáskorun birt af stefnuvotti þann 14. nóvember 2008. Framhaldsuppboð fór fram á eigninni þann 30. september 2009 og var Íbúðalánasjóður hæstbjóðandi. Í ljósi þess að skuldaraskipti á láninu höfðu ekki verið samþykkt þegar fasteignin var boðin upp taldi Íbúðalánasjóður kæranda ábyrga fyrir greiðslu lánsins og réttilega skuldara á kröfu að fjárhæð 3.679.081 kr. sem eftir uppboðið færðist á glötuð veð. Með kaupsamningi, dags. 17. mars 2010, keypti C umrædda eign af Íbúðalánasjóði á 8.500.000 kr.

 

Með ódagsettu bréfi, mótt. 17. október 2012, óskaði kærandi eftir niðurfellingu kröfu vegna glataðs veðs, vegna nauðungarsölu fasteignar hennar. Á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs þann 9. nóvember 2011 var erindi kæranda synjað með eftirfarandi bókun:

 

Með ódags. bréfi sem barst Íbúðalánasjóði hinn 17. október s.l., fer A, þess á leit við sjóðinn að hann felli niður kröfu sjóðsins á hendur henni á „glötuðum veðum“, vegna nauðungarsölu á fasteigninni B. Skuldin er kr. 3.679.081-, skv. tilkynningu ÍLS til hennar, dags. 4. janúar 2010. A hafði afsalað umræddri eign til C, hinn 24. mars 2009, en á sama tíma var gengið frá kaupsamningi um eignina. Það var gert, þótt fyrir lægi fyrir, að kaupandi hefði ekki enn farið í greiðslumat og sótt um yfirtöku á áhvílandi láni ÍLS.

 

Tillaga lögfræðisviðs:

Umsókn A, um niðurfellingu á skuld við Íbúðalánasjóð, sem glataði veðtryggingu við nauðungarsölu á B, verði synjað.

Samþykkt að synja erindinu.“ [sic]

 

Framangreind synjun var tilkynnt kæranda með tölvupósti þann 11. nóvember 2011 og með bréfi, dags. 22. nóvember s.á.


 

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 7. mars 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 12. mars 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með ódagsettu bréfi, mótt. 21. mars 2012. Með bréfum úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 17. apríl 2012 og 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með tölvupósti þann 27. mars 2013 óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari gögnum frá Íbúðalánasjóði og bárust þau með tölvupósti sama dag og þann 2. apríl 2013.

 

 

III. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi kveðst vera búsett hjá foreldrum sínum ásamt börnum sínum tveimur og þurfi nauðsynlega á láni að halda frá Íbúðalánasjóði. Hún sé afar ósátt við hvernig hún hafi komist á skrá hjá Íbúðalánasjóði vegna skráðra skulda sem hún hafi ekki verið aðili að og hafi ekki stofnað til hjá sjóðnum. Kærandi fer fram á að skuldin verði afmáð hjá Íbúðalánasjóði. Kærandi óskar eftir því að úrskurðarnefndin felli úr gildi ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs svo hún geti fengið lán hjá sjóðnum.

 

Kærandi vísar til þess að hún hafi selt fasteign sína með kaupsamningi frá 27. mars 2009. Kaupandi hafi yfirtekið lán frá Íbúðalánasjóði sem hvílt hafi á fasteigninni. Kaupandi hafi þó ekki farið í greiðslumat hjá Íbúðalánasjóði fyrr en síðar og hafi hann þá fengið að yfirtaka lán hjá sjóðnum sem hafi verið lækkað. Samkvæmt afsali frá sýslumanni hafi Íbúðalánasjóður fengið íbúðina vegna uppboðs á eigninni og þar komi fram að þinglýstur eigandi sé sá sem hún hafi gert kaupsamning við. Í bréfi frá sýslumanni komi skýrt fram að kærandi hafi ekki fengið að vita um uppboðið. Kærandi kveðst ekki hafa getað brugðist við uppboðsmeðferðinni í ljósi þess að hún hafi verið búin að afsala fasteigninni. Kærandi rekur að kaupandi fasteignarinnar hafi farið í greiðslumat eftir uppboðið og fengið eignina afsalaða frá Íbúðalánasjóði eftir að hann hafi komið henni á uppboð og gert kaupsamning við Íbúðalánasjóð. Kaupandinn hafi því fengið lækkað kaupverð frá kaupsamningi við kæranda sem hann hafi undirritað. Kærandi telur ljóst að þetta hafi viðkomandi gert til að ná niður láninu af íbúðinni á ólöglegan hátt þar sem Íbúðalánasjóður láni ekki til þeirra sem hafi farið með eignir á sínar á uppboð. Kærandi heldur því fram að sala á fasteigninni til einstaklings sem hafi komið eigninni á uppboð og náð framlækkun á láninu hafi verið brot á reglum Íbúðalánasjóðs og sjóðurinn beri ábyrgð á því að kaupandi hafi ekki talið ástæðu til að standa við fyrri kaupsamning. Kærandi standi uppi með mismun af framangreindri lækkun og geti ekki fengið lánafyrirgreiðslu hjá sjóðnum næstu árin.

 

Kærandi heldur því fram að í minnisblaði Íbúðalánasjóðs, dags. 25. október 2011, sé staðfest að kaupandi fasteignarinnar hafi ekki átt að fá greiðslumat hvorki fyrir né eftir uppboð á fasteigninni. Kærandi telur því að Íbúðalánasjóður hafi brotið lög og reglur og skuldin sem hún sé skráð fyrir hjá sjóðnum hefði ekki myndast ef sjóðurinn hefði farið eftir lögum og reglum. Kærandi tekur fram að eftir að Íbúðalánasjóður keypti fasteignina á uppboði hafi sjóðurinn selt hana aftur til sama einstaklings og hafi keypt fasteignina af henni. Við það hafi viðkomandi ekki haft hagsmuni að því að standa við kaupsamning við hana heldur eingöngu hagsmuni til að fá lækkað lánið hjá sjóðnum. Kærandi telur þetta vera aðalatriði í málinu enda hafi þetta myndað þá skuld sem um ræði og kærandi vilji að verði afmáð. Kærandi vísar til þess að Íbúðalánasjóður hafi selt fasteignina og hafi kaupandi fengið ÍLS-veðbréf að fjárhæð 6.800.000 kr. Kærandi heldur því fram að kaupandi hafi ekki átt að fá þetta lán en eins og fram komi í minnisblaði Íbúðalánasjóðs hafi kaupandi ekki fengið greiðslumat áður en fasteignin hafi verið boðin upp þar sem hann hafi verið orðinn afsalshafi og komið fram á vanskilaskrá vegna fyrirhugaðs uppboðs. Kærandi heldur því jafnframt fram að um lögbrot sé að ræða þar sem Íbúðalánasjóður hafi aflétt hluta lána sem hvílt hafi á fasteigninni og kærandi látin bera þá skuld sem hafi myndast vegna afsláttar sem sjóðurinn hafi veitt kaupanda. Kærandi hafi haft hagsmuni af því að kaupandi fasteignarinnar stæði við kaupsamning við hana.

 

Kærandi gerir athugasemdir við verðmat fasteignarinnar og vísar til þess að kaupandi hafi látið rífa millivegg og íbúðinni þannig breytt úr lítilli þriggja herbergja íbúð í tveggja herbergja íbúð. Kærandi tekur fram að um sé að ræða 72 m2 íbúð í tvíbýli á fyrstu hæð með góðu baði, góðum gluggum og á góðum stað í bænum. Kærandi telur óeðlilegt að selja fasteignina á 8.500.000 kr. og óskar eftir dómkvöddum matsmönnum telji úrskurðarnefndin að um eðlilegt verð sé að ræða. Kærandi bendir á að í mars 2013 sé til sölu 48 m2 íbúð á annarri hæð í þríbýli í sömu götu og ásett verð sé 11.200.000 kr. Kærandi bendir enn fremur á að persónulegur vinur afa kaupanda fasteignarinnar sitji í stjórn Íbúðalánasjóðs og telur kærandi því ástæðu til að spyrja hvort um greiða hafi verið að ræða. Kærandi ítrekar kröfu sína um að skuldin verði afmáð hjá Íbúðalánasjóði og tekur fram að eigi hún rétt á bótum óski hún eftir áliti úrskurðarnefndarinnar um það.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar er um meðferð og afgreiðslu málsins vísað til ákvörðunar stjórnar sjóðsins sem fram komi í svarbréfi sviðsstjóra lögfræðisviðs, dags. 22. nóvember 2011, og til minnisblaðs frá lögfræðisviði um málið, dags. 25. október 2011.

 

Í minnisblaði, dags. 25. október 2011, eru tildrög málsins rakin og segir þar meðal annars að gangur viðskipta milli kæranda og þess er hún afsalaði fasteignina til hafi verið óvenjulegur. Þinglýstur kaupsamningur beri ekki með sér að hafa verið gerður á fasteignasölu og ekki komi fram hver hafi samið skjalið. Samningurinn hafi upphaflega verið dagsettur 2. ágúst 2008 en strikað hafi verið yfir þá dagsetningu og henni breytt í 2. janúar 2009 og aftur strikað yfir og dagsetningin 27. mars 2009 rituð. Í texta á framhlið samningsins sé hann hins vegar sagður dagsettur 26. júlí 2008 og afhendingardagur 2. september 2008. Segir þá að afsal hafi verið gefið út 24. mars 2009 og þinglýst sama dag og kaupsamningi, móttekið 27. mars 2009 og innfært 30. mars 2009. Ekki hafi komið fram á afsalinu hver hafi samið skjalið. Þá verði að benda á að kærandi og sá er hún afsalaði fasteigninni hafi ekki gengið frá yfirtöku á láni hjá Íbúðalánasjóði áður en afsal hafi verið undirritað. Engu að síður sé því lýst yfir að kaupverð sé að fullu greitt. Þessi viðskipti séu á ábyrgð kaupanda og seljanda þar sem þau hafi ekki fengið löggiltan fasteignasala til að ganga frá viðskiptunum og sjá til þess að allar reglur væru hafðar í heiðri. Þau hafi þurft að kynna sér reglur um fasteignakaup og reglur viðeigandi lánastofnana varðandi yfirtöku á lánum og beri sjálf hallann af því að hafa ekki gert það. Vegna staðhæfingar kæranda um að hún hafi ekki getað brugðist við þar sem hún hafi ekki vitað af nauðungarsöluferlinu er tekið fram að það sé vissulega rétt að sýslumaður sendi einungis þinglýstum eiganda tilkynningu um nauðungaruppboð en kærandi hafi ekki verið þinglýstur eigandi. Það verði þó að athuga að bæði greiðsluáskorun og nauðungarsölubeiðni hafi verið á nafni kæranda sem skuldara, og faðir hennar hafi skrifað undir móttöku greiðsluáskorunarinnar á birtingarvottorðið. Það megi því vera ljóst að kærandi hafi vitað af skuldinni við Akureyrarbæ og með ólíkindum að faðir hennar hafi ekki látið hana vita um greiðsluáskorunina. Í gögnum Íbúðalánasjóðs megi finna bréf kaupanda til stjórnar sjóðsins, dags. 26. október 2009, þar sem hann lýsi ástæðu þess að kaupsamningnum hafi ekki verið þinglýst fyrr. Hann segi meðal annars að afhendingin hafi farið fram á réttum tíma en seljandi hafi óskað eftir fresti á frágangi máls til þess að greiða gjaldfallin fasteignagjöld. Varðandi breytingu á dagsetningum kaupsamnings segi hann það hafa verið gert til að forðast stimpilsekt. Kaupsamningur hafi ekki fengist afhentur nema með afsali þann 27. mars 2009 og verið þinglýst sama dag. Kaupandi greini einnig í bréfi sínu frá því að ætlunin hafi verið að koma í veg fyrir uppboðið með því að greiða fasteignagjöldin en vegna mistaka og misskilnings milli hans og vinnuveitanda sem hafi ætlað að greiða fyrir hann, hafi það ekki verið gert. Ástæða þess að kaupandi hafi ekki fengið greiðslumat hafi verið sú að hann hafi ekki sótt um það fyrr en í ágúst 2009. Þá hafi hann verið orðinn afsalshafi eignarinnar og því komið fram á vanskilaskrá vegna fyrirhugaðs uppboðs á eigninni. Hann hafi því fengið synjun á greiðslumati og ekki getað sótt um yfirtöku á láninu. Þá hafi fasteignasali hjá Íbúðalánasjóði litið yfir verðmat, dags. 29. desember 2009, og í fljótu bragði talið það eðlilegt miðað við lýsingu á eigninni og stöðu á fasteignamarkaði á þeim tíma. Ýmis ágreiningur sé uppi í málinu en Íbúðalánasjóður geti ekki tekið ábyrgð á viðskiptum aðilanna heldur sé eina aðkoma sjóðsins lánveiting til kaupanna. Því sé einungis spurning um það hver eigi að vera skuldari á þeirri kröfu sem glatað hafi veðtryggingu við fyrrnefnt uppboð og hve há sú krafa sé. Kaupandi hafi ekki fengið greiðslumat og hafi því ekki getað sótt um yfirtöku á láni Íbúðalánasjóðs áhvílandi á fasteigninni. Kærandi hafi af þeim sökum verið ábyrg fyrir láninu á uppboðsdegi og sé réttilega skuldari á þeirri kröfu sem eftir uppboðið hafi færst á glötuð veð samkvæmt reglum Íbúðalánasjóðs í reglugerð um meðferð krafna sem glatað hafa veðtryggingu, nr. 359/2010. Ekki sé nánar fjallað um sölu Íbúðalánasjóðs eftir að sjóðurinn hafi eignast fasteignina á nauðungaruppboði. Færsla á glötuð veð hjá Íbúðalánasjóði miðist við verðmat á hinni seldu eign miðað við uppboðsdag. Ekki hafi verið sýnt fram á að matsverðið hafi verið of lágt. Endursöluverð Íbúðalánasjóðs sé örlítið undir þessu verðmati en sala hafi farið fram hálfu ári eftir uppboðið. Að lokum er tekið fram að ekki sé liðinn sá fimm ára tími frá uppboði sem heimili skuldara að sækja um afskrift á skuld á glötuðum veðum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. 6. gr. framangreindrar reglugerðar. Að lokum er lagt til að umsókn kæranda um niðurfellingu á skuld við Íbúðalánasjóð sem glataði veðtryggingu við nauðungarsölu á fasteign verði synjað.

 

Í bréfi Íbúðalánasjóðs til kæranda, dags. 22. nóvember 2011, kemur fram að erindi kæranda hafi verið lagt fram á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs þann 9. nóvember 2011 ásamt minnisblaði, dags. 25. október 2011. Með vísan til þess er fram hafi komið í minnisblaðinu hafi erindi kæranda verið synjað.

 

 

V. Niðurstaða

 

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda.

 

Mál þetta varðar kröfu kæranda um að Íbúðalánasjóður afskrifi kröfu sem glataði veðtryggingu við kaup Íbúðalánasjóðs á fasteign að B við nauðungarsölu. Kærandi keypti fasteignina árið 2006 og fjármagnaði kaupin meðal annars með ÍLS-veðbréfi að upphaflegri fjárhæð 9.000.000 kr. Kærandi gerði kaupsamning við C um sölu fasteignarinnar sem móttekinn var til þinglýsingar þann 27. mars 2009 og innfærður þann 30. mars 2009. Samkvæmt kaupsamningi skyldi kaupverðið meðal annars greitt með yfirtöku veðláns. Kærandi afsalaði fasteigninni þann 24. mars 2009 en kaupandi yfirtók ekki veðlánið líkt og kveðið var á um í kaupsamningi. Þann 30. september 2009 var fasteignin seld á nauðungarsölu og var Íbúðalánasjóður hæstbjóðandi. Í ljósi þess að skuldaraskipti á láninu höfðu ekki verið samþykkt þegar fasteignin var boðin upp taldi Íbúðalánasjóður kæranda ábyrga fyrir greiðslu lánsins og því réttilega skuldara á kröfu að fjárhæð 3.679.081 kr. sem eftir uppboðið færðist á glötuð veð.

 

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um fasteignakaup, nr. 40/2002, telst samningur um kaup á fasteign bindandi þegar skriflegt tilboð hefur verið samþykkt af móttakanda þess með undirskrift, enda felist í því skuldbinding um greiðslu tilgreinds kaupverðs og afhendingu fasteignar. Þegar kaupandi hefur efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi á hann rétt á afsali úr hendi seljanda, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, er veðréttur því eigi til fyrirstöðu að hinu veðsetta (veðandlaginu) sé afsalað nema annað leiði af samningi eða ákvæðum laga. Í málinu liggur fyrir kaupsamningur sem upphaflega var dagsettur þann 2. ágúst 2008. Samkvæmt upplýsingum sem Íbúðalánasjóður fékk frá kaupanda fasteignarinnar var dagsetningunni breytt í 27. mars 2009 til að forðast stimpilsekt. Við undirskrift kaupsamnings þann 2. ágúst 2008 var kaupandi orðinn eigandi fasteignarinnar en sá eignarréttur var þó bundinn því skilyrði að hann fullnægði skilmálum kaupsamningsins, það er að greiða kaupverðið. Kaupandi efndi þó aldrei skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi og átti því ekki rétt á afsali úr hendi seljanda, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um fasteignakaup. Þrátt fyrir það gaf kærandi út afsal þann 24. mars 2009 og viðurkenndi þar með að kaupandi hafi fullnægt skyldum sínum samkvæmt kaupsamningi. Frá og með 24. mars 2009 var eignarréttur kaupanda því ekki lengur skilyrtur og eignarréttur kæranda í máli þessu féll endanlega niður. Frá þeim tíma fór kaupandi með allar heimildir yfir eigninni sem ekki skyldu víkja fyrir betri rétti Íbúðalánasjóðs og annarra veðhafa en afsal fasteignarinnar haggaði ekki veðréttinum, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga um samningsveð. Úrskurðarnefndin tekur undir það sjónarmið Íbúðalánasjóðs að í ljósi þess að kaupandi yfirtók ekki veðlán það sem hvíldi á fasteigninni var kærandi enn skuldari þess.

 

Fasteignin var seld á nauðungaruppboði sem lauk þann 30. september 2009. Þann 14. október 2009 var samþykkt boð Íbúðalánasjóðs í eignina að fjárhæð 1.000.000 kr. en líkt og áður hefur komið fram átti sjóðurinn veð í eigninni. Fasteignin var þann 29. desember 2009 metin á 9.000.000 kr. og lýstar kröfur Íbúðalánasjóðs voru að fjárhæð 12.366.678 kr. Að virtum greiðslum samkvæmt úthlutunargerð sýslumannsins á Akureyri að lokinni nauðungarsölu nam skuld kæranda til Íbúðalánasjóðs 3.679.081 kr. sem teljast ófullnægð veðréttindi eða „glatað veð“. Í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu, nr. 359/2010, kemur fram að kröfur Íbúðalánasjóðs teljast hafa glatað veðtryggingu í þeim tilvikum þegar sjóðurinn kaupir fasteign við nauðungarsölu og kröfur sjóðsins eru hærri en matsverð eignarinnar við uppboð, sbr. 57. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, eða þegar aðrir kaupendur kaupa fasteign við nauðungarsölu og kröfur sjóðsins sem hvíla á fasteign fást ekki að fullu greiddar af söluverði fasteignarinnar. Í ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu kemur fram að nú getur sá sem notið hefur réttinda yfir eigninni ekki fengið þeim fullnægt með öllu af söluverðinu og getur hann þá aðeins krafið gerðarþola eða annan um greiðslu þess sem eftir stendur af skuldbindingunni að því leyti sem hann sýnir fram á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu kröfunnar. Af þessu er ljóst að Íbúðalánasjóði bar að sýna fram á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu kröfunnar. Samkvæmt gögnum frá Íbúðalánasjóði var krafa sjóðsins á hendur kæranda við nauðungarsölunar 12.366.678 kr. og matsverð eignarinnar við uppboð var 9.000.000 kr. Af framangreindu virtu verður að telja að Íbúðalánasjóður hafi sýnt fram á að skilyrðum 1. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu hafi verið fullnægt og því heimilt að krefja kæranda um greiðslu skuldarinnar sem eftir stóð og glatað hafði veðtryggingu. Úrskurðarnefndin fær ekki séð að kærandi hafi átt rétt á afskrift kröfunnar á öðrum grundvelli, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði hafi verið rétt að synja beiðni kæranda um niðurfellingu skuldar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs um synjun á beiðni A, um niðurfellingu skuldar sem glataði veðtryggingu við nauðungarsölu á fasteign að B er staðfest.

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta