Hoppa yfir valmynd
17. maí 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 291/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 291/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23040002

 

Beiðni um endurupptöku og frestun framkvæmdar í máli

[…]

  1. Málsatvik

    Hinn 23. mars 2023 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. desember 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […]og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 24. mars 2023.

    Hinn 31. mars 2023 lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku og frestun á réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar nr. 168/2023 frá 23. mars 2023. Greinargerð vegna beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa barst kærunefnd 14. apríl 2023 ásamt fylgigagni en í greinargerðinni og í tölvubréfi með henni kom jafnframt fram beiðni um frestun framkvæmdar. Hinn 9. maí 2023 var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa synjað með úrskurði kærunefndar nr. 277/2023.

    Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er beiðni kæranda um frestun á framkvæmd máls hans byggð á 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Fram kemur í beiðni kæranda, dags 31. mars 2023, að hann krefjist þess að mál hans verði endurupptekið í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga. Ekki er að finna frekari rökstuðning fyrir kröfu kæranda að því leyti. Í greinargerð vegna beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa og frestun á framkvæmd úrskurðar kærunefndar krefst kærandi til vara frestunar á framkvæmd máls hans á grundvelli 6. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, þar sem aðstæður kæranda hafi breyst verulega frá því að endanleg ákvörðun var tekin. Samkvæmt þungunarvottorði, meðfylgjandi greinargerð kæranda, eigi kærandi von á barni með nafngreindri konu.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

    1. Krafa um endurupptöku

    Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á kærandi máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

    Eins og fram hefur komið kvað kærunefnd upp úrskurði í máli kæranda 23. mars 2023. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

    Líkt og áður hefur komið fram lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku á máli sínu með vísan til 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi lagði ekki fram frekari rökstuðning með beiðni um endurupptöku málsins. Í greinargerð kæranda vegna beiðni um frestun á framkvæmd úrskurðar kærunefndar kemur fram að kærandi byggi á því að aðstæður í máli hans hafi breyst þar sem kærandi eigi von á barni með nafngreindri íslenskri konu. Kærandi lagði fram þungunarvottorð, dags. 31. mars 2023, með beiðni sinni. Kærandi lagði ekki fram frekari gögn varðandi tengsl hans við umrædda konu. Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 15. nóvember 2022, kvaðst kærandi ekki hafa tengsl við Ísland.

    Kærunefnd telur umræddar upplýsingar ekki fela í sér að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp enda hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á tengsl hans við umrædda konu.

    Beiðni um endurupptöku er stjórnsýslumál sem hefst að frumkvæði kæranda og hefur honum verið veittur frestur til að koma á framfæri gögnum líkt og áður er rakið. Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 168/2023 frá 23. mars 2023, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

    Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

    1. Krafa um frestun á framkvæmd úrskurðar kærunefndar útlendingamála samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga

Beiðni kæranda um frestun á framkvæmd byggir á upplýsingum um að kærandi eigi von á barni með íslenskri konu. Kærandi lagði fram þungunarvottorð máli sínu til stuðnings. Kærandi hefur ekki lagt fram frekari gögn til stuðnings máli sínu, þ. á m. varðandi tengsl hans við umrædda konu. Kærunefnd telur fram komnar upplýsingar ekki fela í sér að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda, dags. 23. mars 2023, og því ekki ástæða til að fresta framkvæmd á úrskurði kærunefndar, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd tekur fram að þar sem kærandi er handhafi alþjóðlegrar verndar og dvalarleyfis í Grikklandi bendir er ekkert til annars en að kærandi geti nýtt rétt sinn til komu og tímabundinnar dvalar hér á landi á grundvelli 20. gr. laga um útlendinga.

Beiðni kæranda um frestun á framkvæmd úrskurðarins er því hafnað.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni kæranda um frestun framkvæmdar og endurupptöku er hafnað.

 

The appellants’ request to suspend the implementation of the decision of Immigration Appeals Board and to re-examine the case is denied.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta