Hoppa yfir valmynd
8. desember 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stuðlað að aukinni fjárfestingu fyrirtækja og sérstök ívilnun veitt vegna grænna eigna

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að leggja fram frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á lögum um tekjuskatt, í því skyni að hvetja einkaaðila til fjárfestinga. Sérstök áhersla er lögð á að hvatarnir snúi að fjárfestingum í eignum sem teljast umhverfisvænar og stuðla að grænni umbreytingu (grænum eignum).

Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar. Annars vegar breyting sem frestar skattgreiðslum fyrirtækja með hraðari fyrningu eigna og býr þar með til frekara svigrúm til fjárfestinga nú þegar þess er þörf. Hins vegar er lögð til sérstök ívilnun til að styðja við umhverfisvænar fjárfestingar og græna umbreytingu hjá fyrirtækjum, þar sem heimilt verður að reikna sérstakt 15% fyrnanlegt álag á kaupverð grænna eigna.

Flýtifyrning hvetur til aukinnar fjárfestingar

Frá því að heimsfaraldur kórónuveirunnar reið yfir hefur fjárfesting dregist verulega saman og atvinnuleysi aukist til muna. Hið opinbera hefur brugðist við slaka í fjárfestingu með auknum framlögum til opinberra framkvæmda, en skortur er á fjárfestingu af hálfu einkaaðila.

Til að mæta þessum skorti er mælt fyrir bráðabirgðaákvæði í lögum um tekjuskatt sem ætlað er að hvetja til fjárfestinga einkaaðila sem liðar í að skapa öfluga viðspyrnu gegn neikvæðum áhrifum faraldursins.

Þannig er lögð til heimild til svokallaðrar flýtifyrningar, þ.e. heimild til að fyrna eignir hraðar en gildandi lög segja til um. Aðgerðin leiðir til lægri skattgreiðslna fyrstu árin eftir kaup, en á móti kæmi hærri skattgreiðslur á síðari árum þegar búið væri að fyrna eignina að niðurlagsverði. Heimild til flýtifyrningar mun eiga við um eignir sem fjárfest er í á árinu 2021.

Sérstök ívilnun til að styðja við loftslagsmarkmið stjórnvalda

Ljóst er að baráttan við loftslagsvána hverfur ekki þrátt fyrir að heimsfaraldur gangi yfir og telja stjórnvöld því nauðsynlegt að aðgerðir þeirra styðji við stefnumótun um árangur í þeim efnum. Með áherslu á fjárfestingu í umhverfisvænum eignum er þannig stutt við þá grænu umbreytingu sem nauðsynleg er á öllum sviðum samfélagsins til að ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda.

Þannig er í frumvarpinu jafnframt lögð til heimild til að reikna sérstakt 15% álag á kaupverð grænna eigna sem hægt yrði að fyrna (gjaldfæra) á móti skattskyldum tekjum. Til þess að falla undir heimildina þurfa eignir að teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærri þróun eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Ívilnunin nær til fjárfestinga í grænum eignum á árunum 2021 og 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta