Hoppa yfir valmynd
25. september 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 241/2005 – ofgreiddar bætur

Miðvikudaginn 21. september 2005




241/2005 – ofgreiddar bætur


A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins


Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 13. júní 2005 kærir B f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta ársins 2003.


Óskað er niðurfellingar kröfu um endurgreiðslu.


Málavextir eru þeir skv. málsgögnum að með bréfi Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 4. maí 2005 var kæranda tilkynnt að fyrirhugað væri að draga kröfu vegna ofgreiddra bóta frá mánaðarlegum greiðslum til hennar frá og með 1. júní 2005. Í bréfinu sagði m.a.:


„Þann 29. nóvember sl. sendi Tryggingastofnun yfirlit yfir endurreikning á réttindum til tekjutengdra bóta á árinu 2003. Endurreikningnum var mótmælt af B fyrir þína hönd og óskað skýringa/endurskoðunar á ofgreiðslu sem þar myndaðist.


Við skoðun á málinu kom í ljós að ástæða ofgreiðslunnar er sú að samkvæmt skattframtali fyrir tekjuárið 2003 voru fjármagnstekjur þínar það ár umtalsvert hærri en gert hafði verið ráð fyrir þegar bætur voru reiknaðar og greiddar á árinu. Munar þar helst um þá dráttarvexti sem greiddir voru í kjölfar s.k. “öryrkjadóms” Hæstaréttar. Þess má geta að sérstaklega var leitað álits á því hvort þessir vextir myndu skerða bætur ársins, og var niðurstaðan sú að ekkert í lögum heimilaði að litið yrði framhjá þessum tekjum við bótaútreikning.


Með vísun til ofanritaðs stendur sá endurreikningur sem þér var sendur í nóvember sl. óbreyttur. Samkvæmt honum nemur ofgreiðsla til þín 35.076 kr., en að frádreginni staðgreiðslu er krafa Tryggingastofnunar 21.544 kr.“


Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:


„Til B hefur leitað A, vegna kröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur henni vegna ofgreiðslu að upphæð 35.076 kr., 21.544 kr. að frádreginni staðgreiðslu. Krafan er til­komin vegna endurreiknings lífeyrisgreiðslna ársins 2003.

B andmælti kröfunni fyrir hennar hönd við Tryggingastofnun ríkisins með skilagrein þann 10. desember 2004. Svör við þeim andmælum bárust með bréfi dagsettu 4. maí 2005 þar sem fram kom að krafan stæði óbreytt, að öðru leyti en því að búið var að reikna frá staðgreiðslu skatta.


A fékk greidda dráttarvexti í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 16. október 2003 í máli nr. 549/2002 vegna greiðslna á óskertri tekjutryggingu örorkulífeyrisþega á árunum 1999 til 2001, sem samkvæmt skýringum Tryggingastofnunar teljast til fjármagnstekna. Stofnunin segir í svarbréfi sínu að þeir vextir séu ástæða ofgreiðslunnar. Þetta var A ómögulegt að gefa upp sem breytingu á tekjum fyrir árið 2003 þar sem þessar fjármagnstekjur voru henni algjörlega ófyrirsjáanlegar. Þá má halda því fram að dráttarvextir séu í eðli sínu skaðabætur og því eðlilegt að sá sem skaða veldur skuli bera kostnað af því. Einnig verður að telja að Tryggingastofnun hafi átt að vera mun betur í stakk búin til þess að gera ráð fyrir þessum dráttarvöxtum en bótaþegar. Í þessu sambandi má líka vísa í 2. mgr. 50. gr. laga um almanna­tryggingar nr. 117/1993 og 10. gr. reglugerðar nr. 939 frá 10. desember 2003 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlag frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar kemur fram að draga skuli ofgreiðslu frá tekjutengdum bótum, en einungis ef ofgreiðslan stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt stofnuninni um tekjuaukninguna. Í þessum tilfell­um er það Tryggingastofnun sjálf sem greiðir vextina og verður að telja að þessi frádráttur eigi því ekki við.


Að öðru leyti vísast, eftir því sem við á, um rök í hina almennu samantekt sem send var Úrskurðarnefnd almannatrygginga af hálfu B og er dagsett 30. maí 2005.


B óskar hér með eftir því að Úrskurðarnefnd almannatrygginga skeri úr um þetta mál og felli niður endurkröfu ofgreiddra bóta þar sem A var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“


Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar með bréfi dags. 4. ágúst 2005. Greinargerðin er dags. 11. ágúst 2005. Þar segir:


„Í 10. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðslu­ársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna lífeyrisþega og eftir atvikum maka hans. Komi í ljós að bætur hafi verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem uppá vantar. Hafi tekjutengdar bætur verið ofgreiddar skal um innheimtu fara skv. 50. gr. atl.


Tilgangur þessara lagaákvæða er að tryggja að lífeyrisþegi fái þær bætur sem honum ber, lögum samkvæmt, miðað við fjárhag hans og aðrar þær aðstæður sem áhrif hafa á bótafjárhæðir.


Ástæða kröfunnar á hendur A er í aðalatriðum sú að við endurreikning bóta ársins 2003 bættust vaxtatekjur við áður áætlaðar tekjur hennar og maka hennar, en þar skiptu mestu dráttarvextir sem Tryggingastofnun greiddi á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 549/2002, s.k. öryrkjadómi.


Um það hvað teljist til tekna við útreikning bóta er fjallað í 2. mgr. 10. gr. atl. og er þar vísað til II. kafla laga um tekjuskatt og eignaskatt, nú nr. 90/2003. Ákvæðið er svohljóðandi:


“Til tekna skv. II. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna, og frádráttarliða skv. 1., 3., 5. og 6. tölul. A­liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skulu við ákvörðun tekjugrundvallar tekjur skv. C-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, metnar að 50 hundraðshlutum við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, tekjutryggingu og tekjutryggingarauka skv. 11.-13. gr. og 17. gr. þessara laga. Einnig skulu tekjur öryrkja af atvinnu metnar að 60 hundraðshlutum við ákvörðun tekjugrundvallar við útreikning tekjutryggingar skv. 17. gr.”


Í tilvitnuðum C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt og eignaskatt er mælt fyrir um skattskyldu vaxtatekna, sbr. einnig 8. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu teljast dráttarvextir sem einstaklingar utan atvinnurekstrar fá greidda til skattskyldra tekna og skiptir þá engu máli hvort um er að ræða dráttarvexti af skaðabótakröfum, launakröfum, skuldakröfum eða öðrum kröfum. Fyrir liggur bréfleg staðfesting ríkisskattstjóra á þessari niðurstöðu.


Umræddir dráttarvextir voru greiddir út síðari hluta desembermánaðar 2003, en þá höfðu allar reglulegar greiðslur ársins til lífeyrisþega verið greiddar. Tryggingastofnun var því ómögulegt að gera ráð fyrir þeim við samtímaútreikning bóta ársins. Aftur á móti gerði stofnunin sitt ítrasta til að upplýsa lífeyrisþega og hagsmunasamtök þeirra um áhrif greiðslu dráttarvaxtanna. Tryggingastofnun sendi þannig út fréttatilkynningu hinn 22. desember 2003 þess efnis, birti upplýsingar um þetta á heimasíðu sinni sama dag og gat þessa sérstaklega í bréfi sem fylgdi greiðsluseðli og sundurliðunarblaði til allra þeirra sem fengu greiðslur samkvæmt dóminum. Fjárhæð dráttarvaxtanna var sérstaklega tilgreind á greiðsluseðlum. B var sent bréf þar sem fjallað var sérstaklega um þetta mál og það útskýrt ítarlega. Þannig hefði bæði B og öllum þeim bótaþegum sem fengu greiðslur samkvæmt dóminum átt að vera kunnugt um hvaða áhrif þessar fjármagnstekjur myndu hafa við endanlegan útreikning bóta ársins 2003.


Ekki verður heldur séð að það skipti máli varðandi niðurstöðu málsins hvort A tilkynnti stofnuninni um fjármagnstekjurnar eða ekki. Tilkynningarskylda lífeyrisþega á augljóslega ekki við þegar svo háttar til sem í máli þessu. Þar sem tekjurnar féllu svo seint til sem raun ber vitni, hefði slík tilkynning hvort sem er engu breytt um fjárhæð þeirra bóta sem henni voru greiddar á árinu, sama hvort þær hefðu stafað frá Tryggingastofnun eða öðrum aðilum.


Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um endurreikning og uppgjör bóta ársins 2003 og innheimtu ofgreiddra bóta til A.“


Greinargerðin var send B til kynningar með bréfi dags. 15. ágúst 2005 og var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum. Slíkt barst ekki.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar endurkröfu Tryggingastofnunar á hendur kæranda vegna ofgreiðslu bóta ársins 2003.


Í rökstuðningi fyrir kæru kemur fram að kæranda hafi verið ómögulegt að gefa dráttarvexti sem hún fékk greidda í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 16. október 2003 í máli nr. 549/2002 upp sem fjármagnstekjur þar sem þær tekjur hafi verið henni ófyrirsjáanlegar. Því er haldið fram af hálfu kæranda að Tryggingastofnun hafi staðið nær að gera ráð fyrir dráttarvöxtunum sem tekjuaukningu en kæranda þar sem stofnunin hafi greitt bótaþegum dráttarvextina.


Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að við endurreikning bóta ársins 2003 hafi dráttarvextir vegna dóms Hæstaréttar í framangreindu máli bæst við áður áætlaðar tekjur kæranda og maka. Í greinargerðinni er vísað til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum þar sem svo er vísað til II. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt, nú nr. 90/2003, um þær tekjur sem teljist til tekna við útreikning bóta. Í 2. mgr. 10. gr. sé vísað til C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt en samkvæmt því ákvæði teljist dráttarvextir, sem einstaklingar utan atvinnurekstrar fái greidda, til skattskyldra tekna. Af hálfu Tryggingastofnunar er lagt fram afrit bréfs ríkisskattstjóra til Tryggingastofnunar ríksins, dags. 19. desember 2003, framangreindu til stuðnings. Einnig kemur fram í greinargerðinni að Tryggingastofnun hafi bæði í bréfi til bótaþega vegna greiðslu dráttarvaxta í kjölfar áðurnefnds dóms Hæstaréttar og í samskiptum við B getið um áhrif greiðslu dráttarvaxtanna á bótarétt ársins 2003.


Tryggingastofnun tilkynnti bótaþegum um það m.a. í fylgibréfi, dags. 22. desember 2003, sem sent var með greiðsluseðli þegar dráttarvextir vegna áðurnefnds dóms Hæstaréttar voru greiddir, að búast mætti við að greiðslan hefði áhrif á endanlegan bótarétt ársins 2003. Hvorugur aðili, þ.e. hvorki Tryggingastofnun né kærandi, gat gert sér grein fyrir því hver endanleg áhrif dráttarvaxtagreiðslu vegna dóms Hæstaréttar yrðu. Dómurinn var ekki kveðinn upp fyrr en 16. október 2003 og hófust þá útreikningar hjá Tryggingastofnun á rétti einstakra bótaþega til dráttarvaxtagreiðslna. Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar er vísað til II. kafla laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, nú laga nr. 90/2003, um það hvaða tekjur hafi áhrif á tekjutengdar bætur. Í 7. gr. laga nr. 90/2003 er að finna upptalningu í dæmaskyni á því hvaða tekjur eru skattskyldar. Í 3. tl. c-lið 7. gr. kemur fram að vextir falli undir skattskyldar tekjur og vísað til 8. gr. um skattskylda vexti, afföll og gengishagnað.


Ljóst er að dráttarvextir eru skattskyldar fjármagnstekjur sem skattleggja ber samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003. Óhjákvæmilegt er að telja dráttarvaxtagreiðslur með tekjum ársins 2003 við endurreikning bóta þess árs. Hins vegar fellst úrskurðarnefndin ekki á að skilyrði 2. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga séu uppfyllt svo að draga megi þennan hluta ofgreiðslunnar frá þeim tekjutengdu bótum sem kærandi fær síðar. Skilyrði þess er skv. 2. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga að ofgreiðslan stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt um tekjuaukninguna.


Af eðli máls leiðir að hvorugur málsaðila gat vitað fyrirfram hver niðurstaða Hæstaréttar yrði í máli nr. 549/2002. Var því ekki hægt að gæta að tilkynningaskyldunni. Tryggingastofnun verður því að beina endurkröfu að kæranda með almennu kröfubréfi í samræmi við 2. ml. 1. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga sem kveður á um endurkröfurétt Tryggingastofnunar skv. almennum reglum. Skorður eru settar í 2. mgr. 50. gr. laganna við því að draga endurkröfuna frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlast síðar, enda slíkt mjög íþyngjandi fyrir bótaþegann.


Með vísan til þessarar niðurstöðu verður að heimvísa málinu til Tryggingastofnunar til nýrrar meðferðar.


Ú R S K UR Ð A R O R Ð:


Ákvörðun Tryggingastofnunar um endurkröfu að fjárhæð kr. 21.544 á hendur A, vegna ofgreiddra bóta ársins 2003 er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar til nýrrar meðferðar.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



______________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta