Hoppa yfir valmynd
11. október 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2005: Dómur frá 11. október 2005

Ár 2005, þriðjudaginn 11. október, er í Félagsdómi í málinu nr. 11/2005:

Læknafélag Íslands

(Gunnar Ármannsson hdl.)

gegn

fjármálaráðherra f.h.

ríkissjóðs

(Óskar Thorarensen hrl.)

kveðinn upp svofelldur

dómur:

Mál þetta, sem dómtekið var 22. september síðastliðinn að afloknum munnlegum málflutningi, er höfðað 25. maí 2005.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Ásdís J. Rafnar og Kristján Torfason.

Stefnandi er Læknafélag Íslands, Hlíðasmára 8, Kópavogi.

Stefndi er fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, kt. 540269-6459, Arnarhváli, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda: 

Að viðurkennt verði með dómi að með dagvinnulaunum, sbr. ákvæði 4.7.2, 2. mgr. i.f., í kjarasamningi milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands frá 2. maí 2002, sé einnig átt við viðbótarþætti skv. ákvæðum 3.2.1.1 – 4 skv. sama kjarasamningi. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

 

Dómkröfur stefnda: 

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

 

I.

Á milli stefnanda og Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH) reis ágreiningur í byrjun árs 2003 um túlkun á hugtakinu dagvinnulaun í gr. 4.7.2, 2. mgr. i.f., í kjarasamningi milli málsaðila frá 2. maí 2002. Hefur stefnandi haldið því fram að þegar greiddur er út 1/3 af frítökurétti sem dagvinnulaun, eins og heimilt er skv. gr. 4.7.2, 2. mgr. i.f., feli hugtakið dagvinnulaun einnig í sér viðbótarþætti skv. ákvæðum kjarasamningsins skv. gr. 3.2.1.1 – 3.2.1.4 hjá þeim læknum sem á annað borð njóta slíkra viðbótarþátta. Fulltrúar LSH töldu sig ekki geta fallist á túlkun stefnanda nema fyrir lægi samþykki stefnda þar sem stefndi hefði gert þann kjarasamning sem hið umdeilda ákvæði væri í. Með bréfi 1. apríl 2003 svaraði stefndi fyrirspurn LSH um þetta atriði á þann veg að þegar frítökuréttur skv. gr. 4.7.2. væri greiddur skyldu viðbótarþættir gr. 3.2.1.1 – 3.2.1.4 ekki reiknaðir að auki. Rökstuðningur stefnda fyrir þessari afstöðu var sá að þessi framkvæmd væri í samræmi við inntak hvíldartímaákvæða kjarasamninga og framkvæmd hliðstæðra ákvæða annarra kjarasamninga. Í framhaldi af því óskaði stefnandi eftir því með bréfi 14. apríl 2003 að samstarfsnefnd stefnanda og LSH kæmi saman, m.a. til að taka deiluefnið formlega fyrir á þeim vettvangi og reyna að útkljá ágreininginn. Á fundi samstarfsnefndar 7. maí 2003 óskaði stefnandi eftir nánari rökstuðningi fyrir afstöðu LSH. Fulltrúar LSH í samstarfsnefnd lýstu því þá yfir að þar sem túlkun spítalans byggði á afstöðu stefnda  til málsins myndi spítalinn ekki rökstyðja þá skoðun sérstaklega. Hins vegar féllust fulltrúar LSH á að kalla eftir frekari rökstuðningi frá stefnda fyrir næsta fund í samstarfsnefnd aðila. Sá rökstuðningur barst hins vegar ekki þannig að með bréfi 4. júní 2003 óskaði stefnandi formlega eftir því við stefnda að hann rökstyddi nánar afstöðu sína. Með bréfi 5. desember 2003 ítrekaði stefnandi ósk sína um svar við bréfinu frá 4. júní 2003. Þar sem engin viðbrögð bárust við erindinu leitaði stefnandi aðstoðar umboðsmanns Alþingis til að knýja á um svar. Með bréfi, dags. 19. febrúar 2004, barst svar frá stefnda. Kom þar fram sú afstaða stefnda að hann teldi að samstarfsnefnd stefnanda og LSH ætti að leysa úr ágreiningnum, m.a. á grundvelli fyrirliggjandi gagna og þ.á m. fyrrgreinds svarbréfs stefnda frá 1. apríl 2003. Það væri síðan aðila að meta hvort þeir vildu bera ágreiningsefnið undir Félagsdóm næðu þeir ekki sameiginlegri niðurstöðu. Með bréfi til stefnda 24. febrúar 2004 ítrekaði stefnandi ósk sína um að stefndi rökstyddi betur þá afstöðu hans sem sett var fram í bréfinu frá 1. apríl 2003. Óskaði stefnandi jafnframt eftir því að fá upplýsingar og rökstuðning stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) fyrir þeirri samþykkt sinni að viðbótarþættir skv. kjarasamningi ríkisins við lækna teldust til dagvinnulauna þegar kæmi að afgreiðslu lífeyrisgreiðslna til lækna sem fengju greiddan lífeyri frá sjóðnum.

Í tilefni af kvörtun stefnanda til umboðsmanns Alþingis, vegna dráttar á svari frá ráðuneytinu, óskaði umboðsmaður eftir að stefndi svaraði nokkrum spurningum umboðsmanns vegna málsins. Með bréfi, dags. 15. apríl 2004, gaf umboðsmaður stefnanda kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna svarbréfs stefnda til umboðsmanns, dags. 13. apríl 2004. Með bréfi 21. apríl 2004 sendi stefnandi umboðsmanni athugasemdir sínar þar sem sagði efnislega að stefnanda væri nauðsynlegt að fá frekari rökstuðning frá stefnda til að unnt væri að meta hvort stefnandi féllist á röksemdir hans. Með bréfi, dags. 24. maí 2004, barst stefnanda svar við bréfinu frá 24. febrúar 2004. Í svarbréfinu er gerð ítarleg grein fyrir því hvers vegna stefnda beri ekki að rökstyðja frekar þá túlkun sem hann lét LSH í té á því ágreiningsefni sem var til umfjöllunar í samstarfsnefnd LSH og stefnanda. Með bréfi, dags. 14. júlí 2004, upplýsti umboðsmaður Alþingis stefnda um að hinn fyrrnefndi hefði lokið málinu af sinni hálfu með bréfi sama dag til stefnda. Stefnanda barst með bréfi 28. september 2004 svar frá LSR við áðurnefndri fyrirspurn sinni til sjóðsins. Segir þar m.a. að þeir lífeyrisþegar, sem hófu töku lífeyris fyrir gildistöku kjarasamnings þar sem kveðið er á um sérstakar viðbótargreiðslur/álag vegna helgunar eða stjórnunar/verkefna, fái viðbótargreiðslur/álag á lífeyri sinn hafi þeir í starfi uppfyllt þau skilyrði sem sett eru fyrir slíkum greiðslum.

 

II.

Stefnandi reisir málsóknaraðild sína á 3. málsgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. og 2. og  17. gr. laga stefnda. Um heimild til að bera sakarefnið undir Félagsdóm er vísað til 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að hugtakið dagvinnulaun í gr. 4.7.2 í kjarasamningi aðila feli í sér öll laun sem greidd eru fyrir dagvinnu án tillits til þess hvað þau séu kölluð, þ.e. laun samkvæmt viðeigandi launaflokki og viðbótarþáttum, sé um þá að ræða á annað borð, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 7. nóvember 2002 í máli nr. 240/2002.

Þá er á því byggt að með samanburðarskýringum á ákvæðum kjarasamningsins  sé ekki unnt að skýra hugtakið dagvinnulaun með öðrum hætti en stefnandi geri. Sjáist þetta m.a. í 1. mgr. gr. 4.7.2 þar sem kveðið sé á um að náist ekki fullnægjandi hvíld  skuli skilyrðislaust veita 11 klst. hvíld í beinu framhaldi af vinnunni án skerðingar á rétti til dagvinnulauna. Dagvinnulaun félagsmanna stefnanda, sem njóta viðbótarlauna, samanstandi af launum samkvæmt viðeigandi launaflokki og viðbótarþáttum. Þetta sjáist einnig þegar ákvæði gr. 8.2, um laun í námsferðum, og ákvæði gr. 3.6.1.5, um greiðslu gæsluvakta í námsfríum, eru skoðuð. Í ákvæði gr. 8.2 sé tekið sérstaklega fram að læknir í námsleyfi skuli, meðan á námsferð stendur, njóta mánaðarlauna auk viðbótarþátta, þ.e. greiðslna fyrir dagvinnu, en ákvæði gr. 3.6.1.5 fjalli hins vegar um hvernig skuli greiða læknum fyrir vinnu umfram dagvinnu meðan á námsferðum stendur.

Þá bendi stefnandi á að stjórn LSR sé sömu skoðunar og stefnandi þar sem félagsmönnum stefnanda sé gert að greiða iðgjald til B-deildar LSR af viðbótarþáttum enda teljist þær greiðslur allar til dagvinnulauna.

 

III.

Af hálfu stefnda er á það bent að umþrættur kjarasamningur sé á milli stefnda og St. Franciskusspítala annars vegar og stefnanda hins vegar. Kjarasamningurinn hafi verið undirritaður sérstaklega af hálfu fulltrúa St. Franciskusspítala. Hafi stefnanda því borið að stefna St. Franciskusspítala í málinu, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991, en að öðrum kosti myndi dómur hugsanlega binda St. Franciskusspítala án þess að spítalinn hefði átt kost á að gæta hagsmuna sinna í málinu.

Að mati stefnda gætir nokkurrar ónákvæmni í stefnu en þar sé ítrekað fjallað um hugtakið dagvinnulaun. Það hugtak komi ekki fyrir í 2. mgr. gr. 4.7.2. í kjarasamningi milli aðila máls þessa.

Ákvæði í kjarasamningum um hvíldartíma byggi á vinnutímasamningi aðila vinnumarkaðarins frá 1997 og vinnutímatilskipun Evrópusambandsins 93/104/EB um vinnutíma.  Ákvæðið í gr. 4.7.2, 2. mgr., sé í kafla um hvíldartíma annarra en lækna í sérnámi sem byggi á vinnutímasamningi aðila vinnumarkaðarins frá 1997 og framangreindri vinnutímatilskipun EB. 

Við túlkun á greininni sé ekki hægt að slíta hana úr samhengi við tilgang og tilurð frítökuréttar. Meðal þeirra markmiða, sem aðilar vinnumarkaðsins hafi viljað ná fram með samningnum frá 1997 um ákveðna þætti, er varða skipulag vinnutíma (vinnutímasamningur), hafi verið að setja lágmarkskröfur til að stuðla að umbótum í vinnuumhverfinu, tryggja aukið öryggi og heilsuvernd starfsmanna og hrinda í framkvæmd tilskipun Evrópusambandsins 93/104/EB um vinnutíma.  Skoðist samningurinn sem hluti af kjarasamningum aðila og frá þeim tíma hafi framkvæmd og útfærsla vinnutímasamningsins mótast í gegnum kjarasamninga og samvinnu.

Ein af þeim meginreglum, sem innleidd hafi verið með vinnutímasamningnum, sé að starfsmenn eigi rétt á 11 tíma hvíld á hverjum 24 tímum en reglan sé ekki fortakslaus. Heimilt sé að semja um annað og hafi það verið gert í vinnutímasamningnum sjálfum, leiðbeiningum samstarfsnefndar um vinnutíma og kjarasamningum. Í flestum kjarasamningum, sem stefndi hafi undirritað eftir 1997, hafi verið samið um sérstakan frítökurétt til handa starfsmönnun vegna skerðingar á 11 tíma hvíldinni. Frítökuréttur sé kjarasamningsatriði og megi ekki blanda honum saman við réttinn til 11 tíma hvíldar. Sé frítökurétturinn refsiákvæði fyrir atvinnurekandann, sem þurfi að greiða sérstaklega fyrir það, þegar þær aðstæður skapast á vinnustað að starfsmaður fær ekki notið daglegs hvíldartíma.

Í framangreindum kjarasamningi hafi í 2. mgr. gr. 4.7.2 verið samið um að í þeim tilvikum að sérstakar aðstæður geri það óhjákvæmilegt að víkja frá daglegum hvíldartíma gildi eftirfarandi: Séu læknar sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1½ klst. (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Er heimilað að greiða út 1/2 klst. (í dagvinnu) af frítökuréttinum óski læknir þess.

Á bak við ákvæðið liggi sú hugsun að í undantekningartilvikum sé hvíldinni frestað og vinnuveitandinn greiði fyrir það með frítökurétti. Áherslan sé á að starfsmaður safni upp fríi vegna þessarar skerðingar og hvílist síðar og sé það í samræmi við tilgang vinnutímasamningsins. Hafi það verið hluti af samkomulagi aðila að opnað hafi verið fyrir möguleikann á að greiða út hluta af frítökuréttinum en það komi ekki í veg fyrir að í framkvæmdinni sé reynt að draga úr vali á þeim möguleika. Fordæmi séu fyrir slíkri túlkun og stýringu í framkvæmd kjarasamninga og sé orlofsákvæði kjarasamninga dæmi um það. Þegar orlof sé tekið eftir að sumarorlofstímabili ljúki lengist það um ¼ en ef það er greitt út sé lengingin ekki greidd.

Heimildin til að greiða út hluta af frítökurétti sé í öllum kjarasamningum ríkisins þar sem samið hefur verið um frítökurétt.  Þegar frítökuréttur er greiddur út sé framkvæmdin sú að einungis sé greidd dagvinna án nokkurra annarra afleiddra þátta.

Framangreindur kjarasamningur frá 2. maí 2002 hafi um margt verið tímamótasamningur og sérstæður fyrir margra hluta sakir. Eitt af því sé hvernig samsetning launa er framsett og svo hvernig yfirvinnan er reiknuð. Í stuttu máli hafi verið samið um ákveðin mánaðarlaun svo og mögulega viðbótarþætti frá 0 – 25% eftir því í hvaða launaflokk starfsmaður raðast. Þá hafi verið samið um fasta krónutölu fyrir yfirvinnu og gæsluvaktir nema fyrir kandidata og lækna án sérfræðileyfis. Viðbótarþættirnir séu afleiddar greiðslur sem séu breytilegar. Reiknist yfirvinna ekki af þeim og möguleiki sé á að endurskoða þá.

 

IV.

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Enda þótt St. Franciskuspítali sé ásamt stefnda aðili að kjarasamningnum við stefnanda frá 2. maí 2002 standa ákvæði fyrri málsl. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, því ekki í vegi að málsókn sé einvörðungu beint að stefnda þar sem ágreiningsefni það, sem hér er til úrlausnar, er á milli aðila þessa máls en ekki stefnanda og St. Franciskuspítala. Samkvæmt því verður málinu ekki vísað sjálfkrafa frá Félagsdómi á þeim grunni að þörf sé samaðildar í því eftir fyrirmælum ofangreinds ákvæðis.

Fram kemur í bókun 2 með ofangreindum kjarasamningi að þar sé bryddað upp á nýbreytni um ákvörðun launa lækna sem vinna á sjúkrahúsum. Sé tilgangurinn annars vegar að efla valddreifingu í stjórnun í tengslum við endurskipulagningu á einstökum sjúkrahúsum og hins vegar að greina skýrar á milli þeirra lækna sem vinna eingöngu á stofnun og þeirra sem reka læknastofur jafnhliða starfi sínu á sjúkrahúsum. Til þess að stuðla að framgangi þessara meginmarkmiða á þann hátt að sjúkrahús nýti viðbótarþætti til að efla stjórnun spítalans og/eða að umbuna þeim læknum sem starfa eingöngu í þágu sjúkrahúss séu aðilar sammála að settir verði tilteknir fjármunir í sérstakan sjóð árin 2002 og 2003.

Í 3.2.1.1 gr. til og með 3.2.1.4 gr. í kjarasamningnum er að finna ákvæði um ofangreinda viðbótarþætti fyrir lækna í fullu starfi á sjúkrahúsi þar sem kveðið er á um heimild til hækkunar grunnlauna þeirra um allt að 25% auk ákvæðis um sérstakt álag til handa lækni með sérfræðileyfi sem lokið hefur doktorsprófi.

Í 2. mgr. 4.7.2 gr. samningsins er mælt svo fyrir að í þeim tilvikum að sérstakar aðstæður gera það óhjákvæmilegt að víkja frá daglegum hvíldartíma skuli eftirfarandi gilda: Séu læknar sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1 1/2 klst. (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Heimilt er að greiða út 1/2 klst. (í dagvinnu) af frítökuréttinum óski læknir þess.

Mál þetta snýst um hvort hugtakið dagvinnulaun í niðurlagsákvæði greinarinnar feli einnig sér viðbótarþætti samkvæmt 3.2.1.1 gr. til og með 3.2.1.4 gr. kjarasamningsins hjá þeim læknum sem njóta umræddra viðbótarþátta samkvæmt honum.

Þegar litið er til markmiðs kjarasamningsins, sbr. bókun 2 með samningnum og þess orðalags niðurlagsákvæðis 2. mgr. 4.7.2 gr. að heimilt sé að greiða út hálfa klukkstund í dagvinnu, óski læknir þess, en það orðalag vísar bersýnilega til dagvinnulauna, verður ákvæðið ekki skilið á annan veg en þann að þar sé átt við öll laun sem viðkomandi lækni eru greidd fyrir dagvinnu. Vísar ákvæðið því bæði til dagvinnulauna samkvæmt röðun læknis í launaflokk og dagvinnulauna samkvæmt viðbótarþáttum kjarasamningsins. Verður því að skilja ákvæðið svo að þar sé átt við öll dagvinnulaun samkvæmt samningnum. Er krafa stefnanda þar af leiðandi tekin til greina, enda stendur orðalag í stefnu, sem stefndi finnur að, því ekki í vegi, sbr. fyrrgreindan augljósan skilning á orðalagi hins umdeilda ákvæðis.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

 

Dómsorð:

Viðurkennt er að með dagvinnulaunum samkvæmt niðurlagsákvæði 2. mgr. 4.7.2 gr. kjarasamnings milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands frá 2. maí 2002 sé einnig átt við viðbótarþætti samkvæmt 3.2.1.1 gr. til og með 3.2.1.4 gr. samningsins.

Stefndi, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, greiði stefnanda, Læknafélagi Íslands, 200.000 krónur í málskostnað.

 

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Ásdís J. Rafnar

Kristján Torfason 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta