Mál nr. 10/2005: Úrskurður frá 21. október 2005
Ár 2005, föstudaginn 21. október, var í Félagsdómi í málinu nr. 10/2005.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
(Gísli G. Hall hdl.)
gegn
Heilsugæslunni í Reykjavík
(Óskar Norðmann hdl.)
kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Mál þetta var tekið til úrskurðar 6. október sl. að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda.
Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Hjördís Hákonardóttir, Kristjana Jónsdóttir, Kristján Torfason og Magnús Ingi Erlingsson.
Stefnandi er Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Suðurlandsbraut 22, Reykjavík.
Stefndi er Heilsugæslan í Reykjavík, kt. 521094-2069, Barónsstíg 47, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
A Viðurkenningarkrafa
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að stefndi hafi brotið gegn 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með því að veita í júní 2004 13 tilgreindum hjúkrunarfræðingum þakklætisvott að fjárgildi 13.900 kr. „fyrir þá trúmennsku og ósérhlífni sem þú sýndir í þeim erfiðleikum sem steðjuðu að Miðstöð Heimahjúkrunar í mars s.l. þegar stór hluti starfsmanna sagði upp störfum.“
B Fjárkrafa
Þá kveðst stefnandi krefjast þess að stefnda verði vegna hins umstefnda brots gert að greiða 152.900 kr.
1. aðallega sem févíti í félagssjóð stefnanda en
2. til vara sem sekt í ríkissjóð.
Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda
Stefndi gerir svofelldar dómkröfur:
Stefndi krefst þess aðallega að máli verði vísað frá dómi.
Stefndi krefst þess til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Í báðum tilvikum gerir stefndi kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað, en ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms eða verði felldur niður.
Málsatvik
Með bréfum stefnda til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, sem störfuðu hjá stefnda við heimahjúkrun, dags. 26. nóvember 2003 og 9. desember 2003, var gildandi aksturssamningi og/eða fyrirkomulagi greiðslna vegna ferða í þágu stefnda sagt upp. Var uppsagnarfrestur sagður þrír mánuðir frá 30. nóvember að telja og samkvæmt því skyldi fyrirkomulag falla úr gildi frá 29. febrúar 2004 að telja. Í niðurlagi bréfs var áréttað að uppsögn tæki einungis til aksturssamninga og/eða fyrirkomulags greiðslna til starfsmanna vegna aksturs og/eða ferða í þágu stofnunar en ráðningarsamningar væru enn að fullu gildir.
Svo fór að nokkur fjöldi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, sem störfuðu við heimahjúkrun, rituðu stefnda bréf þar sem þeir lýstu þeirri afstöðu sinni að þeir litu svo á að í fyrrgreindri ráðstöfun stefnda hafi falist uppsögn á gildandi ráðningarsamningi. Jafnframt upplýstu hlutaðeigandi starfsmenn að þeir myndu hætta störfum hjá stefnda þann 29. febrúar 2004. Stefndi mótmælti þessari afstöðu starfsmanna og vísaði m.a. til niðurlagsákvæðis áðurnefnds bréfs stefnda til starfsmanna. Svo fór að umræddir hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar við heimahjúkrun hættu störfum hjá stefnda og fóru starfslok þeirra fram í lok febrúarmánaðar 2004. Um var að ræða einstaklingsbundna ráðstöfun hvers og eins starfsmanns.
Í kjölfar bréfs stefnda til starfsmanna, dags. 26. nóvember 2003, fóru fram viðræður milli stefnda og starfsmanna um lausn málsins sem svo leiddu til aðildar stefnanda að þeim viðræðum.
Þann 7. mars 2004 var undirritað samkomulag um akstursgreiðslur o.fl. milli stefnda annars vegar og stefnanda og Sjúkraliðafélags Íslands hins vegar vegna heimahjúkrunar. Í samkomulaginu fólst að starfsmenn gátu valið á milli þriggja kosta við greiðslur fyrir akstur í þágu stefnda. Fyrrnefndir kostir voru þó háðir tímanlegum takmörkunum og miðuðu að því að fella niður áðurgildandi fyrirkomulag. Svo fór að flestir starfsmanna réðu sig aftur til starfa hjá stefnda, Heilsugæslunni í Reykjavík.
Stefndi bendir á að ófremdarástand hafi skapast í heimahjúkrun um mánaðamótin febrúar / mars 2004 en rúmlega helmingur starfsmanna hafði þá látið af störfum. Stefndi hafi leitast við að veita brýnustu þjónustu við heimahjúkrun frá því að uppsagnir starfsmanna komu til framkvæmda og allt til þess tíma er starfsmenn réðu sig aftur til starfa, þ.e. á tímabilinu frá 1. – 8. mars 2004. Til að tryggja lágmarksþjónustu hafi verið leitað til þeirra starfsmanna, sem áfram gegndu störfum við heimahjúkrun og þess óskað að þeir bættu við sig fleiri verkefnum og tækju á sig aukið álag sem af leiddi. Vinnuálag hafi verið gífurlegt, starfsmenn hafi unnið allt að tvöföldu starfi á umræddu tímabili.
Stefndi ritaði bréf til starfsmanna við heimahjúkrun, sem voru í starfi á tímabilinu frá 1. – 8. mars 2004, dags. 3. júní 2004. Með bréfi fylgdi gjafakort fyrir lúxusnudd, fótsnyrtingu, nudd og maska. Í bréfi stefnda sagði að um þakklætisvott væri að ræða fyrir þá trúmennsku og ósérhlífni sem starfsmaður hafi sýnt í þeim erfiðleikum sem steðjuðu að Miðstöð heimahjúkrunar í marsmánuði þegar stór hluti starfsmanna sagði upp störfum. Af hálfu stefnanda voru gerðar athugasemdir við þessa umbun til þessara starfsmanna og í kjölfarið spunnust umræður á heimasíðum aðila og í fjölmiðlum vegna málsins. Stefnandi tók síðan þá ákvörðun að höfða mál þetta fyrir Félagsdómi.
Lögsaga
Stefnandi vísar til þess að lögsaga Félagsdóms í máli þessu sé ekki byggð á sérlögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Stefnandi telur það vera grundvallarreglu að öllum beri réttur til þess að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Í 26. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna virðist tæmandi talið hvað hægt sé að bera undir Félagsdóm á grundvelli þeirra sérlaga. Mál sem þetta virðist ekki falla þar undir að sögn stefnanda. Samkvæmt 1. tl. 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur dæmi Félagsdómur í málum sem rísa út af kærum um brot á þeim lögum. Af þessu leiðir að mati stefnanda að Félagsdómur sé réttur dómstóll til þess að skera úr um hvort brotið hafi verið gegn 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Með hliðsjón af tilvísuðu stjórnarskrárákvæði og skýru ákvæði 1. tl. 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur kveður stefnandi ákvæði 26. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna ekki eiga að girða fyrir að Félagsdómur taki efnislega fyrir kröfu stéttarfélags sem byggð sé eingöngu á broti gegn almennu vinnulöggjöfinni, 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Af þessum sökum sé málið höfðað fyrir Félagsdómi.
Málsástæður stefnanda
A Viðurkenningarkrafa
Stefnandi kveður málsástæður sínar vera eftirfarandi.
Í kjölfar einhliða uppsagnar stefnda á aksturssamningi eða -fyrirkomulagi við starfsmenn heimahjúkrunar hafi hluti félagsmanna stefnanda tilkynnt – hver um sig – þá afstöðu sína að litið væri á uppsögnina sem uppsögn starfssambands; munu þær tilkynningar hafa verið í samræmi við þá einstaklingsbundnu ráðgjöf sem sumir þáðu hjá stefnanda um að samkvæmt óskráðum forsendureglum gætu einstakir félagsmenn stefnanda litið svo á ef akstursgreiðslur væru „verulegur hluti“ heildartekna og í sumum tilvikum ákvörðunarástæða þess að tvær bifreiðir væru á heimili félagsmannanna. Í mörgum tilvikum höfðu þeir leitað ráða hjá stéttarfélagi sínu, stefnanda, sem gaf þeim einstaklingsbundnar ráðleggingar um réttarstöðu sína að höfðu samráði við lögmann sinn um að hver og einn yrði að meta hversu mikilvægum hluta heildarkjara væri sagt upp af stefnda og ákveða afstöðu sína í kjölfarið.
Stefnandi byggir á því að hvorki gildandi kjarasamningur Fíh og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs né stofnanasamningur aðila veiti vinnuveitenda heimild til þess að umbuna hluta starfsmanna sinna með gjöfum en jafnframt sé það ekki bannað berum orðum. Lögmæti umbunarinnar velti því á þeim reglum sem gildi um samskipti opinberra vinnuveitenda og stéttarfélaga. Lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna séu sérlög og gildi í samskiptum stéttarfélaga og opinberra vinnuveitenda. Ekkert í þeim lögum kveði á um hvort vinnuveitanda sé heimilt að umbuna starfsmönnum sínum með þeim hætti sem hér um ræðir. Ekkert í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kveði á um þetta heldur, enda sé óumdeilt að 9. gr. laganna eigi ekki við í þessu efni.
Af þessu leiðir að athuga þurfi hvort hægt sé að beita ákvæðum hinna almennu laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en þeim lögum hafi verið verulega breytt með lögum nr. 75/1996. Fram að þeim tíma hafi verið ótvírætt að lögunum skyldi beitt til fyllingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í gildistökuákvæði 9. gr. laga nr. 75/1996 var tiltekið að ákvæði III. kafla laganna skyldi gilda eftir því sem við á um opinbera starfsmenn sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nái til. Ákvæði III. kafla umræddra laga fjalla um sáttastörf í vinnudeilum en í athugasemdum um gildistökuákvæðið sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 75/1996 var markmið ákvæðisins sagt að taka fram „með skýrum hætti að III. kafli laganna með efnisákvæðum gildandi laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, skuli eftir því sem við á taka til opinberra starfsmanna, sbr. lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.“ Það hafi því aðeins verið vilji löggjafans að taka fram með skýrum hætti að lagaákvæði um sáttastörf í vinnudeilu gætu átt við um þá opinberu starfsmenn sem falla undir lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Hins vegar sé ekki hægt að gagnálykta frá reglunni að óheimilt sé að beita ákvæðum í öðrum köflum laganna um opinbera starfsmenn til fyllingar þegar reglur í sérlögin skortir.
Dómur Félagsdóms í máli nr. 7/1999 frá 21. október 1999 gefi ekki heldur vísbendingu í þá veru. Í málinu krafðist launanefnd sveitarfélaga þess f.h. sveitarfélagsins Árborgar að tilteknar fjöldauppsagnir hjá félagsmönnum Félags íslenskra leikskólakennara sem störfuðu í Árborg fælu í sér ólögmæta vinnustöðvun. Bæði í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. 4. gr. laga nr. 75/1996, var að finna skilgreiningu á hvað væri verkfall. Gögn málsins bentu til þess að samkvæmt almennu lögunum hefðu aðgerðir kennaranna verið verkfall en ekki á grundvelli sérlaganna. Dómurinn sýknaði Félag íslenskra leikskólakennara með eftirfarandi orðum:
„Þrátt fyrir að gögn málsins beri með sér að um fjöldauppsagnir hafi verið að ræða hjá leikskólakennurum í Árborg verður þeim uppsögnum, án skýrra lagaákvæða, ekki jafnað til aðgerða sem jafna megi til vinnustöðvunar og brots á friðarskyldu.“
Af ofangreindu leiðir, að nái lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna engan veginn yfir atvik sem varðar samskipti opinbers vinnuveitanda og stéttarfélags, sé heimilt að beita öllum ákvæðum almennu laganna um stéttarfélög og vinnudeilur til fyllingar á fyrrnefndu lögunum. Alveg nýlegt dæmi um það sé að finna í dómi Félagsdóms í máli nr. 18/1998 frá 27. nóvember 1998, Fd XI:350 (359).
Í 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé lagt bann við því að atvinnurekendur reyni
„að hafa áhrif á […] afstöðu [„verkamanna sinna“] og afskipti af […] vinnudeilum með
a. […]
b. Fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.“
Bæði vegna fjárhagslegs virðis gjafakortsins og í ljósi þess að eingöngu þeir félagsmenn stefnanda, sem ekki litu á uppsögn stefnda á aksturgreiðslum sem uppsögn starfssambands, fengu slíka umbun, sé því skilyrði ákvæðisins fullnægt, að vinnuveitandi reyndi að hafa áhrif á afstöðu launþega. Ótvírætt sé að um vinnudeilu hafi verið að ræða sem varð félagsleg ekki síðar en í lok janúar 2004 þegar stefndi átti frumkvæði að aðkomu stefnanda og stéttarfélags annarra starfsmanna og sanni aðkoma stéttarfélaganna það. Dönsk dómaframkvæmd bendir til þess að eftirá-umbun sé jafn ólögmæt og umbun fyrir hegðun sem hvatt sé til fyrirfram. Í því sambandi er byggt á fordæmisgildi dóms Hæstaréttar Danmerkur frá 12. júní 2001, sbr. UfR 2001:1983 (1993). Er þá einnig litið til þess að ákvæðið nær ekki tilgangi sínum nema að hegðun stjórnenda eftir á í því skyni að hvetja eða letja til tiltekinnar hegðunar geti einnig fallið undir ákvæðið. ,,Þakklætisvottur“ sem fyrir liggi að sé að fjárgildi 13.900 kr., falli undir hugtakið fjárgreiðslu enda ótvírætt til þess fallinn að hafa þessi áhrif, einkum þegar fylgibréfið rökstyðji tengslin milli afstöðu starfsmanna og aðgerða stjórnenda.
Með vísan til ofangreinds telur stefnandi stefnda hafa brotið gegn 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur með því að hafa með bréfi til hluta starfsmanna sinna, dags. 3. júní 2004, gefið þeim gjafakort í heilsuræktarstöðina Baðhúsið. Þá telur stefnandi stefnda einnig hafa farið gegn 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.
Forstjóri stefnda hafi opinberlega vefengt réttmæti afstöðu stefnanda til ólögmætis hinnar umstefndu aðgerðar stefnda og virðist telja að aðkoma stefnanda – að beiðni stefnda sjálfs í lok janúar 2004 – hafi falið í sér ólögmæt afskipti og að það leiði til þess að ekki sé unnt að efast um lögmæti þess að umbuna tilgreindum félagsmönnum stefnanda en öðrum ekki. Þykir stefnanda nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um þessa hugsanlegu málsástæðu stefnda.
Þar sem engin nöfn voru nefnd í samkomulagi aðila frá 7. mars 2004 í kjölfar þess að öllum akstursgreiðslum af hálfu stefnda var sagt upp leit stefnandi og lítur á það sem félagslegan („kollektivan“) samning, þ.e. kjarasamning, og þar með viðurkenningu stefnda á því að um hafi verið að ræða félagslega („kollektiva“) vinnudeilu eftir að stefndi átti frumkvæði að því að stéttarfélög hlutaðeigandi starfsmanna, þ.m.t. stefnandi, komu að samningaviðræðum í lok janúar 2004. Stefnanda hafi verið heimilt samkvæmt 4. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna að verða við beiðni stefnda. Hafi það og verið í samræmi við forsögu málsins og afstöðu til þess bærs fulltrúa ríkisins. Félagslegt eðli kjaradeilunnar sé og í samræmi við ýmis ummæli forsvarsmanna stefnda í fjölmiðlum, sbr. í dæmaskyni þar sem forstjóri ræðir um „kröfur“, vísar til „viðræðna“, og talar um að „semja“ og þvíumlíkt. Fram að því hafi stefnanda verið heimilt að sinna þeirri einstaklingsbundnu ráðgjöf sem félagsmenn óskuðu eftir. Stefnandi hlutaðist ekki til um að gerðir yrðu einstaklingsbundnir löggerningar til þess að endurnýja ráðningarsambönd sem þannig röknuðu öll sjálfkrafa við að nýju. Þeir félagsmenn stefnanda, sem áttu í hlut, höfðu sömu afstöðu með því að þeir mættu til vinnu um leið og aðstæður stefnda buðu upp á það – einungis á grundvelli þessa félagslega gernings. Stefndi hafði sömu afstöðu enda hafi hann ekki hlutast til um gerð einstaklingsbundinna löggerninga – sem einnig megi ráða af því að allir hlutaðeigandi félagsmenn stefndu fengu laun frá næsta degi eftir að samkomulagið var gert.
B Fjárkrafa
Dómkrafa stefnanda um fjárkröfu á hendur stefnda styðjist við 65. og 70. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Þótt rætt sé í 70. gr. um sekt er renni í ríkissjóð megi ljóst vera að varnaðartilgangur refsinga næðist ekki með áfellisdómi um sekt þar eð stefndi sé ríkisstofnun.
Því gerir stefnandi aðalkröfu um að fjárkrafan verði byggð á reglum vinnumarkaðsréttar um staðlaðar skaðabætur, svonefnt févíti (d. bod), og renni sem slík í félagssjóð stefnanda, sbr. 65. gr. laganna.
Til vara er byggt eingöngu á 70. gr. laganna um sekt í ríkissjóð.
Fjárhæðin sé í báðum tilvikum fundin þannig að fjöldi þeirra félagsmanna stefnanda, sem ekki fengu þakklætisvott, 11 talsins, sé margfaldaður með sannanlegu fjárgildi þakklætisvottsins er hinir fengu, 13.900 kr. Þannig sé fundin stefnufjárhæðin 152.900 kr. Þykir stefnanda þetta hófleg nálgun og nærtæk miðað við að stefndi hefði gætt eðlilegra jafnræðissjónarmiða við framkvæmd rúmra heimilda vinnuveitenda til þess að greiða starfsmönnum sínum laun eða inna af hendi umbun umfram lágmarksákvæði kjarasamninga samkvæmt meginreglum íslensks starfsmannaréttar.
Krafa stefnanda um málskostnað styðst við 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 (eml.) að því er fjárhæð varðar, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Að því er varðar skyldu stefnda til greiðslu málskostnaðar styðst krafa stefnanda aðallega við það að stefndi tapi máli í öllu verulegu, sbr. 1. mgr. 130. gr. eml. en til vara við 3. mgr. 130. gr. eml. en stefndi hafi sem opinber vinnuveitandi yfirburðarstöðu gagnvart einstökum launamönnum og stéttarfélögum þeirra. Ekki sé að mati stefnanda á þennan stöðumun bætandi með hinu umstefnda atferli – jafnvel þótt ekki yrði fallist á dómkröfur stefnanda. Málsókn fyrir Félagsdómi sér eina úrræðið að mati stefnanda til þess að jafna þennan mun.
Aðild og fyrirsvar
Aðild stefnanda kveður hann byggja á 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Aðild stefnda byggist að sögn stefnanda á því að stefndi Heilsugæslan í Reykjavík sé sjálfstæð ríkisstofnun samkvæmt 13. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, sbr. 49. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Stefnandi telur aðild fjármálaráðherra f.h. ríkisins því ekki nauðsynlega, enda sé hann ekki í fyrirsvari fyrir þá ákvörðun sem umstefnd sé.
Fyrirsvar forstjóra stefnda byggist á 6. tl. 21. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu og 38. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Málsástæður stefnda vegna frávísunarkröfu
Stefndi byggir kröfu um frávísun máls á því að úrlausn ágreinings falli utan dómsvalds Félagsdóms. Félagsdómur sé sérdómstóll og dómsvald hans beri að túlka þröngt. Stefndi byggi á því að tilvist stefnanda sem stéttarfélags grundvallist á ákvæðum laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Hafi stefnandi öðlast samningsrétt við íslenska ríkið á grundvelli 4. og 5. gr. þeirra laga. Ákvæði laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, séu sérlög og gildi ákvæði þeirra um samningsrétt, samskipti og önnur lögskipti stéttarfélaga og viðsemjenda þeirra. Ákvæði laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, taki ekki til lögskipta aðila þessa máls með þeirri undantekningu einni sem lögin sjálf tilgreina, þ.e. ákvæði III. kafla þeirra, sbr. lög nr. 75/1996. Grundvöllur máls stefnanda, ákvæði 4. gr. laga nr. 80/1938, eigi því ekki við um lögskipti stefnda og stefnanda eða félagsmanna stefnanda. Um dómsvald Félagsdóms í lögskiptum aðila fari samkvæmt ákvæði 26. gr. laga nr. 94/1986 og þykir stefnda sýnt að ágreiningur sá, sem um ræðir í stefnu, falli með ótvíræðum hætti utan dómsvalds hans. Af framangreindu leiði ennfremur að sakarefni eigi ekki undir dómstól, sbr. ákvæði IV. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum ákvæði 24. gr., og því beri að vísa máli frá dómi.
Stefndi byggir ennfremur á því að jafnvel þó svo talið yrði að ákvæði laga nr. 80/1938 gætu átt við um félagsmenn stefnanda sem starfa hjá stefnda, verði að líta svo á að stefnanda sé ekki heimilt að bera ágreining undir Félagsdóm í ljósi þeirrar takmörkunar sem felist í ákvæði 26. gr. laga nr. 94/1986, enda grundvallist tilvist og samningsréttur stefnanda á þeim lögum. Um heimildir stefnanda til að bera mál undir Félagsdóm hljóti að gilda einvörðungu ákvæði 26. gr. laga nr. 94/1986 en með því sé átt við að í umræddu ákvæði felist takmörkun á heimildum stefnanda á að bera mál undir Félagsdóm. Ágreiningur sá, sem mál þetta fjalli um, falli ekki undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt ákvæði 26. gr. laga nr. 94/1986. Því beri að vísa máli frá dómi.
Þá bendir stefndi á að Félagsdómur dæmi samkvæmt orðanna hljóðan, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, einungis í málum sem rísi á milli samningsaðila og sé samningsaðili í skilningi laga nr. 94/1986. Óumdeilt sé í máli þessu að stefndi, Heilsugæslan í Reykjavík, hafi hvorki fyrr né síðar gert kjarasamninga við stefnanda, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Fjármálaráðherra fari með fyrirsvar við gerð kjarasamninga við stofnanir íslenska ríkisins. Ágreiningur sé því þess eðlis að vísa beri máli frá dómi. Framangreindu til viðbótar bendir stefndi á að hann sé stofnun íslenska ríkisins sem starfi samkvæmt lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, og heyri undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Stefndi sé hvorki svo sjálfstæður sem stofnun í skilningi laga né hafi hann sérstaka stjórn og geti samkvæmt því ekki sjálfur, einn og sér, átt aðild að dómsmálum. Þykir sýnt að aðild máls brjóti gegn ákvæði laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum ákvæði III. kafla laganna.
Stefndi byggir kröfu um frávísun jafnframt á því að málsgrundvöllur stefnanda sé óljós og vanreifaður. Þannig geri stefnandi enga grein fyrir því á hvern hátt hann telji skilyrði 4. gr. uppfyllt eða hvernig háttsemi verði heimfærð undir skilyrði ákvæðis 4. gr. laga nr. 80/1938. Með því sé einkum átt við hvort og þá hvernig stefndi hafi reynt að hafa áhrif á afstöðu hlutaðeigandi starfsmanna í skilningi þess ákvæðis. Stefnandi gerir í reynd enga tilraun til að upplýsa í hverju meint brot stefnda hafi verið fólgin eða hver hafi verið markmið þeirra í skilningi tilvitnaðs lagaákvæðis. Eins og mál þetta sé lagt fram af hálfu stefnanda virðist sem afstaða hans og kröfur grundvallist á sjónarmiðum um meinta mismunun stefnda gagnvart starfsmönnum og að í þeirri mismunun felist brot á jafnræðissjónarmiðum. Teljist málsgrundvöllur því bæði óljós auk þess sem það falli utan dómsvalds Félagsdóms að fjalla um kröfur sem byggjast á slíkum málsástæðum. Málatilbúnaður stefnanda teljist samkvæmt framangreindu brjóta gegn ákvæði XIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum ákvæði 80. gr. þeirra laga.
Þá byggir stefndi ennfremur á því að ágreiningur sá, sem nú liggur fyrir, uppfylli á engan hátt skilyrði ákvæðis 1. tölul. 44. gr. laga nr. 80/1938, sem stefndi reisir kröfur máls á. Stefndi telur að skilyrðum ákvæðis um kæru um brot á hlutaðeigandi lögum í skilningi ákvæðis 4. gr. þeirra sé ekki uppfyllt og leiði það ennfremur til þess að vísa beri máli frá dómi. Þá leiði ennfremur af ákvæði 45. gr. laga nr. 80/1938 að aðild þessa máls sé röng og beri að vísa máli frá dómi af þeirri ástæðu líka.
Framangreindar málsástæður taki til allra krafna stefnanda þessa máls. Stefndi byggir ennfremur á því að ákvæði laga nr. 94/1986 veiti ekki heimild til að dæma févíti eða sektir. Verði slíkum kröfum hvorki fundinn staður í 13. gr. þeirra laga eða öðrum ákvæðum né verði fallist á að slíkar kröfur falli undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 26. gr. laganna. Þá séu sektar- og févítiskröfur engum gögnum og rökum studdar og jafnframt hafi ekki verið leitast við að sýna fram á í hverju saknæmi háttsemi hafi falist. Að auki áréttar stefndi í því sambandi að það falli utan dómsvalds Félagsdóms að fjalla um ráðstöfun févítis eins og stefnandi geri kröfur um. Að öllu framangreindu virtu beri að vísa máli frá dómi.
Um frávísunarkröfu vísar stefndi til ákvæða laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. einkum ákvæði 4., 5. og 26. gr. þeirra, ákvæði III., IV. og XIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum, sbr. einkum ákvæði 44. og 45. gr. Um málskostnað vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Óumdeilt er að stefnandi er stéttarfélag, sem getur verið samningsaðili samkvæmt lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laganna er stefnanda heimilt að reka mál sín og félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 dæmir Félagsdómur í málum sem rísa á milli samningsaðila um þau atriði sem tilgreind eru í ákvæðinu. Samkvæmt 3. gr. laganna fer fjármálaráðherra með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga samkvæmt lögunum.
Stefndi, Heilsugæslan í Reykjavík, sem starfar á grunvelli laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, er ekki sjálfstæður samningsaðili samkvæmt lögum nr. 94/1986 og getur því ekki verið málsaðili fyrir Félagsdómi á grundvelli 26. gr. þeirra laga.
Stefnandi byggir ekki á því að mál þetta heyri undir Félagsdóm á grundvelli laga nr. 94/1986 en vísar um lögsögu dómsins til 1. töluliðar 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt því ákvæði er það m.a. verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á þeim lögum. Valdsvið Félagsdóms samkvæmt lögum nr. 80/1938 tekur til þeirra mála sem sambönd verkalýðsfélaga og atvinnurekendafélaga á hinum almenna vinnumarkaði reka fyrir hönd meðlima sinna fyrir dóminum, sbr. 1. mgr. 45. gr. þeirra laga og sem heyra undir dómstólinn í samræmi við ákvæði 44. gr. laganna. Hvorugur málsaðila getur verið aðili að dómsmáli fyrir Félagsdómi á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og verður því ekki á því byggt að sakarefnið heyri undir dóminn með vísan til þeirra laga. Með því er þó ekki fyrir það girt að stefnandi geti leitað úrlausnar um álitaefnið fyrir almennum dómstólum, sbr. tilvísun stefnanda til ákvæða 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 ber að vísa máli þessu frá Félagsdómi.
Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda 150.000 krónur í málskostnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.
Stefnandi, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, greiði stefnda, Heilsugæslunni í Reykjavík, 150.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Hjördís Hákonardóttir
Kristjana Jónsdóttir
Kristján Torfason
Magnús Ingi Erlingsson