Föstudagspósturinn 23. júlí 2021
Heil og sæl.
Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum á degi hertra samkomutakmarkana innanlands og förum að þessu sinni yfir það helsta sem hefur átt sér stað í utanríkisþjónustunni síðastliðnar tvær vikur.
Þann 12. júlí undirritaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fyrir Íslands hönd samkomulag við bresk stjórnvöld um samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda. Viðræður um framtíðarsamband Bretlands og Íslands hafa verið afar umfangsmiklar, en Guðlaugur Þór hefur lýst því yfir að rannsóknir og menntamál hafi fyrir utan eiginlegar fríverslunarviðræður verið á meðal þess sem íslensk stjórnvöld settu á oddinn. Með samkomulaginu er greiður aðgangur íslenskra náms- og fræðimanna að breskum menntastofnunum áfram tryggður en einnig hefur samningurinn opnað fyrir aukna möguleika á styrkjum til náms í Bretlandi fyrir íslenska námsmenn. Enn fremur er í samkomulaginu fjallað um aukið samstarf á sviði geimvísinda í tengslum við geimáætlun breskra stjórnvalda.
Einnig áttu utanríkisráðherrar Íslands og Bretlands, Guðlaugur Þór og Dominic Raab, góðan fund í Lundúnum þar sem vaxandi tvíhliða samskipti ríkjanna og sameiginlegir hagsmunir voru á meðal umræðuefna, ásamt alþjóðamálum og mannréttindum. Guðlaugur Þór stendur ekki í vafa um að nýgerðir samningar verði til að styrkja það nána samband sem Ísland á við Bretland og voru þeir ráðherrar sammála um að undirritun þeirra marki upphafsreit í samskiptum ríkjanna.
Í Genf var þann 15. júlí haldinn fjarfundur ráðherra WTO um afnám skaðlegra ríkisstyrkja í sjávarútvegi en Anna Jóhannsdóttir, starfandi ráðuneytisstjóri, tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd. Markmið fundarins var að veita umboð til að ljúka viðræðum um samning um afnám þeirra styrkja og sagði framkvæmdarstjóri WTO, Ngozi Okonjo-Iweala, niðurstöðu fundarins afar jákvæða.
Á mánudag síðastliðinn var Guðlaugur Þór staddur í Brussel til funda með æðstu framkvæmdastjórum Evrópusambandsins. Átti Guðlaugur Þór fundi með Josep Borrell utanríkismálastjóra ESB, Valdis Dombrovskis viðskiptamálastjóra ESB, Virginijus Sinkevičius framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála ESB og Janusz Wojciechowski framkvæmdastjóra landbúnaðarmála ESB. Betri markaðsaðgangur fyrir fisk og sjávarafurði og betra jafnvægi í viðskiptum með landbúnaðarvörur var í forgrunni og segist Guðlaugur Þór vera ánægður með að ESB sé tilbúið að hefja viðræður um þessi mál. Á fundi sínum við utanríkismálastjóra ESB ræddi utanríkisráðherra enn fremur stöðu alþjóðamála sem og öryggis- og varnamála, en hann greindi sérstaklega frá þeim árangri sem náðist á formennskutímabili Íslands í Norðurskautsráðinu.
Glad to meet @JosepBorrellF to discuss #Arctic #InternationalAffairs and dynamic 🇮🇸🇪🇺 cooperation, based on the #EEAAgreement and common values. pic.twitter.com/qJcrnt4pjY
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) July 19, 2021
Í dag var tilkynnt að ekki hafi náðst samkomulag um starfsemi Uppbyggingarsjóðs EES í Ungverjalandi. Snýr málið að skipun sjóðsrekanda til að halda utan um fjármögnun til frjálsra félagasamtaka, en reglur sjóðsins kveða á um að hann skuli vera óháður stjórnvöldum. Guðlaugur Þór segir miður að samningar hafi ekki náðst en það sé einhugur framlagaríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein að standa vörð um frelsi félagasamtaka sem grunnþætti lýðræðis, tjáningarfrelsi og félagafrelsi.
Guðlaugur Þór Þórðarson sendi Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands og Sophie Wilmes, utanríkisráðherra Belgíu, samúðarkveðjur vegna mannskæðra flóða í ríkjunum tveimur. Í bréfunum segir Guðlaugur Þór hug sinn vera hjá fjölskyldum fórnarlambanna og öllum þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum vegna flóðanna.
Sad to hear of the tragic floods in Europe. My thoughts are with the families of the victims and all those affected. @HeikoMaas @Sophie_Wilmes @ministerBZ @MFA_Lu
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) July 15, 2021
Þá minntist utanríkisráðherra þess í gær að tíu ár voru liðin frá hryðjuverkaárásunum í Osló og Útey. Vottaði Guðlaugur Þór fórnarlömbum og eftirlifendum árásanna og fjölskyldum þeirra samúð sína og lagði áherslu á mikilvægi þess að standa saman gegn hatri, kynþáttafordómum og öfgahyggju.
10 years have passed since the terrorist attacks in Oslo and Utøya and today my thoughts are with the 77 victims, survivors, and their families. Today I am also reminded that we must continue to defend our values and stand together against hate, racism and extremism. #22juli
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) July 22, 2021
Í síðustu viku var tilkynnt um flutning forstöðumanna sendiskrifstofa í utanríkisþjónustunni sem formlega taka gildi þann 1. ágúst næstkomandi. Þá frásögn má finna hér.
Í Heimsljósi hefur á síðustu tveimur vikum verið greint frá úthlutun styrkja vegna fjölbreyttra þróunarsamvinnu- og hjálparstarfsverkefna.
Í síðustu viku greindum við frá ákvörðun utanríkisráðherra að verja 25 milljónum króna til að bregðast við neyðarástandi á Sahel-svæðinu í Afríku, en neyðarástand ríkir í þremur ríkjum Mið-Sahel: Búrkína Fasó, Malí og Níger.
Úthlutun styrkja til íslenskra félagasamtaka vegna þróunarsamvinnuverkefna víðsvegar í Afríku var einnig tilkynnt í Heimsljósi. Utanríkisráðuneytið veitir árlega styrki til slíkra verkefna en íslensk félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki sem samstarfsaðilar í þróunarsamvinnu.
Auk þess var undirritaður úthlutunarsamningur um styrk milli utanríkisráðuneytisins og fyrirtækisins Pólar toghlerar á þriðjudag síðastliðinn. Styrkurinn er veittur úr Samstarfssjóði við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna vegna verkefnisins „Hringrásarhagkerfi um söfnun og endurvinnslu á plastúrgangi í Dakar, Senegal.“
Þá að starfsemi sendiskrifstofa og fastanefnda okkar víðsvegar um heim.
Ólympíuleikarnir fara nú fram í annað sinn í Tókýó og voru formlega settir í dag. Fyrr í vikunni bauð sendiherra Íslands í Japan, Stefán Haukur Jóhannesson, keppendur Íslands á leikunum velkomna til landsins á fjarfundi. Með á fundinum var borgarstjóri Tama City þar sem íslensku keppendurnir dvelja á meðan á leikunum stendur.
A pleasure to welcome the #Icelandic #Olympians with Mayor Abe of Tama City @nyantomo_tama the official host town for the Icelandic team. アイスランドのホストタウンである多摩市の阿部市長と共にアイスランドオリンピック選手団を温かく歓迎🇮🇸🤝🇯🇵 pic.twitter.com/asTbZX7k87
— Stefan H Johannesson (@stefanhaukurj) July 21, 2021
Fyrir nokkrum vikum hafði eldri maður að nafni Mizoguchi-san samband við sendiráð Íslands í Tókýó í gegnum son sinn. Hann hafði starfað við Ólympíuleikana í Tókýó 1964 og hafði í fórum sínum íslenska þjóðfánann sem notaður var á Ólympíuleikunum þá. Nú vildi hann í tilefni Ólympuleikanna 57 árum síðar, færa sendiráðinu fánann að gjöf.
Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra, tók á móti Mizoguchi-san í sendiráði Íslands og auðvitað var fáninn dreginn að húni.
Mizoguchi-san a Japenese sword master in his nineties kept the #Icelandic flag 🇮🇸 from #Tokyo1964 Olympics & presented to the Embassy 57 yrs later- now flying full mast - he worked at the the Olympics & acquired the flag at the end of the games.#Tokyo2020 pic.twitter.com/LoB0RentTv
— Stefan H Johannesson (@stefanhaukurj) July 22, 2021
RÚV greindi einnig frá og ræddi við Stefán Hauk. Umfjöllunina má finna hér. Einnig var greint frá þessari skemmtilegu sögu á Instagram-reikningi utanríkisþjónustunnar.
Þá vakti sendiráð Íslands í Washington athygli á því að Empire State byggingin hafi verið lýst upp í fánalitum keppnisþjóða, þar á meðal Íslands.
Let the (Olympic) games begin!👏Over here, in New York City tonight, the Empire State Building will be lighting its tower lights in honor of the Opening Ceremony today in Tokyo, shining the lights in the colors of participant states, including our very own. 🇮🇸👏 #Tokyo2020 https://t.co/AGDz7PRWMb pic.twitter.com/4k9AvfHNmG
— Iceland in US 🇮🇸 (@IcelandInUS) July 23, 2021
Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York sótti ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin í síðustu viku. Í anda markmiðanna um sjálfbæra þróun var hjólað í vinnuna eins og sést á meðfylgjandi mynd.
This #bikehelmet brought to the opening of the #Ministerial segment of #HLPF2021 is a humble symbol of Iceland’s🇮🇸 commitment to #Agenda2030 and its #SDGs. Read our statement this year: https://t.co/l6710zBohY pic.twitter.com/QgregjdFHD
— Iceland at UN 🇮🇸 (@IcelandUN) July 13, 2021
Í Lundúnum í síðustu viku heimsótti Sturla Sigurjónsson breska þingið og fundaði með Sir Lindsey Hoyle, forseta neðri málstofnunnar eða House of Commons.
Við ljúkum þessari yfirferð á að segja frá loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins sem stendur yfir á Íslandi þessa dagana, en Bandarísk flugsveit sinnir verkefninu að þessu sinni með fjórum F-15 þotum. Að jafnaði koma erlendar flugsveitir frá aðildarríkjum NATO til Íslands til loftrýmisgæslu þrisvar á ári, nokkrar vikur í senn.
Upplýsingadeild kveður að sinni og óskar ykkur góðrar helgar.