Hoppa yfir valmynd
11. desember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 583/2019 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 11. desember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 583/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19100039

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. október 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. september 2019, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 25. október 2018 var ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. júlí s.á., um að synja henni um alþjóðlega vernd hér á landi, staðfest. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 13. febrúar 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. september 2019, var umsókn kæranda synjað. Þann 10. október sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Með tölvupósti, dags. 16. október 2019, var kæranda veittur tveggja vikna frestur til þess að leggja fram greinargerð vegna kærumálsins. Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að við vinnslu umsóknarinnar hafi komið í ljós að fylgigögn með umsókn hafi verið ófullnægjandi. Hafi stofnunin sent kæranda bréf, dags. 29. ágúst 2019, þar sem m.a. hafi verið óskað eftir greinargerð um samband kæranda og maka hennar. Hafi kærandi sent stofnuninni tölvupóst þann 9. september 2019. Meðfylgjandi var ódagsett bréf þar sem m.a. hafi komið fram að kærandi og maki hennar hafi gengið í hjúskap í Kólumbíu en að eiginmaður hennar hafi ekki verið viðstaddur athöfnina af efnahagslegum ástæðum og því hafi þau notast við umboð.

Vísaði Útlendingastofnun því næst til ákvæðis 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga auk lögskýringargagna með ákvæðinu. Samkvæmt gögnum málsins væri ljóst að maki kæranda hefði ekki verið sjálfur viðstaddur hjónavígslu sína og kæranda. Skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar skv. 70. gr. laga um útlendinga væri að stofnun hjúskaparins bryti ekki í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga. Þá væri það grundvallarregla í íslenskum rétti að hjónaefni séu bæði viðstödd hjónavígslu en sú meginregla endurspeglist m.a. í 2. mgr. 24. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Í ljósi framangreinds væri það mat stofnunarinnar að hjúskapur kæranda og maka hennar væri ekki gildur samkvæmt íslenskum lögum og því gæti hjónabandið ekki orðið grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis skv. 69. og 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Í 8. mgr. 70. gr. laganna kemur þó fram sú regla að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé þá veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Það sama gildi ef rökstuddur grunur sé um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna eða ef stofnun hjúskapar brjóti í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga.

Í athugasemdum við ákvæði 70. gr. laga um útlendinga er m.a. kveðið á um að: „Með ákvæðinu er einnig tekinn af allur vafi um að brjóti stofnun hjúskapar í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga sé ekki um gildan gerning að ræða og hann veiti þar af leiðandi ekki rétt til dvalarleyfis. Þetta á t.d. við um hjónavígslu ef hjónin eða annað þeirra voru börn eða þegar annað eða hvorugt hjóna var viðstatt athöfnina (svokallaðar fulltrúagiftingar). Sama gildir um hjónavígslu ef vígslumaður hafði ekki réttindi til athafnarinnar (vígsluheimild) í því landi þar sem vígslan fór fram og þegar stofnað er til fjölkvænis eða fjölveris. Með broti á allsherjarreglu eða meginreglum laga (ordre public), í alþjóðlegum einkaréttarlegum skilningi, er átt við gerning sem stofnað er til í einu landi en talinn er stríða svo gegn réttarreglum annars lands þar sem beita á honum að rétt þykir að virða hann að vettugi.“

Samkvæmt gögnum málsins gengu kærandi og maki hennar í hjúskap í Kólumbíu í nóvember 2018 þar sem kærandi er búsett. Samkvæmt gögnum máls var maki kæranda ekki viðstaddur hjónavígslu sína og greinir kærandi frá því í greinargerð um samband þeirra til Útlendingastofnunar að ritað hafi verið undir hjúskaparvottorðið í umboði hans.

Svo tilvik verði talið falla undir síðari málslið 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga þarf, samkvæmt orðalagi ákvæðisins, að koma til brot gegn allsherjarreglu og meginreglum íslenskra laga. Inntak hugtaksins allsherjarregla er hvorki skilgreint í 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga né í öðrum ákvæðum þeirra laga. Í ljósi athugasemda við ákvæðið í lögskýringargögnum telur kærunefnd að svo ákvæðið eigi við þurfi stofnun hjúskapar ekki eingöngu að vera andstæð meginreglum íslenskra laga heldur jafnframt að stríða svo gegn réttarreglum landsins að rétt þyki að virða hann að vettugi.

Það er meginregla í íslenskum hjúskaparrétti að hjónaefni skuli bæði vera viðstödd vígsluathöfn. Kveðið er á um regluna í 2. mgr. 24. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 en þar segir að bæði hjónaefni skuli vera viðstödd vígsluathöfn. Fyrir gildistöku hjúskaparlaga var samhljóða ákvæði í 21. gr. laga um stofnun og slit hjúskapar nr. 60/1972. Engar undanþágur eru frá þessari reglu í hjúskaparlögum.

Þá bendir kærunefnd á að íslenska ríkið gerði fyrirvara við ákvæði 2. mgr. 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1962 um samþykki og lágmarksaldur til hjúskapar o.fl., sbr. auglýsing 18/1977 í C-deild Stjórnartíðinda. Í því ákvæði er m.a. kveðið á um að ekki sé nauðsynlegt að bæði hjónaefni séu viðstödd vígsluathöfn ef þau hafi fyrir þar til bæru stjórnvaldi samþykkt hjúskaparstofnunina. Fyrirvari íslenska ríkisins var á þann veg að aðild að samningnum væri háð því að 2. mgr. 1. gr. tæki ekki til Íslands. Að mati kærunefndar bendir þessi fyrirvari til þess að umrædd regla hafi verið talin svo andstæð réttarreglum landsins að ekki væri unnt að innleiða hana hér á landi.

Að mati kærunefndar bendir forsaga ákvæða hjúskaparlaga og aðild Íslands að samningi Sameinuðu þjóðanna um samþykki og lágmarksaldur til hjúskapar o.fl. eindregið til þess að hjónavígslur, þar sem annað hjónaefna er ekki viðstatt vígsluathöfnina, stríði gegn réttarreglum landsins. Þá telur kærunefnd ljóst að sú vígsluathöfn sem fram fór í Kólumbíu, þar sem maki kæranda var fjarverandi, teljist til svonefndra fulltrúargiftinga, en í ofangreindum athugasemdum við ákvæði 70. gr. laga um útlendinga er vísað til slíkra giftinga í dæmaskyni um gerning sem ekki veiti rétt til dvalarleyfis.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að hjónavígsluathöfn kæranda hafi farið í bága við meginreglu íslensks hjúskaparréttar og allsherjarreglu og geti því ekki veitt kæranda rétt til dvalarleyfis á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                              Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta