Hoppa yfir valmynd
29. september 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 407/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 407/2022

Fimmtudaginn 29. september 2022

A

gegn

Sveitarfélaginu Skagafirði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 5. ágúst 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 18. maí 2022 um að synja umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 30. janúar 2022, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Umsókn kæranda var synjað af afgreiðslunefnd félagslegs leiguhúsnæðis þann 12. apríl 2022 með þeim rökum að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. gr. reglna sveitarfélagsins um húsnæðismál þar sem kærandi ætti fasteign. Félags- og tómstundanefnd staðfesti þá ákvörðun á fundi 18. maí 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. ágúst 2022. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð sveitarfélagsins vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 6. september 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. september 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa sótt um félagslegt leiguhúsnæði í Skagafirði þar sem hún dvelji en hafi fengið synjun.

 

III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Sveitarfélagið Skagafjörður krefst þess aðallega að kæru kæranda verði vísað frá en til vara að kröfu kæranda verði hafnað. Sveitarfélagið byggi frávísunarkröfu sína á því að erfitt sé að átta sig á kröfugerð kæranda. Hægt sé að skilja kæruna sjálfa á þann veg að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Sé kröfugerð kæranda túlkuð á þann veg sé krafan að öllu leyti vanreifuð og ekki byggð á neinum málsástæðum. Þessi í stað sé einungis vísað í ákvarðanir sveitarfélagsins. Af þessum sökum sé erfitt fyrir sveitarfélagið að bregðast við kæru kæranda og taka til varna. Því litist greinargerð sveitarfélagsins af því.

Tekið er fram að umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði hafi borist sveitarfélaginu þann 31. janúar 2022. Í umsókninni hafi komið fram að kærandi væri með lögheimili í Reykjavík, hún ynni hlutastarf á B en væri ekki með fast aðsetur í sveitarfélaginu. Þá hafi einnig komið fram að kærandi væri ekki með nein börn undir 18 ára aldri á framfæri. Umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði hafi verið synjað, aðallega á grundvelli þess að hún ætti fasteign sem ekki stæði til að selja og að félagslegur vandi hennar væri ekki nægilegur.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli sveitarfélög, eftir því sem kostur sé og þörf sé á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Þá eigi sveitarfélög einnig að setja sér nánari reglur um sérstakan húsnæðisstuðning, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991. Á grundvelli framangreindra ákvæða hafi sveitarstjórn sveitarfélagsins samþykkt þann 16. desember reglur um húsnæðismál í Sveitarfélaginu Skagafirði. Samkvæmt þeim reglum sé grunnskilyrði fyrir þá sem óski eftir félagslegu húsnæði að þeir séu ekki þess megnugir að sjá sér fyrir húsnæði á almennum markaði, sbr. 1. gr. reglnanna. Í 5. gr. reglnanna komi ítarlegri útlistun á því við hvað sé stuðst þegar aðili sé metinn. Hann þurfi að vera orðinn 20 ára, eiga við félagslega erfiðleika að stríða, til dæmis vegna skertrar vinnugetu, heilsubrests, atvinnumissis, fjölskylduaðstæðna, barnafjölda eða annarra sérstakra aðstæðna, uppfylla skilyrði um tekju- og eignamörk samkvæmt gildandi matsblaði og hafa átt lögheimili í sveitarfélaginu síðastliðna 24 mánuði. Á grundvelli framangreinds séu einstaklingar og fjölskyldur metnar og forgangsraðað eftir því hve þörfin sé mikil.

Samkvæmt opinberum gögnum sé kærandi með lögheimili að C, Reykjavík og eigi 50% hlut í íbúð 302 í þeirri fasteign, fnr. X. Fasteignamat þeirrar eignar sé nú 51.400.000 kr. en á næsta ári muni það hækka í 60.500.000 kr. Kærandi sé ekki með börn á framfæri og sé í hlutastarfi. Á grundvelli þessara atriða, auk framannefndu, hafi heildarstigafjöldi kæranda verið metinn 12 stig. Kærandi hafi ekki áfrýjað niðurstöðu matsins líkt og henni hafi verið heimilt, teldi hún á sig hallað, sbr. niðurlag 6. gr. reglnanna.

Á grundvelli framangreinds hafi sveitarfélagið synjað umsókn kæranda um félagslegt húsnæði með vísan í reglur sveitarfélagsins. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum og gögnum telji sveitarfélagið ekki neinar forsendur til að hnekkja þeirri ákvörðun að synja umsókn kæranda um félagslegt húsnæði.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Sveitarfélagsins Skagafjarðar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 1. gr. reglna sveitarfélagsins um húsnæðismál væri ekki uppfyllt.

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur farið fram á að máli kæranda verði vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála á þeirri forsendu að erfitt sé að átta sig á kröfugerð kæranda. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í athugasemdum með greinargerð í frumvarpi til laganna segir um efni kæru að almennt sé gengið út frá því að nægjanlegt sé að aðili tjái æðra stjórnvaldi að hann sé óánægður með ákvörðun. Þá kemur fram að kæra, sem borin er fram á formlega réttan hátt, hafi í för með sér skyldu fyrir æðra stjórnvald til þess að endurskoða hina kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefndin tekur fram að hvorki í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga né lögum nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er að finna ákvæði er kveða á um sérstakt efni kæru. Að því virtu og með vísan til framangreinds verður ekki fallist á kröfu sveitarfélagsins um frávísun málsins. 

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í reglum Sveitarfélagsins Skagafjarðar um húsnæðismál er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 1. mgr. 1. gr. reglnanna segir að stefnt skuli að því að tryggja framboð af félagslegu leiguhúsnæði fyrir þær fjölskyldur og einstaklinga sem af félagslegum ástæðum séu ekki þess megnugir að sjá sér fyrir húsnæði á almennum markaði. Í 5. gr. reglnanna kemur fram að til að uppfylla ákvæði 1. gr. og til að vera metinn í þörf fyrir félagslega leigu, sbr. 4. gr., þurfi að liggja fyrir mat á því að umsækjandi hafi ekki getu til að kaupa eða leigja á almennum markaði. Hann þurfi að vera orðinn 20 ára að aldri, eiga við félagslega erfiðleika að stríða, til dæmis vegna skertrar vinnugetu, heilsubrests, atvinnumissis, fjölskylduaðstæðna, barnafjölda eða annarra sérstakra aðstæðna, uppfylla skilyrði um tekju- og eignamörk samkvæmt gildandi matsblaði/stigagjöf, sbr. 6. gr., og hafa átt lögheimili í sveitarfélaginu síðastliðna 24 mánuði. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. getur félags- og tómstundanefnd veitt undanþágu frá ákvæði um aldursmörk, tekjumörk og um búsetutíma í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður, til dæmis vegna áfalla, skyndilegra breyttra aðstæðna eða sérstakra tengsla við ættingja eða aðra stuðningsaðila.

 

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi með lögheimili að C, Reykjavík og á 50% hlut í þeirri fasteign. Í umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði kemur fram að hún vilji eiga í íbúð sinni til þess að börn hennar X og X ára hafi fast húsnæði.

Þar sem kærandi á fasteign er ljóst að hún er fær um að sjá sér fyrir húsnæði. Skilyrði 1. mgr. 1. gr. framangreindra reglna sveitarfélagsins þess efnis að vera ekki þess megnug að sjá sér fyrir húsnæði á almennum markaði er því ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Sveitarfélagsins Skagafjarðar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 18. maí 2022 um að synja umsókn A, um félagslegt leiguhúsnæði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta