Skýrsla OECD um heilbrigðismál
Hægt er að lesa ýmsar upplýsingar um heilsufar þjóða, helstu áhættuþætti, gæði og árangur heilbrigðiskerfa, heilbrigðisútgjöld, lyfjanotkun, mönnun heilbrigðiskerfisins og margt fleira í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD); Health at a Glance þar sem birtur er samanburður milli aðildarríkja stofnunarinnar. Athygli er jafnframt vakin á því að OECD birtir sérstakar landsskýrslur fyrir einstök aðildarríki og hefur skýrslan um Ísland verið birt á vef stofnunarinnar þar sem hún er aðgengileg á ensku og íslensku.
Eins og fram kemur í skýrslunni fást mikilvægar vísbendingar um heilbrigði þjóða og lífsgæði á með því að skoða fjóra tiltekna heilbrigðisvísa. Þetta eru lífslíkur, ótímabær dauðsföll (vegna sjúkdóma sem má fyrirbyggja eða meðhöndla), algengi sykursýki og mat fólks á eigin heilsu. Staða Íslands á þessum mælikvörðum er góð:
- Meðalævilengd Íslendinga er 82,7 ár en meðaltal OECD er 80,7 ár. Langlífari en Íslendingar eru Japanir, Svisslendingar, Spánverjar og Ítalar.
- Ótímabær dauðsföll samkvæmt skilgreiningum OECD (vegna sjúkdóma sem má fyrirbyggja eða meðhöndla) reiknast 140 á hverja 100.000 íbúa á Íslandi en meðaltal OECD er 208. Hlutfallið er einungis lægra í tveimur öðrum ríkjum, þ.e. Ísrael og Japan.
- Algengi sykursýki hér á landi er 5,3% en meðaltal OECD er 6,4%. Í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar er hlutfallið hér hið sama og meðal Norðmanna, það er nokkru hærra meðal Finna (5,8%) og Dana (6,4%) en lægst er það í Svíþjóð (4,8%).
- Mat fólks á eigin heilsu þykir veita nokkuð heildstæðar upplýsingar um andlega og líkamlega heilsu fólks. Í niðurstöðum OECD er birt hlutfall fólks 15 ára og eldra sem metur heilsu sína slæma. Meðaltalið hjá OECD ríkjunum er 8,7%. Hlutfallið er lægra hjá öllum Norðurlandaþjóðunum; lægst hjá Finnum og Svíum (5,7%) þá koma Íslendingar (6,4%), Norðmenn (7,2%) og Danir (7,5%).
Neikvæð áhrif lífsstílstengdra sjúkdóma á ævilengd þjóða
Þótt meðalævilengd fólks í OECD ríkjunum haldi áfram að aukast og sé nú að jafnaði 80,7 ár hefur hægt á þeirri þróun hjá nær öllum ríkjunum og árið 2015 styttust lífslíkur hjá 19 þeirra. Ástæðurnar eru margþættar. Aukin offita og vaxandi tíðni sykursýki hefur unnið gegn góðum árangri sem áður hafði náðst í meðferð hjarta- og æðasjúkdóma með fækkun dauðsfalla. Dauðsföllum af völdum öndunarfærasjúkdóma á borð við inflúensu og lungnabólgu hefur fjölgað á liðnum árum, einkum meðal eldra fólks. Dauðsföllum vegna misnotkunar ópíóða hefur fjölgað verulega svo kalla má faraldur meðal sumra þjóða. Fjölgunin nemur 20% að jafnaði meða ríkja OECD frá árinu 2011. Í Bandaríkjunum einum eru um 400.000 dauðsföll rakin til ópíóðafaraldursins og dánarhlutfallið er einnig hátt í Kanada, Eistlandi og í Svíþjóð. Rekja má um þriðjung allra dauðsfalla innan OECD til hjartaáfalla, heilablóðfalla og annarra æðasjúkdóma og eitt af hverjum fjórum dauðsföllum tengist krabbameinum. Samkvæmt skýrslunni hefði mátt koma í veg fyrir um þrjár milljónir ótímabærra dauðsfalla með betri forvörnum og heilbrigðisþjónustu.
Um það bil einn af hverjum tíu íbúa OECD ríkjanna metur heilsu sína slæma. Langvinnir sjúkdómar skýra þetta mat að hluta því nærri þriðjungur fullorðinna glímir við tvo eða fleiri langvinna sjúkdóma. Veikindi af geðrænum toga vega einnig þungt en talið er að einn af hverjum tveimur íbúum OECD ríkjanna glími við geðrænan heilsufarsvanda einhvern tíma á lífsleiðinni. Óheilbrigður lífsstíll, reykingar, misnotkun áfengis og offita eru meginorsök margra langvinnra sjúkdóma sem valda ótímabærum dauðsföllum og skerða lífsgæði fólks.
Heilsufar og lífsstíll Íslendinga
Mikill meirihluti landsmanna glímir við ofþyngd eða 65,5% fullorðinna sem er töluvert hærra en meðaltal OECD ríkjanna (56%). Ofþyngd eykst stöðugt í flestum ríkjum OECD, um 56% fullorðinna eru of þung og um þriðjungur barna á aldrinum 5 – 9 ára. Áfengisneysla hefur aukist nokkuð hér á landi frá árinu 2016, er að jafnaði 7,7 lítrar á hvern íbúa 15 ára og eldri sem er nálægt meðaltali OECD. Enn dregur úr reykingum hér á landi. Um 8,6% fullorðinna Íslendinga reykja daglega, sem er langminnst meðal Evrópuþjóða. Meðaltal OECD er 18%.
Öflug fyrsta stigs heilbrigðisþjónusta mikilvæg
Öflug heilsugæsla/fyrsta stigs heilbrigðisþjónusta (e. strong primary care systems) gegnir mikilvægu hlutverki varðandi almennt heilsufar, stuðlar að jöfnu aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu, spornar við heilsufarslegum ójöfnuði af félagslegum og fjárhagslegum ástæðum, tekur betur mið af þörfum fólksins og stuðlar að betri nýtingu fjár, mannafla og annarra aðfanga (e. health care resources). Þar er unnt að meðhöndla flestöll einfaldari heilbrigðisvandamál sem dregur úr álagi á sjúkrahúsin, meðal annars þar sem öflug fyrsta stigs heilbrigðisþjónusta getur fyrirbyggt ónauðsynlegar innlagnir vegna ýmissa langvinnra sjúkdóma segir m.a. í skýrslu OECD.
Útgjöld til heilbrigðismála
Ýtarleg umfjöllun er um útgjöld þjóða til heilbrigðismála í skýrslu OECD, mismunandi áherslur og leiðir við fjármögnun heilbrigðiskerfa, um hlutdeild sjúklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu o.fl. Fram kemur að árið 2018 voru áætluð meðalútgjöld aðildarríkjanna til heilbrigðismála um 8,8% af vergri landsframleiðslu (GDP) sem er nær óbreytt frá árinu 2013. Munur milli þjóða er mikill. Langhæst er hlutfallið í Bandaríkjunum, 16,9%, næst kemur Sviss með 12,2% og þar á eftir fylgja hátekjuþjóðir á borð við Þýskaland, Frakkland, Svíþjóð og Japan sem verja um það bil 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála. Í Danmörku nemur hlutfallið 10,5%, í Noregi 10,2% og Finnlandi 9,1%. Í samanburði milli Norðurlandaþjóða rekur Ísland lestina þar sem 8,3% af vergri landsframleiðslu renna til heilbrigðismála.
Ef skoðuð eru útgjöld hins opinbera vegna heilbrigðisþjónustu niður á einstakling (umreiknað í Bandaríkjadali (USD) og leiðrétt fyrir kaupmætti) eru framlög á hvern íbúa meðal Evrópuríkja hæst í Noregi (5.289 USD) og næsthæst í Þýskalandi (4.569 USD). Ef einungis er horft á Norðurlandaþjóðirnar kemur Svíþjóð á eftir Noregi (4.569 USD), þriðju hæstu framlögin eru í Danmörku (4.472 USD) á Íslandi eru þau 3.570 USD og lægst í Finnlandi (3.184). Allar Norðurlandaþjóðirnar eru fyrir ofan meðaltalið í Evrópu sem er 3041 USD.
- Health at a Glance (á ensku)
- Landsyfirlit - Ísland (á íslensku og ensku)