Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 1205/2024 Úrskurður

Hinn 29. nóvember 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 1205/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24070182

 

Kæra […]

1                    Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 19. júlí 2024 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, á ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar hér á landi umsókn konu að nafni […], fd. […], ríkisborgari Úkraínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd og vísa henni frá landinu.

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal nefndin meta að nýju alla þætti kærumáls og getur ýmist staðfest ákvörðun, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju til þeirrar stofnunar sem tók hina kærðu ákvörðun. Við meðferð kæru þessarar fer fram endurskoðun á ákvörðun Útlendingastofnunar sem m.a. felur í sér sjálfstætt efnislegt mat á því hvort taka eigi mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 36. gr. laganna. Auk þess fer fram skoðun á því hvort formreglum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt.

Kærandi gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn hennar verði tekin til efnismeðferðar samkvæmt ákvæðum 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi gerir einnig kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 44. gr. laga um útlendinga.

2                    Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 30. apríl 2024. Við skoðun á vegabréfi kæranda kom í ljós að kærandi væri með stimpla sem báru með sér að kærandi hafði ferðast til Póllands. Af þeim sökum var hinn 7. maí 2024 send beiðni um upplýsingar til pólskra yfirvalda á grundvelli 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Í svari pólskra yfirvalda, dags. 20. maí 2024, kemur fram að kærandi væri handhafi dvalarleyfis þar í landi frá 19. apríl 2022 til 30. júní 2024. Hinn 23. maí 2024 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda Póllands, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari frá pólskum yfirvöldum, dags. 27. maí 2024, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar sökum þess að hún sé handhafi dvalarleyfis þar í landi. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 11. júní 2024, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 18. júlí 2024 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Útlendingastofnun taldi að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Það var mat stofnunarinnar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði send til viðtökuríkis. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 19. júlí 2024 og barst greinargerð kæranda 26. júlí 2024 ásamt fylgigögnum.

3                    Greinargerð til kærunefndar

Farið hefur verið yfir greinargerð kæranda og mat lagt á öll sjónarmið er þar koma fram. Verða aðeins reifuð hér helstu atriði greinargerðarinnar.

Í greinargerð er aðstæðum kæranda lýst. Fram kemur að kærandi sé kona á […]. Kærandi hafi dvalið í fjögur ár í Póllandi á grundvelli tímabundins dvalarleyfis sem nú sé útrunnið.

Í greinargerð eru færð rök fyrir því að aðstæður kæranda falli undir 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi móður og systur sem búi báðar á Íslandi. Móðir kæranda sé öldruð og háð aðstoð kæranda við daglegar athafnir sökum veikinda. Móðir kæranda sé með háan blóðþrýsting, vandamál í hnjám og með gigt. Jafnframt þurfi móðir kæranda aðstoð við lyfjagjöf og aðstoð við að komast á milli staða. Mæðgurnar séu nánar og móðir kæranda geti ekki án hennar verið. Kærandi hafi komið hingað til að annast móður sína. Einnig er vísað til þess að móðir kæranda bíði eftir aðgerð og muni þurfa á frekari aðstoð og stuðningi að halda eftir aðgerðina.

Þá kemur fram að kærandi sé almennt við góða heilsu að undanskildu vandamáli í augum. Andleg heilsa kæranda sé sæmileg en henni líði þó illa vegna stríðsins í heimaríki. Að öðru leyti er vísað til viðtals kæranda.

Í greinargerð eru færð rök fyrir því að aðstæður kæranda falli undir 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að dvalarleyfi hennar í Póllandi sé útrunnið. Það sé ekki öruggt að hún muni fá áframhaldandi dvalarleyfi í Póllandi og hætta sé á að hún verði send aftur til Úkraínu. Yrði því brotið gegn banni við endursendingum, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Ætti því að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

Í greinargerð eru færð rök fyrir því að ekki hafi verið farið að málsmeðferðarreglum þar sem mál kæranda hafi ekki verið rannsakað nægilega vel, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Ekki hafi verið rannsakað hvort kærandi eigi möguleika á að dvelja í Póllandi með löglegum hætti þar sem dvalarleyfi hennar sé útrunnið og byggir kærandi jafnframt á því að 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar eigi ekki við af þessum sökum. Þá hafi umönnunarsjónarmið milli kæranda og móður hennar ekki verið rannsökuð nægilega vel.

Kærandi krefst þess einnig að umsókn hennar verði tekin til meðferðar samkvæmt c-lið leiðbeininga dómsmálaráðherra frá 11. mars 2022 í tengslum við veitingu dvalarleyfis vegna fjöldaflótta samkvæmt 44. gr. laga um útlendinga, sem var enn í gildi þegar kærandi sótti um vernd.

4                    Umsókn um alþjóðlega vernd

4.1               Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda og reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins er varða landamæraeftirlit og umsóknir um alþjóðlega vernd eftir því sem tilefni er til.

Ákvæði laga um útlendinga, reglugerðar um útlendinga sem og önnur ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem máli skipta við úrlausn umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd verða reifuð í viðeigandi köflum hér að neðan.

4.2               Aðstæður kæranda

Kærandi er kona á […] sem kom einsömul hingað til lands er hefur greint frá því að eiga móður og systur sem séu búsettar hér á landi. Þá hefur kærandi byggt málatilbúnað sinn einkum á tengslum sínum við móður. Við meðferð málsins kom í ljós að kærandi væri handhafi tímabundins dvalarleyfis í Póllandi með gildistíma til 30. júní 2024 þegar hún lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 30. apríl 2024. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún hafi starfað fyrir pólskt fyrirtæki sem hafi útvegað henni húsnæði. Þá hafi hún stundum heimsótt heilsugæslu í Póllandi. Kærandi greindi frá því að vera við góða líkamlega heilsu fyrir utan vandamál í augum og þá væri hún við sæmilega andlega heilsu.

4.3               Niðurstaða um 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema:

c. heimilt sé að krefja annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda.

Hinn 4. mars 2022 birti dómsmálaráðuneytið tilkynningu á vef ráðuneytisins um að dómsmálaráðherra hefði ákveðið að virkja ákvæði 44. gr. laga um útlendinga um sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta. Ákvörðunin væri í samræmi við þá ákvörðun Evrópusambandsins að virkja samskonar úrræði með tilskipun nr. 2001/55/EB um tímabundna vernd vegna fjöldaflótta. Kom þar fram að móttaka flóttamanna hérlendis myndi ná til sömu skilgreindu hópa og þeirra sem Evrópusambandið hefði ákvarðað, án þess að nánar væri rakið hverjir féllu þar undir. Hinn 11. mars 2022 gerði ráðuneytið frekari leiðbeiningar um framkvæmd ákvörðunarinnar og þá voru leiðbeiningarnar uppfærðar með erindi ráðuneytisins, dags. 29. júní 2023. Framangreint minnisblað og leiðbeiningar voru á hinn bóginn ekki birt opinberlega.

Sama dag og framangreind tilkynning um ákvörðun dómsmálaráðherra birtist á heimasíðu ráðuneytisins hafði Ráðherraráð Evrópusambandsins tekið ákvörðun nr. 2022/382 um fólksflótta frá Úkraínu í skilningi tilskipunar nr. 2001/55/EB. Í ákvörðuninni var skilgreint hvaða hópar manna skyldu fá tímabundna vernd innan Evrópusambandsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Hinn 21. mars 2023 gaf framkvæmdastjórnin út leiðbeiningar um innleiðingu á ákvörðun nr. 2022/382. Hvorki tilskipun nr. 2001/55/EB né ákvörðun nr. 2022/382 eru hluti af þeim þjóðréttarskuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist. Í framangreindum leiðbeiningum framkvæmdastjórnarinnar kemur fram að þótt einstaklingar séu handhafar tímabundinnar verndar komi það ekki í veg fyrir að þeir geti lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd í aðildarríkjum. Þá eigi Dyflinnarreglugerðin við í slíkum tilvikum þegar lagðar séu fram umsóknir um alþjóðlega vernd. Aðildarríkin séu þó hvött til að taka ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd í samræmi við 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í úrskurðum kærunefndar frá 24. október 2023, t.d. í máli nr. 631/2023, var vísað til þess að ákvörðun ráðherra um að virkja 44. gr. laga um útlendinga hafi ekki verið birt í Stjórnartíðindum. Ekki yrði unnt að líta svo á að ákvörðun ráðherra hafi komið fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins frá 4. mars 2022, enda væri þar ekki tilgreint til hvaða hóps fólks ákvörðunin tæki. Tilkynningin væri því óskýr um efnislegt inntak ákvörðunar ráðherra. Þá hafi önnur gögn sem lágu fyrir um ákvörðun ráðherra, þ.e. leiðbeiningar dómsmálaráðuneytisins og minnisblað, ekki verið birt opinberlega. Af þeirri tilkynningu varð ekki annað ráðið en að ríkisborgarar Úkraínu sem lögðu á flótta vegna innrásar Rússa í Úkraínu féllu undir hana. Var komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun ráðherra yrði ekki ljáð þrengra efnislegt inntak en leiddi af tilkynningu á vefsíðu stjórnarráðsins. Af þeim sökum hafi ekki verið hægt að leggja mat á það hvaða áhrif umrædd dvöl í viðtökuríki hefði á það hvort viðkomandi teldist til hóps Úkraínumanna sem hafi lagt á flótta vegna stríðsins. Voru hinar kærðu ákvarðanir felldar úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum málanna dvalarleyfi á grundvelli 74. gr., sbr. 44. gr. laga um útlendinga. Eftir birtingu ákvörðunar ráðherra hafa umræddir úrskurðir frá 24. október 2023 ekki fordæmisgildi.

Ákvörðun ráðherra um að framlengja ákvörðun um beitingu 44. gr. laga um útlendinga um sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu til og með 2. mars 2025 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 22. febrúar 2024, með auglýsingu nr. 220/2024. Þar kemur fram að leiðbeiningar dómsmálaráðuneytisins, dags. 11. mars 2022 og 29. júní 2023, gildi um umsóknir á grundvelli 44. gr. laga um útlendinga og eru þær birtar sem fylgiskjöl. Í leiðbeiningunum eru þeir hópar sem falla undir ákvörðun ráðherra skilgreindir.

Í 37. gr. laganna koma fram skilyrði fyrir því að alþjóðleg vernd skuli veitt. Verður af ákvæðum laganna ráðið að með hugtakinu efnismeðferð sé átt við mat á því hvort skilyrði alþjóðlegrar verndar séu uppfyllt samkvæmt ákvæðinu. Þá segir í 1. mgr. 36. gr. laganna að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema stafliðir ákvæðisins eigi við. Í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um veitingu dvalarleyfa á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í ákvæðinu koma fram tiltekin skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að slíkt leyfi skuli veitt. Þá er mælt fyrir um að ákvæðinu skuli ekki beitt nema skorið hafi verið úr með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. og 39. gr. Þá hefur löggjafinn veitt ráðherra heimild í 44. gr. til að ákveða að veita þeim sem tilheyra hópi sem flýr tiltekið landsvæði dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í 4. mgr. 44. gr. laganna er mælt fyrir um hvernig fara skuli með umsókn um alþjóðlega vernd samkvæmt 37. gr. þegar umsækjandi uppfyllir skilyrði sameiginlegrar verndar samkvæmt 44. gr. laganna. Er þá heimilt að leggja umsókn um alþjóðlega vernd til hliðar í tiltekinn tíma frá því að umsækjandi fékk fyrst leyfi um sameiginlega vernd.

Af ákvörðun ráðherra verður ekki ráðið að gerðar séu undanþágur frá ákvæði 36. gr. laga um útlendinga heldur fjallar hún aðeins um hvaða skilyrði skuli vera uppfyllt svo einstaklingum sé veitt tímabundin vernd og efnismeðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd frestað. Verður ekki annar skilningur lagður í ákvörðunina en að hún eigi við um einstaklinga sem eiga rétt á efnismeðferð hér á landi, þ.e. að skorið hafi verið úr um hvort ákvæði 36. gr. laga um útlendinga eigi við. Hvað varðar sjónarmið um beitingu fullveldisreglu 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þá kemur ekkert fram í ákvörðun ráðherra eða leiðbeiningum sem henni fylgja um það hvaða sjónarmið leiði til beitingu fullveldisreglunnar umfram það sem fram kemur í 36. gr. eða öðrum ákvæðum laga um útlendinga. Leiðbeiningar framkvæmdastjórnarinnar hafa takmarkað vægi enda felast í þeim áskoranir til aðildarríkjanna sem kalla á að þau innleiði í sitt regluverk með hvaða hætti þau verði við þeim, sem ráðherra hefur gert með fyrrgreindri ákvörðun.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Póllands á beiðni um viðtöku kæranda er byggt á 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi er handhafi dvalarleyfis þar í landi. Af þeim sökum skal kærandi endursendur til Póllands enda bera pólsk yfirvöld ábyrgð á umsókn hennar samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni. Hefur það ekki þýðingu fyrir málið að dvalarleyfi hennar hafi runnið út á meðan á málsmeðferðinni stendur líkt og kærandi heldur fram í greinargerð sinni og er málsástæðu hennar hvað þetta atriði varðar því hafnað. Í greinargerð kærenda kemur þá fram að ávallt sé heimilt að taka umsóknir til efnismeðferðar þrátt fyrir samþykki viðtökuríkis. Ekki verður talið að aðstæður kærenda séu slíkar að beita beri 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. eftirfarandi umfjöllun.

Að öllu framangreindu virtu kemur því ekki til skoðunar í þessum úrskurði hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli 74. gr., sbr. 44. gr. laganna. Sjónarmið kæranda varðandi 44. gr. laga um útlendinga hafa því ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

4.4               Landaupplýsingar

Lagt hefur verið mat á aðstæður í Póllandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2023 Country Reports on Human Rights Practices – Poland (United States Department of State, 22. apríl 2024);
  • Amnesty International Report 2022/2023 - Poland (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Asylum Information Database, Country Report: Poland (European Council on Refugees and Exiles, 10. júlí 2024);
  • Asylum Information Database, Country Report: Poland (European Council on Refugees and Exiles, maí 2022);
  • Poland 2019: The State of the Judiciary (Amnesty International, 19. nóvember 2019);
  • Freedom in the World 2024 – Poland (Freedom House, 2024);
  • Upplýsingar af vefsíðu UNHCR (https://www.unhcr.org/countries/poland);

·         Upplýsingar af vefsíðu Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, http://hatecrime.osce.org/poland) og gagnagrunns Evrópuráðsins um flóttamenn og útlaga (http://www.asylumineurope.org/reports/country/poland/statistics) og

  • World Report 2024 (Human Rights Watch, 11. janúar 2024).

Pólland er eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins og því bundið af reglum sambandsins við málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.a.m. tilskipunum sambandsins um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd nr. 2013/32/EU, um móttökuaðstæður nr. 2013/33/EU og um lágmarksviðmið til þess að teljast flóttamaður nr. 2011/95/EU. Pólland er aðili að Evrópuráðinu og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Pólland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð, samninga Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og efnahagsleg og félagsleg og menningarleg réttindi og barnasáttmálann. Pólland er aðili að Flóttamannasamningi Sameinuðu þjónana.

Í skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) kemur fram að einstaklingar geti óskað eftir alþjóðlegri vernd í Póllandi hjá pólsku landamæravörslunni (p. Straz Graniczna). Við upphaf málsmeðferðar fari fram greining á því hvort umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu eða hafi sérstakar þarfir. Það geti t.d. verið einstæðir foreldrar, einstaklingar sem eigi við alvarleg veikindi að stríða og einstaklingar sem hafi mátt þola ofbeldi, þ. á m. kynferðisofbeldi. Þá sé lagt mat á hvort viðkomandi þarfnist sérstakrar þjónustu á meðan umsókn hans sé til meðferðar. Fram kemur í skýrslunni að pólska útlendingastofnunin (p. Szef Urzędu do Spraw Cudzoziemców) taki ákvarðanir varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd. Samkvæmt pólskum lögum skuli ákvarðanir liggja fyrir innan sex mánaða frá því að umsókn hafi verið lögð fram. Í undantekningartilfellum sé hægt að framlengja þann frest í 15 mánuði. Umsækjendur eigi rétt á viðtali hjá pólsku útlendingastofnuninni og þá skuli stofnunin tryggja fullnægjandi túlkaþjónustu. Ákvarðanir pólsku útlendingastofnunarinnar séu kæranlegar til kærunefndar (p. Rada do Spraw Uchodźców) innan fjórtán daga. Úrskurði nefndarinnar sé þá hægt að bera undir stjórnsýsludómstól (p. Wojewódzki Sąd Administracyjny w Warszawie), um lagaleg atriði, og dómum hans sé hægt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (p. Naczelny Sąd Administracyjny). Umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi almennt ekki rétt á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð á fyrsta stjórnsýslustigi umfram leiðbeiningar frá starfsfólki útlendingastofnunar en slík aðstoð eigi að vera í boði þegar ákvarðanir séu kærðar til kærunefndar, lögum samkvæmt. Heimildir beri með sér að erfitt geti verið að nálgast slíka þjónustu.

Í skýrslu ECRE kemur fram að einstaklingar sem sendir séu til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar standi almennt ekki frammi fyrir erfiðleikum við að opna umsókn sína um alþjóðlega vernd á ný. Umsóknir einstaklinga, sem yfirgefa landið áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra og eru fjarverandi í meira en níu mánuði, sæti í kjölfarið ekki hefðbundinni málsmeðferð við endurkomu til Póllands heldur sé litið á þær sem viðbótarumsóknir. Þá taki pólska útlendingastofnunin ákvörðun um hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar eða ekki, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, m.a. hvort nýjar málsástæður liggi fyrir.

Í skýrslu ECRE kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Póllandi eigi rétt á húsnæði og annarri þjónustu þegar þeir hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þar í landi og skráð sig í eina af móttökumiðstöðvum landsins, þ. á m. félagslegri þjónustu sem einkum felst í fjárhagslegri aðstoð. Lögum samkvæmt eigi umsækjendur rétt til heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu, til jafns við sjúkratryggða pólska ríkisborgara. Heilbrigðisþjónusta sé veitt að nokkru leyti í móttökumiðstöðvum en einnig geti umsækjendur leitað til sjúkrastofnana. Tungumálaerfiðleikar geri þó bæði umsækjendum og heilbrigðisstarfsfólki erfitt fyrir, en engin gjaldfrjáls túlkaþjónusta sé í boði nema þá einkum í gegnum frjáls félagasamtök. Þá séu dæmi um að fjarlægð frá móttökumiðstöðvum að sjúkrastofnunum sé mikil, sem gerir umsækjendum erfitt fyrir að sækja sér heilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt skýrslu ECRE fái umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki aðgang að vinnumarkaðnum í Póllandi fyrr en sex mánuðum eftir að þeir hafi lagt fram umsókn sína þar í landi en umsækjendur fái þá útgefin tímabundin skilríki sem veiti þeim heimild til að vinna í landinu. Fullorðnir umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi almennt ekki rétt til menntunar innan pólska menntakerfisins en í móttökumiðstöðvunum sé þó í boði tungumálakennsla í pólsku. Þá bjóða frjáls félagasamtök upp á ýmis konar námskeið og starfsþjálfun en sökum skorts á fjármagni séu slík námsskeið oft af skornum skammti.

Í skýrslu ECRE kemur fram að pólsk lög kveði á um að einungis sé heimilt að beita varðhaldi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, s.s. þegar auðkenni umsækjenda sé ekki staðfest, vegna hættu á flótta, vegna öryggisráðstafana og þegar fara eigi fram endursending til annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Varðhald megi samkvæmt úrskurði dómstóla almennt ekki vara lengur en í 60 daga í senn og að hámarki sex mánuði.

Í skýrslu ECRE frá árinu 2022 kemur fram að Pólland hafi tekið á móti stórum hópi af flóttamönnum inn á sitt yfirráðasvæði frá Úkraínu. Á vefsvæði Útlendingastofnunar Póllands hafi í upphafi stríðsins verið gefið út að ríkisborgarar Úkraínu sem hafi flúið landið auk þeirra sem hafi þá þegar dvalið í Póllandi áður en stríðið hafi brotist út hafi ekki þurft að skrá sig eða hafa áhyggjur af lögmæti dvalar sinnar. Jafnframt hafi sérstök lög verið samþykkt um aðstoð við úkraínska ríkisborgara 12. mars 2022. Lögin geri ráð fyrir að Úkraínumenn sem hafi flúið landið í kjölfar innrásar Rússa og lýsi yfir vilja til að dvelja í Póllandi geti fengið tímabundna vernd sem veiti þeim rétt til átján mánaða dvalar. Einstaklingar þurfi sérstakt skráningarnúmer (PESEL) til að njóta þjónustu og réttinda sem dvalarleyfinu fylgja. Lögin gildi einnig um maka úkraínskra ríkisborgara sem hafi komið til Póllands frá Úkraínu í kjölfar stríðsins. Ríkisborgarar Úkraínu hafi fengið fullan aðgang að atvinnumarkaðnum í Póllandi sem og pólska heilbrigðiskerfinu. Þá hafi ríkisborgarar Úkraínu haft rétt á fjárhagsstuðningi og fjölskyldubótum. Börn frá Úkraínu hafi þá aðgang að skólakerfinu í Póllandi á sama grundvelli og ríkisborgarar landsins.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2023 kemur fram að löggæslan sé virk og skilvirkar aðferðir séu til staðar til að rannsaka og refsa fyrir afbrot í Póllandi. Einnig kemur fram að fordómar og útlendingahatur séu vandamál þar í landi. Stjórnarskrá landsins leggi bann við hvers kyns mismunun eftir uppruna og þjóðerni. Lögin kveði jafnframt á um refsingu við hatursglæpum og annarskonar ofbeldi á grundvelli þjóðernis eða kynþáttar. Fram kemur í skýrslunni að framfylgni stjórnvalda á lögunum sé ábótavant. Á vefsíðu Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE kemur fram að um 25% mála árið 2022 sem vörðuðu hatursglæpi og tilkynnt voru til lögreglu lauk með sakfellingu fyrir dómi. Einnig kemur þar fram að þolendur glæpa, þ. á m. hatursglæpa, eigi rétt á stuðningi samkvæmt lögum. Stuðningur til þolenda sé almennt veittur af lögreglu, heilbrigðisstofnunum og frjálsum félagasamtökum sem fái styrki frá Dómsmálaráðuneytinu. Einnig sé hægt að leita leita stuðnings í gegnum hjálparlínu, í síma, með tölvupósti eða netspjalli. Á lögreglustöðvum séu starfsmenn sem hafi umsjón með eftirliti glæpa sem m.a. byggist á útlendingahatri og kynþáttafordómum. Jafnframt sé teymi innan lögreglunnar sem beri ábyrgð á vernd mannréttinda, en skyldur þeirra séu meðal annars að tryggja rétt viðhorf lögreglumanna til þolenda glæpa.

4.5               Niðurstaða um 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir gildistöku laga nr. 68/2024 til breytinga á lögum um útlendinga en samkvæmt 5. gr. breytingarlaganna var 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga felld úr gildi. Samkvæmt lagaskilum 14. gr. breytingarlaganna gildir umrædd breyting ekki um meðferð umsókna sem bárust fyrir gildistöku laganna og verður því tekin afstaða til ákvæðisins í þessum kafla. Hið sama á við um 32. gr., 32. gr. a, 32. gr. b, 32. gr. c og 32. gr. d reglugerðar um útlendinga sem felld voru úr gildi með breytingarreglugerð nr. 1069/2024. Í 1. málsl. þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:

Ef svo stendur á sem greinir í 1. mgr. skal þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því.

Í 1. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur fram að með sérstökum ástæðum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Þá eru í 2. og 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar talin upp viðmið í dæmaskyni sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi en þau viðmið varða aðallega alvarlega mismunun eða alvarleg veikindi. Þar segir:

Ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Meðferð telst, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en viðkomandi muni ekki standa hún til boða, eða ef umsækjanda, vegna þungunar, stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingaraðstoð í viðtökuríki.

Að öðru leyti en talið er upp hér að framan hefur heilsufar umsækjanda takmarkað vægi við mat á því hvort umsókn hans verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi nema ástæðan sé talin það einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði fram hjá henni litið. Efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna.

Orðalagið „muni eiga“ í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar felur ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar heldur að leitt sé í ljós að tilteknar líkur séu á að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun. Verður því að sýna fram á að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun af þeim toga, með þeim afleiðingum, og af því alvarleikastigi sem ákvæðið lýsir. Ekki nægir að aðeins sé til staðar möguleiki á að slíkri mismunun. Af því leiðir að þó svo að dæmi séu um að einstaklingar í sambærilegri stöðu og umsækjandi í viðtökuríki hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun af þeim toga sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga mælir fyrir um telst umsækjandi ekki sjálfkrafa eiga slíkt á hættu heldur þarf að sýna fram á að verulegar ástæður séu til að ætla að umsækjandi, eða einstaklingur í sambærilegri stöðu og umsækjandi, verði fyrir slíkri meðferð.

Við mat á því hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi í skilningi 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar, verður m.a. litið til heilsufarsgagna málsins og hlutlægra og trúverðugra gagna um hvort sú heilbrigðisþjónusta sem umsækjandinn þarfnast sé honum aðgengileg í viðtökuríki.

Kærandi er kona á […]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi frá því að vera við góða líkamlega heilsu fyrir utan vandamál í augum og þá væri hún við sæmilega andlega heilsu. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð, dags. 21. maí 2024, frá Göngudeild sóttvarna þar sem fram kemur að læknisskoðun hafi farið fram í samræmi við ákvæði sóttvarnalaga.

Kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun, 11. júní 2024, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem hún teldi hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Þá var kæranda jafnframt leiðbeint með tölvubréfi nefndarinnar 22. júlí 2024 um framlagningu frekari gagna í málinu. Engin frekari heilsufarsgögn bárust. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu er mál kæranda nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar kæranda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður hennar. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar kæranda geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að heilsufar kæranda sé með þeim hætti að hún teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Meðferð telst að jafnaði ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Heilsufar kæranda er ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá þessari meginreglu. Af þeim gögnum sem fyrir liggja um aðstæður í Póllandi verður ráðið að kærandi hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu þar í landi. Þá greindi kærandi frá því að hafa verið með aðgang að heilbrigðisþjónustu í viðtökuríki. Verður því að líta svo á að aðstæður kæranda tengdar heilsufari séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá geta heilbrigðisaðstæður kæranda ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar.

Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að óttist kærandi um öryggi sitt geti hún leitað til lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda sökum þess. Gögn málsins bera ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða hún geti vænst þess að staða hennar, í ljósi sömu ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að aðrar aðstæður hennar í viðtökuríki séu slíkar að önnur viðmið tengd alvarlegri mismunun, sambærileg þeim sem 32. gr. a reglugerðarinnar lýsir, leiði til þess að taka beri umsókn hennar til efnismeðferðar hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi atvinnu og um tíma og húsnæði á vegum vinnuveitanda.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda verður umsókn hennar ekki tekin til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í viðtali sínu hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún hafi komið hingað til lands til að annast móður sinnar sem sé búsett hér á landi. Kærandi greindi frá því að móðir hennar væri öldruð og þurfi aðstoð kæranda vegna veikinda. Þá sé systir kæranda jafnframt stödd hér á landi.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl skv. 2. mgr. 36. gr. skuli túlkað. Í athugasemdum sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríkið, svo sem vegna fyrri dvalar. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að með ákvæðinu sé stjórnvöldum eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í 4. mgr. 32. gr. b reglugerðar um útlendinga segir að umsækjandi teljist ekki hafa sérstök tengsl við Ísland nema aðstandandi hans sé búsettur hér á landi í lögmætri dvöl. Við mat á sérstökum tengslum skal m.a. líta til þess hvort umönnunarsjónarmið séu fyrir hendi, hvort umsækjandi og aðstandandi hans hafi deilt eða alist upp á sama heimili eða hafi á einhverjum tímapunkti haft uppeldisskyldu eða framfærsluskyldu sín á milli. Stjórnvöldum er heimilt að krefja umsækjanda um að sýna fram á umrædd tengsl, t.d. með framlagningu skilríkja eða vottorða. Þá er stjórnvöldum heimilt að óska eftir því að aðstandandi umsækjanda staðfesti umrædd tengsl. Þá segir í 5. mgr. ákvæðisins að við mat á sérstökum tengslum ber þó ávallt að hafa til hliðsjónar þau tengsl sem viðkomandi hefur í því ríki þar sem hann hefur heimild til dvalar í, m.a. lengd dvalar í ríkinu, fjölskyldutengsl og samfélagsleg tengsl sem umsækjandi hefur myndað við ríkið. Þá skal jafnframt hafa til hliðsjónar hvort viðkomandi eigi rétt á fjölskyldusameiningu.

Samkvæmt framansögðu verður að leggja til grundvallar að eigi umsækjandi um alþjóðlega vernd sannanlega ættingja hér á landi sem hafa heimild til dvalar hér og umsækjandi hefur raunveruleg og sérstök tengsl við hér en ekki í viðtökuríki, geti umsókn hans verið tekin til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið. Við mat á sérstökum tengslum í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, er stjórnvöldum heimilt að líta til skilgreiningarinnar um nánustu aðstandendur samkvæmt 17. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en hafa verður í huga að hugtakið er annað og þrengra en hugtakið ættingi sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga. Þannig geta önnur fjölskyldutengsl fallið undir 2. mgr. 36. gr., en í þeim tilvikum verður að gera ríkari kröfur til þess að sýnt sé fram á að þau tengsl séu sérstök og rík. Móðir kæranda telst til nánustu aðstandenda hennar samkvæmt orðalagi 17. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Í viðtali sínu hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá heilsufari móður sinnar. Móðir hennar væri með háan blóðþrýsting, vandamál í hnjám og með gigt. Kærandi kvað móður sína þurfa aðstoð við lyfjagjöf og gang. Kærandi greindi að auki frá því að systir hennar væri hér á landi með móður þeirra. Samkvæmt greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar þá hjálpist systurnar að við að hugsa um móður þeirra. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í Póllandi frá 2021 til febrúar 2024. Þegar litið er til þess að móðir kæranda hefur dvalarleyfi hér á landi, hefur liðsinni systur kæranda ásamt því að kærandi og móðir hennar voru aðskilin í þrjú ár er ekki hægt að fallast á að umönnunarsjónarmið séu fyrir hendi. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn til stuðnings fullyrðingum um slík sjónarmið.

Þegar málið er metið heildstætt og jafnvel þótt lagt verði til grundvallar að kærandi eigi móður hér á landi og önnur skyldmenni hefur henni ekki tekist að sýna fram á að umönnunarsjónarmið séu fyrir hendi. Þá bera gögn málsins ekki með sér að framfærsluskylda ríki þeirra á milli í skilningi 4. mgr. 32. gr. b reglugerðar um útlendinga. Með vísan til heildarmats á aðstæðum kæranda og fyrirliggjandi gagna málsins telst kærandi ekki hafa sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er ekkert sem bendir til annars en að kærandi geti nýtt rétt sinn til komu og tímabundinnar dvalar hér á landi á grundvelli 20. gr. laga um útlendinga í því skyni að dvelja tímabundið hér og halda tengslum við ættingja sína.

Kærandi vísar til þess í greinargerð sinni að umönnunarsjónarmið milli kæranda og móður hennar hafi ekki verið rannsökuð nægilega vel af hálfu Útlendingastofnunar. Í hinni kærðu ákvörðun var talið að þau gögn sem kærandi lagði fram hafa ekki sýnt fram á að umönnunarsjónarmið væru fyrir hendi. Hér að framan hefur verið fjallað um umönnunarsjónarmið og komist hefur verið að þeirri niðurstöðu, líkt og í hinni kærðu ákvörðun, að gögn málsins benda ekki til þess að slík sjónarmið séu til staðar. Hafa umræddar málsástæður verið rannsakaðar nægilega samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Því er umræddri málsástæðu hafnað.

Í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:

Þá skal einnig taka umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram, enda hafi umsækjandi sjálfur, maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd ekki átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.

Kærandi lagði fram umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi 30. apríl 2024 og eru því ekki liðnir 12 mánuðir samkvæmt framangreindu. Verður umsókn kæranda ekki tekin til efnismeðferðar á þeim grundvelli.

4.6               Niðurstaða um 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:

Ef beiting 1. mgr. mundi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skal taka umsókn til efnismeðferðar.

Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga segir að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga er rétt að líta til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun, sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Við túlkun 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skal líta til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun hans á 3. gr. sáttmálans. Þá skal hafa hliðsjón af þeim meginreglum sem Evrópudómstóllinn setur fram í dómum sínum að því leyti sem þær eru til skýringar á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og eru samhljóma þeim, en með þeim skýra fyrirvara að dómar Evrópudómstólsins á þessu réttarsviði eru ekki bindandi fyrir íslenska ríkið. Í 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi er að finna sambærilegt ákvæði og í 3. gr. mannréttindasáttmálans.

Af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og Evrópudómstólsins leiðir að þrátt fyrir að ríki hafi rétt til að stjórna hverjir dvelji á landsvæði þeirra geti flutningur einstaklings til annars ríkis falið í sér brot á banni við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þetta á við ef veruleg ástæða er til að ætla að viðkomandi sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé andstæð ákvæðinu.

Meðferð viðtökuríkis og aðbúnaður umsækjanda þurfa að ná tilteknu alvarleikastigi til að fela í sér brot gegn banninu. Því alvarleikastigi er náð þegar sinnuleysi stjórnvalda ríkisins hefur þær afleiðingar að einstaklingur, sem að öllu leyti er háður stuðningi þess, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann getur ekki mætt grundvallarþörfum sínum og grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn. Það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni verulega við brottvísun frá aðildarríki telst ekki nægjanlegt til að teljast vanvirðandi meðferð. Þá er ríkjum ekki skylt að sjá þeim sem njóta alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum.

Gögn málsins bera með sér að við meðferð stjórnvalda í viðtökuríki sé lagt einstaklingsbundið mat á aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ekkert bendir til að endursending kæranda til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Póllandi, bæði að landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hún verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf hennar eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði í Póllandi og einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, hefur ekki verið sýnt fram á að hún eigi á hættu meðferð sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd og flutningur hennar til viðtökuríkis leiðir því ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt framansögðu verður umsókn kæranda ekki tekin til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

5                    Frávísun

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 30. apríl 2024. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal flutt til Póllands innan tilskilins frests nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

6                    Athugasemdir, samantekt og leiðbeiningar

Í greinargerð eru færð rök fyrir því að ekki hafi verið farið að málsmeðferðarreglum þar sem mál kæranda hafi ekki verið rannsakað nægilega vel, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Vísað er til þess að ekki hafi verið rannsakað hvort kærandi eigi möguleika á að dvelja í Póllandi með löglegum hætti þar sem dvalarleyfi hennar sé útrunnið.

Í hinni kærðu ákvörðun er fjallað um réttindi einstaklinga sem koma frá Úkraínu og möguleika þeirra á að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi í Póllandi. Jafnframt kemur fram að engar upplýsingar liggi fyrir um hindranir í vegi dvalarleyfishafa sem snúa aftur til Póllands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Með vísan til framangreinds er ekki ástæða til að gera athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar hvað þetta varðar.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur nefndin þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur nefndin tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                     Gunnar Páll Baldvinsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta