Forsætisráðherra átti símafund með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, átti í dag símafund með Ursulu Von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þar sem þær ræddu þróun mála á Íslandi og meginlandi Evrópu í tengslum við útbreiðslu Covid-19.
Þetta er fyrsti fundur forsætisráðherra með Von der Leyen,en áður hafði staðið til að þær myndu funda í Brussel í byrjun apríl. Þeim fundi hefur verið frestað í ljósi aðstæðna. Á fundi sínum í dag ræddu þar m.a. um lokun landamæra ríkja í Evrópu og bann Evrópusambandsins við útflutningi sjúkravara út fyrir ríki Evrópusambandsins. Þá ræddu þær mögulega breytingu á umræddri reglugerð þannig að útflutningsbannið myndi ekki ná til EFTA-ríkjanna en breytingarnar voru staðfestar fyrr í kvöld samanber frétt á vef utanríkisráðuneytisins. Forsætisráðherra lagði áherslu á mikilvægi málsins og minnti á að ESB væri einn mikilvægasti samstarfsaðili Íslands. Undirstrikaði hún mikilvægi góðra samskipta og samstarfs EES-EFTA ríkjanna og Evrópusambandsins, ekki síst á þessum erfiðu tímum.