Niðurstöður nýrrar rannsóknar á sviði barnaverndar
Niðurstöður rannsóknar þar sem kannaðar voru aðgerðir barnaverndar vegna barna sem bíða tjón af áfengis- eða vímuefnaneyslu foreldra voru kynntar í velferðarráðuneytinu í gær. Þetta er fyrsta rannsóknin sem gerð hefur verið á þessu efni hér á landi.
Velferðarráðuneytið stóð fyrir gerð rannsóknarinnar. Markmiðið var að kanna hve hátt hlutfall barna sem barnaverndin hefur afskipti af hafa orðið fyrir tjóni af völdum neysluvanda foreldranna, hvað einkennir hópinn, hverjir tilkynna um vandann og loks að kanna viðbrögð og úrræði barnaverndar.
Skoðaðar voru tilkynningar sem bárust Barnavernd Reykjavíkur vegna vanrækslu og ofbeldis gegn börnum mánuðina september til desember 2010 og febrúar til apríl árið 2011 og voru þetta samtals 1.211 tilkynningar. Neysluvandi foreldra var skráður í 376 tilkynningum eða í um 31% tilfella.
Í rannsókninni er ástæða tilkynninganna flokkuð eftir því hvort um var að ræða vanrækslu, tilfinningalegt ofbeldi, heimilisofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi eða þar sem heilsu eða lífi ófædds barns er stefnt í voða.
Tilkynningarnar sem fólu í sér áfengis- og vímuefnaneyslu foreldra vörðuðu alls 209 börn og var kynjaskiptingin jöfn, þ.e. 98 drengir og 99 stúlkur, auk 12 mála vegna ófæddra barna og neyslu móður á meðgöngu. Flest börnin sem tilkynnt var um voru á aldrinum 0-7 ára.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar er gerð grein fyrir því hvaðan tilkynningarnar berast helst (þ.e. ýmsir opinberir aðilar eða einstaklingar í nærumhverfi barnanna), sagt frá úrræðum sem gripið er til í kjölfar tilkynninganna, bakgrunnur foreldranna er greindur og fleira sem varpar ljósi á umfang og eðli vandans.
Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur og Kristný Steingrímsdóttir gerðu rannsóknina. Þær segja gott til þess að vita hvað nærumhverfið er virkt í því að tilkynna um aðstæður barna til barnaverndar en samkvæmt rannsókninni komu 48% tilkynninga sem tengdust neysluvanda foreldra frá einstaklingum. Þær segja einnig athyglisvert hve úrræðin sem barnavernd beitir í málum sem þessum eru fjölbreytt.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir niðurstöður rannsóknarinnar vel til þess fallnar að renna stoðum undir stefnumörkun í áfengis- og vímuefnamálum en mótun slíkrar stefnu er á lokastigi í ráðuneytinu. Markmið stefnunnar er að draga úr þeim afleiðingum sem áfengis- og vímuefnaneysla hefur í för með sér fyrir samfélagið. Áherslan er ekki lengur einungis á neytandann sjálfan, heldur einnig á afleiðingar neyslunnar fyrir aðra í samfélaginu, en rannsóknin sýnir einmitt skýrt hvernig neysluvandi foreldranna bitnar á börnunum.
- Börnum rétt hjálparhönd. Rannsókn á aðgerðum barnaverndar vegna barna sem bíða tjón af áfengis- eða vímuefnaneyslu foreldra. Apríl 2013.
- Glærur frá kynningunni