Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 26. apríl 2024

Heil og sæl, 

Í vikunni kvöddum við veturinn og heilsuðum sumri. Á síðasta vetrardegi ár hvert er haldin ráðstefna um alþjóðamál og Ísland í því samhengi á vegum Alþjóðamálastofnunar sem ber yfirskriftina Alþjóðasamvinna á krossgötum: hvert stefnir Ísland? Í ár var umræða um öryggis- og varnarmál áberandi. Þar að auki var rætt um vaxandi skautun í samfélaginu, gervigreind og EES samninginn og gildi hans fyrir íslenskt samfélag nú þegar 30 ár eru liðinn frá því að hann tók gildi. Þórdís Kolbrún Reyfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flutti opnunarávarp ráðstefnunnar og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands flutti hátíðarávarp. 

Tveir rammasamningar voru undirritaðir í vikunni. Annasvegar var um að ræða aukinn stuðning við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP). Það var Matthías G. Pálsson fastafulltrúi Íslands hjá alþjóðastofnunum í Róm sem undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd. 

Hinsvegar undirritaði Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins rammasamning við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í Genf. Samningurinn nær til næstu fimm ára og er um að ræða tvöföldun á kjarnaframlagi Íslands til stofnunarinnar sem sinnir þessum viðkvæma málaflokki á heimsvísu.

„Meira en 114 milljónir manna eru nú vegalausar á heimsvísu, og þar af er þriðjungur flóttafólk utan heimalands. Það blasir við að við þessari stöðu verður að bregðast og leggja meira af mörkum til þessa mikilvæga málaflokks. Framlög Íslands nýtast Flóttamannastofnuninni í að styðja við viðkvæmustu samfélagshópana á hverjum stað og veita þeim skjól, lífsafkomu og grunnþjónustu,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra af þessu tilefni.

Og þá beinum við sjónum að sendiskrifstofunum.

Nú styttist í forsetakosningar. Sendiskrifstofur og kjörræðismenn okkar um heim allan undirbúa sig undir kosningar utan kjörfundar sem Íslendingar erlendis getafengið aðstoð við hjá þeim.

Sýningarskáli Íslands á Feneyjartvíæringnum var opnaður formlega í þarsíðustu viku. Fulltrúi Íslands þetta skiptið er listakonan Hildigunnur Birgisdóttir. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands gagnvart Ítalíu opnaði skálann að viðstöddu miklu fjölmenni. Skálinn stendur opinn fram til 23. nóvember næstkomandi og er því nægur tími fyrir þau sem eiga leið um Feneyjar að bera verkin augum. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sótti fund vísinda-, tækni- og nýsköpunarráðherra OECD í París 23. - 24. apríl. Þar voru ræddar sameiginlegar áskoranir ríkjanna, tækifæri og mögulegar leiðir í stefnumörkun í þessum málaflokkum sem munu koma til með að hafa mikil áhrif á samfélög okkar á næstu árum. Sagði hún að ljóst væri að tækifærin væru mörg en áskoranirnar einnig og að gæta þurfi sérstaklega að því að framfarir í tækniþróun, líkt og til dæmis á sviði gervigreindar, nái til allra, ekki síst kvenna og auki ekki á misskiptingu innan samfélaga okkar og í heiminum öllum.

Þá átti ráðherra fund með höfundum skýrslu OECD um áhrif skattafrádrátts fyrir rannsóknar- og þróunarverkefni á Íslandi og ræddu þau frekari tillögur af lútandi.

Ráðherra fundaði með aðstoðarframkvæmdastjórum UNESCO þeim Gabrielu Ramos og Stefaniu Giannini og ræddi þar samstarf um siðferði gervigreindar, tækninýjungar á sviði menntamála, öryggi og tjáningarfrelsi vísindafólks, og samning um viðurkenningu háskólanáms á heimsvísu, sem Ísland hefur fullgilt. 

Fulltrúi sendiráðs sótti viðburð OECD  um aukna fordóma meðal ungs fólks á konum í stjórnendastöðum. 

Í gær vakti starfsfólk sendiráðs okkar í París athygli á 50 ára afmæli Nellikkubyltingarinnar í Portúgal sem minnir okkur á að lýðræðið er langt því frá að vera sjálfgefið.

Í Tókýó fór í vikunni fram gleðiganga að sjálfsögðu með þátttöku norrænu sendiráðanna þar í borg. 

Þjóðverjar fá að njóta tónlistar okkar alíslenska Svavars Knúts sem lagði af stað í heilmikla tónleikaferð um landið í vikunni. 

Una Björg Magnúsdóttir er listamaður í vist hjá Künstlerhaus Bethanien um þessar mundir. Sendiherra Íslands í Þýskalandi María Erla Marelsdóttir heimsótti og vakti um leið athygli á sýningu hennar "Lost Manuals" sem stendur upp í gallerínu til 5. maí næstkomandi.  

Þá vakti sendiráðsstarfsfólk okkar í Berlín athygli á leiðsögnum fyrir listamenn í gegnum sýningu Önnu Rúnar Tryggavdóttur "Chromatic" sem stendur yfir í sendiráðsbústaðnum til 31. maí næstkomandi. 

Jafnframt vekja þau athygli á sýningu sem fer fram í Schafhof - evrópsku listahúsi í bæversku borginni Freising þar sem verk okkar víðfræga Finnboga Péturssonar eru meðal sýnd meðal annarra. 

Í Brussel fór fram á dögunum óformlegur fundur umhverfisráðherra Evrópusambandsins með þátttöku EES, EFTA-ríkjanna, Úkraínu og Moldóvu. Erla Sigríður Gestsdóttir, teymisstjóri orku, og Sigurbjörg Sæmundsdóttir, sendiráðunautur, frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu sóttu fundinn.

Um helgina stendur sendiráð Íslands í Brussel fyrir tímabundinni opnun á listasýningunni Arctic Creatures í EFTA húsinu. 

Harald Aspelund sendiherra Íslands í Finnlandi sótti fund í Tallinn með loftslagsráðherra Eistlands Kristen Michal ásamt kollegum frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.

Í sömu heimsókn tók Harald þátt í dagskrá á vegum öndvegisseturs NATO um netöryggi sem staðsett er í Eistlandi.

Sendiráð okkar annast yfirleitt ekki bara fyrirsvar gagnvart þeim löndum þar sem þau eru staðsett heldur þjónusta þau einnig lönd sem þar sem við erum ekki með starfssemi. Þannig annast sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn einnig sendiráðsstörf gagnvart Tyrklandi. Í vikunni heimsótti Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Danmörku höfuðborg Tyrklands, Ankara. 

Þar átti hann meðal annars hádegisverðarfund með sendiherrum hinna Norðurlandanna,

heimsótti utanríkisráðuneyti Tyrklands og átti fund með varautanríkisráðherra, auk nokkurra sendiherra og prótókollstjóra sem hann afhenti afrit af trúnaðarbréfi

en frumritin afhenti hann forseta landsins Recep Tayyip Erdogan í athöfn sem fór fram í forsetahöllinni í Ankara. Á tvíhliða fundi með forsetanum voru tengsl Íslands og Tyrklands rædd, meðal annars á sviði viðskipta, orkumála, menningarmála og íþrótta auk þess sem forsetinn þakkaði Íslendingum sérstaklega stuðning sem við veittum Tyrkjum þegar gríðarmikill jarðskjálfti reið yfir landið á síðasta ári en þá sendum við sérfræðinga í aðgerðastjórnun á sviði rústabjörgunar á svæðið. 

Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi á sumardaginn fyrsta. Að venju voru verðlaun Jóns Sigurðssonar veitt og í ár féllu þau í skaut Birgis Thors Möller, sem hefur um margra ára skeið unnið ötullega að því að miðla íslenskri menningu í Danmörku. 

Þróunarsamvinna Íslands og Malaví spannar 35 ár og í vikunni voru enn fluttar gleðifregnir af árangri verkefna sem eru studd af Íslandií samstarfshéruðum okkar þar.

Klarinettutónar íslenska klarinettuleikarans Einars Jóhenssonar munu gleðja hlustir tónleikagesta á tónleikum hans í London í kvöld. Sendiráðsstarfsfólk okkar í London hvetur fólk til að mæta.

Konunglegi Birmingham ballettinn kemur til Íslands í júní þar sem þau munu koma til með að sýna klassískan listdans í Hörpu. Af þessu tilefni var Sturlu Sigurjónssyni senidherra boðið upp á uppfærslu hópsins í London á balletinum Þyrnirós við tónlist Tsjajkovskíjs. 

Rósa Gísladóttir myndlistakona sýnir um þessar mundir verk sín í nýlistasafni Nýju-Delhi. Við opnun sýningarinnar ræddi hún meðal annars um þau áhrif sem Indland, inversk menning, byggingarlist og stjörnufræði hefðu á hugmyndir hennar. Dr. Sanjeev Kishor Goutam, forstjóri safnsins flutti inngangsorð ásamt Guðna Bragasyni sendiherra í Delhi. 

Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Kanada tók þátt í fjórðu lotu samningaviðræðna um alþjóðlega bindandi samning um plastmengunn en Ísland hefur látið að sér kveða í þessum málaflokki, sinnt öflugu málsvarastarfi og meðal annars boðið til alþjóðlegrar ráðstefnu um plastmengun á norðurslóðum sem haldin var í Reykjavík í nóvember á síðasta ári. 

Hrein náttúra er hluti af ímynd Íslands og því var gaman að sjá Ísland á lista yfir lönd sem umhverfissinnaðir Kanadabúar eru hvattir til að ferðast til.

Sérfræðingar á sviði viðskipta- og menningarmála frá sendiráðum Norðurlandanna hittust í sendiráði Íslands í Osló. 

Sendiherra Íslands í Noregi, Högni S. Kristjánsson opnaði sýninguna "Haukur Halldórsson: Ferðalag um list og tíma" í húsnæði Street Art Norge að viðstaddri fjölskyldu listamannsins auk boðsgesta.

Þá sagði sendiráðsstarfsfólk okkar frá því að mennta- og barnamálaráðuneytið veitir árlega einum íslenskum nemanda styrk til náms við Alþjóðlegan menntaskóla Rauða krossins í Flekke í Noregi. 

Kóramót íslenskra kóra fer fram í Þrándheimi núna um helgina. Þar kom saman um 200 meðlimir frá íslenskum kórum í Englandi, Danmörku, Svíþjóð og Noregi og munu syngja saman og hver fyrir sig. 

Æðardúnn, viskí og íslenskar pylsur á afslætti komu við sögu hjá sendiráði Íslands í Tókýó.

Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnaldsson á stóran aðdáendahóp í Japan sem fagnar þeim fréttum eflaust innilega að von er á nýrri plötu frá honum í sumar, þeirri fyrstu í 10 ár. 

Hjá starfsfólki sendiráðsins í Póllandi var haldin kynning á nýrri pólsk-íslenskri orðabók á internetinu. Um er að ræða viðbót við íslensku netorðabókina ISLEX á vegum Árnastofnunar. 

Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York tók vel á móti þingmanninum Njáli Trausti Friðbertssyni sem var staddur í borginni og átti erindi við stofnunina.

Ungir verðlaunahafar sjálfbærniverðlauna félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi voru einnig boðin velkomin til borgarinnar og fengu leiðsögn í boði starfsfólks fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum um húsakynni stofnunarinnar.

Hópur starfsmanna frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu er í Washington D.C. og hafa þau meðal annars heimsótt höfuðstöðvar bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, og fengu á fimmtudag sérstaka leiðsögn um hæstarétt Bandaríkjanna og Library of Congress. Á síðarnefnda staðnum var bókasafnsfræðingur á vegum bókasafnins búinn að finna til sérstaklega og taka fram íslenskar bækur sem safnið á til að sýna hópnum. Bergdís Ellertsdóttir sendiherra tók svo á móti hópnum í embættisbústað sama dag og fengu þau þá kynningu á starfsemi sendiráðs.

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra og samstarfsfólk hennar í sendiráði Íslands í Washington tók á móti góðum gestum á fimmtudag þegar systurnar Laufey Lín og Júnía Lín kíktu við í sendiráðinu. Laufey vann sem kunnugt er til verðlauna á Grammy-tónlistarhátíðinni í vetur og var komin til Washington til að halda tvenna tónleika í Anthem-tónleikahöllinni. Löngu uppselt var á báða tónleika. Systurnar þekkja Washington vel enda bjuggu þær um tíma í Washington sem börn.

Einn af hápunktum heimsóknar utanríkisráðherra til Washington í liðinni viku var undirskrift samnings um áframhaldandi stuðning við starfsemi Global Equality Fund, sjóð sem rekinn er af utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og stendur fyrir styrkjum við verkefni sem efla réttindi hinsegin fólks víðs vegar um heim. Þórdís skrifaði undir samninginn, sem felur í sér umtalsverða hækkun framlaga Íslands í sjóðinn, fyrir hönd Íslands en Robert Gilchrist, starfandi aðstoðarutanríkisráðherra á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu bandaríska utanríkisráðuneytisins, fyrir hönd Bandaríkjanna. Viðstödd undirritunina var Jessica Stern, sérlegur erindreki Bandaríkjaforseta í málefnum hinsegin fólks.

Í Winnipeg hélt aðalræðismaður Íslands Vilhjálmur Wiium erindi um íslenska siði í tilefni af vetrarlokum og sumarkomu.

Sumardagurinn fyrsti er nefnilega ótrúlegt en satt ekki almennur frídagur allsstaðar í veröldinni og mögulega leggja fáir jafn mikið upp úr því að heilsa sumri og við Íslendingar. Sendiskrifstofur okkar um allan heim óskuðu landsmönnum erlendis og jarðarbúum öllum góðs sumars með ýmsum hætti og við endum þennan föstudagspóst á þeim góðu kveðjum. 

 

 

 

 

Þangað til næst!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta