Hoppa yfir valmynd
5. september 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 294/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 294/2024

Fimmtudaginn 5. september 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. júní 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. mars 2024, um að staðfesta fyrri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 26. febrúar 2024, þar sem réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. febrúar 2024, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hún hefði hafnað atvinnuviðtali 31. janúar 2024. Í kjölfar frekari skýringa frá kæranda var mál hennar tekið fyrir að nýju. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. mars 2024, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn í málinu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. júní 2024. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. júlí 2024, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Svar barst samdægurs. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júlí 2024, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust 16. ágúst 2024.

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hún skrifi til nefndarinnar til að útskýra og verja sjálfa sig vegna tveggja viðurlagaákvarðana Vinnumálastofnunar. Sú fyrri sé vegna þess að kærandi hafi ekki tilkynnt um ferð erlendis. Kærandi geti ekki neitað fyrir það og samþykki þá refsingu þar sem hún hafi ekki vitað betur. Kærandi hafi fengið aðstoð við að sækja um atvinnuleysisbætur og alla staðfestingu á atvinnuleit í byrjun þar sem hún sé ekki góð í íslensku. Kærandi hafi ekki áður sótt um atvinnuleysisbætur og sá sem hafi aðstoðað hana hafi ekki tekið eftir upplýsingum um að tilkynna þyrfti ferðir erlendis. Kærandi hafi því ekki haft vitneskju um það fyrr en eftir ferðina.

Seinni viðurlagaákvörðunin varði það að hafna atvinnutilboði. Þá refsingu geti kærandi ekki sætt sig við. Í fyrsta lagi hafi kærandi ekki fengið neitt símtal, textaskilaboð eða tölvupóst varðandi það atvinnuviðtal. Kærandi hafi ekki hafnað neinu atvinnutilboði sem Vinnumálastofnun hafi boðið. Kærandi sé búin að fara vel yfir öll símtöl, textaskilaboð og tölvupósta eftir að hafa frétt af viðurlögunum. Hún hafi hvorki fengið tölvupóstinn um viðtalið né fengið upplýsingar um það með öðrum hætti. Kærandi telji líklegt að tölvupósturinn hafi farið í ruslhólfið og sjálfkrafa verið eytt þaðan. Kærandi sé með tölvupósthólfið sitt stillt með þeim hætti til að koma í veg fyrir of marga ruslpósta. Þetta sé hins vegar eingöngu ágiskun þar sem hún hafi ekki séð neinn tölvupóst í ruslhólfinu daginn sem hún hafi athugað málið. Kærandi hafi átt verulega erfitt andlega vegna þessara viðurlaga. Kærandi spyrji hvernig hún hafi átt að hafna atvinnuviðtali ef hún hafi ekki einu sinni vitað af því. Kærandi geti ekki sætt sig við þessa refsingu þar sem hún sé saklaus. 

Kærandi ítreki að hún skilji og samþykki viðurlögin fyrir að tilkynna ekki ferð erlendis en fimm mánuðir án atvinnuleysisbóta vegna síðari viðurlaganna sé virkilega langur tími. Kærandi hafi verið að sækja um störf sem hún geti unnið við, án árangurs. Hún sé nú alveg á mörkunum og geti ekki verið án atvinnuleysisbóta í tvo mánuði í viðbót. Með kærunni fylgi skjáskot af öllum símtölum, textaskilaboðum og tölvupóstum sem hún hafi fengið í janúarmánuði þar sem hún hafi ekki hugmynd um hvaða dag tölvupósturinn hafi verið sendur. Þær upplýsingar hafi ekki komið fram á skjáskotinu frá Vinnumálastofnun. Kærandi óski eftir að mál hennar verði skoðað vel og að viðurlagaákvörðun verði endurskoðuð.

Í skýringum kæranda vegna kærufrestsins kemur fram að hún hafi ekki vitað af þeim möguleka að kæra til úrskurðarnefndarinnar fyrr en á fundi hjá Vinnumálastofnun í júní 2024. Kærandi hafi staðið í þeirri meiningu að hún gæti eingöngu kært til Vinnumálastofnunar sem hún hafi gert í mars 2024. Hún hafi einfaldlega ekki skilið ferlið og sín réttindi nógu vel þar til nú. Einnig hafi kærandi komist að því í júní að um fimm mánaða viðurlög væri að ræða. Þegar kæranda hafi verið kynnt viðurlagaákvörðun hafi ekki verið ljóst að viðurlögin myndu leggjast ofan á hvert annað í stað þess að renna út samtímis. Kærandi hafi haldið að refsingin yrði tveir til þrír mánuðir sem hún hafi verið búin að sætta sig við. Þegar engar greiðslur hafi borist frá Vinnumálastofnun hafi kærandi aftur haft samband við stofnunina og þá komist að því að um fimm mánaða viðurlög væri að ræða sem hafi verið áfall. Á þeim tímapunkti hafi kærandi farið að hugsa út í hvað hún gæti gert þar sem fimm mánuðir án tekna og bóta sé mjög langur tími og hún hafi ekki búist við því. Kærandi hafi þá leitað til ráðgjafa Vinnumálastofnunar og þá fengið vitneskju um úrskurðarnefnd velferðarmála. Hún skilji að kæran hafi borist of seint en vonist eftir skilningi á því. Kærandi hefði sent inn kæru miklu fyrr og innan tímaramma ef hún hefði vitað af þeim möguleika.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. mars 2024, um að staðfesta fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 26. febrúar 2024 þar sem réttur kæranda til atvinnuleysisbóta var felldur niður í tvo mánuði.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. mars 2024, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 26. júní 2024. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Í skýringum kæranda vegna kærufrestsins kemur meðal annars fram að hún hafi ekki haft vitneskju um kærumöguleika til úrskurðarnefndarinnar fyrr en á fundi hjá Vinnumálastofnun í júní 2024. Hún hafi ekki skilið ferlið og réttindi sín nógu vel þar til nú. Einnig hafi hún ekki áttað sig á að um fimm mánaða viðurlög væri að ræða. Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru þær ástæður sem kærandi hefur lagt fram vegna kærufrestsins ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að gögn málsins benda ekki til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið efnislega röng. Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta