Nr. 47/2025 Úrskurður
Hinn 30. janúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 47/2025
í stjórnsýslumáli nr. KNU24090139
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 23. september 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. september 2024, um að vísa frá umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka mál hans til nýrrar meðferðar. Þá óskaði kærandi þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar væri frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi kom til landsins og sótti um alþjóðlega vernd 30. nóvember 2022. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. júní 2023, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd ásamt því sem honum var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með ákvörðuninni var honum jafnframt gert að sæta brottvísun og tveggja ára endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 576/2024, dags. 30. maí 2024, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Fram kom í úrskurði kærunefndar að endurkomubann kæranda yrði fellt úr gildi yfirgæfi hann landið innan 15 daga. Hinn 6. júní 2024 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og 15. júlí 2024 lagði kærandi fram endurtekna umsókn um alþjóðlega vernd, sbr. 35. gr. a. laga um útlendinga. Með úrskurði kærunefndar nr. 992/2024, dags. 1. október 2024, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað og endurtekinni umsókn hans vísað frá.
Samkvæmt fyrirliggjandi hjónavígsluvottorði gekk kærandi í hjúskap með íslenskum ríkisborgara 18. maí 2024. Á grundvelli hjúskaparins lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi 28. maí 2024. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. september 2024, var umsókn kæranda um dvalarleyfi vísað frá, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga, en ákvæðið mælir fyrir um að við endanlega ákvörðun um brottvísun skuli óafgreiddum dvalarleyfisumsóknum vísað frá. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin 6. september 2024. Með tölvubréfi, dags. 23. september 2024, lagði kærandi fram stjórnsýslukæru. Kærandi lagði fram greinargerð vegna málsins 7. október 2024.
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 1192/2024, dags. 25. nóvember 2024, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í röksemdum sínum vegna kæru á ákvörðun Útlendingastofnunar um frávísun dvalarleyfisumsóknar vísar kærandi til fyrirliggjandi hjúskapar og málsatvika. Kærandi áréttar að þeim mun tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, verði að gera strangari kröfur til rannsóknar á atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Kærandi bendir á að þeir hagsmunir sem í húfi séu varði stjórnarskrárvarin réttindi og telur tilvísun til 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga slá þögn á hagsmunamat sem þurfi að fara fram. Kærandi telur að forsendur ákvörðunar Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann hans séu haldnar verulegum annmörkum og fái ekki staðist nema að ákvörðun verði felld úr gildi. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga hvílir lagaskylda á stjórnvöldum að ákveða hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans og telur kærandi að þeirri lagaskyldu stjórnvalda hafi ekki verið sinnt þegar ákvörðun var tekin um brottvísun hans. Samhliða því byggir kærandi á að hjúskapur hans hafi aldrei hlotið umfjöllun stjórnvalda með hliðsjón af 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.
Kærandi vísar til 71. gr. stjórnarskrárinnar sem sé rétthærri réttarheimild en lög um útlendinga og telur að túlka beri stjórnarskrárákvæðið þannig að brottvísun fjölskyldumeðlima og maka standist ekki skoðun með hliðsjón af friðhelgi einkalífs, jafnvel þó dvöl viðkomandi sé ólögmæt. Vísar kærandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Slivenko gegn Lettlandi (mál nr. 48321/99), frá 9. október 2003 um að einstaklingar sem dveljast með ólögmætum hætti til lengri tíma eigi að hljóta einstaklingsbundið mat á áframhaldandi heimild til dvalar vegna fjölskyldutengsla. Kærandi kveðst hafa tæmt öll úrræði á stjórnsýslustigi um brottvísun og endurkomubann og ekkert geri honum kleift að dvelja áfram á landinu nema að fallist verði á umsókn hans. Kærandi vísar til 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga og skýringa með ákvæðinu, en telur það ranga lögskýringu að beita ákvæðinu með hliðsjón af undirliggjandi hagsmunum sem njóti verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Þar að auki telur kærandi hina kærðu ákvörðun byggða á verulegum annmarka vegna rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga, og 22. gr. sömu laga um rökstuðning.
Kærandi telur að framkvæmdin valdi réttarspjöllum sem fái að viðgangast athugasemdalaust, ef fyrir mistök eru teknar óupplýstar ákvarðanir um brottvísun sem brjóti gegn stjórnarskrárvarinni vernd fjölskyldulífs. Þá bendir kærandi á að kærunefnd sé ekki bundin tilgreindri lagaframkvæmd út í hið óendanlega, en nefndin sé bundin af stjórnarskránni. Vísar kærandi til 9. gr. stjórnsýslulaga og telur að ef umsókn hans hefði verið afgreidd eins fljótt og unnt var hefði honum ekki verið ákvörðuð brottvísun og endurkomubann í millitíðinni. Þá kveður kærandi upplýsingar um möguleika hans til sjálfviljugrar heimfarar hafa verið misvísandi og að hann hefði nýtt sér þá heimild hefði hann fengið betri upplýsingar. Um það vísar kærandi til ákvörðunar Útlendingastofnunar, dags. 25. september 2024 um að fresta ekki framkvæmd, með hliðsjón af reglugerð nr. 607/2023 um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför og telur kærandi að lagaskilareglum hafi verið beitt með röngum hætti þar sem hann geti ekki haft dvalarleyfisumsókn til meðferðar á sama tíma og hann hlýtur aðstoð við heimför. Nú standi kærandi frammi fyrir því að umsókn hans verði í öllum tilvikum vísað frá auk þess sem hans bíði endurkomubann, en kærandi telur stjórnvöld hafa brotið gegn 7. gr. stjórnsýslulaga.
Þá kveður kærandi það koma verr niður á honum en öðrum einstaklingum að honum sé ákvarðað brottvísun og endurkomubann og vísar til þess að samkynja hjónabönd séu ekki lögleg í heimaríki hans. Í ljósi þess sé takmörkun á fjölskyldulífi þeim mun meira íþyngjandi en ella og mun ríkari ástæða til þess að framkvæma sérstakt hagsmunamat. Myndi önnur túlkun valda óbeinni mismunun gagnvart kæranda vegna stöðu hans sem einstaklings í samkynja hjónabandi.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga kemur fram að við endanlega ákvörðun um brottvísun fellur útgefið dvalarleyfi, atvinnuleyfi og ótímabundið dvalarleyfi útlendings úr gildi. Óafgreiddum umsóknum um dvalarleyfi skal þá vísað frá. Síðastnefnd málsgrein kom inn í ákvæðið með breytingarlögum nr. 149/2018, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því sem varð að áðurnefndum breytingalögum segir m.a. að í framkvæmd hafi reynt á það hvað verði um dvalarleyfisumsóknir sem útlendingur hefur lagt fram áður en honum er vísað brott, eftir að honum er tilkynnt um hugsanlega brottvísun eða jafnvel eftir að ákvörðun um brottvísun hafi verið tilkynnt honum en hafi ekki verið framfylgt. Með ákvæðinu sé tekinn af vafi um áhrif brottvísana á óafgreiddar umsóknir um dvalarleyfi og tiltekið sérstaklega að þeim skuli vísað frá. Þegar ákvörðun hafi verið framfylgt geti útlendingur sótt um dvalarleyfi að nýju erlendis frá.
Líkt og fram kemur í málsatvikalýsingu hefur kærunefnd fjallað um brottvísun og endurkomubann kæranda, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 576/2024, dags. 30. maí 2024. Niðurstaða nefndarinnar var að gera kæranda að sæta brottvísun og tveggja ára endurkomubanni með vísan til 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt veittur 15 daga frestur til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur en innan þess frests yrði endurkomubann hans fellt úr gildi. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda 30. maí 2024 og mælti fyrir um endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi. Samkvæmt framansögðu var síðasti dagur frests kæranda til sjálfviljugrar heimfarar 14. júní 2024, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fylgdi kærandi ekki fyrirmælum úrskurðarins og mun því sæta endurkomubanni, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Jafnframt liggur fyrir að ákvörðun um brottvísun hefur ekki verið framfylgt og því ber í samræmi við skýrt orðalag 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga að vísa dvalarleyfisumsókn kæranda, dags. 28. maí 2024, frá.
Málatilbúnaður kæranda grundvallast m.a. á forsendum fyrir ákvörðun um brottvísun og endurkomubann, einkum með hliðsjón af 71. gr. stjórnarskrár, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Líkt og þegar hefur verið rakið kom kærandi hingað til lands í þeim tilgangi að sækja um alþjóðlega vernd. Með hliðsjón af 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga ber stjórnvöldum að taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga, verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi en um það vísast til áðurnefnds úrskurðar nr. 576/2024. Þannig liggur fyrir að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda hefur fengið meðferð á tveimur stjórnsýslustigum og kemur ekki til frekari skoðunar í úrskurði þessum. Auk þess tók kærunefnd afstöðu til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa ásamt endurupptekinni umsókn með úrskurði nr. 992/2024, dags. 1. október 2024, en í síðastnefndum úrskurði var m.a. fjallað um hjúskap kæranda gagnvart 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.
Hvað athugasemdir kæranda um leiðbeiningar og upplýsingagjöf varðar er ljóst að úrskurður kærunefndar nr. 576/2024 var birtur fyrir kæranda 30. maí 2024. Í úrskurðinum kom m.a. fram að endurkomubann kæranda yrði fellt úr gildi yfirgæfi hann landið innan 15 daga og þá gæti hann sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins eftir að hafa yfirgefið landið. Um það vísast einnig til athugasemda við ákvæði það er varð að 3. málsl. 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga, sbr. breytingalög nr. 149/2018. Þá var kæranda jafnframt leiðbeint um heimildir til að óska eftir því að endurkomubann verði fellt úr gildi, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Gat kæranda því ekki dulist að frestur til sjálfviljugrar heimfarar leið undir lok eftir 14. júní 2024. Samkvæmt framangreindu er ljóst að atburðarásin sem kærandi lýsti frá 5. til 12. júlí 2024 gat ekki haft þau áhrif að endurkomubann hans yrði fellt niður, með hliðsjón af úrskurði kærunefndar nr. 576/2024. Lokamálsliður 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er afdráttarlaus en ekki er mælt fyrir um undanþágur frá ákvæðinu í lögum um útlendinga eða öðrum lögum.
Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir Valgerður María Sigurðardóttir