Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 490/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 490/2016

Fimmtudaginn 26. janúar 2017

A

gegn

Íbúðalánasjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. desember 2016, kærir A, ófullnægjandi upplýsingagjöf Íbúðalánasjóðs vegna kauptilboðs í fasteign. Kæran var lögð fram hjá innanríkisráðuneytinu en framsend úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi ráðuneytisins, dags. 16. desember 2016.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi kveðst hafa gert eigendum fasteignar í nauðungarsölumeðferð kauptilboð í fasteignina, dags. 28. september 2016. Gögn málsins bera með sér að kauptilboðinu hafi verið tekið. Á fasteigninni hvíldi lán frá Íbúðalánasjóði. Það var umfram kauptilboð kæranda sem nam 21.500.000 kr. og því var sótt um afléttingu veðskulda umfram söluverð hjá sjóðnum. Að sögn kæranda veitti starfsmaður Íbúðalánsjóðs henni „sex vikna samþykkisfrest“ en greindi ekki frá því að fasteignin færi á uppboð þann 5. október 2016. Vegna þessa gat kærandi ekki mætt á uppboðið [framhaldssölu] til þess að bjóða í fasteignina. Kærandi vísar til þess að Íbúðalánasjóður hafi leyst fasteignina til sín fyrir lægri upphæð en kauptilboð hennar hljóðaði upp á. Erindi kæranda fylgdi lýsing á aðstæðum hennar og aðstæðum eigenda umræddrar fasteignar.

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál getur málsaðili skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs, húsnæðisnefndar eða þeirrar nefndar á vegum sveitarfélags sem hefur verið falið verkefni húsnæðisnefndar, til úrskurðarnefndar velferðarmála. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þær ákvarðanir stjórnvalda sem ekki eru teknar í skjóli stjórnsýsluvalds, t.d. þær sem eru einkaréttarlegs eðlis, teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir.

Að mati úrskurðarnefndarinnar varðar mál kæranda ekki Íbúðalánasjóð sem stjórnvald. Að því virtu verður ekki séð að sjóðurinn hafi tekið stjórnvaldsákvörðun sem er kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta