Hoppa yfir valmynd
30. október 2018 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Forsætisráðherra á Northern Future Forum (NFF) og Norðurlandaráðsþingi í Ósló

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á 70. þingi Norðurlandaráðs - myndMarita Lena Hoydal
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók þátt í Northern Future Forum (NFF) í Ósló í dag. Þá átti forsætisráðherra tvíhliða fundi með Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, og Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, í gær þar sem meðal annars var rætt um málefni hafsins og Norðurskautsráðið og einnig báru á góma málefni tengd Brexit, Evrópusambandinu og EES-samningnum.

Þetta er í sjötta sinn sem boðað er til funda undir merkjum Northern Future Forum þar sem forsætisráðherrar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Bretlands komu saman til skoðanaskipta og voru fulltrúar frá atvinnulífi og háskólasamfélagi frá löndunum níu einnig viðstaddir málþingið.

Þróun og nýsköpun á sviði heilsutækni og heilbrigðismála var efni fundarins í ár og voru þrír sérfræðingar af sviði heilbrigðistæknimála með í föruneyti forsætisráðherra að þessu sinni.

Norðurlandaráðsþing verður sett í dag að loknu NFF. Þar mun Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynna formennskuáætlun Íslands. Ísland mun gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019 og leiða norræna samvinnu á næsta ári.

Yfirskrift áætlunarinnar er „Gagnvegir góðir“, sem vísar til þeirra beinu og stuttu samskiptaleiða sem eru innan svæðisins og nýtast almenningi í störfum sínum frá degi til dags. „Þannig liggja sannarlega gagnvegir á milli Norðurlandanna, milli Reykjavíkur og Helsinki, Óslóar og Nuuk, Þórshafnar og Stokkhólms, Kaupmannahafnar og Maríuhafnar,“ segir í sameiginlegum inngangi forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og samstarfsráðherra Norðurlandanna, Sigurðar Inga Jóhannssonar, að formennskuáætluninni.

Í formennskuáætlun Íslands er megináhersla lögð á þrjú lykilatriði sem lúta að ungu fólki, sjálfbærri ferðamennsku og málefnum hafsins, með sérstakri áherslu á bláa lífhagkerfið. Jafnrétti kynjanna, hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og stafræn væðing fléttast jafnframt inn í formennskuverkefnin auk Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Norrænt samstarf á sviði velferðarmála og umhverfismála, samstarf um bætt nýsköpunarumhverfi fyrirtækja og aukinn hreyfanleiki innan Norðurlandanna verða einnig áhersluatriði formennsku Íslands. Forsætisráðherra ræddi sérstaklega um nauðsyn þverfaglegs samstarfs milli Norðurlandanna á sviði velferðarmála, þar sem nýjar áskoranir blasi við hinu norræna velferðarmódeli.
  • 70. þing Norðurlandaráðs - mynd
  • Stórþingið í Ósló - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
5. Jafnrétti kynjanna
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta