Hoppa yfir valmynd
20. júní 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2006

Þriðjudaginn, 20. júní 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. mars 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 16. mars 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 2. febrúar 2006 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Á þeim tveimur almanaksárum (árin 2003-2004) sem samkvæmt 2. mgr. 13 gr. 1. 95/2000 um fæðingar-og foreldraorlof (LFF) á að miða við, var ég í launaðri vinnu frá júlí til desember 2003 og í nóvember og desember 2004. Ég var í fæðingarorlofi frá janúar 2004 til desember fékk ég laun fyrir hálfsdagsvinnu á móti fæðingarorlofinu.

Það er í hæsta máta óeðlilegt að meta meðaltekjur mína vegna réttinda til fæðingarorlofsgreiðslna út frá öðru en launatekjum mínum. Með því að taka inn í útreikninginn það fæðingarorlof sem ég dreifði niður á eitt ár er í senn verið að refsa mér fyrir að dreifa fæðingarorlofinu yfir eitt ár og fyrir að eignast tvö börn með stuttu millibili. Tel ég þetta í algjörri andstöðu við yfirlýstan vilja löggjafans eins og hann kemur fram í LFF. Þar segir í 2. mgr. 10 gr. að foreldri sé heimilt að taka fæðingarorlof samhliða minnkuðu starfshlutfalli og kemur fram að „vinnuveitandi skal leitast við að koma til móts við starfsmann“ sem þess óskar. Í greinargerð með þessari grein í frumvarpi laganna segir að með þessu fyrirkomulagi sé reynt að auðvelda útivinnandi foreldrum bæði mæðrum og feðrum, að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og fjölskyldulífi“. Þannig reynir löggjafinn að stuðla að því að foreldri taki sem lengst hlé frá starfi sínu til að sinna nýju barni. Það hef ég gert, en samkvæmt ákvörðun TR um greiðslur til mín í fæðingarorlofi hefnist heldur betur fyrir það.

Í LFF eins og þau voru upphaflega var í 2. mgr. 13. gr. ákveðið að mánaðarleg greiðsla ætti að nema 80% af heildarlaunum og átti að miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lyki tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofsins. Segir í greinargerð með 13. gr. frumvarpsins sem var að lögum 95/2000, að átt sé við almanaksmánuði. Segir orðrétt: „Hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði skal miða við heildarlaun þess yfir það tímabil sem foreldri hefur unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphaf töku fæðingarorlofs. Er þá að lágmarki unnt að miða við samfellt fjögurra mánaða vinnutímabil vinni foreldri í sex mánuði frá upphafsdag fæðingarorlofs.“ Segir síðar í greinargerðinni að markmið þessa nýja kerfis sé að röskun á tekjuinnkomu heimilanna verði sem minnst þegar foreldrar þurfa að leggja niður störf vegna tilkomu nýs fjölskyldumeðlims sem þarfnast umönnunar þeirra“ Jafnframt er það markmið sett „að foreldrar öðlist ekki lakari rétt en þeir hefðu samkvæmt núgildandi kerfi.“

Breyting á LFF með lögum 90/2004 var m.a. um að miða ætti við tekjur síðustu tveggja almanaksára áður en barn fæðist. Segir greinargerð með 4. gr. frumvarps þess sem varð að lögum 90/2004 að með „lengingu á viðmiðunartímabilinu er talið að meðaltal heildarlauna foreldra endurspegli betur rauntekjur foreldra“ og lögð áhersla á að sjóðnum er „ætlað að bæta foreldrum raunverulegt tekjutap til samræmis við upplýsingar skattyfirvalda“.

TR miðar við það í bréfi sínu frá 2. febrúar 2006 að meðaltekjur mínar árin 2003-2004 hafi verið x kr. á mánuði, en raunverulegt tekjutap mitt þann tíma sem ég ver nú til töku fæðingarorlofs er mun hærri tala, enda er TR þarna að taka með í útreikninginn mánuði sem ég var í fæðingarorlofi sem dreift var yfir eitt ár.

Fráleitt er að líta svo á að ég hafi verið „á vinnumarkaði“ þann tíma er ég tók fæðingarorlof, þann tíma vann ég ekki fyrir launatekjum og innkoma mín er allt önnur og mun lægri en ef ég hefði verið í minni vinnu.

Breytingin sem gerð var árið 2004 á LFF var til þess að gera það erfiðara fyrir (verðandi) foreldra að skipuleggja launagreiðslur til sín með það fyrir augum að fá sem hæstar greiðslur í fæðingarorlofi. Aðeins fáir eru í aðstöðu til slíks, helst þeir sem eru í efri lögum þjóðfélagsins. Ég hef aldrei verið í slíkri aðstöðu. Þykir mér í meira lagi óeðlilegt að breyting sem gerð var til að hindra misnotkun hálaunamanna á fæðingarorlofskerfinu, verði til þess að ég, venjuleg launamanneskja, verði af því að mér sé bætt raunverulegt tekjutap í fæðingarorlofi mínu, eins og er þó margyfirlýst markmið löggjafans.“

 

Með bréfi, dagsettu 27. mars 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 8. maí 2006. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 19. desember 2005, var henni tilkynnt að umsókn hennar hafi verið samþykkt frá 7. desember 2005 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af skráðum meðaltekjum hennar samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2003 og 2004. Bar bréfið með sér að útreikningur greiðslna kæranda væri miðaður við tekjur hennar árin 2003 og 2004.

Samhliða bréfi þessu var kæranda sent annað bréf, dags. 19. desember 2005, þar sem fram kom að af hálfu lífeyristryggingasviðs hefði verið litið svo á að kærandi hefði verið þátttakandi á vinnumarkaði frá janúar til júní 2003 í skilningi laga- og reglugerðarákvæða um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, þrátt fyrir að kærandi hafi verið tekjulaus á tímabilinu samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Kæranda var hins vegar gefinn kostur á, teldi hann sig ekki hafa verið þátttakanda á vinnumarkaði allt tímabilið, að leggja fram gögn til staðfestingar á því.

Þá bárust lífeyristryggingasviði gögn frá B háskóla, dags. 25. janúar 2006, til staðfestingar á námsárangri kæranda á vorönn 2003. Samkvæmt námsgögnum taldist kærandi hafa lokið 15 einingum frá B háskóla á vorönn 2003. Taldi lífeyristryggingasvið því rétt að líta svo á að kærandi hafi ekki verið starfandi á vinnumarkaði frá janúarmánuði 2003 til og með júnímánuði 2003, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Var kæranda send ný greiðsluáætlun, dags. 2. febrúar 2006 til samræmis við nýja útreikninga.

Barn kæranda fæddist 7. desember 2005, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, stofnast réttur til töku fæðingarorlofs við fæðingu barns.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 2. mgr. 13. gr. laganna segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Þá segir einnig að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir enn fremur að mánaðarleg greiðsla til foreldris á innlendum vinnumarkaði, sem sé starfsmaður og leggi niður störf, skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Þar segir einnig að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og að jafnframt teljist til launa þær greiðslur sem koma til samkvæmt a.-d. liðum 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. er síðan talið upp hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði, en skv. a. lið telst þar m.a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum taldist kærandi hafa verið starfandi á innlendum vinnumarkaði, í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, frá júlímánuði 2003 til áramóta 2004. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafði kærandi tekjur allt framangreint tímabil.

Kærandi fer fram á að við útreikning á rétti sínum til greiðslna í fæðingarorlofi verði aðeins teknir með í útreikning á meðaltekjum, þeir mánuðir sem kærandi vann launaða vinnu á tímabilinu, en ekki þeir mánuðir sem kærandi hafði aðeins tekjur frá Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi. Telur kærandi að slíkur grundvöllur mundi betur endurspegla rauntekjur hennar sem foreldris, og með þeirri tilhögun mundi henni í raun verða bætt raunverulegt tekjutap sitt.

Lífeyristryggingasvið dregur ekki í efa að þær tekjur sem fram koma í staðgreiðslukerfi ríkisskattstjóra fyrir tímabilin júlí 2003 til desember 2003 og nóvember 2004 til desember 2004, gefi rétta mynd af rauntekjum kæranda þegar hún stundar fulla vinnu hjá vinnuveitanda sínum. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að þau úrræði og heimildir sem lífeyristryggingasvið hefur til að ákvarða meðallaun foreldris fyrir viðmiðunartímabilið eru skýrt tilgreind í lögum og reglugerð. M.a. kemur fram í a-lið 2. mgr. 3. gr., sbr. 3. ml. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, að orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, skuli teljast til launa sem leggja skal til grundvallar meðaltali heildarlauna skv. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Hefur þessi túlkun lífeyristryggingasviðs á framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum verið staðfestur með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 33/2005, dags. 15. nóvember 2005.

Þá greinir í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004 að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Hefur lífeyristryggingasvið hagað verklagi sínu til samræmis við framangreint ákvæði í þeim skilningi að í því fælist bindandi og tæmandi talning á heimildum til ákvörðunar á tekjugrundvelli foreldris. Fær túlkun þessi einnig stoð í athugasemdum við frumvarp að 5. gr. laga nr. 90/2004 þar sem greinir að gert sé ráð fyrir að einungis verði greitt úr fæðingarorlofssjóði á grundvelli skattframtala, staðgreiðsluskrár og tryggingagjaldsskrár skattyfirvalda.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið að greiðsluáætlun sem send var kæranda með bréfi, dags. 2. febrúar 2006, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 16. maí 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004 skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Samkvæmt 11. mgr. 13. gr. ffl. er félagsmálaráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks teljast til launa auk launa og þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald greiðslur sem koma til skv. a-d liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Greiðslur í orlofi eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr., teljast samkvæmt því með launum við útreikning greiðslna úr Fæðingaorlofssjóði. Samkvæmt því telja greiðslur í fyrra fæðingarorlofi kæranda með launum hennar við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilingi IV., V. og VII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Til þátttöku á vinnumarkaði teljist enn fremur orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr.

Barn kæranda er fætt 7. desember 2005. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árin 2003 og 2004, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Kærandi var á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna frá júlí 2003 til áramóta 2004, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. og 1. og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Greiðslur sem kærandi fékk úr Fæðingarorlofssjóði á viðmiðunartímabilinu skulu lagðar til grundvallar við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eins og önnur laun hennar sbr., 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Enga heimild til undantekninga er að finna í lögunum eða reglugerðinni hvað þetta varðar.Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um breytingu á útreikningi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest. 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslu til A, úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta