Hoppa yfir valmynd
27. júní 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 16/2006

Þriðjudaginn, 27. júní 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 20. mars 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 12. mars 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 2. mars 2006 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Kærandi var á verktakalaunum frá menntamálaráðuneytinu síðustu 6 mánuði fyrir fæðingu barns. Um er að ræða listamannalaun sem veitt eru til þess að listamaður geti stundað list sína eingöngu. Er því óumdeilanlega um fullt starf að ræða eins og fram kemur í meðfylgjandi fylgiskjali frá menntamálaráðuneytinu.

Lægsti starfaflokkur sem listamenn eru settir í hjá ríkisskattstjóra (C5) gerir ráð fyrir lágmarksmánaðarlaunum upp á X kr. og er því ekki í nokkru samræmi við laun myndlistarmanna eins og sannast best á þeirri upphæð sem íslenska ríkið greiðir listamönnum í formi listamannalauna X kr. Þegar búið er að draga launatengd gjöld og rekstrarkostnað frá þeirri upphæð standa eftir laun sem ekki ná 50% af lágmarkslaunum skv. starfaflokki C5 hjá ríkisskattstjóra,

Þrátt fyrir að menntamálaráðuneytið hafi lýst því yfir að listamannalaun séu greiðsla fyrir fullt starf kýs tryggingastofnun að hunsa það og horfir fremur til starfaflokks ríkisskattstjóra, sem ekki er í nokkru samræmi við raunveruleikann, þegar kemur að tekjum listamanna.

Staðreyndin er skýr. Kærandi stundaði fullt starf 6 mán. fyrir fæðingu barns og ætti því að fá fæðingarorlofsgreiðslu samkvæmt því.“

 

Með bréfi, dagsettu 21. mars 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 5. maí 2006. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 5. ágúst 2005, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 1. mars 2006 að telja, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 14. september 2005.

Umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 25. júlí 2005, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 5. ágúst 2005 og staðfesting frá menntamálaráðuneytinu, dags. 21. júlí 2005. Enn fremur lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar hennar upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 13. september 2005, var henni gerð grein fyrir að af upplýsingum úr skrám ríkisskattstjóra væri ráðið að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og henni gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn til staðfestingar á rétti hennar til greiðslna.

Þann 22. september 2005 var móttekin frá kæranda greinargerð hennar til skattstjórans í Reykjavík um reiknað endurgjald sem sjálfstætt starfandi, ásamt greiðslukvittunum.

Lífeyristryggingasvið taldi kæranda enn ekki uppfylla skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, heldur ætti hún þess í stað rétt á fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar. Var kæranda því sent bréf, dags. 3. október 2005, þar sem fram kom að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði væri synjað sökum þess að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir slíkum greiðslum en þess í stað ætti hún rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar. Var kæranda einnig þann 3. október 2005, send greiðsluáætlun yfir greiðslur fæðingarstyrks.

Í tölvupóstssamskiptum við starfsmann lífeyristryggingasviðs og gerði kærandi grein fyrir athugasemdum sínum vegna afgreiðslu umsóknar hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Þann 8. nóvember 2005 barst lífeyristryggingasviði bréf kæranda, ásamt staðfestingu menntamálaráðuneytisins, dags. 25. október 2005, þar sem fram kom að kærandi hefði fengið úthlutuð listamannalaun, sem væru greidd henni tímabilið apríl 2005 til mars 2006 að fjárhæð X kr. á mánuði. Í staðfestingunni kom jafnframt fram að þegar listamenn fái starfslaun sé gerð sú krafa að þeir sinni ekki öðru starfi en list sinni það tímabil sem þér njóti launanna og þannig litið á starfslaunin sem greiðslu fyrir fullt starf.

Þá barst lífeyristryggingasvið enn fremur fyrirspurn frá kæranda í þremur liðum, dags. 29. október 2005, sem svarað var með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 6. desember 2005.

Þann 12. janúar 2006 barst lífeyristryggingasviði bréf kæranda, dags. 29. desember 2005 og skilagrein RSK, dags. 6. desember 2005, sem bar með sér að breytingar hefðu verið gerðar á reiknuðu endurgjaldi kæranda.

Lífeyristryggingasvið sendi kæranda bréf, dags. 24. febrúar 2006, þar sem henni var bent á að þar sem hún hefði ekki gert skil á greiðslu gjalda í tengslum við breytingar á reiknuðu endurgjaldi hennar uppfyllti hún enn ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi gerði skil á tryggingagjaldi í samræmi við breytingar á reiknuðu endurgjaldi hennar og féllst lífeyristryggingasvið þá á að kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Var henni sent bréf þess efnis, dags. 2. mars 2006, þar sem fram kom að henni yrðu greiddar úr Fæðingarorlofssjóði lágmarksgreiðslur sem foreldri í 25 - 49% starfshlutfalli.

Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Enn fremur segir að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miða við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Samfellt starf er skilgreint í 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004, þar sem segir að með samfelldu starfi sé átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um starfshlutfall. Þar segir í 5. mgr.: „Þegar meta á starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skal fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir.“

Barn kæranda er fætt þann 30. september 2005. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er því frá 30. mars fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði tímabilið 30. mars til og með 29. september 2005.

Við mat á því hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði leit lífeyristryggingasvið, á grundvelli 4. mgr. 15. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, til upplýsinga úr skrám ríkisskattstjóra. Samkvæmt upplýsingum úr skrám ríkisskattstjóra sem lágu fyrir þegar umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði var samþykkt, þann 2. mars 2006, fékk kærandi á framangreindu viðmiðunartímabili 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga ekki greiddar tekjur sem starfsmaður en var skráð sem sjálfstætt starfandi í starfaflokk C5 og reiknaði sér mánaðarlega endurgjald að fjárhæð X kr.

Samkvæmt fyrrnefndu ákvæði 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 og þess að í reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2005 segir um starfaflokka og viðmiðunarfjárhæðir, að fjárhæðirnar sem þar séu gefnar upp séu lágmarksviðmiðun fyrir reiknað endurgjald manna sem vinna m.a. við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, taldi lífeyristryggingasvið rétt að fara eftir viðmiðunarfjárhæð mánaðarlauna, X kr. í starfaflokki C5, sem kærandi var skráð í, á þann hátt að viðmiðunarfjárhæðin gæfi upplýsingar um lágmarksviðmiðun fyrir fullt starf (100% starf) vegna þeirra starfa sem kærandi stundaði sem sjálfstætt starfandi.

Á grundvelli þessarar túlkunar lífeyristryggingasviðs á ákvæði 5. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar reiknaðist lífeyristryggingasviði til að kærandi hefði verið í 28% starfshlutfalli á því sex mánaða tímabili sem kveðið er á um í 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga. Þar með taldi lífeyristryggingasvið kæranda uppfylla framangreind skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda á grundvelli 2. og 5. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna, svo og 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, reiknaðist lífeyristryggingasviði svo til að 80% af meðaltali heildarlauna kæranda tvö tekjuár á undan fæðingarári barns hennar, þ.e. tekjuárin 2003 og 2004, væru lægri en lágmarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi sem tilgreindar eru eftir starfshlutfalli í 6. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga, sbr. 7. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sbr. 1.gr. reglugerðar nr. 1148/2005.

Því var það niðurstaða lífeyristryggingasviðs að greiða skyldi kæranda lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eins og þær eru ákvarðar í 6. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga, sbr. 7. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1148/2005, fyrir foreldra í 25-49% starfi þar sem kærandi hafði verið reiknuð í 28% starfshlutfalli.

Rétt þykir að taka fram í þessu sambandi að lífeyristryggingasvið taldi efni framangreinds bréfs menntamálaráðuneytisins, dags. 25. október 2005, ekki geta breytt ofangreindri afstöðu lífeyristryggingasvið um útreikning á starfshlutfalli foreldris byggðri á framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur lífeyristryggingasvið að greiðslur til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði hafi réttilega verið ákvarðaðar í bréfi, dags. 2. mars 2006.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 15. maí 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Ágreiningur í máli þessu varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

Ágreiningslaust er að kærandi uppfyllti skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barns.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.

Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr. Að öðru leyti gildi 2.-4. mgr. eins og við geti átt. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks skal mánaðarleg greiðsla til foreldris sem hefur bæði verið starfsmaður og sjálfstætt starfandi nema 80% af meðaltali heildartekna.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda skil á tryggingagjaldi. Þá teljist enn fremur til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a-d-liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um hvernig meta skuli starfshlutfall foreldris. Þar segir í 1. mgr. að þegar meta eigi starfshlutfall starfsmanns skv. 6. mgr. 13. gr. ffl. skuli fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns. Foreldri sem unnið hafi 86-172 vinnustundir á mánuði teljist vera í 50-100% starfi en foreldri sem unnið hafi 43-85 stundir á mánuði teljist vera í 25-49% starfi. Síðan segir í 5. mgr. 5. gr. að þegar meta eigi starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skuli fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir. Þá segir í 2. mgr. 5. gr. að sé foreldri ekki í sama starfshlutfalli á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns skuli miða við meðaltal starfshlutfalls yfir tímabilið. Þó megi foreldri aldrei vera í minna en 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Kærandi var skráð hjá ríkisskattstjóra sem sjálfstætt starfandi í starfaflokki C5 tímabilið mars til desember 2005 með X kr. í reiknað endurgjald á mánuði. Samkvæmt starfaflokki C5 var viðmiðunarfjárhæð mánaðarlauna X kr. samkvæmt reglum ríkisskattstjóra en ekki verður séð að kærandi hafi sótt um undanþágu frá þeim viðmiðunarreglum. Samkvæmt því má fallast á niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins um 28% starfshlutfall.

Kærandi ól barn 30. september 2005. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna eru því árin 2003 og 2004. Þessi ár var kærandi ekki skráð hjá ríkisskattstjóra sem sjálfstætt starfandi en taldi fram reiknað endurgjald X kr. í skattframtali tekjuársins 2003 og X kr. í framtali tekjuársins 2004. Kærandi hafði vinnulaunatekjur samtals X kr. í nóvember og desember 2003 og samtals X kr. fyrir janúar, febrúar og mars 2004. Aðrar vinnulaunatekjur hafði hún ekki á viðmiðunartímabilinu. Meðal mánaðartekjur af sjálfstæðri starfsemi voru samkvæmt framanrituðu X kr. árið 2003 og X kr. árið 2004. Þegar litið er til fjárhæða í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra verður ekki talið að starfshlutfall kæranda hafi náð 25% þá mánuði sem tekjur voru eingöngu af sjálfstæðum atvinnurekstri kæranda. Samkvæmt því telst hún eingöngu hafa verið í starfi á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, í fimm mánuði á viðmiðunartímabilinu þ.e. mánuðina nóvember og desember 2003 og mánuðina janúar, febrúar og mars 2004.

Með hliðsjón af framanrituðu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafnað. Við útreikning skal eingöngu miða við meðaltal heildarlauna mánuðina nóvember og desember 2003 og mánuðina janúar, febrúar og mars 2004, sbr. 2. og 5. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð greiðslna í fæðingarorlofi til A er hafnað. Við útreikning greiðsla skal eingöngu miða við meðaltal heildarlauna kæranda mánuðina nóvember og desember 2003 og mánuðina janúar, febrúar og mars 2004.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta