Sveitarfélög á tímamótum í dýfu sem reynir á allt samfélagið
,,Sveitarfélögin standa á tímamótum. Lokið er miklu hagvaxtar- og uppgangstímabili í sögu landsins og framundan er dýfa sem mun reyna á allt okkar samfélag," sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra í upphafi ræðu sinnar á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag.
Samgönguráðherra sagði þá kröppu dýfu sem framundan væri kalla á aðhald og niðurskurð í rekstri en um leið nýja forgangsröðun verkefna. Hann sagði einnig brýnt að vinna áfram að eflingu sveitastjórnarstigsins, ekki mætti örvænta, þjóðin myndi vinna sig út úr þessum vanda.
Samgönguráðherra sagði það risavaxið verkefni að endurreisa og endurskipuleggja fjármálastarfsemi landsins og koma henni í eðlilegt horf. Hann sagði það taka nokkurn tíma að ná nauðsynlegum stöðugleika og ástandið myndi bitna á öllum, almenningi, fyrirtækjum og stjórnvöldum, hvort sem væru ríki eða sveitarfélög.
Kristján nefndi nokkur atriði sem unnið hefur verið að í samgönguráðuneytinu, meðal annars nýlega breytingu á reglugerð um eftirlitsnefnd sveitarfélaga sem þýðir að nefndin skuli ekki sjálfkrafa hefja eftirlitsaðgerðir með sveitarfélögum þó að henni berist fjárhagsáætlanir sem sýni halla á næsta ári. Þá sagði hann að óskað hefði verið upplýsinga frá sveitarfélögum um stöðu sveitarsjóða og A-hluta stofnana og sagði það verða gert reglulega áfram.
Samgönguráðherra kvaðst munu beita sér fyrir því þegar fjárlagafrumvarp yrði komið fram að kalla saman fulltrúa úr ráðuneytum heilbrigðis-, félags- og tryggingamála-, menntamála auk samgönguráðuneytis og helstu forystumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga til samráðs um hvernig grunn- og velferðarþjónustan í landinu yrði best varin. Telur hann mikilvægt að fulltrúar ríkisvalds og sveitarfélaga eigi um það náið samráð.
Ráðherra minnti einnig á reglulegt samráð sitt við forystumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem staðið hefur undanfarið og kvaðst skilja óþreyju manna eftir upplýsingum og sagðist munu upplýsa um það sem ríkisstjórn væri að fást við hverju sinni.
Auk Kristjáns L. Möller samgönguráðherra ræddu þær Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar og Eyrún I. Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps, um fjármál og áætlanagerð sveitarfélaga í skugga kreppu og ótryggu umhverfi. |