Ýmsir þættir skattkerfisins til endurskoðunar á næstu árum
Næstu árin verða ýmsir þættir íslenska skattkerfisins til endurskoðunar, til hagsbóta fyrir einstaklinga og fyrirtæki, eins og sjá má í nýframkominni fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið 2019-2023. Þar verður m.a. horft til þess að gera Ísland samkeppnishæfara í alþjóðlegum samanburði, auk þess að gera skattheimtu einfaldari, skilvirkari og sanngjarnari.
Eitt af því sem fyrirhugað er að ráðast í er endurskoðun á skattstofni fjármagnstekjuskatts. Gert er ráð fyrir að sérstökum starfshópi verði falið það verkefni. Óaðskiljanlegur hluti af því verkefni verður kortlagning á þeim aðilum sem í dag eru skattskyldir, þ.m.t. á hvers kyns sjóðum sem undir lögin falla, jafnframt því að horfa til skattareglna í nágrannalöndunum. Ekki er útilokað að beinn stuðningur einstaklinga og lögaðila í formi frádráttar frá tekjuskattstofni komi einnig til skoðunar í því samhengi.
Í tilefni af fyrirspurn Fréttablaðsins um styrktarsjóði sem styrkja rannsóknir og vísindastarf tók ráðuneytið saman eftirfarandi upplýsingar:
Ráðuneytinu hefur borist beiðni Háskóla Íslands þar sem óskað er eftir því að ráðherra beiti sér fyrir að styrktarsjóðum Háskólans verði veitt undanþága frá greiðslu fjármagnstekjuskatts, sbr. undanþágu lífeyrissjóða. Í beiðninni er einnig nefnt að það yrði mjög til bóta fyrir rannsóknarstarf á Íslandi ef einstaklingum og lögaðilum yrði veitt heimild til fulls frádráttar vegna gjafa eða framlaga til rannsóknarstarfa.
Í beiðninni kemur fram að ástæða þess að dregið hafi úr getu sjóðanna til að veita styrki sé einkum tvíþætt. Annars vegar lág ávöxtun fjárfestingarkosta hér á landi og hins vegar komi breytingar á skattlagningu fjármagnstekna mjög illa við sjóðina. Sjóðirnir séu almennt undanþegnir greiðslu tekjuskatts, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sem hafi verið mjög mikilvæg ívilnun á sínum tíma. Ávinningurinn hafi því miður farið fyrir lítið eftir að fjármagnstekjuskattur var innleiddur þar sem sjóðirnir séu ekki undanþegnir honum. Á Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum séu styrktarsjóðir undanþegnir tekjuskatti að fullu, þ.m.t. fjármagnstekjuskatti.
Tekjuskattskylda styrktarsjóða Háskóla Íslands - undanþágur frá greiðslu fjármagnstekjuskatts
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands er undanþegnir greiðslu tekjuskatts á grundvelli 4. og 5. töluliðar 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 4. mgr. 71. gr. laganna kemur aftur á móti fram að lögaðilar sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt áðurnefndum 4. og 5. tölul. 4. gr. skuli greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum skv. 3., 4. og 5. tölul. C-liðar 7. gr. laganna sem og 8. tölul. sama stafliðar 7. gr. að því er varðar söluhagnað af hlutabréfum. Í 5. mgr. 71. gr. eru síðan taldir upp þeir aðilar sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt 4. mgr. 71. gr. en þeir eru:
- Lánasjóður íslenskra námsmanna, Byggðastofnun, Íbúðalánasjóður, Framkvæmdasjóður fatlaðra, Framkvæmdasjóður aldraðra, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Lánasjóður sveitarfélaga ohf., Lánasjóður Vestur-Norðurlanda, Seðlabanki Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Fiskræktarsjóður, lífeyrissjóðir, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og starfstengdir eftirlaunasjóðir sem heimild hafa til að taka á móti iðgjöldum til myndunar eftirlaunaréttar.
- Lánastofnanir sem skattskyldar eru samkvæmt lögum nr. 65/1982, um skattskyldu lánastofnana, með síðari breytingum, en fjármagnstekjur þeirra falla undir almenna skattskyldu samkvæmt þeim lögum.
Þessir aðilar eiga það flestir sammerkt að vera lánasjóðir en ekki styrktarsjóðir og því talið eðlilegt að þeir séu undanþegnir skattlagningu fjármagnstekna, eins og almennt gildir um lánastofnanir, sbr. tölulið 2. Undanþága lífeyrissjóða er hins vegar allt annars eðlis. Þar er um að ræða lögbundin kaup á tilteknum réttindum til úttektar síðar þar sem skattskyldu tekjuskatts er frestað þar til réttindin eru tekin/greidd út.
Líkt og fram kemur að ofan er styrktarsjóði Háskólans ekki að finna í ofangreindri upptalningu og eru þeir því sem slíkir skattskyldir af fjármagnstekjum eftir því sem þær falla til. Undantekningar frá skattskyldu sæta almennt þröngri lögskýringu og taka ekki til annarra en lög afmarka með skilmerkilegum hætti í hverju tilviki.
Væri hins vegar uppi sú hugmynd að útvíkka umrætt undanþáguákvæði gagnvart greiðslu fjármagnstekjuskatts, getur orðið erfitt að ákveða hvar draga eigi mörkin út frá sjónarmiði jafnræðis og fordæmis. Þannig eru aðilar eins og sveitarfélög og stofnanir þeirra, sjúkra- og styrktarsjóðir stéttarfélaga, sjálfseignarstofnanir og minningarsjóðir allir undanþegnir tekjuskatti en greiða hins vegar fjármagnstekjuskatt eins og styrktarsjóðir Háskóla Íslands.
Tillögur tveggja nefnda og breytingar á skattalögum
Fyrir liggur greinargerð nefndar frá árinu 2010 sem skipuð var af félags- og tryggingamálaráðuneytinu sem hafði það hlutverk að fara yfir kosti og galla þess að setja heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana og jafnframt að skoða hvort ástæða væri til að setja heildarlöggjöf um starfsemi almannaheillasamtaka þannig að slík samtök fengju skýrari réttarstöðu sem og rekstrarumhverfi. Nefndin lagði til að hafist yrði handa við gerð löggjafar um félagasamtök sem samhæfa þyrfti núgildandi löggjöf um sjálfseignarstofnanir. Við gerð heildarlöggjafar þyrfti þó að hafa til hliðsjónar hvort ekki væri þörf á að endurskoða skattaumhverfi félagasamtaka.
Á 145. löggjafarþingi 2015-2016 var lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla (þingskjal 1323 – 779. mál). Frumvarpið var byggt á vinnu nefndar sem falið var af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að undirbúa löggjöf um frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheillum. Með frumvarpinu var lagt til að sett yrðu ný heildarlög um félagasamtök sem starfa að almannaheillum. Nefndin skilaði af sér tillögum til ráðuneytisins í formi draga að frumvarpi til heildarlaga um félagasamtök sem starfa að almannaheillum. Það var m.a. niðurstaða nefndarinnar að skattaumhverfi félagasamtaka til almannaheilla ætti, sem annarra félagaforma, sjálfseignarstofnana og sjóða, að ráðast af skattalögum og að rétt væri í framhaldi af vinnu nefndarinnar að huga að samningu nýrra skattalagaákvæða varðandi skatt af aðföngum, arfi og gjafafé. Frumvarpið varð ekki að lögum.
Á sama löggjafarþingi voru með lögum nr. 124/2015, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, þær breytingar gerðar á lögum um tekjuskatt og lögum um erfðafjárskatt að það hlutfall af tekjum af atvinnurekstri, sem ekki má fara yfir við frádrátt einstakra gjafa og framlaga til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, var hækkað úr 0,5% í 0,75%. Þá voru gjafir til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum undanþegnar erfðafjárskatti. Lagabreytingin tók gildi 1. janúar 2016 og var tekið fram í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum að til lengri tíma litið væri stefnt að því marki með þessum lagabreytingum að félagasamtök og sjálfseignarstofnanir gætu í auknum mæli aflað sér fjár án beins stuðnings ríkisins. Ekki þótti réttlætanlegt að fella niður skatt af aðföngum, staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum eða launatengd gjöld félagasamtaka og sjálfseignastofnana sem starfa að almannaheillum. Sama er að segja um skattfrádrátt einstaklinga vegna gjafa. Slíkt var talið geta haft mikið flækjustig í för með sér enda um miklu stærra mál að ræða sem myndi kalla á gífurlegt eftirlit innan skattkerfisins.
Skattaumhverfið í dag
Að lokum er rétt að fram komi að skattaumhverfi félagasamtaka og sjálfseignastofnana sem starfa að almannaheillum er í dag með svofelldum hætti:
Tekjuskattur
Lögaðilar sem bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu og eiga hér heimili, eru undanþegnir skattskyldu ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Félög, sjóðir og stofnanir sem ekki reka atvinnu falla hér undir.
Frá tekjum af atvinnurekstri má draga einstaka gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, þó ekki yfir 0,75% af tekjum skv. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, á því ári sem gjöf er afhent. Einstaklingum er ekki heimill frádráttur frá tekjum sínum.
Launagjöld
Félagasamtök greiða tryggingagjald og lífeyrisiðgjald.
Fjármagnstekjuskattur
Félagasamtök greiða skatt af fjármagnstekjum.
Virðisaukaskattur
Góðgerðarstarfsemi er undanþegin skattskyldu, enda renni hagnaður af henni að öllu leyti til líknarmála. Skilyrði fyrir undanþágu er að starfsemin sé á ábyrgð og fjárhagslegri áhættu aðila og hann hafi fengið staðfestingu ríkisskattstjóra um að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Eftirtalin starfsemi telst góðgerðarstarfsemi samkvæmt ákvæðinu:
- Basarsala, merkjasala og önnur hliðstæð sala góðgerðarfélaga, enda vari starfsemin ekki lengur en í þrjá daga í hverjum mánuði eða í fimmtán daga sé um árlegan atburð að ræða
- Söfnun og sala verðlítilla notaðra muna, enda sé einungis selt til skattskyldra aðila
- Sala nytjamarkaða á notuðum munum sem söluaðili hefur fengið afhenta án endurgjalds
Enginn réttur er til endurgreiðslu af aðföngum til góðgerðarfélaga.
Erfðafjárskattur
Ekki er greiddur erfðafjárskattur af gjöfum sem falla til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum.
Fasteignagjöld
Félagasamtök greiða fasteignagjöld.