Mál nr. 89/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND HÚSAMÁLA
ÚRSKURÐUR
uppkveðinn 11. desember 2019
í máli nr. 89/2019
A
gegn
B
Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur.
Aðilar málsins eru:
Sóknaraðili: A. Umboðsmaður sóknaraðila er C.
Varnaraðili: B.
Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að greiða kostnað að fjárhæð 190.000 kr. á þeirri forsendu að skemmd hafi orðið á parketi á leigutíma.
Varnaraðili krefst þess að viðurkennt verði að henni beri að greiða lægri fjárhæð en sóknaraðili krefur vegna skemmdar sem varð á parketi á leigutíma.
Með rafrænni kæru, sendri 9. september 2019, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 11. september 2019, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 23. september 2019, barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð varnaraðila með bréfi, dagsettu sama dag, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með tölvupósti, sendum 30. september 2019, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 1. október 2019. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með tölvupósti, sendum 11. október 2019, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.
I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning með upphaf leigutíma frá 11. mars 2019 um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila að D. Ágreiningur er um kröfu sóknaraðila vegna viðgerðar vegna skemmda á parketi á leigutíma.
II. Sjónarmið sóknaraðila
Sóknaraðili segir að varnaraðili hafi útskýrt í tölvupósti að skemmd hafi komið á parket vegna ákveðinnar uppákomu sem hafi átt sér stað innan íbúðarinnar. Varnaraðili hafi verið fyrst til að búa í íbúðinni og því engar skemmdir verið fyrir.
Þegar sóknaraðili hafi haft samband við Leiguskjól til að athuga stöðuna á þessu máli hafi honum verið tilkynnt að kröfunni hefði verið hafnað en ekki gefnar nánari skýringar af hálfu varnaraðila, svo sem hvers vegna hún hafi hafnað kröfunni. Sóknaraðili hafi fengið tilboð í verkið þá og hafi nú fengið annað sem sé mjög sambærilegt. Hann geri kröfu um að varnaraðili bæti tjónið.
III. Sjónarmið varnaraðila
Varnaraðili segir að hún hafi hafnað kröfunni vegna ábendingar um að krafan væri of há. Smiður á vegum sóknaraðila hafi farið fram á að keyptar yrðu þrjár pakkningar af parketi en íbúðin sé 47 fermetrar og skemmdin nái ekki sentimetra í stærð. Varnaraðili sé tilbúin að gera málamiðlun, enda sé skemmdin á parketinu algjörlega á hennar ábyrgð. Aftur á móti samþykki hún ekki að greiða kostnað vegna nýrrar parketlagnar á alla íbúðina og sé ósammála því að keyptar verði þrjár pakkningar.
Varnaraðili hafi einnig ráðfært sig við smið og smíðameistara sem báðir hafi sagt það fráleitt að parketleggja upp á nýtt vegna þessarar skemmdar. Þeir hafi báðir ráðlagt henni að fylla upp í gatið í stað þess að parketleggja upp á nýtt.
IV. Athugasemdir sóknaraðila
Í athugasemdum sóknaraðila segir að óásættanlegt sé að úrbætur á parketinu afmarkist eingöngu við þá fjöl sem hafi orðið fyrir beinum skemmdum. Parketið hafi verið í góðu ásigkomulagi fyrir hið bótaskylda atvik og verði að taka mið af því að bótaskyldan lúti að því að halda sóknaraðila tjónlausum vegna tjónsins.
Sóknaraðili hafi einnig ráðfært sig við fagfólk sem hafi staðfest þann skilning að úrbætur á parketinu vegna tjónsins feli í sér víðtækari aðgerðir en varnaraðili leggi til. Eftirfarandi ummæli séu tekin orðrétt fram í tilboði smiðs vegna úrbóta á parketinu:
Skemmd er í parketi inni á miðju gólfi. Til þess að laga það þarf að losa upp gólflista og parketið á stórum kafla og skipta um þessa fjöl sem er skemmd. Óvíst er hvernig gengur að ná parketinu óskemmdu þar sem það er lagt undir eldhúsinnréttingu svo líklegt er að það þurfi að skipta um meira en bara þessa einu fjöl.
V. Athugasemdir varnaraðila
Í athugasemdum varnaraðila segir að hún samþykki að borga vegna skemmdar á parketinu.
VI. Niðurstaða
Í 65. gr. húsaleigulaga segir að nú komi leigusali og leigjandi sér ekki saman um bótafjárhæð vegna skemmda á hinu leigða húsnæði og skal úttektaraðili, sbr. XIV. kafla, þá meta tjónið. Rétt sé þó hvorum aðila að krefjast mats dómkvaddra matsmanna á bótafjárhæðinni innan átta vikna frá því að aðila hafi verið kunn niðurstaða úttektaraðilans. Aðilar gerðu það ekki en í málinu liggja frammi tvö tilboð sem sóknaraðili aflaði vegna viðgerða á umræddri skemmd á parketi. Að teknu tilliti til þeirra, og þess að varnaraðili hefur í athugasemdum sínum fallist á að greiða kostnað vegna skemmdanna með hliðsjón af umræddum tilboðum telur kærunefnd að fallast beri á kröfu sóknaraðila. Varnaraðila ber því að greiða sóknaraðila 190.000 kr. vegna viðgerða á parketinu.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðila ber að greiða sóknaraðila 190.000 kr. vegna skemmda á parketi.
Reykjavík, 11. desember 2019
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson Eyþór Rafn Þórhallsson