Húsnæðisstuðningur ríkisins nemur samtals 19 milljörðum árið 2023
Húsnæðisstuðningur ríkisins mun samtals nema um 19 milljörðum króna á næsta ári. Húsnæðisbætur til leigjenda hækka verulega og eru áætlaðar 9,6 milljarðar króna og vaxtabætur eru áætlaðar 2,7 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir um 4 milljörðum króna í stofnframlög ríkisins til byggingar á hagkvæmum leiguíbúðum innan almenna íbúðakerfisins. Loks verður heimilt að veita 3 milljörðum króna í hlutdeildarlán til þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð og þeirra sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði undanfarin fimm ár.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Það er viðvarandi viðfangsefni að tryggja viðunandi búsetuúrræði fyrir okkur öll. Bæði þau sem kjósa að leigja og þau sem vilja búa í eigin húsnæði. Framlag stjórnvalda til að styðja við gerð kjarasamninga er varða á þeirri leið. Í samstarfi við sveitarfélög í landinu munum við halda áfram á þessari vegferð.“
Húsnæðisbætur til leigjenda hækka
Húsnæðisbætur til leigjanda eru áætlaðar 9,6 milljarðar króna árið 2023 og hækka þær um 2,6 milljarða á milli ára. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækkuðu um mitt ár 2022 og stefnt er að enn frekari hækkun grunnfjárhæða um áramót. Alls er áætlað að 16.800 heimili fái húsnæðisbætur á næsta ári.
Fleiri munu njóta vaxtabóta
Vaxtabætur verða hækkaðar um 600 milljónir króna og munu nema um 2,7 milljörðum á næsta ári. Stefnt er að því að hækka eignarskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu um helming úr 8 milljónum króna í 12 milljónir. Fleiri munu því njóta vaxtabóta en áður.
Hlutdeildarlán til fyrstu kaupenda
Heimilt verður á næsta ári að ráðstafa 3 milljörðum króna til hlutdeildarlána. Stefnt er að því að hækka hámarksverð á íbúðum sem hægt verður að kaupa með hlutdeildarláni og virkja þar með betur það úrræði og auka um leið framboð á íbúðum sem falla undir skilyrði um hlutdeildarlán.
Stofnframlög til hagkvæmra leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins
Húsnæðisstuðningur ríkisins til byggingar og kaupa á hagkvæmum íbúðum innan almenna íbúðakerfisins verður samtals um 4 milljarðar króna. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og sveitarfélögum er heimilt að veita stofnframlög vegna byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði sem ætlað er leigjendum sem eru undir tilteknum tekju- og eignamörkum.
Það er mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) að þessar fjárheimildir mæti þörfum vegna umsókna um stofnframlög á árinu 2023. Hins vegar megi búast við fleiri umsóknum um stofnframlög næstu árum þar á eftir til samræmis við markmið um uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði samkvæmt rammasamningi ríkis og sveitarlega um íbúðauppbyggingu
Fyrri fréttir um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði
- 17. febrúar – Starfshópur um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði skipaður
- 19. maí – Starfshópur um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði kynnti tillögur
- 6. júlí – Starfshópar skipaðir um húsnæðisstuðning og húsaleigulög
- 12. júlí – Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um húsnæðismál undirritaður
- 13. september – Samningar um aukið framboð á húsnæði í undirbúningi