Hoppa yfir valmynd
18. október 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 268/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 268/2017

Miðvikudaginn 18. október 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. ágúst 2016 en framsendri frá Tryggingastofnun ríkisins til úrskurðarnefndar 18. júlí 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2016, annars vegar niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2015 og hins vegar innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins á endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra bóta ársins 2015 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu hennar með bréfi, dags. 21. júní 2016. Kærandi óskaði rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun rafrænt á vefsíðu stofnunarinnar 13. júlí 2016. Umbeðinn rökstuðningur var veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 10. ágúst 2016.

Kæra barst Tryggingastofnun ríkisins rafrænt 20. ágúst 2016. Vegna mistaka hjá stofnuninni var kæran ekki framsend úrskurðarnefnd velferðarmála fyrr en 18. júlí 2017. Með bréfi, dags. 20. júlí 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. ágúst 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að krafa Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta verði felld niður.

Í málsgögnum segir að kærandi eigi ekki að þurfa að endurgreiða örorkubæturnar. Það sem sé forsenda þessa útreiknings séu ekki tekjur kæranda heldur séreign maka hans þar sem hún hafi verið eigandi að hlutabréfi sem hún hafi selt og sé búin að greiða alla skatta af.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að tilkynning um kæru hafi ekki verið framsend til úrskurðarnefndar vegna handvammar hjá stofnunni. Kæran hafi borist stofnuninni bæði eftir að kærandi hafði óskað upplýsinga um hvert ætti að senda kæru og andmælum vegna endurreiknings og uppgjörs á tekjutengdum bótum ársins 2015 hafði verið svarað.

Eftir að kærandi hafi haft samband við Tryggingastofnun í júlí 2017 og óskað upplýsinga um mál sem væru í gangi hafi þau gögn, sem stofnunin hafi haft undir höndum frá þessum tíma, verið framsend til úrskurðarnefndar.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með síðari breytingum sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt um hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni sé svo ekki, sbr. 39. gr. sömu laga, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli stofnunin endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá upplýsingum um tekjur sem komi fram í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur og sé sú meginregla ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Fjármagnstekjur umfram 98.640 kr. á ári, þ.e. tekjur samkvæmt C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, teljist samkvæmt a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar til tekna við útreikning á örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu samkvæmt 18.–19. gr. og 21.–22. gr. laganna. Sé um hjón að ræða skiptist fjármagnstekjur til helminga á milli þeirra við útreikning bótanna. Skipti ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2015 hafi komið í ljós að tekjur kæranda vegna atvinnu og úr lífeyrissjóði hafi verið X kr. hærri en gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætlun ársins en mestu hafi munað um að sameiginlegar fjármagnstekjur þeirra hjóna hafi verið X kr. hærri en gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætlun ársins. Helmingur þeirra hafi reiknast sem tekjur kæranda samkvæmt a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar eða X kr. Þessar tekjur hafi verið yfir þeim mörkum að um greiðslurétt hafi verið að ræða á árinu 2015 að öðru leyti en því að eftir hafi staðið hluti orlofsuppbótar sem greidd hafi verið í júlí og reiknast á grundvelli tekjutryggingar 12 síðustu mánaða, þ.e. að hluta til á grundvelli greiðslna sem kærandi hafi fengið á árinu 2014.

Ofgreiðsla tekjutengdra bóta ársins 2015 hafi því numið X kr. og að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta og áður myndaðrar kröfu í kjölfar breyttrar tekjuáætlunar hafi heildarofgreiðslan numið X kr. Kærandi hafi á tímabilinu september 2016 til júlí 2017 greitt mánaðarlega X kr. inn á ofgreiðsluna og séu eftirstöðvar nú X kr.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja kæranda um X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta vegna ofgreiddra bóta á árinu 2015.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Hin kærða ákvörðun í máli þessu er dagsett 21. júní 2016 og veitti Tryggingastofnun ríkisins rökstuðning vegna hennar 10. ágúst 2016. Kærandi sendi kæru vegna þeirrar ákvörðunar rafrænt til Tryggingastofnunar ríkisins 20. ágúst 2016 en kæran var ekki framsend til úrskurðarnefndar velferðarmála fyrr en 18. júlí 2017. Kærufrestur var þá löngu liðinn samkvæmt framangreindum lagaákvæðum.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Bréf með rökstuðningi vegna hinnar kærðu ákvörðunar er dagsett 10. ágúst 2016 og þar sem kæra barst Tryggingastofnun ríkisins 20. ágúst 2016 er ljóst að kæra barst stofnuninni innan lögboðins kærufrests. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga ber stjórnvaldi sem berst skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er. Samkvæmt gögnum málsins liðu tæplega 11 mánuðir frá því að kæra barst Tryggingastofnun ríkisins þar til úrskurðarnefnd velferðarmála fékk hana í hendur. Að mati úrskurðarnefndar hefði verið unnt að framsenda nefndinni erindið mun fyrr. Fyrir liggur að hefði kæran verið framsend án tafar hefði hún borist nefndinni innan kærufrests. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er því afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, og verður hún því tekin til efnislegrar meðferðar.

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun á árinu 2015. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Í tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun, dags. 4. mars 2015, var gert ráð fyrir launatekjum að fjárhæð X kr., greiðslum frá lífeyrissjóði að fjárhæð X kr., iðgjaldi í lífeyrissjóð að fjárhæð X kr. og óverulegum fjármagnstekjum á árinu 2015. Í áætluninni var kærandi upplýstur um að helmingur fjármagnstekna hjóna hafi áhrif á útreikning hjá hvoru fyrir sig. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun. Samkvæmt 6. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun ríkisins hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 40. gr. Stofnunin hækkaði áætlun um lífeyrissjóðstekjur í X kr. í júní 2015 eftir samanburðarkeyrslu á tekjuáætlun kæranda við upplýsingar skattyfirvalda um tekjur hans og hafði það óveruleg áhrif á bætur hans. Fyrir mistök tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda ekki um þessa breytingu. Bótaréttindi ársins voru reiknuð og greidd miðað við framangreindar forsendur. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2015 voru launatekjur kæranda hins vegar hærri, eða X kr. Þá reyndust fjármagnstekjur umtalsvert hærri en gert hafði verið ráð fyrir en kærandi og maki hans voru samtals með X kr. í fjármagnstekjur. Lífeyrissjóðstekjur reyndust hins vegar lægri eða X kr.

Launatekjur er tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og einnig 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Þá er í a-lið sömu málsgreinar fjallað nánar um tengingu fjármagnstekna við bætur almannatrygginga:

„Tekjur umfram 90.000 kr. á ári skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 17.–19. gr. og 21.–22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“

Með hliðsjón af framangreindu ákvæði er ljóst að helmingur samanlagðra fjármagnstekna kæranda og maka hans að teknu tilliti til frítekjumarks skerðir bótaréttindi kæranda.

Það er á ábyrgð greiðsluþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári, sbr. áðurnefnda 39. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bótagreiðslur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2015 og þá ákvörðun að krefja kæranda um endurgreiðslu þeirrar ofgreiðslu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör vegna tekjutengdra bótagreiðslna A, á árinu 2015 og innheimtu ofgreiddra bóta, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta