Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2022 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta.

Stjórnsýslukæra

Matvælaráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [[A], f.h. [B hf.], dags. 11. maí 2022, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. apríl 2022, um að hafna umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta á Flateyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C].

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. apríl 2022, um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta á Flateyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C] og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 1. apríl 2022, sem birt var á vefsíðu Fiskistofu, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Flateyri í Ísafjarðarbæ en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, sbr. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022. Matvælaráðuneytið hafði þá úthlutað 1.091 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Ísafjarðarbæjar samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 919/2021, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022, sem skiptust á eftirfarandi byggðarlög: Flateyri, 300 þorskígildistonn, Hnífsdalur 178 þorskígildistonn, Ísafjörður 149 þorskígildistonn, Suðureyri 192 þorskígildistonn og Þingeyri 281 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Ísafjarðarbæ með bréfi, dags. 21. desember 2021. Einnig kom til úthlutunar tiltekið magn sem flutt hafði verið frá fyrra fiskveiðiári en samtals komu til úthlutunar 344 þorskígildistonn á Flateyri í Ísafjarðarbæ. Umsóknarfrestur var til og með 15. apríl 2022.

Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn[C] með umsókn til Fiskistofu, dags. 7. apríl 2022.

Hinn 26. apríl 2022 tilkynnti Fiskistofa útgerðum á Flateyri í Ísafjarðarbæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til báta í byggðarlaginu. Kæranda, [B hf.], var tilkynnt að hafnað hefði verið umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta til bátsins [C]. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á því að samkvæmt reglugerð nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022 og auglýsingu nr. 381/2022, um (2.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, sé lágmarksúthlutun 100 kg. Þar sem báturinn [C]nái ekki lágmarksúthlutun sé umsókn um úthlutun byggðakvóta hafnað.

Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til matvælaráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu.

     

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 11. maí 2022, kærði [A] f.h. [B hf.], til matvælaráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. apríl 2022, um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta á Flateyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C].

Í stjórnsýslukærunni segir að í auglýsingu nr. 381/2022 séu sérreglur fyrir úthlutun byggðakvóta á Flateyri þar sem báturinn [C] sé skráður. Skuli fyrst úthluta bátum með frístundaveiðileyfi, sbr. a-lið, 1 þorskígildistonni á bát, 40% af því sem eftir sé skuli skipt jafnt milli annarra skipa, þó ekki meira, í þorskígildum talið, en viðkomandi bátur landaði á fiskveiðiárinu 2020/2021, afganginum skuli skipt hlutfallslega, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, sem landað var innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021. [C] hafi landað a.m.k. 70.000 kg af sæbjúgum á Flateyri fiskveiðiárið 2020/2021, sæbjúgu hafi þorskígildisstuðulinn 0,26 og séu viðmið fyrir úthlutun um 18.000 kg. Í þessum lið í auglýsingu nr. 381/2022 sé ekki tekið sérstaklega fram að aflinn skuli vera miðaður við botnfisk líkt og gert sé í síðasta liðnum. Ekki sé hægt að skilja ákvæðið á annan veg en að heimilt sé að úthluta til þeirra sem landi öðrum tegundum en botnfisk. Þá verði fyrirtæki sem séu með útgerð á fleiri en einum stað ekki að vera með heimilisfesti á öllum stöðum til að vera gjaldgeng til úthlutunar byggðakvóta á mismunandi stöðum.

Engin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni.

Með tölvubréfi, dags. 12. maí 2022, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun, auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 13. maí 2022, segir m.a. að með auglýsingu nr. 381/2022, um (2.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, hafi verið staðfest sérstök skilyrði vegna úthlutunar aflaheimilda í sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ sem gildi m.a. um úthlutun byggðakvóta Flateyrar. Þar komi fram að 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 995/2021 breytist og að skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kunni að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skuli að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylli skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skuli fyrst úthluta bátum með frístundaveiðileyfi, sbr. a-lið, 1 þorskígildistonni á bát, 40% af því sem eftir sé skuli skipt jafnt milli annarra skipa, þó ekki meira, í þorskígildum talið, en viðkomandi bátur landaði á fiskveiðiárinu 2020/2021, afganginum skuli skipt hlutfallslega miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafi þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, sem landað var innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021. Ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. apríl 2022, byggi á því að kærandi hafi ekki landað botnfiskafla í tegundum sem hafi þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021. Á framangreindu tímabili hafi báturinn nær eingöngu landað sæbjúgum og sá afli teljist ekki til botnfiskafla. Fiskistofa hafi stuðst við bréf ráðuneytisins, dags. 21. febrúar 2012, um við hvaða afla eigi að miða við en þar séu taldar upp tilteknar fisktegundir með þorskígildisstuðla. Í 19. gr. laga nr. 116/2006 sé ráðherra falið að reikna þorskígildi fyrir 15. júlí ár hvert fyrir hverja tegund sem sæti ákvörðun um stjórn veiða. Í reglugerð nr. 800/2021, um þorskígildisstuðla fyrir fiskveiðiárið 2021/2022, séu þorskígildisstuðlar m.a. fyrir sæbjúgu. Ákvörðun Fiskistofu taki mið af því að sæbjúgu teljist ekki til botnfiskafla og því hafi [C] ekki uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta.

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum: 1) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. apríl 2022. 2) Tilkynning á vefsíðu Fiskistofu, dags. 1. apríl 2022. 3) Umsókn [B hf.] um byggðakvóta v/[C], dags. 7. apríl 2022. 4) Samantekt landana[C] á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021, af vef Fiskistofu. 5) Tilmæli ráðuneytisins í bréfi, dags. 21. febrúar 2012.

Með tölvubréfi, dags. 20. maí 2022, sendi ráðuneytið kæranda,[B hf.], ljósrit af umsögn Fiskistofu, dags. 13. maí 2022, og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina.

Með tölvubréfi, dags. 25. maí 2022, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá kæranda vegna framangreinds bréfs. Þar segir m.a. að í skilyrðum fyrir úthlutun byggðakvótans séu 40% úthlutunarinnar miðuð við að skipta jafnt á milli báta sem hafi landað, þó ekki meira í þorskígildum talið en báturinn landaði á fiskveiðiárinu 2020/2021. Þar sé ekki skilyrði um að landað hafi verið botnfiskafla líkt og tekið sé fram í síðasta liðnum þar sem afganginum sé úthlutað. Það hvíli skylda á stjórnvöldum að vanda vel til verka og orðalags í auglýsingunni og hljóti það að teljast umsækjanda í hag ef um vafa sé að ræða líkt og í þessu máli. Þess utan sé sérstakt að binda úthlutun sérstaklega við botnfiskafla þar sem að þegar séu tegundir notaðar til viðmiðunar sem ekki falli undir botnfisk, t.d. rækja og humar. Eðlilegt væri því að telja sæbjúgu sem mótframlag og landaðan afla þar sem þau séu reiknuð í þorskígildum og ættu að hafa sömu réttindi og rækja og humar.

 

Rökstuðningur

I.  Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og er kærufrestur tvær vikur frá því tilkynning um ákvörðun barst kæranda. Ákvörðun Fiskistofu er dags. 26. apríl 2022 en kæran barst ráðuneytinu 11. maí 2022, innan kærufrests. Kæran verður því tekin til efnismeðferðar.

 

II. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að á hverju fiskveiðiári sé ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem hér segir: 1. Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. 2. Til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig: a. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski. b. Til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2021 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2021. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skuli að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skuli skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021.

Þá koma fram í reglugerðinni ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 6. gr. o.fl.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 995/2021.

Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Flateyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu nr. 381/2022, um (2.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, en þar segir m.a.: „Ísafjarðarbær (breyting á almennum skilyrðum, breyting á viðmiðun um úthlutun, afmörkun landaðs afla, löndunarskylda innan sveitarfélags heimil með áritun). Ákvæði reglugerðar nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, gilda um úthlutun byggðakvóta Flateyrar, Hnífsdals, Ísafjarðar, Suðureyrar og Þingeyrar með eftirfarandi breytingum: a) Ákvæði a) liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, eða frístundaveiðileyfi skv. 2. tl. 4. mgr. 6. gr. sömu laga, við lok umsóknarfrests. b) Ákvæði 1. málsl. c-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í sveitarfélaginu 1. júlí 2021. c) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal fyrst úthluta bátum með frístundaveiðileyfi, sbr. a-lið, 1 þorskígildistonni á bát, 40% af því sem eftir stendur skal skipt jafnt milli annarra skipa, þó ekki meira, í þorskígildum talið, en viðkomandi bátur landaði á fiskveiðiárinu 2020/2021, afganginum skal skipt hlutfallslega, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, sem landað var innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021 [...].“

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Flateyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 381/2022.

 

III. Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan er það skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022 m.a. að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi sveitarfélagi 1. júlí 2021, sbr. c-liður 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 381/2022. Einnig kemur fram í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021 að það skilyrði eigi þó ekki við ef einstaklingur eða lögaðili geri út fleiri en eitt fiskiskip sem skráð eru í fleiri en einu byggðarlagi. Í þeim tilvikum er heimilt að úthluta aflamarki byggðarlaga til fiskiskipa, sem uppfylla skilyrði a- og b-liða 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar og eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í öðru byggðarlagi en umsókn um byggðakvóta beinist að, ef þeir stunda einnig útgerð með skip sem skráð eru í því byggðarlagi sem þeir hafa heimilisfang í. [B hf.] var með heimilisfang í byggðarlaginu Þorlákshöfn í Sveitarfélaginu Ölfusi þann 1. júlí 2021 samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og gerði út bátana [D] frá Þorlákshöfn í Sveitarfélaginu Ölfusi og [C] frá Flateyri í Ísafjarðarbæ og uppfyllir samkvæmt því framangreind skilyrði 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021.

 

IV. Í stjórnsýslukærunni, dags. 11. maí 2022, eru kröfur kæranda byggðar á því að sæbjúgnaafli hafi ekki verið metinn sem landaður afli samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 381/2022 við úthlutun byggðakvóta á Flateyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C].

Um veiðar á sæbjúgum gilda ákvæði laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Veiðum á sæbjúgum er stjórnað með leyfisveitingum samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997. Þar kemur fram að sé talin þörf á að koma í veg fyrir staðbundna ofnýtingu á tilteknum stofni, óeðlilegan meðafla af öðrum tegundum en veiði beinist að eða önnur óæskileg áhrif veiða geti ráðherra ákveðið að veiðar úr tilteknum nytjastofni eða á tilteknu svæði séu háðar leyfi Fiskistofu. Sama á við ef þörf er á að skipuleggja veiðar úr stofnum sem ekki er stjórnað með skiptingu heildarafla milli einstakra skipa, sbr. 8. gr. laga nr. 116/2006. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skilyrði fyrir veitingu leyfa samkvæmt ákvæðinu.

Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan kemur fram í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 að ráðherra sé heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski með tilteknum hætti og byggir úthlutun byggðakvóta á því ákvæði, sbr. II hér að framan. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 995/2021 kemur fram að skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skuli að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skuli skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021.

Úthlutun byggðakvóta samkvæmt 10. gr. laga nr. 116/2006 og 4. gr. reglugerðar nr. 995/2021 gildir samkvæmt framangreindu einungis um botnfisktegundir og er því einungis heimilt að miða úthlutun byggðakvóta við landaðan botnfiskafla á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021.

Á framangreindu tímabili hefur báturinn [C] eingöngu landað sæbjúgum en umræddur afli telst ekki til botnfiskafla samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 995/2021. Það hefur ekki áhrif á úrlausn þessa máls þótt ráðherra sé falið að reikna þorskígildi fyrir tegundina fyrir 15. júlí ár hvert, sbr. 19. gr. laga nr. 116/2006 og reglugerð nr. 800/2021, um þorskígildisstuðla fyrir fiskveiðiárið 2021/2022. Báturinn [C] hefur því ekki uppfyllt skilyrði framangreindra ákvæða um löndun botnfiskafla sem er skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2021/2022.

Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður kæranda í stjórnsýslukæru og öðrum gögnum geti ekki haft áhrif á niðurstöðu þessa máls.     

Með vísan til framanritaðs og þegar af þeirri ástæðu sem þar kemur fram er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að úthluta af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C] en samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. apríl 2022, um að hafna umsókn kæranda, [B hf.],um úthlutun byggðakvóta til bátsins.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. apríl 2022, um að hafna umsókn kæranda, [B hf.], um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta