Utanríkisráðherra sendir líbanska utanríkisráðherranum samúðarkveðju
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur sent Charbel Wehbe, utanríkisráðherra Líbanons, samúðarkveðjur vegna sprenginganna í Beirút. Ríkisstjórn Íslands mun styðja neyðar- og mannúðarstarf þar með fjárframlagi til samstarfsstofnana Íslands á því sviði.
Í skeytinu sem Guðlaugur Þór sendi Wehbe í morgun er lýst yfir innilegri samúð vegna hörmunganna sem áttu sér stað í líbönsku höfuðborginni á þriðjudag. Hugur íslensku þjóðarinnar væri hjá þeim sem fórust eða liggja nú slasaðir á sjúkrahúsi, auk ástvina þeirra.
Í yfirlýsingu á Twitter í fyrrakvöld, skömmu eftir sprengingarnar, lýsti Guðlaugur Þór yfir sorg vegna atburðanna og hét stuðningi íslenskra stjórnvalda við mannúðarstarf í Beirút.
Deeply saddened by the casualties and destruction caused by the #BeirutExplosions. The footage from #Beirut is truly shocking. #Iceland is ready to provide support to the emergency response. My thoughts are with those suffering.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) August 4, 2020
„Við ætlum að styðja þetta starf með fjárframlagi og á næstu dögum verður ljóst hvar þörfin er brýnust. Núna vinna alþjóðastofnanir að því að meta þörfina á vettvangi og hve umfangsmikil neyðaðstoðin þarf að vera. Í framhaldi af því sjáum við hvar þeir fjármunir sem Ísland leggur til nýtist sem best,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. „Hver sem niðurstaðan verður erum við sannarlega reiðubúin til að leggja okkar að mörkum til stuðnings líbönsku þjóðinni.“
Í dag styðja íslensk stjórnvöld við hjálpar- og mannúðarstarf með almennum hætti víða um heim, meðal annars í Líbanon. Þar má meðal annars nefna rammasamninga við Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (CERF) og samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA). Undir hatti OCHA er svo sjóðurinn Lebanon Humanitarian Fund, sem Ísland hefur líka stutt dyggilega við undanfarin ár. Þá má nefna reglubundin mannúðarframlög til Rauða kross Íslands en undanfarin ár hefur RKÍ unnið að því að efla neyðarheilbrigðisþjónustu Rauða krossins í Líbanon með stuðningi utanríkisráðuneytisins. Með slíkum samningum er alþjóðastofnunum tryggt fé til að bregðast hratt við neyðarástandi hvar sem er í heiminum.
Gera má ráð fyrir að brýn þörf verði fyrir matvælaaðstoð í Líbanon þar sem stærsta höfn landsins varð fyrir geysilegu tjóni auk þess sem miklar matvælabirgðir voru geymdar á hafnarsvæðinu. Þá er ljóst að mikið álag er á heilbrigðiskerfi landsins, sem var nægt fyrir vegna COVID-19 en kórónuveirusmitum hefur fjölgað í landinu að undanförnu.