Hoppa yfir valmynd
9. desember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 61/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 9. desember 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 61/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 28. október 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 7. september 2015, um synjun á umsókn hennar um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði og óskaði eftir frystingu lána. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 7. september 2015, á þeirri forsendu að hvorki fæðingarorlof né tekjulækkun félli undir skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs.  

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 28. október 2015. Með bréfi, dags. 29. október 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 6. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 13. nóvember 2015, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi óskað eftir frystingu á tveimur lánum hjá Íbúðalánasjóði sökum tekjuskerðingar vegna fæðingarorlofs. Hún hafi fengið þær upplýsingar hjá Íbúðalánasjóði símleiðis í janúar 2015 að hægt væri að sækja um frystingu lána vegna fæðingarorlofs.

Kærandi bendir á að hún hafi áður fengið frystingu á lánum hjá Íbúðalánasjóði vegna fæðingarorlofs árið 2013 og telur það því gefa fordæmi fyrir frystingu í hennar tilfelli. Engar lagabreytingar hafi átt sér stað síðan þá. Kærandi tekur fram að eingöngu hafi verið sótt um frystingu á meðan fæðingarorlofi standi, eða til og með september 2016.

  

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs er greint frá því að mál kæranda hafi verið afgreitt í greiðsluerfiðleikanefnd sjóðsins 27. ágúst 2015 en þá hafi legið fyrir greiðsluerfiðleikamat umboðsmanns skuldara. Beiðni kæranda hafi verið synjað á þeirri forsendu að ekki væri um að ræða greiðsluvanda samkvæmt reglugerð nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001 sé skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar að greiðsluerfiðleikar stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Það hafi verið afstaða greiðsluerfiðleikanefndar að lækkun á tekjum vegna fæðingarorlofs félli ekki þar undir. Önnur atriði sem væru tilgreind í ákvörðuninni hefðu því ekki skipt máli við ákvörðun málsins, en þau hefðu ekki getað verið grundvöllur fyrir endanlegri niðurstöðu í málinu heldur kallað á frekari úrvinnslu umsóknar.


IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið í allt að þrjú ár og leggja þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda. Er þar gert að skilyrði að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Samkvæmt 8. mgr. 48. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, er að finna skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð. Þar segir í 1. tölul. 4. gr. að heimilt sé að veita greiðsluerfiðleikaaðstoð stafi greiðsluerfiðleikar af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Þá segir í 2. mgr. 4. gr. nefndrar reglugerðar að sé ástæða greiðsluerfiðleika tímabundin tekjulækkun skuli í mati á greiðslugetu miða við tekjur umsækjanda áður en til tekjulækkunar kom.  

Í greiðsluerfiðleikamati umboðsmanns skuldara frá 27. ágúst 2015, sem lá til grundvallar afgreiðslu Íbúðalánasjóðs, eru ástæður greiðsluerfiðleika sagðar vera tekjulækkun vegna fæðingar barns. Úrskurðarnefndin tekur undir afstöðu Íbúðalánasjóðs um að tekjulækkun vegna fæðingarorlofs falli ekki undir óvænta tímabundna erfiðleika vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða önnur ófyrirséð atvik. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að aðstæður kæranda falli ekki að skilyrðum 2. mgr. 48. gr. laga nr. 44/1998, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, en um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir frestun á greiðslum lána hjá Íbúðalánasjóði. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi áður fengið frystingu á lánum hjá Íbúðalánasjóði vegna fæðingarorlofs árið 2013 en engar lagabreytingar hafi átt sér stað síðan þá. Úrskurðarnefndin bendir á að þrátt fyrir þá staðhæfingu getur kærandi ekki átt tilkall til neins þess sem ekki samrýmist lögum. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 7. september 2015, um synjun á umsókn A um greiðsluerfiðleikaaðstoð er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta