Hoppa yfir valmynd
8. desember 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Góðir fundir með starfsfólki heilbrigðisstofnana

Ráðherra hélt sjö fundi á heilbrigðisstofnunum víðsvegar um land.
Ráðherra hélt sjö fundi á heilbrigðisstofnunum víðsvegar um land.

Náið samráð var haft við heilbrigðisstofnanir við gerð fjárlaga ársins 2012. Velferðarráðherra hélt á dögunum vel heppnaða og fjölsótta fundi með stjórnendum og starfsfólki stofnana víða um land.

Alls voru haldnir sjö fundir.  Þar gerði Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, grein fyrir því hvers vegna grípa hefði þurft til niðurskurðar í heilbrigðismálum, hvernig hefði verið  staðið að málum og ítrekaði að grunnur vinnunnar væru lög nr. 40 um heilbrigðisþjónustu frá 2007. Þá var leitað eftir hugmyndum og samráði við starfsfólk og stjórnendur  á hverjum stað og urðu líflegar umræður um heilbrigðismál á fundunum.
 
Á fundunum benti ráðherra meðal annars á nauðsyn þess að skera niður og rakti gífurlega skuldsetningu hins opinbera í kjölfar hrunsins.  Í máli hans kom m.a. fram  að áætluð vaxtagjöld ársins  2012 gætu staðið undir tveimur þriðju af öllum kostnaði við heilbrigðiskerfið á Íslandi.

Ráðherra rakti niðurskurð á árinu 2011, sem upphaflega var gert ráð fyrir að yrði 3 milljarðar. Eftir samráð við stjórnendur og starfsfólk heilbrigðisstofnana árið 2010 hafi hagræðingarkrafa orðið 1,3 milljarðar króna en tæpum 600 milljónum hafi verið frestað til 2012. Í fjárlögum fyrir 2011 hafi verið lögð áhersla á að hlífa heilsugæslunni og sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu.

Ráðherra benti á að á næsta ári þurfi að verja 150 þúsund krónum af hverri milljón í greiðslu vaxta og nefndi til samanburðar að árið 2006 hafi þessi tala verið 35 þúsund krónur.  Á sama tíma hafi hlutfall fjárveitinga til verkefna sem heyra undir velferðarráðuneytið hækkað úr 28,1% árið 2006 í 34,5% árið 2012, sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs. Ráðherra lagði áherslu á að niðurskurði lyki á árinu 2012, þ.e. hvað varðar heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús.

Hér sjást þau útgjöld sem tilheyra velferðarráðuneytinu á áætluðu verðlagi 2012. Útgjöldin eru framreiknuð með vísitölu samneyslu.

Hér sjást þau útgjöld sem tilheyra velferðarráðuneytinu á áætluðu verðlagi 2012. Útgjöldin eru framreiknuð með vísitölu samneyslu.

 

Útgjöld stofnana á áætluðu verðlagi ársins 2012.

Útgjöld stofnana á áætluðu verðlagi ársins 2012.

Áfram endurskoðun

Ráðherra lagði á fundunum áherslu á að heilbrigðismál yrðu áfram í endurskoðun og að unnið yrði með faglegum hætti að henni. Hann benti í þessu skyni á að sérstakur faghópur fylgdist með áhrifum aðhaldsaðgerða með fundum á heilbrigðsstofnunum.  Þá yrðu stjórnendur heilbrigðisstofnana kallaðir snemma til vegna vinnu við fjárlagafrumvarp.  Ennfremur væri áfram unnin stefnumótandi vinna í samráði við fjölmarga aðila og stefnt að nýrri heilbrigðisáætlun á árinu 2012.

Ætlunin væri að vinna í anda laga um heilbrigðisþjónustu um að landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er unnt að veita, bæði almennri og sérhæfðri.

Á fundunum fór ráðherra yfir starf ráðgjafahóps um skipulag velferðarþjónustu og ráðstöfun fjármuna með aðkomu alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group, en sú vinna hefur staðið yfir á þessu ári.

Í því starfi hefði komið fram að margt í íslenska heilbrigðiskerfinu væri mjög vel gert þótt ýmsar umbætur þyrfti að gera, líkt og að koma á þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu.  Ráðherra lagði mikla áherslu á það á fundunum að gæði og kostnaður færu alls ekki alltaf saman og þakkaði starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar mikilvægt framlag, æðruleysi og dugnað. 

Starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á fundi velferðarráðherra

Fundirnir með ráðherra voru vel sóttir af starfsfólki stofnananna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta