Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 73/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 73/2020

Fimmtudaginn 9. júlí 2020

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. febrúar 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um sértækt húsnæðisúrræði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 31. júlí 2018, sótti kærandi um sértækt húsnæðisúrræði hjá Reykjavíkurborg. Kærandi bíður enn úthlutunar húsnæðis og kærir því drátt á afgreiðslu, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 19. febrúar 2020, var óskað eftir gögnum frá Reykjavíkurborg vegna kærunnar. Umbeðin gögn bárust frá Reykjavíkurborg 24. mars 2020 og voru þau send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. mars 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. maí 2020, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 9. júní 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júní 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að illa sé komið fram við hana á þjónustumiðstöð B. Hún og læknar hennar hafi ítrekað beðið um sértækt búsetuúrræði þar sem hún geti ekki búið ein. Kærandi fái engin úrræði og hún sé neydd til að búa við skelfilegt ofbeldi heima hjá foreldrum sínum. Kærandi leigi félagslega leiguíbúð en hún hafi ekki komið inn í hana í rúmt ár þar sem hún geti ekki verið ein. Í tvö ár hafi tiltekinn starfsmaður á þjónustumiðstöð neitað að taka við símtölum frá henni, enginn svari tölvupóstum hennar og símtölum sé slitið.

Kærandi tekur fram að móðir hennar fái greiddar tvær klukkustundir á dag fyrir að hafa hana heima hjá sér, þrátt fyrir að hún hafi ítrekað greint frá ofbeldinu. Þá gerir kærandi athugasemdir við það að Reykjavíkurborg sendi föður hennar upplýsingar og gögn, þrátt fyrir að hann sé ekki starfsmaður kæranda.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé öryrki og greind með alvarlegan geðsjúkdóm. Á árinu 2018 hafi mál kæranda verið flutt til þjónustumiðstöðvar B en kærandi hafi á þeim tíma fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði í hverfinu. Í samvinnu við kæranda hafi verið gerð umsókn um sértækt húsnæði, dags. 31. júlí 2018, og umsóknin hafi verið samþykkt á biðlista, sbr. bréf þjónustumiðstöðvar, dags. 10. september 2018. Sökum langra biðlista eftir sértæku húsnæði hafi verið rætt við kæranda haustið 2018 um að setja inn stuðning við hana frá fullorðinsteymi þjónustumiðstöðvar B og/eða veita henni utankjarnaþjónustu frá búsetukjarnanum að C en kærandi hafi ekki fallist á það. Kærandi leigi félagslegt leiguhúsnæði sem hún hafi fengið úthlutað 2018 en búi nú á heimili foreldra sinna þar sem hún teysti sér ekki til að búa ein. Kærandi fái stuðning frá þjónustumiðstöð í formi frekari liðveislu en móðir kæranda hafi sinnt þeim stuðningi þar sem ekki hafi reynst unnt að koma á annars konar stuðningi við kæranda þar sem hún vilji litla sem enga tengingu við starfsmenn þjónustumiðstöðvar.

Tekið er fram að umsókn kæranda hafi verið samþykkt á bið eftir sértæku húsnæði fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar raskanir, þjónustuflokk I. Þann 14. febrúar 2019 hafi kærandi verið tilnefnd í kjarna í flokki I að D en ekki fengið húsnæðið þar sem hún hafi verið talin í þörf fyrir næturvakt en þar sé ekki næturvakt. Einnig hafi það verið mat starfsfólks þjónustumiðstöðvar að kærandi væri í þörf fyrir sértækt húsnæði fyrir fólk með geðraskanir, flokkur III, en kærandi hafi ekki verið samþykk því mati. Í framhaldi af flókinni og krefjandi hegðun kæranda í nóvember 2019 til mars [2020] þar sem kærandi hafi ítrekað haft í alvarlegum hótunum í garð starfsmanns þjónustumiðstöðvar B og tölvupóstar frá kæranda hafi numið fleiri tugum á hverjum degi, hafi aftur verið rætt við kæranda um að breyta umsókn hennar úr umsókn um sértækt húsnæði fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir yfir í umsókn um sértækt húsnæði fyrir fólk með geðraskanir. Kærandi hafi samþykkt það og undirritað umsókn um sértækt húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk 4. mars 2020. Kærandi hafi verið metin í þörf fyrir sértækt húsnæði fyrir fólk með geðraskanir, flokk III, og talin í þörf fyrir íbúðarkjarna með sameiginlegri aðstöðu fyrir geðfatlaða. Talið sé að slíkur kjarni mæti betur þörfum kæranda fyrir stuðning, auk þess sem þar sé veitt sólarhringsþjónusta, en kærandi sé í þörf fyrir stuðning að næturlagi. Breytingarnar á umsókninni hafi verið unnar með og í samráði við kæranda. Þann 13. mars 2020 hafi farið fram endurmat á umsókn kæranda og hún metin til 10 stiga. Frá því að umsókn kæranda hafi verið breytt hafi kærandi verið tilnefnd af hálfu þjónustumiðstöðvar í þær íbúðir sem komið hafi til úthlutunar en ekki fengið úthlutun. Á tímabilinu mars til maí 2020 hafi kærandi verið tilnefnd fjórum sinnum í húsnæði fyrir fólk með geðraskanir í flokki III, að E, en ekki fengið úthlutun.

Reykjavíkurborg vísar til þess að um félagslegt leiguhúsnæði gildi nú reglur um félagslegt leiguhúsnæði sem samþykktar hafi verið á fundi velferðarráðs þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019. Reglurnar hafi tekið gildi 1. júní 2019. Í 2. gr. reglnanna sé félagslegu leiguhúsnæði skipt upp í fjóra flokka, þ.e. 1) almennt félagslegt leiguhúsnæði, 2) húsnæði fyrir fatlað fólk, 3) húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 4) þjónustuíbúðir fyrir aldraða, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglnanna. Um framangreinda flokka húsnæðis sé fjallað í sérköflum reglnanna en mismunandi skilyrði eigi við um hvern flokk húsnæðis. Frekari skilgreiningu á húsnæði fyrir fatlað fólk sé að finna í 3. mgr. 2. gr. reglnanna en þar segi meðal annars að húsnæði fyrir fatlað fólk sé íbúðarhúsnæði sem gert hafi verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir tiltekinn hóp fatlaðs fólks. Með húsnæði fyrir fatlað fólk sé átt við húsnæðisúrræði í skilningi reglugerðar nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Húsnæði fyrir fatlað fólk skiptist í sértækt húsnæði og húsnæði með stuðningi. Sértækt húsnæði fyrir fatlað fólk sé ætlað þeim sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum fötlunar og þurfi umfangsmikla aðstoð og stuðning til að geta búið á eigin heimili. Þá sé húsnæði með stuðningi ætlað þeim sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum fötlunar og þurfi nokkurn stuðning til að geta búið á eigin heimili. Sérstaklega sé fjallað um húsnæði fyrir fatlað fólk í III. kafla reglnanna.

Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fari eftir reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og fari fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma. Í 19. gr. reglnanna komi fram að þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar leggi faglegt mat á þær umsóknir sem metnar hafi verið samkvæmt matsviðmiðum með reglunum. Úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá þjónustumiðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum og forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Þegar umsækjandi sé tilnefndur í félagslegt leiguhúsnæði beri eftir atvikum að uppfæra öll gögn miðað við stöðu umsækjanda á þeim tíma. Áður en til tilnefningar komi beri einnig eftir atvikum að framkvæma endurmat samkvæmt matsviðmiðum. Umsækjanda skuli tilkynnt skriflega ef endurmat leiði til breytinga á stigagjöf.

Reykjavíkurborg tekur fram að samþykki á umsókn kæranda um sértækt húsnæði fyrir fatlað fólk sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið hafi því þegar viðurkennt rétt kæranda til að fá úthlutað sértæku húsnæðisúrræði, enda hafi hún verið sett á biðlista eftir slíku úrræði. Það að sveitarfélagið hafi ekki veitt kæranda sértækt húsnæði fyrir fatlað fólk innan ákveðins tímafrests heldur forgangsraði umsækjendum með hliðsjón af þjónustuþörf þeirra og framboði slíks úrræðis feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis feli hins vegar í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 8. mgr. 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, og í þeim tilfellum sé því um að ræða að aftur verði tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu. Jafnvel þótt sveitarfélagið hafi viðurkennt rétt kæranda til að fá úthlutað sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk þá felist ekki í þeirri stjórnvaldsákvörðun að veita beri kæranda umrætt úrræði með skilyrðislausum og tafarlausum hætti. Engin lagaákvæði mæli fyrir um slíka skyldu eða um viðmiðunartímafresti í þessu sambandi, enda verði að telja að slíkt fyrirkomulag væri með öllu óraunhæft. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt á biðlista eftir húsnæði og ekki sé um að ræða fortakslausan rétt til að fá úthlutað húsnæði strax. Umsækjendum um húsnæði fyrir fatlað fólk standi ýmis úrræði til boða á meðan biðtíma standi en nauðsynlegt sé að meta í hverju tilfelli hvaða þjónusta henti viðkomandi umsækjanda. Kærandi hafi á biðtíma fengið þjónustu í formi frekari liðveislu.

Í 9. gr. laga nr. 38/2018 komi fram að fatlað fólk eigi rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem geri því kleift að búa á eigin heimili og stuðli að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu. Af orðalagi ákvæðisins leiði að fatlað fólk, sem uppfylli skilyrði sveitarfélags til að fá sértækt húsnæðisúrræði, kunni að þurfa að bíða í nokkurn tíma eftir því að fá úthlutað slíku úrræði. Með hliðsjón af framangreindu sé því alfarið hafnað að biðtími kæranda eftir sértæku húsnæðisúrræði sé óásættanlegur eða gangi með einhverjum hætti í berhögg við 4. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1993. Lög nr. 38/2018 veiti sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau veiti fötluðu fólki í samræmi við markmið laganna og hvernig aðgengi fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu skuli tryggt. Ekki sé unnt að ráða af lögunum nema að litlu leyti hver hinn efnislegi réttur íbúa sveitarfélags sé í þessum efnum þar eð hann ráðist aðallega af ákvörðun hvers sveitarfélags.

Í samræmi við ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar sé sveitarfélögum tryggður sjálfstjórnarréttur og í honum felist meðal annars það að sveitarfélög ráði hvernig útgjöldum sé forgangsraðað í samræmi við lagaskyldur og áherslur hverju sinni. Stjórnarskráin leggi ekki ríkari eða víðtækari skyldur á herðar sveitarfélögum í þessum efnum heldur en mælt sé fyrir um í fyrrnefndum sérlögum. Með hliðsjón af þeirri sjálfstjórn sem sveitarfélögum sé veitt setji þau sér sínar eigin reglur um rétt íbúa á grundvelli laganna, þar á meðal um umfang og útfærslu þjónustu við fatlað fólk. Lögunum sé því einungis ætlað að tryggja rétt fólks en ekki skilgreina hann, enda sé það verkefni hvers sveitarfélags. Því geti einstaklingar ekki gert kröfu um ákveðna, skilyrðis- og tafarlausa þjónustu heldur helgist framboð hennar af því í hvaða mæli sveitarfélagi sé unnt að veita þjónustuna. Í samræmi við framangreint hafi Reykjavíkurborg sett reglur um félagslegt leiguhúsnæði.

Ljóst sé að uppbygging á húsnæði taki langan tíma, sérstaklega þegar horft sé til þess að þörfin sem byggt sé á í áætlunum sé síbreytileg. Ekki sé horft til aldurs umsóknar við úthlutun heldur raðist þeir fremst í forgangsröðun sem séu í mestri þörf fyrir húsnæðið þegar úthlutun eigi sér stað. Þá hafi ýmis önnur atriði áhrif í þessu sambandi, svo sem ef brottfall af biðlista hafi ekki verið jafn mikið og áætlað hafi verið í upphafi. Það sem geti einnig haft áhrif séu flutningar fólks úr öðrum sveitarfélögum til Reykjavíkur, auk þess sem koma flóttafólks og fleiri hópa geti haft áhrif á biðlistann. Þá hafi slys þar sem fólk verði fyrir miklum og langvarandi skaða haft áhrif á biðlistann. Tafir á framkvæmdum geti einnig orðið vegna ákvæða í skipulagslögum og grenndarsjónarmiða af hálfu íbúa. Þar megi nefna byggingu smáhýsa fyrir heimilislausa og öryggisvistunarúrræði. Þá beri að horfa til þess að ekki sé ætíð unnt að fá framkvæmdaraðila til að reisa húsnæði og það byggist á efnahagsástandi í samfélaginu á hverjum tíma. Auk þess geti afhending verktaka á húsnæði til borgarinnar tafist af ýmsum orsökum. Í þessu samhengi er vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1404/2019 þar sem bið eftir sértæku húsnæðisúrræði sem hafi numið þremur og hálfu ári hafi ekki verið talin óhófleg bið.

Reykjavíkurborg bendir á að þann 7. nóvember 2018 hafi tekið gildi breytingar á reglugerð nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk. Í 8.–10. gr. reglugerðar um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk sé nú kveðið á um biðlista, röðun á biðlista, auk samráðs og úrræða á biðtíma. Upphafleg umsókn kæranda um sértækt húsnæði hafi verið samþykkt áður en framangreindar breytingar hafi tekið gildi. Kærandi sé nú á bið eftir sértæku húsnæði fyrir fólk með geðraskanir í flokki III en hún sé talin í þörf fyrir íbúðarkjarna með sameiginlegri aðstöðu fyrir geðfatlaða. Áætlað sé að næsti íbúðarkjarni í þjónustuflokki III opni í byrjun árs 2021, sbr. uppbyggingaráætlun sértækra húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk sem samþykkt hafi verið á fundi borgarráðs þann 24. ágúst 2017. Umsókn kæranda sé á virkri bið eftir sértæku húsnæði hjá Reykjavíkurborg en ekki sé hægt að fullyrða hvenær að úthlutun komi, en vonast sé til að það verði sem allra fyrst og sé unnið að því að útvega kæranda húsnæði. Á tímabilinu mars 2020 til maí 2020 hafi kærandi verið tilnefnd fjórum sinnum í húsnæði fyrir fólk með geðraskanir í flokki III en ekki fengið úthlutun. Mál kæranda sé því í virkri vinnslu og á þeim tíma sem liðinn sé frá því kærandi hafi sótt fyrst um sértækt húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar hafi kæranda verið boðin þjónusta í formi frekari liðveislu á meðan beðið sé eftir húsnæði. Auk þess sé kærandi með almennt félagslegt leiguhúsnæði á leigu.

Með hliðsjón af framangreindu sé ekki unnt að fallast á að brotið hafi verið gegn 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga þar sem fyrir liggi að umsókn kæranda hafi verið samþykkt á biðlista eftir sértæku húsnæðisúrræði. Þegar til úthlutunar komi sé um að ræða aðra stjórnvaldsákvörðun í málinu, sbr. 8. mgr. 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Því hafi ekki dregist óhæfilega að afgreiða mál kæranda þar sem um tvær aðskildar stjórnvaldsákvarðanir sé að ræða. Þá sé rétt að geta þess að í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga hafi ráðgjafi upplýst kæranda reglulega í viðtölum að tafir yrðu á afgreiðslu máls hennar og að unnið væri að því að útvega kæranda húsnæði. Lögð sé áhersla á að virða þá frumkvæðisskyldu sem lögð sé á herðar sveitarfélögum og fram komi í 32. gr. laga nr. 38/2018. Einstaklingsmiðuð upplýsingagjöf fari fram með samtali við ráðgjafa á þjónustumiðstöðvum. Þegar horft sé til þeirra upplýsinga sem fram komi á biðlistum og í áætlunum sé ekki unnt að telja að þær séu fullnægjandi fyrir þá einstaklinga sem bíði úrræðis. Því sé lögð áhersla á bein samskipti við viðkomandi, oftast í formi reglulegra viðtala, þar sem leitast sé við að svara fyrirspurnum sem fram komi hjá viðkomandi hverju sinni. Staða máls sé könnuð fyrir hvert viðtal og reynt sé eftir megni að koma til móts við þjónustuþarfir umsækjanda á biðtímanum. Í tilfelli kæranda hafi hún fengið þjónustu í formi frekari liðveislu. Kærandi hafi hins vegar, á þeim tæpu þremur árum sem liðin séu frá því að mál hennar hafi flust til þjónustumiðstöðvar B, ekki viljað hitta ráðgjafa á þjónustumiðstöð og því hafi upplýsingar til hennar verið veittar símleiðis, sbr. dagála þjónustumiðstöðvar. Kærandi hafi verið upplýst um þær íbúðir sem hafi komið til úthlutunar á hverjum tíma og hvort hún hafi fengið úthlutun. Þá hafi hún einnig verið upplýst um hvaða íbúðir séu væntanlegar í úthlutun, hafi deildarstjóri þjónustumiðstöðvar upplýsingar um það.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga og að kærandi hafi verið upplýst um þær tafir sem orðið hafa á afgreiðslu á máli hennar. Ljóst sé að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, ákvæðum reglugerðar um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk nr. 370/2016 eða ákvæðum annarra laga.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um sértækt húsnæðisúrræði frá 31. júlí 2018. Umsóknin var samþykkt á biðlista eftir húsnæði í þjónustuflokki I, fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 10. september 2018. Í mars 2020 var umsókninni breytt í umsókn um sértækt húsnæði fyrir fólk með geðraskanir og hún samþykkt sem slík 13. mars 2020. Kærandi bíður enn úthlutunar húsnæðis og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Í III. kafla laga nr. 38/2018 er fjallað um búsetu en þar segir í 1. mgr. 9. gr. að fatlað fólk eigi rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu. Í 2. mgr. 9. gr. kemur fram að fatlað fólk eigi rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. Óheimilt sé að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi.

Í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir kemur fram að ákvörðun um að veita þjónustu skuli taka svo fljótt sem kostur er. Sé ekki unnt að hefja þjónustu strax og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess og hvenær þjónustan verði veitt. Ef fyrirséð er að þjónustan sem sótt var um geti ekki hafist innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal leiðbeina umsækjanda um þau úrræði sem hann hefur á biðtíma og aðra þjónustu sem er í boði. Í 8. gr. reglugerðar nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk er kveðið á um biðlista eftir húsnæðisúrræði. Þar segir:

„Nú hefur umsókn um húsnæðisúrræði samkvæmt reglugerð þessari verið samþykkt en ljóst er að ekki muni unnt að útvega það innan þriggja mánaða, skal þá tilkynna umsækjanda um ástæður tafanna og hvenær fyrirhugað sé að húsnæðisúrræði geti verið tilbúið. Þá skal setja umsókn á biðlista. Þegar umsækjanda er tilkynnt um að hann sé kominn á biðlista skal unnin áætlun um útvegun viðeigandi húsnæðisúrræðis og hvort og þá hvers konar annað úrræði standi umsækjanda til boða á biðtíma.

Sveitarfélag skal leggja biðlista eftir húsnæðisúrræðum til grundvallar við gerð húsnæðisáætlunar samkvæmt lögum um húsnæðismál.“

Í 9. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um röðun á biðlista. Þar segir:

„Raða skal á biðlista eftir sömu sjónarmiðum og koma fram í matsviðmiðum sveitarfélaga. Sveitarfélög skulu kveða skýrt á um það í reglum sínum á hvaða matsviðmiðum skuli byggt, hvernig samþykktum umsóknum skuli forgangsraðað eftir þörf viðkomandi, lengd biðtíma eftir húsnæðis­úrræði og öðrum þeim úrræðum sem standa til boða á biðtíma. Við mat á þörf og forgangi skal sveitarfélag líta til sömu viðmiða og varðandi úthlutun á félagslegu leiguhúsnæði, þar með talið núverandi húsnæðisaðstöðu umsækjanda og hversu brýna þörf viðkomandi hefur fyrir viðeigandi húsnæðisúrræði.“

Þá segir í 10. gr. reglugerðarinnar að sveitarfélag skuli tryggja reglubundið samráð við umsækjanda á biðtíma. Umsækjandi skuli þá upplýstur um stöðu á biðlista, áætlaða lengd biðtíma og þau úrræði sem honum standi til boða á biðtímanum.

Líkt og að framan greinir var umsókn kæranda um sértækt húsnæðisúrræði samþykkt á biðlista eftir húsnæði í þjónustuflokki I, fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir, sbr. ákvörðun þjónustumiðstöðvar frá 10. september 2018. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að sökum langra biðlista eftir sértæku húsnæði hafi verið rætt við kæranda haustið 2018 um að veita henni tiltekinn stuðning/þjónustu en kærandi hafi ekki fallist á það. Kærandi hafi fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði árið 2018 en hún treysti sér ekki til þess að búa ein og því sé hún búsett á heimili foreldra sinna. Kærandi fái stuðning frá þjónustumiðstöð í formi frekari liðveislu en móðir kæranda hafi sinnt þeim stuðningi þar sem ekki hafi reynst unnt að koma á annars konar stuðningi við kæranda þar sem hún vilji litla sem enga tengingu við starfsmenn þjónustumiðstöðvar. Í febrúar 2019 hafi kærandi verið tilnefnd í kjarna í flokki I, en ekki fengið það húsnæði þar sem hún hafi verið talin í þörf fyrir næturvakt en í því húsnæði sé ekki næturvakt. Þá hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að það hafi verið mat starfsfólks þjónustumiðstöðvar að kærandi væri í þörf fyrir sértækt húsnæði fyrir fólk með geðraskanir, flokkur III. Kærandi hafi í fyrstu ekki verið samþykk því mati en síðar undirritað umsókn þess efnis sem hafi verið samþykkt með ákvörðun þjónustumiðstöðvar frá 13. mars 2020.

Samkvæmt þeim skýringum sem Reykjavíkurborg hefur veitt og gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Reykjavíkurborg hafi unnið markvisst í máli kæranda og veitt tiltekna þjónustu á biðtímanum. Með vísan til þess getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ekki er fallist á að afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                              Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta