Ný skýrsla OECD: Kröftugur vöxtur í íslensku efnahagslífi
Góðar horfur eru í íslensku efnahagslífi og hagvöxtur mestur á Íslandi af löndum OECD. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um Ísland, sem birt var í dag. Skýrslur af þessu tagi eru gefnar út á tveggja ára fresti. Mari Kiviniemi, aðstoðaframkvæmdastjóri stofnunarinnar, kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar á blaðamannafundi ásamt Benedikt Jóhannessyni, fjármála- og efnahagsráðherra.
Þótt horfur séu góðar skapar þensla hættu á ofhitnun að mati OECD. Stofnunin telur því mikilvægt að auka aðhald í opinberum fjármálum og að peningastefnan verði viðbúin að bregðast við auknum verðbólguvæntingum.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:
Markverður viðsnúningur frá efnahagshruninu og mikilvægt er að varðveita þjóðhagslegan stöðugleika
- Hagvöxtur á Íslandi er sá mesti meðal ríkja OECD en lítil, opin hagkerfi eins og Ísland eru viðkvæm fyrir breyttum aðstæðum og hagsveiflur eru því miklar.
- Jafnvægi hefur náðst í þjóðarbúskapnum og fjármagnshöftum verið aflétt að mestu.
- Þrátt fyrir þenslu hefur verið dregið úr aðhaldi í ríkisfjármálum.
- Hagstæðar ytri aðstæður hafa auðveldað peningastefnunni að halda verðbólgu lágri.
- Gífurleg fjölgun ferðamanna, varfærin efnahagsstefna og hagstæðar ytri aðstæður hafa leitt gríðarlegan viðsnúning frá efnahagshruninu.
- Ísland er jafnréttissinnað þjóðfélag með öflug stéttarfélög og lítinn ójöfnuð.
- Mikil hækkun launa og eignaverðs hefur leitt kröftuga innlenda eftirspurn, sem er ekki drifin af vexti útlána.
Sjálfbærni ferðaþjónustu
- Mikill uppgangur í ferðaþjónustu hefur skapað ný störf, aukið skatttekjur og leitt til innflæðis gjaldeyris.
- Ýmsir vaxtarverkir hafa komið upp samhliða aðlögun þjóðarbúsins að auknu umfangi ferðaþjónustunnar. Sérstaklega hefur húsnæðisverð hækkað mikið, enda bregst framboð treglega við aukinni eftirspurn á húsnæðismarkaði. Mikill fjöldi ferðamanna veldur þrýstingi á umhverfið og innviðir eru víða ófullnægjandi.
- Mikill fjöldi ferðamanna hefur stuðlað að styrkingu íslensku krónunnar sem veldur útflutningsgreinum erfiðleikum.
Miklar launahækkanir hafa farið fram úr framleiðnivexti
- Á Íslandi eru lífskjör góð, fátækt lítil og lífeyriskerfi sjálfbært.
- Stéttarfélög eru öflug og mikill árangur hefur náðst til að vernda lægst launuðu hópana á krepputímum.
- Engu að síður hafa verkföll ýmissa starfsstétta og miklar launahækkanir aukið verðbólguþrýsting og ógnað alþjóðlegri samkeppnishæfni, einkum á tímum minnkandi framleiðni. Að efla traust meðal aðila á vinnumarkaði og auka samhæfingu myndi gera samningaviðræður skilvirkari og hjálpa til við að viðhalda ávinningi fyrir komandi kynslóðir.
Helstu tilmæli OECD:
Efnahagsmál
- Til að draga úr hættu á þenslu, sem myndi leiða til hertari peningastefnu, þarf að gæta aðhalds í ríkisfjármálum.
- Draga úr skammtímasveiflum á gjaldeyrismarkaði. Nýta þjóðhagsvarúðartæki til að varna óstöðugleika vegna skammtíma fjármagnsflæðis.
- Stofnaður verði þjóðarsjóður (e. Sovereign wealth fund). Sjóðurinn ætti að fjárfesta erlendis og úttektir að takmarkast við veruleg áföll.
Ferðaþjónusta
- Ferðaþjónustan veldur þrýstingi á innviði, samfélag og náttúru. Mælt er með stefnumótun þvert á ráðuneyti með aðkomu hagsmunaaðila til að stuðla að sjálfbærni.
- Afnema núverandi skattaívilnanir á ferðaþjónustu með því að færa hana í almennt þrep virðisaukaskatts.
- Takmarka fjölda gesta á viðkvæmum stöðum. Taka upp þjónustu/notendagjöld til að stýra flæði fólks og álagi á umhverfið.
- Mælt er með að nota kostnaðar-og ábatagreiningu við mat fjárfestingarkosta þar sem tekið er tillit til samfélags- og umhverfissjónarmiða.
- Tryggja þarf samræmi í stefnumótun í samgöngum og ferðaþjónustu.
- Bæta hagfræðilega greiningu á ferðaþjónustu með betri gögnum og rannsóknum.
Vinnumarkaður
- Til að tryggja að traust ríki þurfa allir aðilar að taka virkan þátt í Þjóðhagsráði.
- Stofna tæknilega nefnd til að veita áreiðanlegar og hlutlausar upplýsingar til samningsaðila.
- Semja ætti um svigrúm til launahækkana í upphafi hverrar samningalotu og halda sig innan þess.
- Auka þarf heimildir ríkissáttasemjara til að fresta aðgerðum á vinnumarkaði til að gefa viðsemjendum aukinn tíma og freista þess að ná samningum.