Mál nr. 2/2002: Dómur frá 28. maí 2002.
Ár 2002, þriðjudaginn 28. maí, var í Félagsdómi í málinu nr. 2/2002:
Bifreiðastjórafélagið Sleipnir
(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)
gegn
Samtökum atvinnulífsins f.h.
Samtaka ferðaþjónustunnar vegna
Kynnisferða sf.
(Ragnar Árnason hdl.)
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R
Mál þetta var dómtekið 6. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Stefnandi er Bifreiðastjórafélagið Sleipnir, kt. 600269-2409, Mörkinni 6, Reykjavík.
Stefndi er Samtök atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Kynnisferða sf., kt. 620372-0489, Vesturvör 6, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:
-
Að viðurkennt verði að með því að segja upp störfum Óskari Stefánssyni, Reynihvammi 19, Kópavogi, og Birni Briem, Hjarðarhaga 64, Reykjavík, félagsmönnum í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni og starfsmönnum hjá Kynnisferðum sf., þann 1. janúar 2002, og hafa á sama tíma í störfum sem fólksflutningabifreiðastjóra félagsmenn í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur hafi Kynnisferðir brotið gildandi kjarasamning milli aðila.
-
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað vegna meðferðar málsins fyrir Félagsdómi þ.m.t. kostnað stefnanda af virðisaukaskattsskyldri lögmannsþjónustu.
Dómkröfur stefnda
Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.
Málavextir
Í gildi er kjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins (SA) annars vegar og Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis hins vegar sem gerður var 5. júlí 2001 og hefur hann gildistíma til 30. nóvember 2004.
Í 5. kafla kjarasamningsins er fjallað um forgangsrétt til vinnu. Þar segir svo:
"Bifreiðastjórar í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni skulu hafa forgangsrétt til starfa samkvæmt kjarasamningi þessum.
5.1.1. Vinnuveitendur hafa ávallt frjálst val um það, hvaða félagsmenn þeir taka í vinnu.
5.1.2. Fastráðnir starfsmenn skulu ganga fyrir um aukavinnu, enda séu þeir
tiltækir og hafi tilkynnt það, enda gangi það ekki á svig við ákvæði
samningsins um hvíldartíma."
Fyrir undirritun kjarasamningsins var af hálfu Samtaka atvinnulífsins gerð svofelld bókun vegna ákvæðisins:
"Í nýjum kjarasamningi aðila dags. 5. júlí 2001 er forgangsréttarákvæði, þar sem ljóst er að ákvæði eldri samnings um aðildarskyldu er í andstöðu við gildandi lög.
Í hinu nýja ákvæði er forgangsréttur Bifreiðstjórafélagsins Sleipnis viðurkenndur samkvæmt kjarasamningi þess við SA. Þetta samningsákvæði breytir ekki rétti annarra stéttarfélaga samkvæmt kjarasamningum þeirra við SA og rétti félagsmanna þeirra til starfa.
Um samhliða forgangsrétt fyrrgreindra stéttarfélaga er því að ræða vegna bifreiðastjóra hópferða- og sérleyfisbifreiða. "
Samninganefnd Sleipnis fjallaði um þessa bókun og tók afstöðu til hennar með annarri bókun og segir þar m.a.:
"Í tilefni af þessari bókun vill Bifreiðastjórafélagið Sleipnir taka fram að samningar SA við önnur stéttarfélög um störf hópferða- sérleyfisbifreiða eru Bifreiðastjórafélaginu Sleipni óviðkomandi. "
Eftir framlagningu þessara bókana var kjarasamningurinn undirritaður.
Þann 26. september 2001 sendu Kynnisferðir sf. tveimur starfsmönnum sínum, þeim Birni Briem og Óskari Stefánssyni, uppsagnarbréf. Þeir eru báðir fullgildir félagsmenn í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni og Óskar Stefánsson hefur verið formaður félagsins um árabil. Í uppsagnarbréfunum, sem voru samhljóða, kom fram að hér með væri þeim sagt upp starfi hjá Kynnisferðum sf. með lög- og samningsbundnum fyrirvara. Uppsagnarfrestur samkvæmt samningi væri þrír mánuðir frá dagsetningu að telja og síðasti starfsdagur samkvæmt því 31. desember 2001.
Af hálfu Kynnisferða sf. var ástæða uppsagnanna tilgreind sú að samdráttur væri hjá fyrirtækinu í tengslum við minnkandi umsvif í flugrekstri. Ef ekki yrði af fyrirsjáanlegum samdrætti í fluginu yrðu uppsagnirnar dregnar til baka.
Alls mun tíu bifreiðastjórum hjá Kynnisferðum sf. hafa verið sagt upp á greindum tíma, sbr. bréf SA, dags. 15. nóvember 2001, til lögmanns stefnanda. Nokkrum úr hópi bifreiðastjóra, sem ekki eru félagsmenn í Sleipni, heldur í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur (VR), var ekki sagt upp störfum og starfa þeir enn í dag sem bifreiðastjórar hjá Kynnisferðum. Þessir menn eru:
Jakob Þorsteinsson, kt. 060944-2109 Jónas Jakobsson, kt. 120858-2979
Ómar Hafliðason, kt. 110343-0009 Guðlaugur Þórarins., kt. 250950-4119
Anton Óskarsson, kt. 080347-4729 Bjarni Már Gíslason, kt. 231255-2659
Elvar Halldórsson, kt. 140170-5939 Björn Ingi Jónsson, kt. 220674-3479
Lúðvík Eggertsson, kt. 220464-2029 Sveinn Matthíasson, kt. 200671-5629
Vegna þessa ritaði stefnandi Kynnisferðum sf. bréf, dags. 2. nóvember 2001, þar sem rakin voru sjónarmið stefnanda þess efnis að VR hefði ekki gert kjarasamning og væri ekki aðili að kjarasamningi fyrir launþega sem starfa við stjórn fólksflutningabifreiða. Þá var óskað skýringa á því hvers vegna forgangsréttarákvæði kjarasamningsins væru ekki virt við uppsagnir bifreiðastjóra hjá fyrirtækinu.
Í bréfi SA, dags. 15. nóvember 2001, var þessu svarað með því að rekja tilurð breytts orðalags á forgangsréttarákvæði í kjarasamningi og ástæðu breytingarinnar sem hafi verið sú að eldra forgangsréttarákvæði hafi gert ráð fyrir skylduaðild að Bifreiðastjórafélaginu Sleipni. Þá sagði að forgangsréttur Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis til starfa samkvæmt kjarasamningi þess væri því á engan hátt meiri en forgangsréttur annarra stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) samkvæmt kjarasamningum þeirra við SA.
Ágreiningur í málinu snýst um það hvort Kynnisferðum sf. hafi verið rétt að segja upp störfum félagsmanna í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni á sama tíma og félagsmönnum VR var ekki sagt upp störfum.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveður mál þetta höfðað fyrir Félagsdómi á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Stefnandi höfðar málið fyrir hönd Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis með vísan til aðildarreglna 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938, en eins og fram komi í rafrænu bréfi frá ASÍ telji ASÍ ekki ástæðu til þess að sambandið reki málið í sínu nafni. Samtökum atvinnulífsins, Garðastræti 41, 101 Reykjavík, f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar, Hafnarstræti 20, 101 Reykjavík, sé stefnt í málinu vegna Kynnisferða sf., Vesturvör 6, Kópavogi.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi, Kynnisferðir sf., séu bundnar af kjarasamningi SA við Bifreiðastjórafélagið Sleipni. Í þeim kjarasamningi sé kveðið á um forgangsrétt í 5. kafla. Þar segi svo:
"Bifreiðastjórar í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni skulu hafa forgangsrétt til starfa samkvæmt kjarasamningi þessum.
Vinnuveitendur hafa ávallt frjálst val um það, hvaða félagsmenn þeir taka til vinnu.
Fastráðnir starfsmenn skulu ganga fyrir um aukavinnu, enda séu þeir tiltækir og hafi tilkynnt það, enda gangi það ekki á svig við ákvæði samningsins um hvíldartíma."
Stefnda, Kynnisferðum sf. sé því ekki heimilt að segja upp tveimur félagsmönnum í Sleipni á sama tíma og þeir hafi áfram í störfum hjá sér hóp manna sem séu félagsmenn í stéttarfélagi sem hafi ekki einu sinni gert kjarasamning við SA um þau störf sem hér séu til umfjöllunar, stjórn fólksflutningabifreiða.
Slíkt sé brot á þeim kjarasamningi sem þeir séu bundnir af gagnvart Bifreiðastjórafélaginu Sleipni.
Varðandi málskostnað er vísað í 65. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 130. gr. eml. nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi telur að Samtökum atvinnulífsins sé stefnt f.h. Kynnisferða sf.til að þola dóm um mörk samningssviðs Sleipnis annars vegar og Verslunarmannafélags Reykjavíkur hins vegar. Telur hann því að eðlilegt hefði verið að stefnandi stefndi einnig VR í máli þessu til að þola dóm um þetta álitaefni, þar sem dómur í málinu hafi bein áhrif á réttarstöðu félagsmanna þess félags.
Sýknukrafa stefnda er á því byggð að ákvæði kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Sleipnis um forgangsrétt til vinnu takmarki ekki rétt stefnda til uppsagna. Kveðst stefndi byggja það á orðalagi og forsögu ákvæðisins, eðli forgangs- réttarákvæða og túlkun þeirra í ljósi l. og 2. mgr. 74. gr. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE).
Eldra forgangsréttarákvæði Sleipnissamningsins og dómar Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2000.
Stefndi kveður ákvæði um forgangsrétt hafa verið í kjarasamningi SA og Sleipnis frá 21. júní 1997, sem féll úr gildi 15. febrúar 2000. Ákvæðið hafi hljóðað þannig:
"Um forgangsrétt til vinnu
Óheimilt er að taka eða hafa aðra bifreiðastjóra til aksturs sérleyfis- eða hópferðabifreiða en þá sem eru félagsmenn stéttarfélaga innan ASÍ. Þó skulu bifreiðastjórar búsettir á félagssvæði Sleipnis vera í Sleipni. "
Hinn 8. júní 2000 hafi félagsmenn í Sleipni farið í verkfall. Eftir verkfallið hófst ágreiningur um túlkun forgangsréttarákvæða kjarasamningsins. Að mati stefnanda hafi félagsmönnum í öllum öðrum stéttarfélögum en Sleipni verið óheimilt að aka hópferða- eða sérleyfisbifreiðum. Hinn 9. júní hafi sýslumaðurinn í Reykjavík lagt lögbann á verkfallsvörslu Sleipnis vegna starfsmanna tveggja fyrirtækja, Teits Jónassonar ehf. og Austurleiðar hf.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafi staðfest lögbannið með tveimur dómum 14. júní 2000, í málunum nr. 4691/2000 og 4692/2000. Sú staðfesting hafi einnig tekið til bifreiðastjóra í VR (mál nr. 4691/2000). Sleipnir hafi áfrýjað þessum dómum en síðan fallið frá áfrýjun, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 13. desember 2000, mál nr. 303/2000 og 304/2000.
Niðurstaða héraðsdóms hafi verið sú að framangreint ákvæði um skylduaðild að Sleipni stangaðist á við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til að standa utan félaga. Ákvæðið um forgangsrétt félagsmanna stéttarfélaga innan ASÍ hafi hins vegar ekki verið talið andstætt stjórnarskrá. Ákvæðið hafi verið talið binda hendur atvinnurekenda á þann hátt að þeim væri óheimilt að ráða aðra til aksturs en þá sem væru í einhverju aðildarfélagi ASÍ og hafi jafnframt veitt þeim mönnum forgang um vinnu fram yfir þá sem ekki væru í stéttarfélagi sem ætti aðild að ASÍ. Síðan segi í forsendum dómsins: "Ekki er kveðið á um það að viðkomandi stéttarfélag þurfi að semja sérstaklega um kaup og kjör þeirra félagsmanna sinna er aka sérleyfis- eða hópferðabifreiðum. "
Jafnframt hafi héraðsdómur talið að félagsmenn Sleipnis hafi í raun ekki haft forgangsrétt á félagssvæði Sleipnis. Árum saman hafi viðgengist að til aksturs hópferðabifreiða hafi verið ráðnir bifreiðastjórar búsettir á félagssvæði Sleipnis sem ekki hafi verið í félaginu. Sleipnir hafi ekki framfylgt samningsákvæðinu um félagsaðild að Sleipni nema að litlu leyti.
Í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms hafi stefndi, Kynnisferðir sf., talið það vera undir hverjum og einum starfsmanni komið hvernig aðild að stéttarfélagi skyldi háttað. Óheimilt væri að þvinga starfsmenn gegn vilja þeirra til aðildar að tilteknu stéttarfélagi. Túlka skyldi allan vafa starfsmönnum í vil.
Stefndi, SA, hafi þann 13. apríl 2000 gert kjarasamning við Starfsgreinasamband Íslands og hafi þar verið sérkafli um störf bifreiðastjóra hópferða- eða sérleyfisbifreiða. Samningurinn hafi náð til alls landsins, að undanskildu samningssvæði Flóabandalagsins, þ.e. Eflingar, Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis. SA hafi síðan gert sérkjarasamning 29. nóvember 2000 um störf hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra við Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og 4. janúar 2001 við Hlíf. Stefnandi hafi kært samningsgerð þessa til ASÍ og hafi krafist þess að miðstjórn ASÍ tæki fyrir ágreining um samningssvið aðildarfélaga sinna. ASÍ hafi ekki talið ástæðu til að bregðast við þeirri málaleitan.
Í kjarasamningi SA og Sleipnis frá 5. júlí 2001 hafi verið fyrrgreint ákvæði um forgangsrétt félagsmanna Sleipnis til starfa samkvæmt kjarasamningi Sleipnis. Eftir framlagningu bókana vegna ákvæðisins hafi kjarasamningurinn verið undirritaður. Ekki hafi verið rætt um við samningsgerðina að VR hefði hér aðra stöðu en önnur félög ófaglærðra sem væru með bifeiðastjóra innan sinna raða.
Stefndi, Kynnisferðir sf., reki svokallaða flugrútu milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Við undirritun kjarasamningsins 5. júlí 2001 hafi félagsaðild bifreiðastjóra hjá stefnda verið sem hér segir:
16 í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur.
14 í Sleipni.
5 í Eflingu.
4 í öðrum stéttarfélögum
Engir bifreiðastjórar hafa verið ráðnir til starfa frá júní 2001.
Í kjölfar mikils samdráttar í flugi haustið 2001 hafi félagið sagt upp átta starfsmönnum, þar á meðal tveimur félagsmönnum í Sleipni. Hafi þá komið upp ágreiningur um túlkun nýja forgangsréttarákvæðisins samkvæmt fyrrgreindum kjarasamningi aðila.
Ákvæðið um skylduaðild að Sleipni á félagssvæði Sleipnis hafi hvorki verið skilið bókstafslega af atvinnurekendum né stéttarfélaginu sjálfu. Þess hafi verið fjölmörg dæmi að bifreiðastjórar á félagssvæðinu væru félagsmenn í öðrum stéttarfélögum. Hafi það verið látið óátalið af hálfu stefnanda.
Þegar verkfall stefnanda hófst 8. júní 2000 hafi aðgerðir beinst að akstri hópferðabifreiða þar sem við störf hafi verið bifreiðastjórar sem ekki hafi átt aðild að stefnanda heldur öðrum stéttarfélögum s.s. Eflingu, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis, Boðanum, Þór, Rangæingi og VR. Öll þessi stéttarfélög hafi verið starfandi á félagssvæði stefnanda, eins og félagið skilgreini það í samþykktum sínum. Að beiðni hlutaðeigandi fyrirtækja hafi sýslumaðurinn í Reykjavík lagt lögbann við þessum aðgerðum Sleipnis. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi staðfest lögbannið, einnig hvað varðar félagsmenn í VR. Stefnandi hafi sætt sig við dóminn þar sem hann hafi fellt niður áfrýjun sína til Hæstaréttar.
Af dómum héraðsdóms megi ráða að VR hafi átt samhliða forgangsrétt til vinnu hjá stefnda, Kynnisferðum sf., ásamt öðrum aðildarfélögum ASÍ og að VR hafi ekki þurft að semja sérstaklega um kaup og kjör bifreiðastjóra til að teljast "bifreiðastjórafélag". Með dómunum hafi verið staðfestur skilningur sem atvinnurekendur hafi haft um áraraðir.
Nýtt forgangsréttarákvæði samkvæmt kjarasamningi SA og Sleipnis 5. júlí 2001
Eftir dóma Héraðsdóms Reykjavíkur hafi réttarstaðan verið sú að kjarasamningur SA og Sleipnis hafi ekki haft að geyma lögmætt ákvæði um forgang félagsmanna Sleipnis til starfa. Félög innan ASÍ hafi hins vegar notið réttar til þessara starfa á grundvelli kjarasamnings Sleipnis, áralangrar framkvæmdar og forgangsréttarákvæða í eigin kjarasamningum. Ljóst hafi verið að Samtök atvinnulífsins og Sleipnir hafi ekki getað, með lögmætum hætti, fellt niður þennan rétt til starfa, sem m.a. sé verndaður af 75. gr. stjórnarskrárinnar.
Sleipnir hafi ekki mótmælt skilningi SA um samhliða forgangsrétt og rétti félagsmanna annarra stéttarfélaga til starfa. Við undirritun kjarasamningsins 5. júlí 2001 hafi 16 félagsmenn VR starfað sem bifreiðastjórar hjá stefnda og hafi stefnandi ekki gert fyrirvara um minni rétt þeirra til starfa. Bókun Sleipnis sé undirrituð af 9 mönnum, þar af séu 8 starfsmenn stefnda, Kynnisferða sf. Við samningsgerðina hafi Sleipni verið fullkunnugt um stöðu félagsaðildar hjá stefnda.
Réttur annarra stéttarfélaga til starfa bifreiðastjóra.
Bifreiðastjórafélagið Sleipnir hafi aldrei átt óskoraðan forgangsrétt til starfa bifreiðastjóra hópferðabifreiða. Almenn félög verkafólks hafi einnig talið sína kjarasamninga ná til þessara starfa, jafnvel þótt ekki hafi verið gerðir sérkjarasamningar um kjör þeirra fyrr en árin 2000 og 2001. Stefnandi hafi, í október 2000, beint fyrirspurn til stefnda, Kynnisferða sf., um félagsaðild 14 bifreiðstjóra, sem starfandi voru hjá stefnda, sbr. bréf dags. 4. október 2000. Hafi því bréfi verið svarað á þann veg af hálfu stefnda að umræddir starfsmenn væru ekki félagsmenn hjá stefnanda og hafi því ekki skilað félagsgjöldum þangað.
Með málshöfðun þessari viðurkenni stefnandi í raun rétt annarra stéttarfélaga en VR til starfa bifreiðastjóra hjá stefnda. Málinu sé einungis beint gegn félagsmönnum VR. Stefnandi vísi máli sínu til stuðnings til yfirlýsingar formanns VR frá 14. júní 2000. Yfirlýsing þessi hafi ekkert gildi að mati stefnda. Hún sé fyrst og fremst táknræn stuðningsyfirlýsing við verkfall Sleipnis. Yfirlýsing þessi hafi verið lögð fram af hálfu stefnanda í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. júní 2000 í málum sem höfðuð hafi verið til staðfestingar lögbanni sýslumannsins í Reykjavík. Héraðsdómur hafi ekki talið hana hafa þýðingu og hafi einnig staðfest lögbann vegna félagsmanns í VR. Hafi dómurinn talið að ekki væri hægt að gera kröfu um sérstök ákvæði í kjarasamningi félagsins um kjör þessa starfshóps. Sé það í samræmi við dóm Félagsdóms frá 9. mars 1989 í máli nr. 2/1989 (Ísnó).
VR hafi einnig staðfest að þessir bifreiðastjórar hjá stefnda séu fullgildir félagsmenn í VR. Með því viðurkenni félagið að það sé jafnframt félag bifreiðastjóra.
Kjarasamningur SA og Sleipnis kveði ekki á um forgangsrétt félagsmanna Sleipnis til alls aksturs sérleyfis- eða hópferðabifreiða á félagssvæði Sleipnis. Forgangsréttur Sleipnis afmarkist við það þegar bifreiðastjórar séu ráðnir á Sleipnissamninginn. Þeir "skulu hafa forgangsrétt til starfa samkvæmt kjarasamningi þessum", eins og það sé orðað í kjarasamningnum. Túlka verði ákvæði þetta þröngt og í samræmi við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála.
Ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og mannréttindasáttmála.
Forgangsréttarákvæði kjarasamninga eigi sér langa sögu en undanfarin ár hafi viðhorf til þeirra breyst og séu þau nú túlkuð mun þrengra en áður. Megi það m.a. rekja til breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og ákvæða mannréttindasáttmála sem Ísland eigi aðild að.
Í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar segi
"Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu... "
Ákvæði stjórnarskrárinnar sé afdráttarlaust. Einungis með lögum frá Alþingi sé heimilt að kveða á um skyldu til aðildar að félagi. Hvorki sé heimilt með kjarasamningum né öðrum samningum að kveða á um aðildarskyldu, hvort heldur með beinum eða óbeinum hætti. Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar bindi ekki einungis hendur löggjafans og framkvæmdavaldsins. Þau nái einnig til einkaréttarlegra samninga. Ákvæði kjarasamninga um forgangsrétt til vinnu verði því að túlka með hliðsjón af stjórnarskránni.
Í upphaflegu frumvarpi að breytingum á stjórnarskránni hafi ákvæðið um neikvætt félagafrelsi verið samhljóða endanlegri útgáfu. Engan hafi mátt skylda til aðildar að félagi. Ekki hafi sérstaklega verið vikið að forgangsréttarákvæðum kjarasamninga. Á síðari stigum við meðferð frumvarpsins hafi stjórnarskrárnefnd bætt við sérstakri umfjöllun um forgangsréttarákvæðin. Það breyti hins vegar ekki ótvíræðu ákvæði stjórnarskrárinnar sjálfrar. Hún heimili ekki samningsbundna þvingun til aðildar að félagi. Íslenska stjórnarskráin gangi því jafnvel lengra en mannréttindasáttmáli Evrópu í þá átt að vernda neikvætt félagafrelsi.
Þróun á alþjóðavettvangi hafi hér einnig mikil áhrif. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi talið að réttur manna til að standa utan félaga sé verndaður af 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þvingun til aðildar að stéttarfélagi geti við sumar aðstæður brotið gegn kjarna félagafrelsis samkvæmt 11. gr. MSE (Gustafsson gegn Svíþjóð).
Rétturinn til að ganga í stéttarfélög sé einnig sérstaklega áréttaður í 11. gr. MSE. Þvingun til að ganga í eitt tiltekið stéttarfélag verði því að sæta miklum takmörkunum. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi einnig til álita sérfræðinganefndar Evrópuráðsins á sviði félagsmála og ákvarðana félagafrelsisnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO.
Forgangsréttur jafngildir ekki ruðningsrétti.
Jafnvel þótt litið væri svo á að forgangsréttarákvæði Sleipnissamningsins veitti félagsmönnum Sleipnis rétt umfram félagsmenn VR við ráðningu til starfa leiði það ekki til þess að félagsmenn stefnanda skuli sitja fyrir um að halda vinnu sinni þegar fækka þarf starfsmönnum.
Stefnandi hafi ekki mótmælt því að 16 félagsmenn í VR hafi verið starfandi hjá stefnda við akstur hópbifreiða. Ef félagsmenn í öðrum stéttarfélögum séu ráðnir til starfa í fullu samræmi við forgangsréttarákvæði kjarasamninga verði forgangsréttinum ekki síðar beitt gegn þeim með lögmætum hætti. Viðurkenning á forgangi Sleipnismanna umfram aðra, þegar komi að fækkun starfsmanna, leiði í raun til aðildarskyldu að Sleipni, en til að halda starfi sínu þyrftu starfsmenn að ganga úr VR í Sleipni. Slíkt væri bersýnilega andstætt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. MSE.
Hefði stefndi neitað starfsmönnum sínum um aðild að VR, eða reynt með öðrum hætti að koma í veg fyrir félagsaðild þeirra utan Sleipnis, hefði það jafnvel verið talið andstætt 4. gr. laga nr. 80/1938, 74. gr. stjórnar- skrárinnar og 11. gr. MSE.
Rétt sé að fram komi að kjarasamningur milli SA og Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis sem lagður hafi verið fram í málinu sé ekki endanleg útgáfa samningsins, heldur ófullgerð drög í handriti.
Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Mál þetta á undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
Í dómkröfum stefnanda er hvorki tilgreint það ákvæði kjarasamnings aðila, sem stefnandi telur að brotið hafi verið gegn, né dagsetning kjarasamningsins. Að þessu leyti eru því ágallar á stefnu, sbr. d-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í stefnu kemur þó fram, sbr. og framlagðan kjarasamning, að um er að ræða grein 5.1. í 5. kafla kjarasamnings aðila sem undirritaður var hinn 5. júlí 2001. Að þessu athuguðu og þar sem engar athugasemdir hafa komið fram af hálfu stefnda varðandi þennan annmarka á kröfugerð stefnanda verður málinu hvorki af þessum sökum né öðrum ástæðum vísað frá dómi ex officio, en skýra verður dómkröfur stefnanda til samræmis við framangreint.
Eins og fram er komið sagði stefndi, Kynnisferðir sf., tíu starfsmönnum sínum upp störfum haustið 2001 vegna samdráttar í rekstri, eftir því sem upplýst er, þar á meðal tveimur félagsmönnum stefnanda, þeim Birni Briem og Óskari Stefánssyni. Samhljóða uppsagnarbréf tvímenninganna, dags. 26. september 2001, liggja fyrir í málinu og samkvæmt þeim skyldi síðasti starfsdagur þeirra vera 31. desember 2001.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði að með því að segja greindum félagsmönnum stefnanda upp störfum þann 1. janúar 2002 og hafa á sama tíma í störfum sem fólksflutningabifreiðastjóra félagsmenn í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur hafi stefndi brotið gildandi kjarasamning aðila. Nánar kemur fram hjá stefnanda að stéttarfélagið telur að með uppsögnum þessum hafi verið brotið gegn ákvæðum 5. kafla kjarasamnings aðila sem fjallar um forgangsrétt til vinnu. Bendir stefnandi á að tvímenningunum hafi verið sagt upp störfum á sama tíma og aðrir bifreiðastjórar, sem ekki áttu aðild að stéttarfélagi sem samið hefði um forgangsrétt við stefnda fyrir bifreiðastjóra, hafi haldið störfum sínum. Í þessu sambandi eru í stefnu nafngreindir 10 bifreiðastjórar, sem stefnandi kveður vera félagsmenn í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Það stéttarfélag hafi ekki samið um forgangsrétt fyrir fólksflutningabifreiðastjóra við stefnda og raunar ekki gert kjarasamning fyrir launþega sem starfa við stjórn fólksflutningabifreiða.
Af hálfu stefnda er sýknukrafan á því byggð að fyrrgreint forgangsréttarákvæði kjarasamnings aðila takmarki ekki rétt stefnda til uppsagna, sbr. orðalag og forsögu ákvæðisins, eðli forgangsréttarákvæða og túlkun þeirra í ljósi 1. og 2. mgr. 74. gr. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 12. og 13. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu. Stefndi vísar sérstaklega til þess í fyrsta lagi að samkvæmt eldra forgangsréttarákvæði og dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. júlí 2000 í málum Austurleiðar hf. og Teits Jónassonar ehf. gegn stefnanda verði ráðið að Verslunarmannafélag Reykjavíkur hafi ásamt öðrum tilgreindum aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands átt samhliða forgangsrétt til vinnu hjá stefnda. Í öðru lagi ber stefndi því við að forgangsréttarákvæði nýs kjarasamnings aðila hafi ekki rýmt út samhliða forgangsrétti annarra stéttarfélaga, þar á meðal Verslunarmannafélags Reykjavíkur, til starfa. Í þriðja lagi byggir stefndi á því að samkvæmt orðalagi kjarasamnings aðila, skýrðu þröngt og í samræmi við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, kveði kjarasamningurinn ekki á um forgangsrétt félagsmanna stefnanda til alls aksturs sérleyfis- eða hópferðabifreiða á félagssvæði stefnanda. Í þessu sambandi og í fjórða lagi vísar stefndi sérstaklega til þess að verndun neikvæðs félagafrelsis samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 12. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, svo og samþykkt Alþjóðvinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 87 frá 1948 um félagafrelsi og verndun þess, sbr. auglýsingu nr. 86/1950, setji forgangsréttarákvæðum kjarasamninga mun þrengri skorður en áður. Stjórnarskrárákvæðið heimili ekki samningsbundna þvingun til aðildar að félagi. Í fimmta lagi telur stefndi að jafnvel þótt svo verði litið á að forgangsréttarákvæði kjarasamningsins veiti félagsmönnum stefnanda rétt umfram félagsmenn í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur til starfa leiði það ekki til þess að félagsmenn stefnanda sitji fyrir um störfin þegar fækka þurfi starfsmönnum.
5. kafli kjarasamnings aðila frá 5. júlí 2001 ber yfirskriftina "Um forgangsrétt til vinnu". Kaflinn er í einni grein, gr. 5.1., sem ber yfirskriftina "Forgangsréttur" og er svohljóðandi:
"Bifreiðastjórar í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni skulu hafa forgangsrétt til starfa samkvæmt kjarasamningi þessum.
5.1.1. Vinnuveitendur hafa ávallt frjálst val um það, hvaða félagsmenn þeir taka í vinnu.
5.1.2. Fastráðnir starfsmenn skulu ganga fyrir um aukavinnu, enda séu þeir tiltækir og hafi tilkynnt það, enda gangi það ekki á svig við ákvæði samningsins um hvíldartíma."
Stefndi hefur lagt á það áherslu að skýra beri fyrrgreint forgangsréttarákvæði kjarasamningsins þröngt, sérstaklega í ljósi 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 12. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og tilgreindra alþjóðlegra sáttmála, einkum 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Enda þótt því sé ekki haldið fram af hálfu stefnda að forgangsréttarákvæði í kjarasamningum séu almennt óheimil, sbr. það sem fram kom við munnlegan flutning málsins, telur stefndi að túlkun í aðra veru en hann heldur fram feli í sér samningsbundna skyldu til aðildar að félagi sem andstæð sé greindu ákvæði stjórnarskrárinnar. Af þessu tilefni er rétt að fram komi að í athugasemdum með 12. gr. frumvarps þess, sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995, er ekki sérstaklega vikið að forgangsréttarákvæðum kjarasamninga. (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 2105-2108). Við meðferð frumvarpsins komu fram breytingartillögur frá stjórnarskrárnefnd, m.a. á 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. þess efnis að stjórnmálafélaga og stéttarfélaga yrði sérstaklega getið í greininni "í ljósi þess að hér er um að ræða einhverja mikilvægustu flokka félaga í sérhverju lýðræðisríki", eins og sagði í nefndaráliti. (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 3886). Í nefndarálitinu var og vikið sérstaklega að forgangsréttarákvæðum kjarasamninga. Þar sagði svo: "Sérstök ástæða er til að nefna að svonefnd forgangsréttarákvæði, þegar í kjarasamningum er samið um að félagsmenn viðkomandi stéttarfélags skuli hafa forgang til vinnu á félagssvæði þess, leiða ekki af sér félagsskyldu af þeim toga sem fyrri málsliður 2. mgr. tekur til." Síðar segir svo: "Í ljósi þessa lítur nefndin svo á að með samþykkt frumvarpsins sé í engu verið að hrófla við núverandi réttarstöðu á vinnumarkaði að því er varðar forgangsréttarákvæði..." (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 3886).
Þegar það er virt, sem hér hefur verið rakið, og litið er til framangreindra ákvæða um forgangsrétt til vinnu í gildandi kjarasamningi aðila, sem samkvæmt orðalagi sínu mæla fyrir um þennan rétt með hefðbundnum hætti, verður ekki talið að nein sú sérstaða sé uppi í málinu varðandi túlkun svo sem stefndi heldur fram. Þá hafa hvorki fyrri forgangsréttarákvæði þýðingu í málinu né verður séð að bókanir þær varðandi forgangsréttarákvæðin, sem samningsaðilar gerðu hvor um sig við undirritun kjarasamningsins hinn 5. júlí 2001, skipti neinu sérstöku máli við úrlausn málsins, enda eru aðilar sammála um það að önnur stéttarfélög eigi forgangsrétt til starfa hjá stefnda "samhliða" forgangsrétti stefnanda. Samkvæmt þessu þykir úrlausn málsins velta á því hvort greind forgangsréttarákvæði í gildandi kjarasamningi aðila stóðu því í vegi að félagsmönnum stefnanda, þeim Birni Briem og Óskari Stefánssyni, yrði sagt upp störfum meðan svo stóð á að stefndi hafði á sama tíma í starfi sem fólksflutningabifreiðastjóra félagsmenn í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur sem ekki var sagt upp störfum.
Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda, sbr. og fram lagt yfirlit yfir félagsaðild starfsmanna stefnda í september 2001, voru 16 félagsmenn í Verslunarmannafélags Reykjavíkur í starfi hjá stefnda sem bifreiðastjórar við undirritun kjarasamnings aðila hinn 5. júlí 2001. Í stefnu tilgreinir stefnandi 10 af þessum mönnum og heldur því fram að þeim hafi ekki verið sagt upp störfum haustið 2001 og starfi enn hjá stefnda. Í staðfestingu Verslunarmannafélags Reykjavíkur frá 30. janúar 2002 til lögmanns stefnanda, sem liggur fyrir í málinu, kemur fram að þeir bifreiðastjórar, sem nafngreindir eru í stefnu, að einum undanskildum, séu fullgildir félagsmenn í stéttarfélaginu. Verður að telja að þessi atvik séu óumdeild.
Eins og fram er komið byggir stefnandi á því að Verslunarmannafélag Reykjavíkur hafi ekki samið um forgangsrétt við stefnda fyrir fólksflutningabifreiðastjóra og reyndar ekki gert kjarasamning fyrir launþega vegna slíkra starfa. Lögð hefur verið fram svohljóðandi staðfesting fyrrverandi formanns Verslunarmannafélags Reykjavíkur, Magnúsar L. Sveinssonar, dags. 14. júní 2000: "Að gefnu tilefni vill Verslunarmannafélag Reykjavíkur taka fram að það hefur ekki gert kjarasamning og er ekki aðili að kjarasamningi fyrir launþega sem starfa við stjórn fólksflutningabifreiða." Í skýrslutöku hér fyrir dómi af núverandi formanni Verslunarmannafélags Reykjavíkur, Gunnari Páli Pálssyni, var greind staðfesting borin undir hann og gerði hann engar athugasemdir við efni hennar. Kom fram hjá formanninum að stéttarfélagið hefði ekki sérgreindan samning við Samtök atvinnulífsins um störf fólksflutningabifreiðastjóra og að félagið hefði ekki skipulagt sig fyrir bifreiðastjóra.
Með vísan til framangreindra upplýsinga formanna Verslunarmannafélags Reykjavíkur samkvæmt fram lagðri staðfestingu og vitnisburði hér fyrir dómi verður við það að miða við úrlausn málsins að ekki hafi verið fyrir að fara forgangsrétti félagsmanna Verslunarmannafélags Reykjavíkur til starfa fólksflutningabifreiðastjóra hjá stefnda. Þá verður ekki fallist á það með stefnda, í ljósi þess sem upplýst er í málinu, að almenn ákvæði kjarasamningsins hafi hér þýðingu.
Stefndi ber því við að jafnvel þótt fallist verði á forgangsrétt félagsmanna stefnanda samkvæmt greindum kjarasamningi aðila þá leiði það ekki til þess að félagsmennirnir sitji fyrir um vinnu þegar fækka þarf starfsmönnum. Á þessa málsástæðu verður ekki fallist, enda er ljóst að forgangsréttarákvæði ná ekki tilgangi sínum verði þau takmörkuð með þessum hætti, sbr. og Fd. V:193 þar sem reyndi á forgangsrétt við uppsögn.
Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, verður að fallast á það með stefnanda að með uppsögnum greindra félagsmanna stéttarfélagsins, þeirra Björns Briem og Óskars Stefánssonar, hafi stefndi brotið gegn ákvæðum greinar 5.1. í kjarasamningi aðila um forgangsrétt félagsmanna stefnanda til vinnu hjá stefnda. Samkvæmt þessu er krafa stefnanda tekin til greina.
Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 200.000 kr.
D Ó M S O R Ð
Viðurkennt er að stefndi, Kynnisferðir sf., braut gegn grein 5.1. í gildandi kjarasamningi milli aðila frá 5. júlí 2001 með því að segja upp störfum Óskari Stefánssyni og Birni Briem, félagsmönnum í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni og starfsmönnum hjá Kynnisferðum sf., þann 1. janúar 2002, og hafa á sama tíma í störfum sem fólksflutningabifreiðastjóra félagsmenn í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur.
Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Kynnisferða sf., greiði stefnanda, Bifreiðastjórafélaginu Sleipni, 200.000 kr. í málskostnað.