Mál nr. 19/2001: Dómur frá 10. desember 2001.
Ár 2001, mánudaginn 10. desember, var í Félagsdómi í málinu nr. 19/2001.
Alþýðusamband Íslands f.h.
Sjómannasambands Íslands vegna
aðildarfélaga þess
(Björn L. Bergsson hrl.)
gegn
Samtökum atvinnulífsins f.h.
Landsambands íslenskra útvegsmanna
vegna aðildarfélaga þess
(Jón H. Magnússon hdl.)
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R
Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 12. nóvember sl.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Gunnar Sæmundsson.
Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Grensásvegi 16a, Reykjavík, f.h. Sjómannasambands Íslands, kt. 570269-2249, Borgartúni 18, Reykjavík vegna aðildarfélaga þess.
Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Garðastræti 41, Reykjavík, f.h. Landsambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Hafnarhvoli við Tryggvagötu Reykjavík, vegna aðildarfélaga þess.
Dómkröfur stefnanda
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
Að viðurkennt verði að úrskurður gerðardóms samkvæmt lögum nr. 34/2001 sé rétt skilinn þannig að ákvæði greina 3.02, 3.03, 4.01, 5.01 og 9.01 í kjarasamningi aðila séu réttilega orðuð á eftirfarandi hátt:
Netaveiðar.
Grein 3.02.
Á landróðrarbátum, sem stunda veiðar með netum, fái skipverjar í sinn hlut eftirtalinn hundraðshluta af skiptaverði:
Óslægt Slægt
Á skipum 12 - 20 rúml., 39.0% miðað við 3 menn 4 menn
Á skipum 21 - 30 rúml., 33.0% miðað við 4 menn 5 menn
Á skipum 31 - 50 rúml., 30.5% miðað við 5 menn 6 menn
Á skipum 51 - 110 rúml., 29.5% miðað við 6 menn 7 menn
Á skipum 111 - 150 rúml., 29.2% miðað við 9 menn 10 menn
Á skipum 151 - 200 rúml., 29.2% miðað við 10 menn 11 menn
Á skipum 201 - 240 rúml., 29.0% miðað við 10 menn 11 menn
Á skipum 241 - 300 rúml., 28.0% miðað við 10 menn 11 menn
Á skipum 301 - 500 rúml., 28.0% miðað við 11 menn 12 menn
Grein 3.03.
Útilega telst það þegar lagðar eru tvær lagnir og aflinn úr annarri lögninni, hið minnsta, er slægður og ísaður.
Á bátum sem eru í útilegu, skal heimilt að hafa einum manni fleira en að ofan greinir, án þess að heildarprósentan breytist.
Á bátum sem salta afla um borð er heimilt að hafa tveimur mönnum fleira en að ofan greinir og skiptist þá í tvo staði fleiri, án hækkaðrar heildarprósentu.
Séu færri menn á skipi en við er miðað í skiptakjaraákvæðum (skiptatöflum) kjarasamninga varðandi þær veiðar skiptist hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar milli þeirra sem á skipinu eru í réttu hlutfalli við hluti þeirra.
Ef um fleiri menn er að ræða á skipi en að ofan greinir, skal heildarprósentan hækka um 1,8 fyrir hvern mann sem umfram er.
Um netafjölda fer samkvæmt reglugerð.
Dragnót.
Grein 4.01.
Á skipum 12 - 30 rúml. 33,5% miðað við 3 menn
Á skipum 31 - 50 rúml. 33,5% miðað við 4 menn
Á skipum 51 - 110 rúml. 33,5% miðað við 6 menn
Á skipum 111 - 150 rúml. 33,5% miðað við 7 menn
Á skipum 111 rúml. og yfir 33,5% miðað við 8 menn
Séu færri menn á skipi en við er miðað í skiptakjaraákvæðum (skiptatöflum) kjarasamninga varðandi þær veiðar skiptist hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar milli þeirra sem á skipinu eru í réttu hlutfalli við hluti þeirra.
Séu fleiri menn á skipinu en að ofan greinir skal skiptaprósentan hækka um 1,3 fyrir hvern mann sem fleiri eru í áhöfn en að ofan greinir.
Botnvarpa.
Grein 5.01.
Á skipum sem veiða með botnvörpu fái skipverjar í sinn hlut eftirtalinn hundraðshluta af skiptaverði:
Á skipum 12 - 20 rúml., 31.0% miðað við 3 menn
Á skipum 21 - 30 rúml., 31.0% miðað við 4 menn
Á skipum 31 - 50 rúml., 31.0% miðað við 4 menn
Á skipum 51 - 110 rúml., 30.5% miðað við 6 menn
Á skipum 111 - 150 rúml., 30.0% miðað við 8 menn
Á skipum 151 - 200 rúml., 30.0% miðað við 9 menn
Á skipum 201 - 240 rúml., 29.5% miðað við 9 menn
Á skipum 241 - 300 rúml., 28.5% miðað við 10 menn
Á skipum 301 - 500 rúml., 28.5% miðað við 11 menn
Séu færri menn á skipi en við er miðað í skiptakjaraákvæðum (skiptatöflum) kjarasamninga varðandi þær veiðar skiptist hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar milli þeirra sem á skipinu eru í réttu hlutfalli við hluti þeirra.
Ef um fleiri menn er að ræða á skipi en greint er frá í 1. málsgr., skal heildarprósenta hækka um 1,3 fyrir hvern mann sem umfram er.
Þegar veitt er í salt, er heimilt að hafa tveim mönnum fleira en greint er frá í 1. málsgr. og skiptist í tvo staði fleiri en þegar veitt er í ís.
Rækjuvarpa.
Grein 9.01.
Á skipum 12 - 30 rúml., 32.0% miðað við 2 menn
Á skipum 31 - 50 rúml., 32.0% miðað við 3 menn
Á skipum 51 - 110 rúml., 31.0% miðað við 4 menn
Á skipum 111 - 239 rúml., 29.5% miðað við 5 menn
Á skipum 240 - 250 rúml., 28.5% miðað við 6 menn
Á skipum 251 - 500 rúml., 29.0% miðað við 7 menn
Á skipum 501 og stærri 29.3% miðað við 7 menn
Ef fleiri menn eru á skipinu en að ofan greinir, skal heildarprósentan hækka um 1,8 fyrir hvern mann sem umfram er.
Séu færri menn á skipi en við er miðað í skiptakjaraákvæðum (skiptatöflum) kjarasamninga varðandi þær veiðar skiptist hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar milli þeirra sem á skipinu eru í réttu hlutfalli við hluti þeirra.
Að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda
Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.
Málavextir
Málsatvik eru þau að hinn 15. febrúar 2000 urðu kjarasamningar stefnda við samtök stéttarfélaga fiskimanna lausir. Samningaviðræður hófust í ársbyrjun árið 2000 og kröfur aðila um breytingar á síðastgildandi kjarasamningum voru lagðar fram í febrúar. Í megindráttum voru samningsaðilar stefnda, Samtaka atvinnulífsins, (SA) og Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) fjórir. Sjómannasamband Íslands (SSÍ) vegna félaga undirmanna, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands (FFSÍ) vegna skipstjóra- og stýrimannafélaga, Vélstjórafélag Íslands (VSFÍ) vegna vélstjóra og Alþýðusamband Vestfarða (ASV) vegna félaga undirmanna og vélstjóra á Vestfjörðum.
Þegar enginn árangur hafði orðið í viðræðum aðila í maí 2000 óskaði stefndi formlega eftir sáttameðferð ríkissáttasemjara. Haldinn var fjöldi funda með aðilum, þar sem reynt var að vinna að lausn mála, en án árangurs. Hinn 15. mars 2001 skullu á verkföll stéttarfélaga fiskimanna og í kjölfarið verkbann útvegsmanna.
Meginkrafa stefnanda var um verðmyndun á fiski og gerði stefnandi kröfu um það að afli sem landað væri til vinnslu innanlands yrði verðmyndaður á fiskmarkaði. Meginkrafa stefnda var um það, að ef útgerð ákveði að færri menn væru á skipi en við væri miðað í skiptakjaraákvæðum kjarasamnings, skiptist ávinningurinn til helminga á milli útgerðar og áhafnar. Engar sættir náðust um þetta atriði né önnur. Stefndi kveðst hafa unnið í rúmt ár að því að ná samkomulagi við alla hópa fiskimanna samtímis, en án árangurs. Hafi þá verið gerð tilraun til að ná samkomulagi við einstök samtök og þann 9. maí 2001 náðust samningar milli stefnda og Vélstjórafélags Íslands um kaup og kjör vélstjóra á fiskiskipum.
Hinn 16. maí 2001 voru sett á Alþingi lög nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira sem m.a. bönnuðu verkföll og verkbönn. Samkvæmt lögunum fengu aðilar, sem ekki höfðu gert samning, frest til 1. júní 2001 til þess að ná samkomulagi. Tækist það ekki skyldi gerðardómur ákveða um kjaramál fiskimanna í nánar tilgreindum atriðum, þ.á m. atriðum er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör.
Þar sem samningar náðust ekki fyrir 1. júní 2001 tilnefndi Hæstiréttur Íslands þrjá menn í gerðardóm, þá Brynjólf Sigurðsson prófessor, Garðar Garðarsson hrl. og Guðmund Skaftason, fyrrverandi hæstaréttardómara.
Verkefni gerðardómsins voru skilgreind í liðum a til g í 2. gr. laga nr. 34/2001 en í b. lið greinarinnar var gerðardómnum falið að ákveða um atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör.
Gerðardómur kvað upp úrskurð sinn 30. júní 2001. Meðal þeirra breytinga sem gerðardómurinn ákvað voru atriði, sem talin voru í b. lið 2. gr. laga nr. 34/2001, er vörðuðu þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör. Var kveðið á um þessar breytingar í 2. og 4. tölulið úrskurðarorðsins. Í 1. mgr. 2. tl. fólst breyting er varðaði skiptakjörin, eins og þau höfðu verið í áðurgildandi kjarasamningi, en í 4. tl. gat einkum að líta töflu yfir breytta mönnun skipa sem stunduðu ferns konar veiðar, báta sem stunduðu botnvörpuveiðar, dragnótaveiðar, netaveiðar og rækjuveiðar.
Um forsendur þessara breytinga er fjallað í VII. kafla úrskurðarins. Er þar einkum vikið að aðferðum varðandi það hvernig með skuli farið þegar mönnun skipa er önnur og færri á, en kjarasamningur gerði ráð fyrir og það haft að leiðarljósi að útgerðarkostnaður hækki ekki við fækkun í áhöfn. Var það enda verkefni dómsins að leiða til lykta ágreining málsaðila sem skapast hafði sökum þess að raunveruleg mönnun skipa hefur ekki fylgt ákvæðum kjarasamnings um mönnun í öllum tilvikum á liðnum árum. Var í úrskurðinum tekið af skarið um að almennt skuli beita þeirri aðferð sem kveðið er á um í 1. mgr. 2. tl. úrskurðarins. Jafnframt var tekið fram í VII. kafla úrskurðarins, með vísan til álits málsaðila, að málefni er varða mönnun skipa séu flókin og að dómurinn gæti ekki látið framkvæma ítarlega úttekt á þeim skamma starfstíma sem honum væri markaður auk þess sem það væri tæpast á hans verksviði. Með þessum fyrirvara ákvað dómurinn ný viðmið og var við þá ákvörðun tekið tillit til upplýsinga frá aðilum, sem og að nokkru litið til viðmiða í kjarasamningi vélstjóra sem gerður var 10. maí 2001. Kvað dómurinn upp úr um að þessi viðmið skyldu gilda, eins og önnur ákvæði úrskurðarorðsins, til 31. desember 2003 en til þess tíma skyldu aðilar vinna sameiginlega að könnun á þessum atriðum svo byggja megi á rauntölum við gerð næsta kjarasamnings.
Í framhaldi af úrskurðinum kom upp ágreiningur á milli stefnda og stefnanda um túlkun á ákvæðum um skiptakjör. Stefndi skrifaði formanni gerðardómsins bréf 21. júlí þar sem tilgreint er að upp sé kominn ágreiningur milli stefnanda og stefnda um skilning á tilteknum atriðum í úrskurði gerðardómsins og var óskað eftir aðstoð gerðardómsins við að fá fram rétta túlkun. Í svarbréfi formanns gerðardómsins, 3. september sl., er beiðni stefnda hafnað þar sem störfum gerðardómsins hafi lokið formlega með uppkvaðningu úrskurðar 30. júní 2001.
Í kjölfarið fóru fram bréfaskriftir milli málsaðila en þær leidu ekki til sátta. Ákvað stefnandi síðan að ágreiningur aðila skyldi lagður fyrir Félagsdóm til úrlausnar.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi styður kröfur sínar með þeim rökum að ótvírætt sé að skilja beri 1. mgr. 2. tl. og 4. tl. úrskurðarorðs gerðardómsins með þeim hætti sem dómkrafa hans feli í sér. Hvernig skilja beri nefnt úrskurðarorð sé engum vafa undirorpið og þarfnist engrar túlkunar. Því er sérstaklega mótmælt að lög sem fallin séu úr gildi samkvæmt efni sínu, nr. 10/1998, hafi nokkra þýðingu við túlkun gerðardómsins. Enn síður geti kjarasamningur milli stefnda og utanaðkomandi aðila, Vélstjórafélags Íslands, sem hafi ekki átt aðild að þeirri kjaradeilu, sem gerðardómurinn hafi fengið til úrlausnar, haft þýðingu við túlkun hans. Í 1. mgr. úrskurðarins, sbr. 12. tl., séu síðan tekin af öll tvímæli um það að kjarasamningur málsaðila framlengist, hvað þetta úrlausnarefni snerti, með nefndum breytingum og að þær beri að færa inn í áðurgildandi kjarasamning á viðeigandi stöðum. Það hafi stefnandi gert og telji tvímælalaust að leggja beri kjarasamning málsaðila svo breyttan til grundvallar uppgjöri aflahluta skipverja á þeim skipum er stundi þær veiðar sem 4. tl. úrskurðarorðsins fjalli um.
Það að stefndi sé ósáttur við niðurstöðu gerðardómsins í þessum efnum hafi engin réttaráhrif á úrskurð gerðardómsins. Úrskurðurinn sé endanlegur og sæti ekki kæru til neins æðra stjórnvalds. Telji stefndi gerðardóminn hafa farið út fyrir lögbundið umboð sitt standi honum á hinn bóginn opin leið til að fá úrskurðinum hnekkt fyrir hinum almennu dómstólum. Sú leið sem stefndi hafi hins vegar reynt að fara, að fá gerðardóminn á einhvern hátt endurupptekinn til ?leiðréttingar", eigi hins vegar ekki við rök að styðjast né eigi sér stoð í nokkurri réttarheimild.
Gerðardómurinn í heild sé ótvíræður að mati stefnanda í þeim efnum sem hér séu til úrlausnar. Það sé beinlínis rakið í VII. kafla gerðardómsins að hann taki af skarið um mönnun skipa á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga, þrátt fyrir að þær séu ekki fullnægjandi. Sé þannig beinlínis gert ráð fyrir þeim möguleika að úrskurðurinn leysi ekki allan vanda og raunar ekki einhugur með meðlimum gerðardómsins um ákvæði 1. mgr. 2. töluliðar úrskurðarins. Loks sé því beint til málsaðila að nýttur verði tíminn næstu tvö árin til að finna varanlega lausn á nefndum vanda. Þrátt fyrir þennan ágreining og þrátt fyrir þessa þekktu annmarka á grundvelli úrskurðarins að þessu leyti hafi gerðardómurinn kveðið upp sinn úrskurð og hafi gert það með ótvíræðum hætti. Þannig séu engar forsendur til þess að skýra eða túlka úrskurðarorðið með einhverjum öðrum hætti en leiði beint af orðalagi þess.
Jafnvel þó stefnandi hefði viljað fara þá leið sem stefndi óski eftir myndi það í engu hagga niðurstöðu gerðardómsins. Gerðardómurinn hafi lokið lögbundnum störfum sínum og sé ekki lengur til. Hann verði ekki kallaður saman á ný með samkomulagi málsaðila. Stefndi verði að una niðurstöðu gerðardómsins, með kostum og göllum, eins og stefnandi, að því gefnu að lögin nr. 34/2001 standist stjórnarskrá. Brýnt sé fyrir hlutaðeigandi sjómenn og útgerðarmenn að fá úr öllum vafa leyst í þessum efnum, sé stefnanda því ekki til setunnar boðið með að vísa ágreiningi málsaðila til úrlausnar Félagsdóms.
Kveður stefnandi dómkröfu sína fela í sér að tekið verði af skarið um það á hvern hátt beri að skilja 1. mgr. 2 tl. og 4. tl. gerðardómsins og á hvern hátt fella beri nefnd ákvæði inn í áðurgildandi kjarasamning málsaðila frá 27. mars 1998.
Stefnandi byggir á meginreglum vinnuréttar og samningaréttar og lögum nr. 80/1938. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafist er álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn fyrir því að fá álag er honum nemi dæmt úr hendi gagnaðila.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi byggir kröfur sínar á því að gerðardómur samkvæmt lögum nr. 34/2001 hafi ekki fellt niður eldri ákvæði um skiptakjör í greinum 3.02., 4.01., 5.01. og 9.01. í kjarasamningi aðila heldur hafi verið bætt í viðkomandi kafla kjarasamningsins viðmiðunartöflum um það hvenær útgjöld útgerðar aukist ekki vegna fækkunar í áhöfn og/eða að ávinningur við fækkun skiptist milli útgerðar og áhafnar.
Mótmælt er sem röngum fullyrðingum stefnanda um að stefndi hafi reynt að fá gerðardóminn endurupptekinn til leiðréttingar. Hið rétta sé að vegna ágreinings við stefnanda um túlkun gerðardómsins hafi stefndi með bréfi, dags. 21. júlí 2001, leitað eftir því að fá aðstoð gerðardómsmanna um rétta túlkun á ágreiningsatriðunum. Þá sé það einnig rangt að gerðardómurinn hafi tekið af skarið um mönnun skipa. Gerðardómurinn hafi ekki úrskurðað um mönnun skipa heldur sett ný neðri viðmið um það að útgjöld útgerðar skyldu ekki aukast þegar fækkaði í áhöfn niður fyrir þau mörk.
Mótmælt er sem röngum og ósönnuðum fullyrðingum stefnanda um að gerðardómur hafi fellt niður skiptakjaratöflur í greinum 3.02., 4.01., 5.01. og 9.01. í kjarasamningi aðila. Þessu til stuðnings er vísað til þess að hvorki í upprunalegum kröfum stefnanda, kröfum annarra viðsemjenda stefnda, FFSÍ og VSFÍ, né í kröfum stefnanda fyrir gerðardómi sé að finna kröfur um þá breytingu sem stefnandi telji gerðardóminn hafa gert á greinum 3.02., 4.01., 5.01. og 9.01. Hafi því túlkun stefnanda í bréfi hans til Landssambands íslenskra útvegsmanna, dags. 28. ágúst 2001, komið flatt upp á stefnda, sem og formann gerðardómsins eins og fram komi í bréfi hans til Landssambands íslenskra útvegsmanna, dags. 3. september 2001. Árétti formaður gerðardómsins í bréfi sínu að gerðardóminn beri að sjálfsögðu að lesa í heild sinni, með forsendum, eins og aðra dóma og úrskurði.
Til að taka af allan vafa hafi svohljóðandi ákvæði verið sett neðanmáls við grein 2.3. í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands "Ákvæði kjarasamningsins gilda óbreytt séu fleiri í áhöfn en viðmiðunarmörkin greina." Tilgangurinn hafi verið sá að ekki færi á milli mála að skiptakjaraákvæði síðastgildandi kjarasamnings giltu áfram þrátt fyrir nýju viðmiðunarákvæðin. Gerðardómurinn hafi tekið orðrétt upp samsvarandi ákvæði úr kjarasamningi vélstjóra og að sjálfsögðu beri að skilja það á sama hátt. Komi því skilningur stefnanda verulega á óvart miðað við það sem á undan sé gengið og þar sem stefnandi hafi hvorki í upprunalegri kröfugerð í deilu aðila né í kröfugerð fyrir gerðardómi gert kröfur í þá veru sem hann telji nú vera niðurstöðu gerðardómsins.
Í kjarasamningi stefnda við Vélstjórafélag Íslands frá 9. maí 2001 sé samið um áhrif fækkunar í áhöfn frá því sem miðað sé við í kjarasamningum. Þar séu settar tvenns konar reglur um það hvernig útgerð og áhöfn skipti með sér hlut þess eða þeirra sem fækkað er niður fyrir ný viðmiðunarmörk um fjölda í áhöfn, eftir því hver sé ástæða fækkunar. Þar sé tekið upp það nýmæli að þegar fækkun verði vegna nýrra tækja, búnaðar eða annarra vinnusparandi aðgerða þá skipti áhöfn og útgerð á milli sín hlut þess eða þeirra sem fækki um.
Í útreikningum aflahluta, sem lagðir hafi verið fram í málinu, komi í hnotskurn fram um hvað sé deilt. Verði skilningur stefnanda látinn ráða myndi launakostnaður hækka á skipi sem gert væri út með sama fjölda í áhöfn og undanfarin ár. Það sé í andstöðu við það sem samið hafi verið um við vélstjóra og ekkert komi fram í forsendum gerðardóms sem gæti leitt til þeirrar niðurstöðu.
Stefndi byggir á því að samkvæmt úrskurði gerðardóms skuli skiptakjaratafla síðastgildandi kjarasamnings halda sér og við bætist neðri viðmiðunarmörk vegna tvenns konar nýmæla í 2. lið úrskurðarins. Í fyrsta lagi að launakostnaður útgerðar aukist ekki við fækkun í áhöfn frá þeim viðmiðunarmörkum og í öðru lagi um skiptingu milli útgerðar og áhafnar á hlut þeirra sem fækkar um vegna tæknibúnaðar eða hagræðingar. Þetta sé í samræmi við niðurstöðu í vélstjórasamningi og tilvísun til kjarasamnings í neðanmálsgreininni í 4. lið úrskurðarins vísi til þess að ákvæði síðastgildandi kjarasamnings aðila gildi óbreytt séu fleiri í áhöfn.
Niðurstaða
Mál þetta, sem á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, varðar ágreining um skilning á tilgreindum liðum í úrskurðarorði gerðardóms samkvæmt lögum nr. 34/2001, um kjaramál fiskimanna og fleira, sem kveðinn var upp hinn 30. júní 2001. Nánar tiltekið er ágreiningur einkum um það hvernig skilja ber 4. tölulið í úrskurðarorðinu sem ber yfirskriftina "Ný viðmið í mönnun" í samhengi við ákvæði gildandi kjarasamnings aðila frá 27. mars 1998, en með nefndum úrskurði gerðardómsins var þessi kjarasamningur aðila framlengdur til 31. desember 2003 með þeim breytingum sem tilgreindar eru í úrskurðarorðinu.
Með 1. gr. laga nr. 34/2001 voru verkföll tilgreindra stéttarfélaga og verkbönn tilgreindra atvinnurekendafélaga lýst óheimil frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms samkvæmt 2. og 3. gr. laganna, þó þannig að heimilt er aðilum að semja um slíkar breytingar, en ekki má knýja þær fram með vinnustöðvun. Samkvæmt 2. gr. laganna skyldi Hæstiréttur Íslands tilnefna þrjá menn í gerðardóm, hefðu aðilar samkvæmt 1. gr. ekki náð samkomulagi fyrir 1. júní 2001. Eins og fram er komið náðu aðilar ekki samkomulagi fyrir tilskilinn frest og því kom til þess að gerðardómurinn var settur á laggirnar. Lauk gerðardómurinn starfi sínu með greindum úrskurði uppkveðnum 30. júní 2001.
Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 34/2001 er tilgreint hvaða atriði gerðardómurinn skyldi kveða á um varðandi kjaramál fiskimanna í samtökum sem 1. gr. laganna tekur til. Samkvæmt b-lið 1. mgr. lagagreinar þessarar skyldi gerðardómurinn ákveða um "atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör." Í 1. mgr. 3. gr. laganna er mælt fyrir um þau atriði sem gerðardómurinn skyldi horfa til við ákvörðun sína. Þar segir svo: "Gerðardómurinn skal við ákvörðun sína samkvæmt lögum þessum hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á og almenna þróun kjaramála, auk þess að taka mið af sérstöðu þeirra aðila sem nefndir eru í 1. gr."
Í úrskurði gerðardómsins er gerð grein fyrir forsendum hans. Hvað snertir viðfangsefni gerðardómsins samkvæmt b-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 34/2001 eru forsendur greindar í VII. kafla úrskurðarins. Á því viðfangsefni er tekið í 2. og 4. tölul. í úrskurðarorði og varða forsendur í VII. kafla því þá töluliði báða.
Í VII. kafla úrskurðar gerðardómsins er tekið fram að samkvæmt lögum nr. 34/2001 hafi verið lagt fyrir gerðardóminn að ákveða "atriði sem varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör." Í þessu sambandi komi einkum þrjár leiðir til greina til að ná því markmiði að útgerðarkostnaður hækki ekki þegar fækkar í áhöfn. Gerð er grein fyrir þessum leiðum og tekið fram að leið b skuli farin og er hún orðuð svo í forsendunum: "Skipt er á milli útgerðar og áhafnar eins og gert var í 2. gr. laga nr. 10/1998. Segir þar: "Séu færri menn á skipi sem stundar rækjuveiðar og landar daglega eða ísar afla um borð en við er miðað í skiptakjaraákvæðum kjarasamninga varðandi þær veiðar skiptist hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar milli þeirra sem á skipinu eru í réttu hlutfalli við skiptahlut þeirra." " Regla þessi er orðuð svo í 1. mgr. 2. tl. í úrskurðarorði gerðardómsins: "Séu færri menn á skipi en við er miðað í skiptakjaraákvæðum (skiptatöflum) kjarasamninga varðandi þær veiðar skiptist hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar milli þeirra sem á skipinu eru í réttu hlutfalli við hluti þeirra." Stefnandi hefur fært þessi ákvæði í greinar, 3.03, 4.01, 5.01 og 9.01 með þeim hætti sem greinar þessar eru orðaðar í stefnu.
Aðrar breytingar, sem stefnandi hefur gert, vegna úrskurðar gerðardómsins, á ákvæðum kjarasamningsins og tilgreindar eru í stefnu varða skiptakjaraákvæði í greinum 3.02, 4.01, 5.01 og 9.01 og snerta netaveiðar, dragnótaveiðar, botnvörpuveiðar og veiðar í rækjuvörpu. Ágreiningur máls þessa varðar einkum þetta ákvæði. Í forsendum úrskurðar gerðardómsins segir svo um þetta:
"Til mótvægis við þessar breytingar er hins vegar nauðsynlegt að breyta viðmiðunarmörkum í mannafjölda (skiptatöflum) hvað varðar nokkrar tegundir veiða og stærðir skipa. Á það einkum við um báta sem stunda netaveiðar, trollbáta, dragnótarbáta og rækjubáta. Í því skyni hefur verið leitast við að afla gagna um það hver raunmönnun hefur verið á skipum sem stundað hafa þessar veiðar. Hafa aðilar lagt fram gögn um það, en jafnframt látið þess getið, að um sé að ræða flókið mál sem skoða þurfi vel með ítarlegri gagnaöflun. Það er augljóst mál að gerðardómurinn getur ekki látið framkvæma þessar úttektir á þeim skamma tíma sem hann hefur til ráðstöfunar, enda er það vart á hans verksviði. Til þess þó að raska ekki kjörum fiskimanna um of, með því að nota eldri viðmiðunarmörk kjarasamninga sem aðilar eru sammála um að séu úrelt, hefur gerðardómurinn ákveðið ný viðmið og hefur þar tekið tillit til upplýsinga frá aðilum og ennfremur að nokkru leyti litið til viðmiða í nýjum kjarasamningi vélstjóra."
Í 4. tölul. í úrskurðarorði gerðardómsins eru síðan tilgreind skiptakjaraákvæði (skiptatöflur) í fyrrgreindum fjórum flokkum veiða undir yfirskriftinni "Ný viðmið í mönnun." Niðurlagsákvæði töluliðarins er svohljóðandi: "Ákvæði kjarasamningsins gilda óbreytt séu fleiri í áhöfn en viðmiðunarmörkin greina."
Samkvæmt stefnu skilur stefnandi úrskurð gerðardómsins svo að þargreind ný viðmið um mönnun í fjórum veiðigreinum samkvæmt 4. tölulið úrskurðarorðs, sem feli í sér að málum þessum sé skipað nær raunveruleikanum, beri að færa inn í viðeigandi ákvæði kjarasamningsins og gefa hann út þannig breyttan. Þetta hefur stefnandi gert með því að færa skiptatöflur, þar á meðal mönnunartölur, samkvæmt úrskurði gerðardómsins inn í viðeigandi greinar kjarasamningsins í stað fyrri skiptataflna. Þýðir þessi skilningur stefnanda það að heildaraflaprósenta hækkar þegar mönnun verður umfram hin nýju og lægri viðmiðunarmörk mönnunar, sbr. samkynja ákvæði um slíka hækkun í umræddum greinum kjarasamningsins. Telur stefnandi að þessi útfærsla leiði af skýringu á úrskurði gerðardómsins samkvæmt orðanna hljóðan.
Af hálfu stefnda er sjónarmiði stefnanda andmælt. Telur stefndi að gerðardómurinn hafi ekki með úrskurði sínum fellt niður eldri ákvæði um skiptakjör í greinum 3.02, 4.01, 5.01 og 9.01 í kjarasamningi aðila, heldur hafi verið bætt við viðkomandi kafla kjarasamningsins viðmiðunartöflum um það hvenær útgjöld útgerðar aukist ekki vegna fækkunar í áhöfn og/eða ávinningur við fækkun skiptist milli útgerðar og áhafnar. Gerðardómurinn hafi þannig ekki fellt niður skiptatöflur í umræddum greinum, heldur skuli þær halda sér og við bætist neðri viðmiðunarmörk vegna tvenns konar nýmæla í 2. tölulið í úrskurðarorði, í fyrsta lagi að launakostnaður útgerðar aukist ekki við fækkun í áhöfn frá þeim viðmiðunarmörkum og í öðru lagi um skiptingu milli útgerðar og áhafnar á hlut þeirra sem fækkar um vegna tæknibúnaðar eða hagræðingar. Í samræmi við þetta viðhorf hefur stefndi lagt fram skjal þar sem sýndar eru þær breytingar sem hann telur að gera beri á viðkomandi ákvæðum kjarasamningsins. Eru þessar breytingar gerðar með þeim hætti að ákvæði 2. og 4. töluliðar í úrskurðarorði gerðardómsins eru tilgreind sem viðbætur við viðkomandi ákvæði kjarasamningsins undir sérstökum greinanúmerum. Samkvæmt þessu verður ekki annað séð en skilningur stefnda sé sá að umrædd nýmæli í 2. og 4. tölul. úrskurðar gerðardómsins gildi aðeins við þær sérstöku og afmörkuðu aðstæður sem fyrr greinir.
Eins og fram kemur í forsendum úrskurðar gerðardómsins í VII. kafla hans kvað gerðardómurinn upp úr um atriði, sem varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör, sbr. b-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 34/2001, með það að markmiði að útgerðarkostnaður hækki ekki við fækkun í áhöfn. Valdi gerðardómurinn þá leið, sem tilgreind var í 2. gr. laga nr. 10/1998, og mælti svo fyrir um í 2. tölulið í úrskurðarorði að séu færri menn á skipi en miðað er við í skiptakjaraákvæðum (skiptatöflum) kjarasamnings skiptist hlutur eða hlutir þeirra, sem á vantar, á milli þeirra, sem á skipi eru, í réttu hlutfalli við hluti þeirra. Með þessari reglu var tekið fyrir þá afleiðingu fækkunar í áhöfn, vegna tilhögunar á greiðslu aukahluta, að heildarkostnaður útgerðar hækkaði.
Viðfangsefni gerðardómsins varðandi þau ágreiningsefni sem hér eru til úrlausnar lúta að því, eins og áður greinir, hvernig með skuli fara þegar fækkað er í áhöfn frá þeim viðmiðunarmörkum sem tilgreind eru í kjarasamningi. Markmiðið með breytingu á skiptakjörum var að útgerðarkostnaður hækkaði ekki þegar fækkaði í áhöfn. Af kröfum aðila fyrir gerðardóminum verður hins vegar ekki séð að ætlunin hafi verið að hrófla við kjarasamningsákvæðum um viðmiðunarmörk varðandi fjölgun í áhöfn. Í forsendum gerðardómsins eða úrskurðarorði hans er heldur ekki að því vikið að breyta hafi átt þessum viðmiðunarmörkum. Í ljósi þessa verður að skýra niðurstöður gerðardómsins.
Ljóst er að hin nýja tilhögun samkvæmt leið b, sem mælt var fyrir um í gerðardóminum, hafði í för með sér skerðingu kjara félagsmanna stéttarfélaga innan vébanda stefnanda væri ekkert að gert. Felst sú skerðing í því að aukahlutir, sem áður voru greiddir af bátshlut, greiðast nú af áhafnarhlut. Víkur gerðardómurinn að þessu í greindum forsendum úrskurðar síns og tekur fram að til "mótvægis við þessar breytingar er hins vegar nauðsynlegt að breyta viðmiðunarmörkum í mannafjölda (skiptatöflum) hvað varðar nokkrar tegundir veiða og stærðir skipa" sem síðan er útfært í 4. tölulið í úrskurðarorði. Forsendur gerðardómsins eru ekki skýrar að þessu leyti, en ætla verður að með tilvitnuðu orðalagi sé átt við að með niðurfærslu viðmiðunarmarka í mannafjölda (í skiptatöflum) sé girt fyrir að til slíkrar kjaraskerðingar komi fyrr en ella hefði orðið, ef viðmiðunarmörk kjarasamningsins hefðu verið óbreytt varðandi umræddar tegundir veiða og stærðir skipa. Miðað við þann skilning ættu eldri skiptatöflur að gilda áfram þegar fleiri eru í áhöfn en hin "nýju viðmið" greina, sem og er í samræmi við gerðan fyrirvara þar um í gerðardóminum og sama fyrirvara í nýjum kjarasamningi vélstjóra, sem hafður var til hliðsjónar. Fallast ber því á það með stefnda að með gerðardóminum hafi einungis verið sett ný og neðri viðmið vegna útfærslu á leið b, en ekki teknar upp nýjar skiptatöflur í kjarasamning aðila, eins og felst í kröfum stefnanda. Að þessu virtu verður að hafna sjónarmiðum stefnanda í máli þessu og sýkna stefnda af kröfum hans. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Landsambands íslenskra útvegsmanna vegna aðildarfélaga þess, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands f.h. Sjómannasambands Íslands vegna aðildarfélaga þess.
Málskostnaður fellur niður.