Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 14/2001: Dómur frá 12. nóvember 2001.

Ár 2001, mánudaginn 12. nóvember, var í Félagsdómi í málinu nr. 14/2001:

Alþýðusamband Íslands

og Alþýðusamband Vestfjarða

vegna Verkalýðsfélags Patreksfjarðar

Verkalýðs- og sjómannafélags Tálknafjarðar

Verkalýðsfélagsins Varnar

Verkalýðsfélagsins Brynju

Verkalýðsfélagsins Skjaldar

Verkalýðs- og sjómannafélagsins Súganda

Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga

Verkalýðsfélags Hólmavíkur og

Verkalýðsfélags Kaldrananeshrepps

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Samtökum atvinnulífsins

f.h. Landsambands íslenskra útvegsmanna

vegna Útvegsmannafélags Vestfjarða

(Jón H. Magnússon hdl.)


kveðinn upp svohljóðandi


dómur:


Mál þetta, sem dómtekið var 15. október síðastliðinn, er höfðað 2. júlí 2001.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands og Alþýðusamband Vestfjarða Ísafirði vegna Verkalýðsfélags Patreksfjarðar, Verkalýðs- og sjómannafélags Tálknafjarðar, Verkalýðsfél-agsins Varnar, Verkalýðsfélagsins Brynju, Verkalýðsfélagsins Skjaldar, Verkalýðs- og sjómannafélagsins Súganda, Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga, Verkalýðsfélags Hólmavíkur og Verkalýðsfélags Kaldrananeshrepps.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna vegna Útvegsmannafélags Vestfjarða.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að verkbann stefnda, er hefjast skyldi 24. mars 2001, á sjómenn, sem tóku kjör samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga Alþýðusamb-ands Vestfjarða, hafi verið ólögmætt og að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.


I.

Á Vestfjörðum hefur um langt árabil verið í gildi sérstakur kjarasamningur um kjör sjómanna, háseta, matsveina og vélstjóra. Aðilar að þeim samningum hafa verið annars vegar Alþýðusamband Vestfjarða samkvæmt umboði frá verkalýðsfélögum í landsfjórðungnum og hins vegar Útvegsmannafélag Vestfjarða. Er síðastgildandi kjarasamningur varð laus fólu verkalýðsfélög þau, er standa saman að sókn máls þessa, Alþýðusambandi Vestfjarða að koma fram fyrir þeirra hönd við samningaumleitanir um gerð nýs kjarasamnings, sbr. 5. gr. laga nr. 80/1938. Þá fól gagnaðili kjarasamningsins, Útvegsmannafélag Vestfjarða, Samtökum atvinnulífsins og Landssambandi íslenskra útvegsmanna umboð til að koma fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamnings en þessir aðilar stóðu jafnframt að tilraunum til að gera kjarasamning við Sjómannasamband Íslands á sama tíma. Boðaði Sjómannasamband Íslands þá til verkfalls sem kom til framkvæmda 16. mars 2001. Ekki var boðað til verkfalls á Vestfjörðum. Áður en nefnt verkfall sjómannasambandsins kom til framkvæmda barst Alþýðusambandi Vestfjarða tilkynning um að Útvegsmannafélag Vestfjarða hefði efnt til atkvæðagreiðslu um boðun verkbanns er beinast myndi að félagsmönnum í verkalýðsfélögum þeim sem alþýðusambandið hefur umboð fyrir. Hefði verkbannsboðunin verið samþykkt og tilkynnt að það myndi skella á frá og með 16. mars 2001. Af hálfu Alþýðusambands Vestfjarða var talið að verkbannið fullnægði ekki áskilnaði 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938. Af því tilefni óskaði forseti Alþýðusambands Vestfjarða eftir því við ríkissáttasemjara að komið yrði á samráðsfundi með honum og fulltrúum Samtaka atvinnulífsins þar sem hann hugðist leggja fram skrifleg mótmæli við verkbanninu. Á fundi með ríkissáttasemjara 28. febrúar 2001 var viðurkennt af hálfu Samtaka atvinnulífsins að ranglega hefði verið staðið að verkbanninu. Aftur á móti barst sama dag tilkynning samtakanna um nýja atkvæðagreiðslu innan þeirra og nýtt verkbann sem skyldi hefjast 24. mars 2001. Er ágreiningur með aðilum um lögmæti þess.


II.

Alþýðusamband Íslands kveðst standa að málsókn þessari með stefnanda Alþýðusambandi Vestfjarða vegna ákvæðis 45. gr. laga nr. 80/1938. Stéttarfélögin, sem að málsókninni, standa séu öll aðildarfélög Alþýðusambands Íslands en hafi með sér svæðisbundið samstarf innan Alþýðusambands Vestfjarða. Hafi þau falið Alþýðusambandi Vestfjarða samningsumboð fyrir sína hönd gagnvart Útvegsmannafélagi Vestfjarða og því standi Alþýðusamband Vestfjarða einnig að málsókn.

Stefnandi telur sig hafa lögvarða hagsmuni að fá úr ágreiningi málsaðila skorið fyrir Félagsdómi þrátt fyrir að verkbann það, sem mál þetta lýtur, að hafi verið bannað með lögum nr. 34/2001 og því þannig lokið 15. maí 2001. Hafi verkbannið verið ólögmætt beri þeim sjómönnum, sem taka laun samkvæmt kjarasamningi Alþýðusambands Vestfjarða og Útvegsmannafélags Vestfarða, að fá þau laun sín greidd þann tíma sem verkbannið stóð.

Stefnandi byggir á því að kveðið sé á um heimild til að gera verkbönn og verkföll í 14. gr. laga nr. 80/1938, m.a. í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna í vinnudeilum með þeim skilyrðum og takmörkunum einum sem sett séu í lögum. Í 15. gr. laganna sé kveðið nánar á um skilyrði þess að hefja vinnustöðvun en það sé í fyrsta lagi ekki heimilt nema ákvörðun um hana hafi verið tekin við almenna leynilega atkvæðagreiðslu að uppfylltum skilyrðum um þátttöku tilskilins fjölda félagsmanna og að tillagan hafi notið stuðnings meiri hluta greiddra atkvæða. Þá beri að taka skýrt fram í tillögu til hverra henni er einkum ætlað að taka og hvenær vinnustöðvun er ætlað að koma til framkvæmda. Loks sé það skilyrði sett í 2. málslið 3. mgr. 15. gr. laganna að ákvörðun um boðun vinnustöðvunar sé því aðeins lögmæt að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Að mati stefnanda sé ótvírætt að síðastgreinda skilyrðinu hafi ekki verið fullnægt. Engar samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi átt sér stað milli aðila. Eini fundurinn, sem haldinn hafi verið og fram hafi farið 28. febrúar 2001, hafi verið samráðsfundur fulltrúa aðila í tilefni af fyrri verkbannsboðuninni sem stefndi hafi viðurkennt að hafi verið boðað til að ólögum. Síðari verkbannsboðunin sé háð nákvæmlega sama annmarka enda hafi enginn fundur um framlagðar kröfur hvorugs samningsaðila verið haldinn. Á nefndum fundi hafi ekkert verið fjallað efnislega um kröfur málsaðila né gerð nein tilraun til þess enda ekki tilgangur fundarins né þeir þar staddir sem gætu tekið afstöðu til krafnanna eða fjallað um þær á lögmætan hátt. Forseti Alþýðusambands Vestfjarða hafi óskað eftir fundinum 28. febrúar einvörðungu til að ræða boðað verkbann stefnda en hvorki haft sérstakt umboð né stöðuumboð til þess að taka að sér einn hlutverk samninganefndanna á þessum fundi.

Stefndi reisir sýknukröfu í fyrsta lagi á því, að við boðun verkbanns frá og með 24. mars 2001 á sjómenn, sem taki kjör samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga Alþýðusambands Vestfjarða, hafi verið farið eftir ákvæðum 14. - 16. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Í öðru lagi er á því byggt að stefnandi hafi ekki mótmælt boðuðu verkbanni fyrr en 17. apríl 2001, eða einum og hálfum mánuði eftir að það var boðað, og í þriðja lagi á því að verkbanninu hafi lokið 15. maí 2001 með setningu laga nr. 34/2001. Mótmælt er fullyrðingum í stefnu um að engar aðrar viðræður hafi átt sér stað milli stefnda og stefnanda og engir aðrir fundir hafi verið haldnir með stefnanda en þeir sem bókaðir eru hjá sáttasemjara. Stefndi hafi óskað aðstoðar sáttasemjara við að leysa deiluna 22. maí 2000 þegar samningar höfðu verið lausir og viðræður hafi staðið í rúma þrjá mánuði án þess að aðilar næðu saman. Hafi stefndi talið að deilan yrði ekki leyst nema með aðstoð sáttasemjara og að óformlegar viðræður hafi verið árangurslausar. Eftir að deilunni hafi verið vísað til sáttameðferðar ríkissáttasemjara hafi verið haldnir bókaðir sáttafundir þegar eitthvað sérstakt hafi verið að gerast eða þegar fullreynt hafi verið um ákveðna þætti án þess að niðurstaða næðist og þá verið gerð grein fyrir því við sáttasemjara hvernig gengið hefði. Ákveðin tengsl og samanburður hafi árum saman verið á milli aðildarfélaga stefnanda, Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Verkalýðs- og sjómannafélags Íslands. Í fundargerð sáttafundar 28. febrúar komi skýrt fram að stefnandi og stefndi haldi fast við kröfur sínar og engin lausn sé í sjónmáli í kjaradeilu við Alþýðusamband Vestfjarða. Mótmælt er sem röngum fullyrðingum í stefnu um að sáttafundurinn 28. febrúar hafi ekki verið marktækur þar sem samninganefnd stefnanda hafi ekki verið boðuð og forseti alþýðusambandsins hafi ekki haft umboð til að taka að sér einn hlutverk samninganefndar á þessum fundi. Hvorki sáttasemjara né stefnda hafi borist tilkynning um það hverjir skipuðu samninganefnd stefnanda en ljóst hafi verið að forseti Alþýðusambands Vestfjarða væri í forsvari fyrir stefnanda á fundinum. Komi það á óvart telji hann sig nú ekki hafa haft umboð til að ræða málin á fundi sem hann segist sjálfur hafa óskað eftir að væri haldinn. Það sé venja að sáttasemjari láti hafa samband við forsvarsmann samningsaðila þegar hann boði til sáttafundar en hann hafi ekki samband við hvern og einn nefndarmanna. Það sé forsvarsmannsins að ákveða hvort hann komi einn eða hafi einhverja með sér. Á fundinum 28. febrúar sé ekkert um það bókað að forseti Alþýðusambands Vestfjarða hafi talið sig vera vanhæfan eða ekki hafa umboð til þess að neita kröfum stefnda.

Það sé fyrst með bréfi 17. apríl 2001 sem mótmæli komi frá Alþýðusambandi Vestfjarða um gildi síðari verkbannsboðunarinnar frá 2. mars. 2001, meira en einum og hálfum mánuði eftir boðunina. Verkbannið hafi átt að koma til framkvæmda á Vestfjörðum 24. mars en þann 16. mars hafi á Alþingi verið sett lög nr. 8/2001 sem frestuðu öllum verkföllum og verkbönnum sjómanna og útvegsmanna til 1. apríl 2001. Verkbannið á Vestfjörðum hafi því hafist 1. apríl 2001 og án nokkurra mótmæla eða athugasemda stefnanda fyrr en með fyrrnefndu bréfi 17. apríl 2001.

Markmiðið með málshöfðun þessari virðist vera það eitt að tryggja að félagsmenn í aðildarfélagi Alþýðusambands Vestfjarða á Patreksfirði fái greidda kauptryggingu í verkfalli annarra skipverja þar sem þeir hafi ekki sjálfir verið í verkfalli. Ekki sé þó krafist viðurkenningar á greiðsluskyldu útgerðar á kauptryggingu. Hafi stefnandi talið að boðað verkbann væri ólögmætt hefði honum borið að gera athugasemdir og höfða mál án ástæðulauss dráttar eftir að verkbann var tilkynnt eða missa rétt til þess ella vegna aðgerðarleysis.


III.

Í 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/196, er það skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Er ágreiningur með aðilum um hvort þessu skilyrði hafi verið fullnægt er stefndi boðaði áðurnefnt verkbann frá 24. mars 2001 með bréfi 2. sama mánaðar á sjómenn sem taka kjör samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga Alþýðusambands Vestfjarða. Ráðast úrslit málsins af túlkun dómsins á því lagaatriði.

Fyrir liggur í málinu endurrit úr fundargerðarbók ríkissáttasemjara vegna fundar hjá embættinu 28. febrúar 2001 með Alþýðusambandi Vestfjarða og Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna. Segir þar að fram hafi komið af hálfu forseta Alþýðusambands Vestfjarða að útvegsmenn hefðu boðað verkbann án þess að árangurslausar sáttatilraunir hefðu átt sér stað og væru þetta ámælisverð vinnubrögð. Jafnframt segir í fundargerðinni að fulltrúi vinnuveitenda hafi beðist afsökunar á að staðið hafi verið ranglega að verkbanninu og yrði málið athugað nánar. Þá er staðfest af hálfu ríkissáttasemjara í bréfi hans til lögmanns stefnanda frá 5. júní síðastliðnum að hann minnist þess að viðræðurnar á áðurnefndum fundi hafi farið fram að beiðni forseta Alþýðusambands Vestfjarða. Enn fremur kemur fram í bréfi ríkissáttasemjara til sjávarútvegsnefndar Alþingis, dagsettu 16. maí 2001, að fyrir fundinn 28. febrúar 2001 hafi verið haldinn fundur hjá embættinu með áðurnefndum aðilum 29. maí 2000 og hafi þá verið lagðar fram kröfur aðila.

Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 75/1996 um breyting á lögum nr. 80/1938, en grein þessi varð 3. gr. fyrstnefndu laganna og breytti 15. gr. laga nr. 80/1938, segir að í 3. mgr. sé staðfest það meginsjónarmið að vinnustöðvun sé neyðarúrræði þess sem ekki hefur að eigin mati fengið viðhlítandi viðbrögð við kröfum sínum. Það sé því formbundið sem skilyrði lögmætrar ákvörðunar vinnustöðvunar að kröfur hafi komið skýrt fram og að samningaviðræður hafi reynst árangurslausar. Þá sé þess krafist að deiluaðili, sem leita vilji ákvörðunar um vinnustöðvun, hafi reynt til þrautar að ná samningi og í því skyni leitað milligöngu sáttasemjara. Sé við það miðað að sáttasemjara hafi gefist tækifæri til að kalla deiluaðila saman og freistað þess að ná sáttum áður en leitað sé eftir því við félagsmenn að boða til vinnustöðvunar. Vert sé að árétta að mat á því hvenær sáttatilraunir séu fullreyndar hljóti að vera hjá samninganefnd þess sem leitar eftir ákvörðun um vinnustöðvun.

Svo sem áður greinir staðfesti ríkissáttasemjari með bréfi 5. júní síðastliðinn að forseti Alþýðusambands Vestfjarða hefði óskað eftir viðræðufundinum 28. febrúar 2001. Koma þar fram athugasemdir hins síðarnefnda við boðuðu verkbanni útvegsmanna 16. mars 2001, án þess að árangurslausar sáttatilraunir hefðu farið fram, svo og afsökunarbeiðni fulltrúa vinnu-veitenda. Með skírskotun til þess, sem hér hefur verið rakið, þykir nægilega í ljós leitt af hálfu stefnanda að tilefni fundarins hafi verið mótmæli Alþýðusambands Vestfjarða vegna áður boðaðs verkbanns Útvegsmannafélags Vestfjarða. Verður eigi ráðið af áðurnefndu endurriti úr fundargerðarbók ríkissáttsemjara að á fundinum hafi farið fram samninga-viðræður eða viðræðutilraunir í skilningi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938, eins og lögunum var breytt með 3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1996. Fóru því engar formlegar samningaviðræður fram milli aðila fyrir milligöngu ríkissáttasemjara frá því að þeir lögðu fram kröfur sínar á fundi 29. maí 2000.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til athugasemda með 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 3. gr. laga nr. 75/1996, sem að áliti dómsins ber að skýra þröngt í samræmi við markmið löggjafans með setningu ákvæðisins, verður að telja að lagaskilyrði hafi brostið til hins umdeilda verkbanns. Þá verður ekki talið að mótmæli stefnanda gegn verkbanninu hafi komið of seint fram þannig að réttur hans í máli þessu sé niður fallinn fyrir tómlætis sakir enda höfðu aðstæður samkvæmt framansögðu að engu leyti breyst frá því fyrra verkbanninu var mótmælt af hans hálfu. Ber því að taka kröfu stefnanda til greina.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.


Dómsorð:

Viðurkennt er að verkbann stefnda, er hefjast skyldi 24. mars 2001, á sjómenn, sem tóku kjör samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga Alþýðusambands Vestfjarða, hafi verið ólögmætt.

Stefndi, Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Landsambands íslenskra útvegsmanna vegna Útvegsmannafélags Vestfjarða, greiði stefnanda, Alþýðusambandi Íslands og Alþýðusambandi Vestfjarða vegna Verkalýðsfélags Patreksfjarðar, Verkalýðs- og sjómannafélags Tálknafjarðar, Verkalýðsfélagsins Varnar, Verkalýðsfélagsins Brynju, Verkalýðsfélagsins Skjaldar, Verkalýðs- og sjómannafélagsins Súganda, Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga, Verkalýðsfélags Hólmavíkur og Verkalýðsfélags Kaldrananeshrepps, 200.000 krónur í málskostnað.

     

Sératkvæði Valgeirs Pálssonar

Með bréfi stefnda Samtaka atvinnulífsins til ríkissáttasemjara, dagsettu 22. maí 2000, var kjaradeilu aðila máls þessa vísað til sáttameðferðar hjá ríkissáttasemjara. Hafði deilan verið til meðferðar hjá sáttasemjara í rúma níu mánuði, þegar boðað var til fundar þann 28. febrúar 2001. Í endurriti úr fundargerðarbók ríkissáttasemjara vegna fundarins segir m.a. að forseti Alþýðusambands Vestfjarða hafi lagt fram skjal um samanburð á sjómannasamningum Alþýðusambands Vestfjarða og Sjómannasambands Íslands, en þar komi fram "að ASV liggur í mörgum kjaraatriðum yfir SSÍ." Sagðist forsetinn vilja halda þessum mun, sem fram komi í skjalinu, en Samtök atvinnulífsins og Landssamband íslenskra útvegsmanna leggi áherslu á að gera einn sameiginlegan sjómannasamning við Alþýðusamband Vestfjarða og Sjómannsamband Íslands. Samkvæmt þessu verður ekki annað ráðið en fjallað hafi verið um kjaraágreining deiluaðila á fundinum. Hvert sem tilefni fundarins hefur verið og hvernig sem viðræðunefndir deiluaðila hafa verið skipaðar í umrætt sinn verður að líta svo á að téður fundur hafi verið sáttafundur eins og m.a. er fjallað um í 25. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 5. gr. laga nr. 75/1996 um breyting á þeim.

Þótt á það megi fallast að skýra beri 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1996, þröngt, tel ég engu að síður nægilega fram komið að viðræðutilraunir hafi farið fram milli deiluaðila og þær reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Stefnda Útvegsmannafélag Vestfjarða hafi því fullnægt skilyrðum laga til að boða til hins umdeilda verkbanns sem átti að hefjast 24. mars 2001. Því beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum tel ég rétt að málskostnaður falli niður.


Valgeir Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta