Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2001: Úrskurður frá 9. júlí 2001.


Ár 2001, mánudaginn 9. júlí, var í Félagsdómi í málinu nr. 10/2001:

Sjómannafélag Reykjavíkur

(Friðrik Á. Hermannsson hdl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Hjörleifur Kvaran hrl.)

og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar

(Gestur Jónsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur


Ú R S K U R Ð U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 11. júní sl. Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Gísli Gíslason og Gunnar Sæmundsson.

Stefnandi er Sjómannafélag Reykjavíkur, kt. 570269-1359, Skipholti 50d, Reykjavík.

Stefndi er Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, Reykjavík og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, kt. 620269-2989, Grettisgötu 89, Reykjavík.


Dómkröfur stefnanda

  1. Að viðurkennt verði að stefnandi, Sjómannafélag Reykjavíkur, fari með samningsaðild fyrir Birgi Bjarnason, kt. 180762-3379, Skeljatanga 9, Mosfellsbæ, Guðlaug Loftsson, kt. 280848-2639, Hamraborg 26, Kópavogi, Jón Hilmar Davíðsson, kt. 270846-2899, Kleppsvegi 58, Reykjavík, Sigurð Kristin Eyjólfsson, kt. 120633-6359, Grímshaga 7, Reykjavík, Sigurjón Hreinsson, kt. 231070-4519, Lautasmára 1, Kópavogi, Sigurð Óskar Jónasson, kt. 120246-2839, Hraunbæ 102g, Reykjavík og Stefán Hall Ellertsson, kt. 010555-4189, Kleppsvegi 2, Reykjavík, við gerð kjarasamninga við Reykjavíkurborg vegna starfa þeirra hjá Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar.
  2. Að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu.

Dómkröfur stefnda, Reykjavíkurborgar

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.


Dómkröfur stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar

Krafist er sýknu af kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að mati Félagsdóms.


Málavextir

Málsatvik eru þau að árið 2000 sögðu sex starfsmenn Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar sig úr félagi stefnda, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, og gengu í Sjómannafélag Reykjavíkur. Menn þessir eru Stefán Hallur Ellertsson. Sigurður Kristinn Eyjólfsson, Jón Hilmar Davíðsson, Birgir Bjarnason, Sigurjón Hreinsson og Guðlaugur Loftsson. Úrsagnir þeirra áttu sér stað á tímabilinu 16. febrúar til 2. maí 2000. Síðar hóf störf hjá Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar Sigurður Óskar Jónasson og óskaði hann eftir félagsaðild hjá stefnanda. Hann gekk aldrei í félag stefnda, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, og var úrsögn hans úr því félagi þ.a.l. óþörf.

Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, Reykjavíkurborgar, dags. 05.10.2000, var gerð krafa um viðurkenningu stefnda á samningsrétti stefnanda f.h. nefndra starfsmanna Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar. Í bréfinu var vísað til þess að kjarasamningur milli stefnda, Reykjavíkurborgar, annars vegar og stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, hins vegar, rynni út hinn 31.10.2000 og að stefnandi teldist réttur samningsaðili við gerð næsta kjarasamnings fyrir þeirra hönd við stefnda, Reykjavíkurborg. Þá er því lýst í bréfinu að starfssvið þessara starfsmanna miðist við vinnu á hafnarsvæði Reykjavíkur; að taka á móti skipum, binda þau við bryggju og vera í áhöfn hafnsögubátanna. Þeir séu lögskráðir sem hásetar og njóti til að mynda sjómannaafsláttar. Starfssvið þeirra sé með öðrum orðum sambærilegt starfssviði hinna almennu félagsmanna stefnanda og ættu þeir því lögmætt tilkall til inngöngu í félagið. Stefndu var veittur frestur til 20.10.2000 til viðurkenningar samningsaðildarinnar en að öðrum kosti yrði höfðað mál fyrir Félagsdómi til viðurkenningar á samningsaðild stefnanda.

Með bréfi dags. 24.10.2000 hafnaði stefndi, Reykjavíkurborg, samningsaðild stefnanda, f.h. nefndra starfsmanna hjá Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar. Í bréfinu er lýst því mati stefnda, Reykjavíkurborgar, að stefndi, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, fari með samningsumboð vegna umræddra starfa og að stefnandi uppfylli ekki ákvæði 5. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Stefndi, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, er aðili að kjarasamningi við meðstefnda, Reykjavíkurborg. Kjarasamningurinn nær m.a. til starfa svæðisstjóra og bryggjuvarða við Reykjavíkurhöfn. Þeir sjö einstaklingar, sem stefnandi krefst samningsaðildar fyrir, starfa sem bryggjuverðir eða svæðisstjórar hjá Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar.

Mál þetta gegn stefndu til viðurkenningar á samningsaðild stefnanda var þingfest fyrir Félagsdómi 17. apríl sl.


Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst byggja á eftirfarandi málsástæðum:

Úrsögn hafnarstarfsmannanna úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.

Úrsögn nefndra hafnarstarfsmanna úr félagi stefnda, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, hafi átt sér stað á tímabilinu 16.02. - 02.05.2000 og teljist þeir því allir vera komnir úr félaginu. Samkvæmt 4. gr. laga stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, skuli úrsögn úr félaginu vera skrifleg og taki fyrst gildi 3 mánuðum eftir að hún berist félaginu. Þessu ákvæði 4. gr. laga stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, hafi verið fullnægt.

Inngönguskilyrði hafnarstarfsmannanna í Sjómannafélag Reykjavíkur.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga stefnanda heiti félagið Sjómannafélag Reykjavíkur, skammstafað SR og sé félagssvæði þess Reykjavík og nágrenni. Samkvæmt 2. gr. laganna sé tilgangur félagsins að sameina alla starfsmenn sem starfa á grundvelli þeirra kjarasamninga sem félagið gerir, vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna. Í 2. gr. er því lýst að félagið skiptist í starfsgreinar eftir því hvaða starfsgreinar séu stundaðar. Þá sé það tilgangur félagsins að vinna að öryggis- og fræðslumálum félagsmanna, bættri löggjöf um málefni félagsmanna og aðstoða félaga um störf í landi að loknu sjómannsstarfi. Í 3. gr. laganna sé síðan fjallað um þá sem eigi rétt til inngöngu í félagið en inngöngurétt hafi allir sem atvinnu stundi á sjó eða starfi á hvers konar flotmannvirkjum, enda þótt þau standi á grunni svo og þeir sem atvinnu hafa af hvers konar flutningastarfsemi.

Ljóst sé að umræddir starfsmenn Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar uppfylli inngönguskilyrðin í félag stefnanda enda hafi stefnandi viðurkennt inngöngurétt þeirra. Starfssviði og starfsskyldum nefndra starfsmanna hjá Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar sé ítarlega lýst í minnisblaði hafnarstjórans í Reykjavík, Hannesar Valdimarssonar, til hafnarstjórnar, dags. 27.10.1998. Í minnisblaðinu komi meðal annars fram að við ráðningu starfsmanna séu gerðar lágmarkskröfur um menntun og reynslu við störf á sjó og ætlast sé til þess að allir starfsmenn hafnarþjónustu geti fyrirvaralítið farið til vinnu um borð í báta fyrirtækisins. Samkvæmt minnisblaðinu sé nauðsynlegt að á hverri vakt sé hægt að leysa öll verkefni hafnarþjónustu, en þó aðallega hafnsögu, dráttarbátaþjónustu og móttöku skipa. Skipulag þjónustu, menntun og reynsla í starfi, taki mið af því að geta mannað slík verkefni á hvaða tíma sem er. Í minnisblaðinu sé gerð ítarleg grein fyrir störfum umræddra starfsmanna Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar og ætti vart að fara á milli mála að störf þeirra falli undir áskilnað laga stefnanda um inngöngurétt í félagið. Bent er á dóm Hæstaréttar í málinu nr. 489/1991, H. 1994:2912, þessu til frekari stuðnings, en Hæstiréttur hafi þar dæmt hafnarstarfsmanni rétt til sjómannaafsláttar. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að leiðsaga skipa hljóti að teljast til sjómannsstarfa í almennri merkingu, hvort sem leiðsögumaður sé aðfenginn eða í skiprúmi um borð, enda sé krafist bæði kunnáttu og reynslu á sviði siglinga. Starfið sé áhættusamt og oft sé unnið við erfið skilyrði, þótt það varði ekki langar siglingar.

Af framangreindu megi telja ljóst að nefndir starfsmenn Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar hafi sagt sig löglega úr félagi stefnda, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, og innganga þeirra í félag stefnanda sé í fullu samræmi við lög stefnanda.

Takmörkun laga nr. 94/1986 á félagafrelsi hafnarstarfsmannanna er andstæð félaga- og jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

Hin almennu lög um samningsrétt einstakra stéttarfélaga fyrir hönd félagsmanna sinna séu lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Samkvæmt 5. gr. laganna séu stéttarfélög lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Löggjafinn hafi hins vegar sett sérstök lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. lög nr. 94/1986. Samkvæmt l. gr. þeirra laga gildi þau um alla starfsmenn sem séu félagar í stéttarfélögum sem samkvæmt 4. og 5. gr. laganna hafi rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og séu ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra með föstum tíma-, viku- eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf. Byggt er á því að lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna eigi við í þessu máli að svo miklu leyti sem lögin takmarki ekki samningsrétt stefnanda, fyrir hönd umræddra hafnarstarfsmanna, umfram þær takmarkanir sem greindar séu í lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Byggir sú niðurstaða í fyrsta lagi á ákvæði 74. og 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og í öðru lagi á 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmálans.

Tilvísun til 74. gr. stjórnarskrárinnar í þessum efnum styðjist við þau rök að samkvæmt 2. mgr. 74. gr. megi engan skylda til aðildar að félagi nema það sé nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Ekki verði séð að sú takmörkun á félagafrelsi sem greind sé í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og þá sérstaklega í 3. - 6. grein laganna, sé nauðsynleg með tilliti til almannahagsmuna eða réttinda annarra. Beri þá helst að líta til þeirra fjöldatakmarkana sem settar séu í 5. gr. laganna auk þess áskilnaðar ákvæðisins að um sé að ræða starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða sem uppfylli skilyrði um formlega menntun sem jafna megi til slíkra starfsréttinda. Er á því byggt að umræddar takmarkanir á samningsrétti stefnanda fyrir hönd umræddra hafnarstarfsmanna sé brot á nefndu ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Tilvísun til 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar styðjist við þau rök að í lögum skuli kveðið á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Við setningu slíkra laga, sem stjórnarskráin skyldi löggjafann til, verði að hafa hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu; að slík löggjöf takmarki ekki félagafrelsið og þ.a.l. samningsrétt einstakra stéttarfélaga fyrir hönd félagsmanna sinna umfram almannahagsmuni. Þá beri löggjafanum einnig að líta til 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmálans við setningu slíkra laga; að einstökum stéttarfélögum og félagsmönnum þeirra sé ekki mismunað vegna þjóðfélagsstöðu sinnar, til að mynda sökum menntunar eins og gert sé í 5. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Það sé andstætt tilgangi stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu að háskólamenntað fólk eða aðrir langskólagengnir einstaklingar eigi að hafa ríkari rétt til félagafrelsis en þeir sem minni menntun hafa.

Til að undirstrika þá mismunun sem stefnandi og umræddir hafnarstarfsmenn hafi þurft að sæta af hálfu stefndu, er vísað til bréfs Reykjavíkurborgar, dags. 24.10.2000, þar sem samningsaðild stefnanda, fyrir hönd umræddra starfsmanna, sé hafnað á grundvelli ákvæðis 5. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þann sama dag og stefndi, Reykjavíkurborg, hafnaði samningsrétti stefnanda, f.h. hafnarstarfsmannanna, hafi stefndi, Reykjavíkurborg, samþykkt með bréfi samningsrétt Vélstjórafélags Íslands, f.h. þeirra vélstjóra sem starfa við hlið félagsmanna stefnanda hjá Reykjavíkurhöfn. Er á því byggt að hér sé um klárlega mismunun að ræða; vélstjórar hjá Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar megi ganga í sitt stéttarfélag, Vélstjórafélag Íslands, og fela því stéttarfélagi samningsumboð fyrir sína hönd en hásetar hjá Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar megi ekki ganga í félag stefnanda og fela því samningsréttinn við stefnda, Reykjavíkurborg, fyrir sína hönd.

Félagsdómur hafi vikið til hliðar áskilnaði 5. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna um lágmarksfjölda félagsmanna tiltekins stéttarfélags til þess að það gæti öðlast samningsrétt í Félagsdómsmálinu nr. 9/1999. Í Félagsdómsmálinu nr. 11/2000 sé hins vegar ekki tekið á síðargreinda atriðinu, þ.e. hvort takmörkun á félagafrelsi með tilliti til menntunar eða starfsréttinda stangist á við félagafrelsis- og jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Gerð er sú krafa að á þessum atriðum verði tekið í þessu máli með vísan til þess sem að ofan greinir.

Samningsréttur samkvæmt 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur:

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 80/1938 séu stéttarfélög lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna hætti félagsmaður stéttarfélags að vera bundinn af samþykktum félags síns þegar hann sé, samkvæmt reglum félagsins, farinn úr því en þeir samningar sem hann hafi orðið bundinn af á meðan hann var félagsmaður séu skuldbindandi fyrir hann meðan hann vinni þau störf sem samningurinn sé um, þar til þeir fyrst geti fallið úr gildi samkvæmt uppsögn. Sá kjarasamningur sem nú sé í gildi milli hafnarstarfsmannanna og stefnda, Reykjavíkurborgar, og gerður hafi verið á milli stefnda, Reykjavíkurborgar, og stefnda, Starfsmannfélags Reykjavíkurborgar, hafi fallið úr gildi 31. október árið 2000, sbr. ákvæði gr. 12.1.1. í kjarasamningnum. Með vísan til ákvæðis 6. gr. laga nr. 80/1938, þar sem segir að hafi samningi ekki verið sagt upp innan tiltekins uppsagnarfrests, teljist hann framlengdur um eitt ár og ákvæðis 11. gr. laga nr. 94/1986 um að samningur framlengist um 6 mánuði hafi honum ekki verið sagt upp réttilega, beri stefnanda nauðsyn á að fá viðurkenndan samningsrétt sinn við stefnda, Reykjavíkurborg, f.h. nefndra starfsmanna Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar, frá 01.11.2000 að telja, svo að stefnanda sé unnt að ganga frá kjarasamningi fyrir þeirra hönd við stefnda, Reykjavíkurborg.

Stjórnarskráin sé æðri almennum lögum.

Á því er byggt að þær takmarkanir sem felist í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, um samningsrétt stefnanda fyrir hönd ofangreindra hafnarstarfsmanna, sé andstæð 74. og 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmálans. Lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna voru sett árið 1986 en stjórnarskrárbreytingin, sem undirstrikaði frelsi launþega til að ganga í stéttarfélag og fela því samningsumboð fyrir sína hönd, átti sér stað árið 1995. Stjórnarskráin sé æðri almennum lögum; lex superior og yngri lög ryðji eldri lögum út stangist þau á; lex posterior. Hér sé ekki um það að ræða að hafnarstarfsmennirnir vilji standa utan félaga (neikvætt félagafrelsi); þeir vilji eiga valfrelsi milli félaga en slíkt frelsi sé grundvallarþáttur ákvæðis 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og falli undir skilgreininguna á jákvæðu félagafrelsi.

Hafnarstarfsmennirnir hafi sömu hagsmuna að gæta og félagsmenn stefnanda.

Stefnandi hafi með höndum samningsgerð fyrir ótiltekinn fjölda félagsmanna sinna sem sinni störfum á sjó eða í tengslum við sjómennsku. Þeir njóti sjómannaafsláttar, sbr. H. 1994:2912, en stefnandi standi vörð um þann skattaafslátt sem hluta af launakjörum allra sinna félagsmanna. Líklega séu umræddir hafnarstarfsmenn eini hópurinn sem stefndi, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, hafi hingað til haft innan sinna vébanda og njóti sjómannaafsláttar.

Hafnarstarfsmennina beri að lögskrá þegar þeir sinni störfum á skipum Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna, sbr. 2. gr. laga nr. 119/1997 og l. gr. laga nr. 28/1999, sé ekki hægt að lögskrá skipverja sem ekki hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna. Allir félagsmenn stefnanda verði að taka nefnt námskeið til að halda vinnu sinni. Þau launþegasamtök, sem gæti hagsmuna sjómanna um framkvæmd og stjórnun slíkra námskeiða, séu Sjómannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands enda um að ræða einu félög og sambönd launþega sem þurfi á þessum námskeiðum að halda. Þessu til stuðnings er vísað til minnisblaðs hafnarstjórans í Reykjavík, dags. 27.10.1998. Í fyrsta lið minnisblaðsins komi meðal annars fram að Reykjavíkurhöfn ætlist til þess að allir starfsmenn hafnarþjónustu geti fyrirvaralítið farið til vinnu um borð í báta fyrirtækisins og það sé því eðlilegt að réttarstaða þeirra sé tryggð með óyggjandi hætti og farið sé eftir þeim lögum sem tryggi það.

Framangreindir starfsmenn Reykjavíkurhafnar hafi allir reynslu af sjómennsku og hafi því verið félagsmenn stefnanda eða einhvers annars sjómannafélags innan Sjómannasambands Íslands áður en þeir hófu störf hjá Reykjavíkurhöfn. Í nefndu minnisblaði hafnarstjórans í Reykjavík komi meðal annars fram í 4. lið að til þess að hægt sé að leysa þau verkefni á hagkvæman hátt sem Reykjavíkurhöfn taki að sér á hverjum tíma, sé nauðsynlegt að geta kallað aðra starfsmenn en fastar áhafnir á vöktum til starfa á bátum hafnarinnar, enda hafi þeir allir menntun, starfsreynslu og þjálfun til að sinna þeim verkefnum.

Hafnarstjórinn í Reykjavík leggi áherslu á tengsl sjómannasamtakanna við starfsmenn Reykjavíkurhafnar í 7. lið minnisblaðs síns. Hann bendir á að skattaleg meðferð á tekjum starfsmanna fari eftir skattalögum. Skattalöggjöfin hafi ekki áhrif á mat yfirstjórnar hafnar á nauðsynlegri mönnun dráttarbáta og skipan starfa í hafnarþjónustu. Það mat taki hins vegar mið af verkefnum, öryggi í rekstri, réttarstöðu starfsmanna og reglum um mönnun skipa sem meðal annars sé unnið í samráði við stéttarfélög skipstjóra, vélstjóra og sjómanna.

Framangreindir hafnarstarfsmenn séu allir félagsmenn stefnanda og hafi óskað eftir því að stefnandi sjái um samningsgerð fyrir sína hönd við stefnda, Reykjavíkurborg. Ekki verði séð að stefndu hafi gert um það ágreining að hafnarstarfsmennirnir geti verið félagsmenn stefnanda; einungis hvort stefnanda sé heimilt að gera kjarasamninga fyrir þeirra hönd. Hafnarstarfsmennirnir hafi stéttarfélagsvitund og vilji vera í félagi stefnanda eins og allir aðrir sjómenn sem ekki gegni yfirmannsstöðum á skipum. Bent hafi verið á nokkur þau atriði sem tengi aðstöðu hafnarstarfsmannanna við aðra félagsmenn stefnanda; samsömun sem varði bakgrunn, þekkingu, hæfni og þjálfun, auk lagalegrar stöðu, til að mynda hvað varðar lögskráningu, öryggisfræðslu og skattaafslátt. Löggjöf sem hindri starfsmennina til að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að velja sér stéttarfélag og fela því samningsrétt fyrir sína hönd, sé ekki einasta andstæð fyrrgreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, um félagafrelsi og jafnræði þegnanna, heldur brjóti hún einnig gegn siðferðisvitund einstaklinga og sé til þess fallin að særa réttarvitund þeirra sem hlut eigi að máli; að þeir séu ekki nógu menntaðir eða skynsamir til að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að velja sér stéttarfélag og fela því samningsumboð sitt. Löggjöf af þessum toga verði ekki réttlætt með vísan til almannahagsmuna; hún sé vafalaust andstæð hagsmunum almennings og beinlínis skaðleg í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Tjáningarfrelsi.

Framangreindar takmarkanir á rétti stefnanda til að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna við stefnda, Reykjavíkurborg, séu ekki einungis andstæðar framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi og jafnrétti þegnanna, heldur brjóti þær einnig gegn ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Verið sé að setja tjáningarfrelsi þeirra skorður. Skoðanir þeirra og sannfæring sæti óviðunandi höftum sem eigi sér enga stoð með tilliti til allsherjarreglu eða öryggis ríkisins. Hafnarstarfsmennirnir vilji ekki vera bundnir á klafa í kjarasamningum með hópi fólks sem eigi sér enga efnislega samsvörun í launa- eða réttindamálum.

Félagsnauðung hafnarstarfsmannanna brjóti gegn tjáningarfrelsi þeirra, enda hafi þeir ekki um aðra kosti að velja en að vera í félagi stefnda, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, sem setji fram skoðanir fyrir þeirra hönd. Nánari afmörkun tjáningarfrelsisins hafi oft verið mikilvæg við túlkun á félagafrelsinu þar sem ekki sé hægt að túlka félagafrelsið þröngt með tilliti til verndarsviðs tjáningarfrelsisins, heldur sé þvert á móti hægt að líta á það sem sérstakt og aukið tjáningarfrelsi. Í tjáningarfrelsi felist réttur til að tjá sig en stundum vilji menn þó fremur þegja en tjá sig um ákveðna hluti og teljist slíkt vera hluti tjáningarfrelsisins (neikvætt tjáningarfrelsi). Í þeirri athöfn að ganga í félag stefnanda búi ákveðin tjáning; hafnarstarfsmennirnir hafi lýst því yfir að þeir hafi bæði vilja og áhuga á félagsskiptunum og að stefnandi fari með samningsrétt fyrir þeirra hönd en ekki stefndi, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar.

Mál þetta eigi undir Félagsdóm samkvæmt 1. tölulið l. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna dæmir Félagsdómur í málum sem rísa milli samningsaðila um samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nær. Sé máli þessu því réttilega stefnt fyrir Félagsdóm.

Sjómannafélag Reykjavíkur sé stefnandi málsins með heimild í 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Samkvæmt ákvæðinu reka stéttarfélög mál sín og félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi en ekki heildarsamtök slíkra félaga. Teljist Sjómannafélag Reykjavíkur því réttilega stefnandi þessa máls.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á 65., 73., 74. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, auk 10., 11. og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna; lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur; 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993; kjarasamningi milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar frá 17. febrúar 1998; lögum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar útgefnum árið 1995, lögum Sjómannafélags Reykjavíkur svo og dómi Félagsdóms í máli nr. 9/1999. Um dráttarvexti er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Um málskostnað er vísað til l. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.


Málsástæður og lagarök stefnda, Reykjavíkurborgar

Af hálfu stefnda, Reykjavíkurborgar, eru sýknukröfur m.a. á því reistar að stefnandi máls þessa, Sjómannafélag Reykjavíkur, hafi ekki uppfyllt lögformleg skilyrði við beiðni um samningsrétt til handa umræddum starfsmönnum Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar. Nánar tiltekið hafi stefnandi fyrst haft uppi kröfu um samningsaðild f.h. umræddra starfsmanna með bréfi lögmanns, dags. 5. október 2000. Sú beiðni hafi augljóslega verið of seint fram komin, enda sé sú tilhögun í andstöðu við ákvæði 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Umrætt ákvæði geri svofellt skilyrði til samningsaðildar: "Stofnun nýs félags, sem fer með samningsumboð skv. 5. gr., skal tilkynna a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok samningstímabils þeirra kjarasamninga, sem gilda fyrir félagsmenn hins nýja félags." Kjarasamningar Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, sem tók til starfa hlutaðeigandi starfsmanna, gengu úr gildi þann 31. október 2000. Ákvæði 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna verði ekki skilið öðruvísi en svo að beiðni um samningsaðild verði að hafa uppi í síðasta lagi í lok júlí- mánaðar árið 2000. Með vísan til framanritaðs hafi beiðni stefnanda því verið allt of seint fram komin og beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum í máli þessu.

Reykjavíkurborg hafi um áratugaskeið gert kjarasamning um störf hafnarstarfsmanna við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og telji sig bundna að lögum til kjarasamningsgerðar við það félag um umrædd störf. Í ljósi þessa hafi Reykjavíkurborg ekki talið sér fært að verða við erindi Sjómannafélags Reykjavíkur um samningsaðild, sbr. bréf þar um dags. 24. október 2000.

Sakarefninu sé lýst með ónákvæmum hætti í stefnu. Sakarefnið snúist um það hvort stefnandi, Sjómannafélag Reykjavíkur, geti þvingað Reykjavíkurborg til gerðar kjarasamnings um störf sem borgin hafi þegar samið við annað stéttarfélag um. Með öðrum orðum, hafi borgin skyldu til þess að semja við hvaða stéttarfélag sem er ef starfsmenn/starfsmaður borgarinnar kjósi að ganga í félagið. Stefndi, Reykjavíkurborg hafi með vísan til 4. og 6. gr. laga nr. 94/1986 svarað þessari spurningu neitandi.

Af hálfu stefnda er sýknukrafa á því byggð að umræddir hafnarstarfsmenn séu bundnir af kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem fari með samningsaðild fyrir hafnarstarfsmenn. Samkvæmt 1. mgr. 4 gr. laga nr 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, fari stéttarfélög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga með fyrirsvar félagsmanna sinna við gerð kjarasamninga samkvæmt lögunum og aðrar ákvarðanir í sambandi við þá. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna eigi þau stéttarfélög sem við gildistöku laganna hafi sérkjarasamning við fjármálaráðherra eða hafa kjarasamning við sveitarfélög rétt á að gera samninga við sama aðila samkvæmt lögunum, enda hafi þau óskað eftir því innan árs frá gildistöku laganna. Á grundvelli þessa lagaákvæðis sé í gildi kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Fyrir gildistöku laga nr. 94/1986 hafi Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar samið um störf hafnarstarfsmanna og hafi gert það síðan.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 94/1986 skuli eigi nema eitt stéttarfélag hafa rétt til samningsgerðar við sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt. Samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 94/1986 eigi stéttarfélög, sem starfi á grundvelli laganna, rétt til að vera samningsaðilar. Í þessu felist að ríki og/eða sveitarfélagi sé skylt að gera kjarasamninga við félögin vegna félagsmanna þeirra sem starfa hjá viðkomandi aðila að uppfylltum almennum skilyrðum. Sjómannafélag Reykjavíkur sé stéttarfélag samkvæmt lögum nr. 80/1938. Ríki og/eða sveitarfélögum sé ekki skylt að gera kjarasamninga við stéttarfélög sem starfa samkvæmt lögum nr. 80/1938. Heimild opinberra aðila til að gera kjarasamninga við þessi stéttarfélög takmarkist af reglum laga nr. 94/1986, m.a. 6. gr. laganna, þar sem fram sé sett sú meginregla að ekki skuli nema eitt stéttarfélag hafa samningsrétt við sama vinnuveitanda um sömu starfsstétt. Í ljósi þess að Reykjavíkurborg hafi alla tíð samið við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar um störf hafnarstarfsmanna og með vísan til 6. gr. laga nr. 94/1986 sé Reykjavíkurborg óheimilt að semja um það starfsheiti við annað stéttarfélag og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum í þessu máli.

Eins og áður hafi komið fram sé Sjómannafélag Reykjavíkur stéttarfélag sem starfi á grundvelli laga nr. 80/1938. Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi geti ekki öðlast samningsrétt á grundvelli laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í umræddum lögum séu tiltekin skilyrði gerð til samningsaðildar stéttarfélaga, þ.e. stéttarfélög verða að uppfylla tiltekin skilyrði til að geta öðlast slíkan samningsrétt. Ákvæði 5. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna tiltaki í þremur töluliðum skilyrði sem uppfylla þurfi til samningsaðildar, þ.e. uppfylla þurfi eitt þessara þriggja skilyrða. Sýnt þyki að stefnandi uppfylli á engan hátt umrædd skilyrði. Samkvæmt 1. tl. þurfi stéttarfélag að taka til meiri hluta opinberra starfsmanna hjá sveitarfélagi, samkvæmt 2. tl. þurfi stéttarfélag að taka til 2/3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra hjá tiltekinni stofnun og að þeir félagsmenn séu 100 eða fleiri og samkvæmt 3. tl. þurfi stéttarfélag að taka til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra og séu í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna megi til slíkra starfsréttinda og að þeir félagsmenn séu 40 eða fleiri. Kröfugerð stefnanda uppfylli ekkert þessara skilyrða og hafi stefnandi ekki einu sinni reynt að sýna fram á að hann uppfylli eitthvert nefndra skilyrða. Ákvæði 5. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna kveði á um skilyrði sem stéttarfélög þurfi að uppfylla til að öðlast rétt til að vera samningsaðili. Af hálfu stefnda þykir sérstök ástæða til að fjalla um efni 3. tl. 5. gr. nefndra laga. Samkvæmt 3. tl. 5. gr. geti félag, sem taki til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna, sem undir lögin heyra og séu í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna megi til slíkra starfsréttinda og að þeir félagsmenn séu 40 eða fleiri, öðlast rétt til að vera samningsaðili. Ákvæði laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna hafi ekki að geyma frekari skýringar á gildissviði áðurnefndrar 5. gr. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna segi að 3. tl. 5. gr. fjalli um samningsumboð fagfélaga. Í lokamálslið greinargerðar segi í umfjöllun um 3. tl. 5. gr.

"Grein þessi tekur til þeirra starfsstétta sem hafa starfsréttindi sem bundin eru í lögum eða reglugerðum svo og fagstétta sem þurfa hliðstæða sérhæfingu og sérþjálfun til þeirra starfa sem þær annast. Er hér annars vegar um að ræða starfsstéttir, svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga, fóstrur, sjúkraliða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga, sjúkraþjálfara o.s.frv., þar sem sérstök ákvæði í lögum eða reglugerð kveða á um starfsréttindi og rétt til notkunar á starfsheitum. Hins vegar er um að ræða fagfélög starfsmanna sem hafa lokið hliðstæðu námi og sérhæfingu og framangreindar stéttir. Er þar fyrst og fremst um að ræða háskólamenntaða starfsmenn."

Af hálfu stefnda, Reykjavíkurborgar, er á því byggt að umræddir hafnarstarfsmenn hjá Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar uppfylli ekki skilyrði áðurnefndrar 5. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og geti hvorki talist starfsstétt með lögformleg starfsréttindi né heldur uppfylli þeir skilyrði um formlega menntun sem jafna megi til slíkra starfsréttinda. Af hálfu stefnda er því haldið fram að hið fyrra skilyrði, þ.e. starfsstétt með lögformleg starfsréttindi, verði að grundvallast á beinum lagaákvæðum er veiti tiltekinni starfsstétt tiltekin starfsréttindi, sbr. t.d. slökkviliðsmönnum samkvæmt ákvæðum laga nr. 41/1992, um brunavarnir og brunamál. Það sé því skilyrði til slíkra starfsréttinda að fjallað sé um þau í lögum en stefnandi hafi hvorki sýnt fram á né reynt að sýna fram á grundvöll meintra starfsréttinda. Af hálfu stefnda er því enn fremur mótmælt að hafnarstarfsmenn sem um ræðir í máli þessu uppfylli skilyrði um formlega menntun sem jafna megi til slíkra starfsréttinda. Með formlegri menntun sé samkvæmt nefndu ákvæði átt við menntun sem aflað sé hjá menntastofnunum sem starfi á grundvelli sérstakra laga eða heimilda. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna segi að með 3. tl. nefnds ákvæðis sé gert ráð fyrir samningsumboði fagfélaga, þ.e. félaga sem taki til a.m.k. tveggja þriðju hluta heillar starfsstéttar sem sé með lögformleg starfsréttindi eða uppfylli skilyrði um formlega menntun sem jafna megi til slíkra starfsréttinda. Sýknukrafa stefnda byggir á því að hafnarstarfsmenn hafi hvorki lögformleg starfsréttindi né heldur formlega menntun sem jafnað verði til slíkra starfsréttinda. Þeir starfsmenn Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar sem hafi sagt sig úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og/eða gengið hafa í Sjómannafélag Reykjavíkur, hafi hvorki lögformleg starfsréttindi né uppfylli skilyrði um formlega menntun sem jafna megi til slíkra starfsréttinda. Öryggisfræðsla úr Slysavarnaskóla sjómanna uppfylli ekki þau skilyrði sem löggjafinn hafi sett og verði ekki jafnað til formlegrar menntunar fagfélaga eins og tilgreint sé í greinargerð með frumvarpi til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að ákvæði laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna stríði gegn ákvæðum 65., 73., 74. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum, auk ákvæða 10., 11. og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrár skuli í lögum kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Þetta hafi löggjafinn gert annars vegar með lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og hins vegar með lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Sú skipan sem umrædd lög kveði á um sé að fullu og öllu leyti í samræmi við ákvæði stjórnarskrár. Ákvæði beggja laga hafi í reynd að geyma fyrirmæli um tiltekna skipan samningsaðildar og í framkvæmd sé það svo að starfsmenn með sambærilega menntun og/eða sambærilega sérhæfingu séu félagsmenn í sömu stéttarfélögum, enda gegni þeir störfum sem falli undir samningssvið hlutaðeigandi félags. Í reynd mæli umrædd skipan fyrir um tiltekið fyrirkomulag á vinnumarkaði og er því mótmælt að sú skipan stríði gegn áðurnefndum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Málatilbúnaður stefnanda verði varla skilinn öðruvísi en svo að óheimilt sé að skipa samningsaðild með einhverjum hætti eða binda samningsaðild einhverjum takmörkunum en af hálfu stefnda er því haldið fram að annað fyrirkomulag myndi einungis leiða til glundroða á vinnumarkaði. Málatilbúnaður stefnanda sé því í andstöðu við skýr fyrirmæli stjórnarskrárinnar.

Í stefnu sé því haldið fram að starfsmenn Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar megi ekki ganga í félag stefnanda og jafnframt sé því haldið fram að um félagsnauðung hafnarstarfsmanna sé að ræða. Félagafrelsi er tryggt í 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Í samræmi við þetta ákvæði stjórnarskrár bendir stefndi á að hann hafi aldrei haldið því fram að umræddir hafnarstarfsmenn séu ekki félagsmenn í Sjómannafélagi Reykjavíkur. Það atriði varði stefnda engu, enda alfarið mál hlutaðeigandi starfsmanna og stéttarfélaga. Af hálfu stefnda hafi verið á því byggt að Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar fari með samningsumboð fyrir hafnarstarfsmenn og að óheimilt sé að semja við önnur stéttarfélög um þau störf. Sé það í samræmi við 6. gr. laga nr. 94/1986 og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi mótmælir því alfarið að í afstöðu hans felist afskipti af félagsaðild starfsmanna eða að með afstöðu sinni séu lagðar hömlur á félagafrelsi þeirra. Er ítrekað að stefndi telji sig það engu varða í hvaða stéttarfélagi hlutaðeigandi starfsmenn séu. Þá vísar stefndi enn fremur til dóms Félagsdóms í máli nr. 17/1997, Alþýðusamband Íslands gegn Reykjavíkurborg og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar þar sem staðfest hafi verið að samningur Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar um tiltekið starfsheiti leiddi til þess að annað stéttarfélag gæti ekki farið með samningsaðild vegna sama starfsheitis. Með vísan til framanritaðs er þeirri málsástæðu stefnanda mótmælt sem rangri og órökstuddri að ákvæði laga nr. 94/1986 séu andstæð ákvæðum 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi þar sem þau veiti tilteknum stéttarfélögum aukið vægi framan öðrum. Breyting sú, sem gerð hafi verið á stjórnarskránni á árinu 1995, breyti engu þar um.

Af hálfu stefnda er því enn fremur mótmælt að gildandi löggjöf stríði gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Í 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar sé kveðið á um skyldu til að mæla fyrir um samningsaðild og skipulag á vinnumarkaði. Ákvæði 65. gr. stjórnarskrár kveði á um að allir skuli jafnir fyrir lögum. Framangreind ákvæði verði ekki túlkuð öðruvísi en svo, m.a. með hliðsjón af öðrum ákvæðum stjórnarskrár, að löggjafanum sé heimilt að mæla fyrir um tiltekna skipan á vinnumarkaði enda sé þess gætt að þeim sem eins sé ástatt um séu tryggð sambærileg réttindi og meðferð að öðru leyti. Það sé því rangt sem haldið sé fram í stefnu að ákvæði laga nr. 94/1986 kveði á um aukin og betri réttindi sumra, t.d. háskólamanna en ekki annarra. Hin tilvitnuðu lög hafi að geyma fyrirmæli um tiltekið skipulag og fyrirkomulag á vinnumarkaði og tryggi að fullu jafnræði allra sem eins sé ástatt um.

Stefndi vísar m.a. til grundvallarreglna íslensks vinnuréttar. Þá vísar stefndi til laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 svo og laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, einkum 4., 5. og 6. gr. Þá vísar stefndi til ákvæða stjórnarskrár nr. 33/1944, með síðari breytingum, einkum ákvæði 65. gr., 73. gr., 74. gr. og 75. gr. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.


Málsástæður og lagarök stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar

Andmæli stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, við dómkröfu stefnanda byggjast m.a. á eftirfarandi atriðum:

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar sé stéttarfélag í skilningi laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Félagið hafi rétt til kjarasamningsgerðar við Reykjavíkurborg samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna.

Sjómannafélag Reykjavíkur sé stéttarfélag sem starfi samkvæmt lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 94/1986 fari sveitarstjórnir með samningsfyrirsvar fyrir sveitarfélög. Reykjavíkurborg sé sveitarfélag og gildi lög nr. 94/1986 um samskipti borgarinnar og þeirra stéttarfélaga sem starfa eftir sömu lögum, þ.m.t. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 94/1986 eigi stéttarfélög sem starfa á grundvelli laganna rétt til þess að vera samningsaðilar. Í þessu felist að ríki og/eða sveitarfélagi sé skylt að gera kjarasamninga við félögin vegna félagsmanna þeirra sem starfa hjá viðkomandi aðila, að uppfylltum almennum skilyrðum.

Ríki og/eða sveitarfélögum sé ekki skylt að gera kjarasamninga við stéttarfélög sem starfa samkvæmt lögum nr. 80/1938.

Heimild opinberra aðila til þess að gera kjarasamninga takmarkist af 6. gr. laga nr. 94/1986 þar sem fram sé sett sú meginregla að ekki skuli nema eitt stéttarfélag hafa samningsrétt við sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt. Ef fallist væri á kröfu stefnanda um viðurkenningu á að hann fari með samningsaðild fyrir hluta svæðisstjóra og bryggjuvarða hjá Reykjavíkurhöfn, þá felist jafnframt í því sú afstaða að á meðstefnda hvíli skylda til að gera kjarasamning við hvert það stéttarfélag, sem starfsmenn borgarinnar, margir eða fáir, kunni að ganga í eða vilji stofna. Slík niðurstaða sé augljóslega í andstöðu við grundvallarreglurnar í lögum 94/1986.

Ýmsar skyldur séu lagðar á opinbera starfsmenn sem ekki verði lagðar á félagsmenn almennu verkalýðsfélaganna. Samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga nái heimild til þess að taka þátt í verkfalli ekki til þeirra sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu. Lagareglan sé sett til þess að tryggja að ekki verði neyðarástand þótt opinberir starfsmenn fari í verkfall. Sambærileg skylda verði ekki lögð á félagsmenn almennu verkalýðsfélaganna. Þótt til verkfalls komi hjá félagsmönnum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sé unnt að tryggja nauðsynlegan rekstur Reykjavíkurhafnar svo lengi sem starfsmennirnir lúti reglum laga nr. 94/1986. Slíkt væri ekki unnt ef lög nr. 80/1938 giltu um starfsmennina.

Byggt er á því af hálfu stefnda að til þess að stéttarfélag geti öðlast rétt til samningsgerðar við Reykjavíkurborg, um þau störf sem hér um ræðir, þurfi a.m.k eitt skilyrðanna í 5. gr. l. 94/1986 að vera uppfyllt. Ljóst sé að skilyrði í 1. og 2. tölulið greinarinnar (almennt félag/stofnanafélag) séu ekki uppfyllt og af hálfu stefnda er því haldið fram að hvorki fjölda- né starfsréttindaskilyrðið í 3. tl. sé uppfyllt. Skilyrði samningsaðildar stefnanda á grundvelli laganna séu því ekki fyrir hendi. Reyndar virðist stefnandi ekki halda því fram að hann uppfylli lagaskilyrði til þess að geta orðið samningsaðili. Hann haldi því fram að lagaskilyrðunum í 4., 5. og 6. gr. laga 94/1986 beri að víkja til hliðar vegna tilgreindra ákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Því sé stefndi ósammála.

Stefndi telur að af framangreindu leiði að meðstefndi, Reykjavíkurborg, hafi kjarasamningsskyldu við félagið um störf svæðisstjóranna og bryggjuvarðanna og jafnframt sé borginni óheimilt að gera kjarasamning við Sjómannafélag Reykjavíkur um sömu störf.

Af hálfu Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sé því ekki haldið fram að umræddir starfsmenn hafi skyldu til þess að vera félagsmenn í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og jafnframt sé viðurkennt að þeim sé heimilt að ganga í Sjómannafélag Reykjavíkur eða hvert annað löglegt félag sem þeir vilja eiga aðild að. Tilvísunum stefnanda til stjórnarskrárvarins jafnréttis, félaga- og atvinnufrelsis sé mótmælt sem sakarefninu óviðkomandi. Sama gildi um tilvísanir til 11. og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi og bann við mismunun. Að mati stefnda fari því fjarri að brotið sé gegn grundvallarmannréttindum þessara sjö einstaklinga þótt þeir geti ekki átt lögvarinn rétt til þess að þvinga meðstefnda til samningsgerðar á sviði þar sem hann sé þegar samningsbundinn öðrum aðila. Um þessi sjónarmið er m.a. vísað til niðurstöðu Félagsdóms í málinu nr. 4/1998 og 11/2000. Jafnframt er vísað til þess að í máli nr. 9/1999 (Vélstjórafélagið) hafi verið litið svo á að félagið væri byggt upp í kringum formleg starfsréttindi en því sé ekki til að dreifa í þessu máli.

Í stefnu sé upplýst að starfsmennirnir sjö njóti sjómannaafsláttar við álagningu tekjuskatts og þeir séu lögskráðir þegar þeir sinni störfum á skipum hjá Skipaþjónustu Reykjavíkur. Þá komi fram að þeir hafi notið fræðslu í öryggismálum í Slysavarnaskóla sjómanna. Virðist stefnandi telja þessi atriði vera til stuðnings kröfu um samningsaðild Sjómannafélags Reykjavíkur.

Óháð réttmæti þessara staðhæfinga mótmælir stefndi því að það hafi þýðingu við túlkun á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna hvort starfsmennirnir borgi skatta af öllum tekjum sínum eða ekki, hvort þeir séu lögskráðir á skip eða ekki eða hafi fengið fræðslu í öryggismálum. Heimildin og skyldan til kjarasamningsgerðar ráðist ekki af þessum atriðum heldur settum lagareglum.

Tekið er undir röksemdir meðstefnda um að krafa stefnanda um samningsaðild hafi komið of seint fram, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986.

Að öðru leyti er tekið undir málsástæður, lagarök og tilvísun til réttarreglna, sem fram koma í greinargerð meðstefnda.


Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Í máli þessu er gerð krafa til þess að viðurkennt verði að stefnandi, Sjómannafélag Reykjavíkur, fari með samningsaðild fyrir tilgreinda sjö starfsmenn Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar við gerð kjarasamninga við Reykjavíkurborg. Starfsmenn þessir eru allir félagsmenn stefnanda, en sex þeirra höfðu áður verið félagsmenn stefnda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, en gengu úr því félagi í febrúar og maí 2000, eins og gögn málsins bera með sér. Af hálfu stefndu hafa ekki verið gerðar athugasemdir við þau félagsskipti.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1986 segir að stéttarfélög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eða samtök slíkra félaga fari með fyrirsvar félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga samkvæmt lögunum og aðrar ákvarðanir í sambandi við þá. Samkvæmt 5. gr. laganna geta önnur stéttarfélög eða félagasamtök en um ræðir í 4. gr. öðlast rétt til að vera samningaðili samkvæmt lögunum að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laganna ber að tilkynna stofnun nýs félags, sem fer með samningsumboð samkvæmt 5. gr., a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok samningstímabils þeirra kjarasamninga sem gilda fyrir félagsmenn hins nýja félags. Eins og stöðu stefnanda er háttað með tilliti til laga nr. 94/1986 verður að telja að stéttarfélagið falli undir tilkynningarskyldu samkvæmt greindu lagaákvæði.

Samkvæmt gögnum máls hafði stefnandi fyrst uppi kröfu um samningsaðild f.h. umræddra starfsmanna með bréfi lögmanns síns dags. 5. október 2000. Var það eftir það tímamark sem tilskilið er samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laganna. Beiðni stefnanda um samningsaðild var því of seint fram komin og ber því vísa málinu frá dómi án kröfu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Málskostnaður fellur niður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta