Hoppa yfir valmynd
12. júní 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2001: Dómur frá 12. júní 2001.

Ár 2001, þriðjudaginn 12. júní, var í Félagsdómi í málinu nr. 8/2001.

Alþýðusamband Íslands f.h.

Samiðnar, sambands iðnfélaga vegna

Trésmiðafélags Reykjavíkur

gegn

Reykjavíkurborg

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 7. maí sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Gísli Gíslason og Gunnar Sæmundsson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Grensásvegi 16a, Reykjavík, f.h. Samiðnar, sambands iðnfélaga, kt. 650593-2009, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík vegna Trésmiðafélags Reykjavíkur, kt 660269-1779, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík.

Stefndi er Reykjavíkurborg, kt. 530269-2609, Ráðhúsinu, Reykjavík.

  

Dómkröfur stefnanda

Að viðurkennt verði að stefndi hafi brotið gegn grein 1.2.1 í kjarasamningi aðila frá 21. maí 2000.

Að dæmt verði að stefnda sé skylt að skipa starfsmönnum Árbæjarsafns, Ólafi Axelssyni í launaflokk 134 og Kristni Gunnarssyni í launaflokk 132 frá 1. maí 2000 að telja, á grundvelli ákvörðunar forstöðumanns Árbæjarsafns er byggði á niðurstöðu starfsmats sem framkvæmt var af nefnd sem skipuð var samkvæmt grein 1.2.1.

Að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

  

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati Félagsdóms.

 

Málavextir

Aðilar þessa máls gerðu með sér kjarasamning 21. maí 2000 sem gilda á til 1. mars 2004. Í kjarasamningi aðila voru nokkrar breytingar gerðar frá fyrri samningi þ.á m. varðandi mat á störfum og röðun starfa. Nýtt ákvæði kom inn í samninginn með grein 1.2.1 svohljóðandi:

"Aðilar eru sammála að komið verði á launakerfisbreytingu. Samkvæmt henni eru störf flokkuð og þau metin miðað við þær kröfur sem starfið gerir til starfsmanns. Á hverri stofnun/fyrirtæki er matsnefnd sem í sitja fulltrúar starfsmanna og jafnmargir fulltrúar stofnunar/fyrirtækis. Hlutverk matsnefndar er að flokka störf á stofnun/fyrirtæki, ákvarða hve mikið hver matsþáttur vegur og meta störfin til stiga. Þegar matið (stigagjöf) liggur fyrir, ákvarðar forstöðumaður laun starfsmanna, þ.e. röðun starfa í launaflokka. Við röðun í launaflokka skal þess gætt að störf með fleiri stig raðist a.m.k. jafnhátt og störf með færri stig. Röðun í launaflokka verði lokið fyrir 1. júlí 2000 og tekur hún gildi l. maí 2000. Telji starfsmaður eða forstöðumaður mat á starfi óviðunandi getur hann vísað málinu til samstarfsnefndar."

Stofnanir Reykjavíkurborgar luku þeirri vinnu sem fram fór á grundvelli fyrrgreinds kjarasamningsákvæðis fljótlega eftir gerð kjarasamningsins og röðuðu forstöðumenn störfum í launaflokka að því loknu. Bið varð á því til haustsins að sú nefndarvinna hæfist hjá Árbæjarsafni vegna þeirra tveggja félagsmanna Trésmiðafélags Reykjavíkur sem um ræðir í málinu. Í þeirri nefnd áttu sæti Guðný Gerður Gunnarsdóttir forstöðumaður Árbæjarsafns sem fulltrúi stefnda og Finnbjörn A. Hermannsson formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur sem fulltrúi starfsmanna.

Gerð var tillaga af hálfu starfsmanna um að starfsmönnum yrði skipað svo í launaflokka að Ólafur færi í launaflokk 135 og Kristinn í launaflokk 133. Á þessa tillögu var ekki fallist og raðaði forstöðumaðurinn Ólafi Axelssyni í launaflokk 134 og Kristni Gunnarssyni í launaflokk 132. Starfsmennirnir ákváðu að una þessari niðurstöðu og nýttu sér því ekki heimild til að vísa málinu til samstarfsnefndar.

Forstöðumaðurinn tilkynnti niðurstöðu sína til kjaraþróunardeildar stefnda í október 2000 en þar voru gerðar athugasemdir við niðurstöðu hennar. Að athuguðu máli ákvað forstöðumaðurinn að endurskoða röðun sem tilkynnt hafði verið starfsmönnum munnlega áður en til launaafgreiðslu kom. Var síðan starfi Ólafs raðað í launaflokk 132 en starfi Kristins í launaflokk 130.

Mál þetta hefur stefnandi höfðað gegn stefnda fyrir Félagsdómi fyrir ætlað brot á tilvitnaðri grein kjarasamnings aðila.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að stefnda sé skylt að efna grein 1.2.1 í kjarasamningi aðila réttilega. Málsaðilar hafi staðið sameiginlega að nefndarstarfi í samræmi við kjarasamningsgreinina, flokkað störf þeirra Ólafs og Kristins, ákvarðað hve mikið hver matsþáttur skyldi vega og metið störfin til stiga. Að matinu loknu hafi verið gerð tillaga af hálfu starfsmannanna um röðun sem ekki hafi verið fallist á af hálfu fulltrúa stefnda í nefndarstarfinu, sem síðan hafi tekið ákvörðun í krafti embættis síns sem forstöðumaður Árbæjarsafns sem starfsmennirnir hafi ákveðið að una við. Með því að ákvörðun forstöðumanns Árbæjarsafns hafi legið fyrir sem starfsmennirnir sættu sig við hafi verið komið á samkomulag um röðun þeirra í launaflokka sem stefndi sé skuldbundinn af.

Launaskrifstofu stefnda sé ekki tækt að hafa nein afskipti af samkomulagi gerðu á grundvelli greinar 1.2.1 sem takist milli forstöðumanns og starfsmanna. Tilgreint kjarasamningsákvæði taki af öll tvímæli um það hverjir hafi aðkomu og atkvæðisrétt um efni slíks samkomulags þegar báðir aðilar uni við niðurstöðuna, forstöðumaður og starfsmenn, launaskrifstofan sé ekki þar á meðal. Viðbára stefnda um að Árbæjarsafn fari fram úr fjárheimildum vegna þessarar niðurstöðu sé stefnanda og starfsmönnunum tveimur óviðkomandi. Slík staða, ef hún sé raunverulega til staðar, sé alfarið á ábyrgð stefnda og varði á engan hátt ógildi samkomulagsins eða ógildi á mati á störfum félagsmanna stefnanda. Hafi forstöðumaður stefnda á Árbæjarsafni brotið á einhvern hátt starfsskyldur sínar gagnvart sínum yfirboðurum eða farið fram úr fjárheimildum varði það fráleitt ógildi þeirra samninga sem hann hafi staðið að. Skuldbindingargildi slíkra samninga standi óhaggað.

Með vísan til ofanritaðs sé þess krafist að stefndi efni kjarasamning aðila réttilega og miði launakjör Ólafs Axelssonar við launaflokk 134 og launakjör Kristins Gunnarssonar við launaflokk 132.

Stefnandi byggir á meginreglum kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga, meginreglum vinnuréttar m.a. um efndir samninga, lögum nr. 80/1938 og gildandi kjarasamningi aðila. Málshöfðun fyrir Félagsdómi byggir á 44 gr. laga nr. 80/1938. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafist er álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti, stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til þess að fá álag, er honum nemur, dæmt úr hendi gagnaðila.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu á því að forstöðumanni hafi borið að ákvarða laun starfsmanna, þ.e. röðun starfa í launaflokk, sbr. gr. 1.2.1 í kjarasamningi. Þetta hafi forstöðumanni borið að gera einhliða og ekki bar að gera neitt samkomulag eða samning um þá röðun við starfsmenn eða stéttarfélagið. Á stofnuninni hafði verið komið á fót matsnefnd þar sem setið hafi fulltrúi stofnunar annars vegar og fulltrúi starfsmanna hins vegar. Nefndin hafi gert það sem henni bar samkvæmt grein 1.2.1 í kjarasamningi, þ.e. að flokka störf smiðanna á Árbæjarsafni, ákvarða hve mikið hver matsþáttur myndi vega og meta störfin til stiga. Að þessu loknu hafi störfum nefndarinnar varðandi aðkomu að launaröðun verið lokið. Forstöðumaður hafi að þessu loknu raðað störfum einhliða í launaflokka, sbr. gr. 1.2.1 í kjarasamningi en í kjarasamningi hafi ekki verið gert ráð fyrir aðkomu félagsins eða starfsmanna að þeirri launaflokkainnröðun. Forstöðumaður hafi verið bundinn af því við þá innröðun að það starf sem matsnefnd raðaði hærra til stiga fengi ekki lægri innröðun en það starf sem hefði færri stig. Öll þessi skilyrði samkvæmt kjarasamningi hafi forstöðumaðurinn uppfyllt fyllilega.

Af hálfu stefnda eru sýknukröfur á því reistar að röðun starfa í launaflokka hjá Árbæjarsafni hafi, m.a. á grundvelli beiðni formanns Samiðnar, byggst á samanburði sambærilegra starfa hjá Trésmiðju Reykjavíkurborgar. Af hálfu forstöðumanns Árbæjarsafns hafi sú forsenda verið grundvöllur röðunar starfa. Í því sambandi hafi forstöðumaður Árbæjarsafns byggt röðun á upplýsingum og framlögðu bréfi Samiðnar, dags. 9. apríl 2001. Eftir skoðun kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar á röðun Trésmiðju Reykjavíkurborgar hafi á hinn bóginn komið í ljós að ekki höfðu verið gefnar réttar upplýsingar af hálfu formanns Samiðnar um hvað stæði að baki launaflokkaröðun hjá Trésmiðju Reykjavíkurborgar. Hjá Trésmiðju Reykjavíkurborgar hafði forstöðumaður raðað trésmiðum í launaflokka þannig að 12 smiðir röðuðust í launaflokk 128 sem almennir smiðir og 2 smiðir röðuðust í launaflokk 130 en þeirra sérsvið sé m.a. uppgerð gamalla húsa (endurbygging) og hafi þeir mikla reynslu á því sviði. Hafi þar augljóslega verið um að ræða störf sem séu mjög lík þeim störfum er smiðir Árbæjarsafns hafa með höndum. Að fengnum þessum upplýsingum hafi forstöðumaður endurraðað Kristni Gunnarssyni í launaflokk 130. Matsþættir starfs Kristins samkvæmt framlögðu starfsmati gáfu 320 stig en endurröðunin leiddi til þess að hann raðaðist í sama launaflokk og smiðir Trésmiðju Reykjavíkurborgar með matsþætti upp á 334 stig samkvæmt framlögðu mati á störfum þeirra. Á grundvelli framangreindra upplýsinga verði að telja útilokað að Kristni hafi borið önnur og hærri röðun. Tveir smiðir hjá Trésmiðju Reykjavíkurborgar hafi raðast í launaflokk 132 þar sem þeir hafi eða hafi haft með höndum flokkstjórn og starfa með og stjórna vinnuflokki. Talið hafi verið að Ólafur Axelsson gæti fallið undir þessa efri röðun þar sem hann hafi að einhverju leyti haft með höndum flokkstjórn vegna smiða hjá Árbæjarsafni. Í ljósi þessa hafi honum verið raðað í launaflokk 132. Matsþættir starfs Ólafs gáfu 360 stig samkvæmt framlögðu starfsmati hans, en matsþættir flokksstjóra Trésmiðju Reykjavíkurborgar, sem hann taki mið af eftir endurröðun, gáfu 364 stig samkvæmt framlögðu mati á störfum þeirra. Á grundvelli framangreindra upplýsinga verði að telja útilokað að Ólafi hafi borið önnur og hærri röðun.

Af hálfu stefnda er á það bent að í þeim launaflokkum sem ofar séu hjá Trésmiðju Reykjavíkurborgar og Ólafi hafi í upphafi verið raðað í, þ.e. í launaflokk 134, séu svokallaðir þjónustufulltrúar en það séu starfsmenn sem hafi með höndum mjög sjálfstæð störf en við þá hafi stofnanir Reykjavíkurborgar beint samband. Þessir starfsmenn meti þörf á því sjálfstætt hvort að kalla þurfi til aðra iðnaðarmenn, gera samninga við þá og beri fjárhagslega ábyrgð á verkinu með því að undirrita reikninga. Þarna sé um umtalsverða ábyrgð á fjármálum umfram hin hefðbundnu iðnaðarmannastörf að ræða. Þetta sé gerólíkt þeim störfum er Ólafur hafi með höndum en hann kalli ekki til aðra iðnaðarmenn sjálfstætt né beri nokkra fjárhagslega ábyrgð. Þannig hafi hin fjárhagslega ábyrgð starfsmanna Trésmiðju Reykjavikurborgar verið metin talsvert til stiga og til launaflokkaröðunar. Þannig var fráleitt að sú upphaflega röðun sem starfsmenn hafi verið upplýstir um, í góðri trú, gæti staðist með tilliti til þeirra forsendna sem bjuggu að baki og báðir aðilar voru vel meðvitaðir um, þ.e. að greidd yrðu sambærileg laun vegna sams konar eða svipaðra starfa. Í þessu sambandi tekur stefndi það sérstaklega fram að ekkert hafi komið fram af hálfu Samiðnar eða Trésmiðafélags Reykjavíkur um að hin endurskoðaða röðun þeirra Ólafs og Kristins sé í ósamræmi við röðun sambærilegra starfa hjá Trésmiðju Reykjavíkurborgar.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að rangar forsendur hafi legið að baki þeirri launaflokkaröðun er forstöðumaður upplýsti, sbr. gr. 1.2.1 í kjarasamningi aðila. Stefnandi hafi kynnt forstöðumanni Árbæjarsafns launaflokkaröðun hjá Trésmiðju Reykjavíkurborgar með villandi hætti. Aðilum hafi verið það fyllilega ljóst hvers vegna beðið hafði verið með röðun starfa í launaflokka hjá Árbæjarsafni. Hafi það augljóslega verið til þess að tryggja jafnræði milli trésmiða hjá Árbæjarsafni og Trésmiðju Reykjavíkurborgar, þ.e. að sams konar eða svipuð störf yrðu launuð eftir sama launaflokki. Ef að sú niðurstaða yrði að fyrri röðun gilti sé augljóst að langt sé frá því að þær forsendur sem að öllum hafi verið ljósar í upphafi stæðust og því myndu sambærileg störf raðast með mjög ólíkum hætti. Í þeim samanburði yrðu störf innan Árbæjarsafns ofmetin í launaflokkaröðun gagnvart sambærilegum störfum hjá Trésmiðju Reykjavíkurborgar og væri það í andstöðu við upphafleg markmið aðila.

Af hálfu stefnda er á því byggt að á grundvelli ákvæðis gr. 1.2.1 í kjarasamningi aðila hafi forstöðumanni borið að raða störfum í launaflokka. Röðunin sem slík sé ekki á grundvelli samningaréttar og öðlist fyrst formlegt gildi gagnvart starfsmanni við launaútborgun og verði þá hluti ráðningarbundinna kjara. Forstöðumanni sé á grundvelli meginreglna vinnuréttar heimilt að endurskoða launaflokkaröðun, sem ekki hafi komið til framkvæmda, grundvallaða á breyttum forsendum eða nýjum upplýsingum og án þess að slík endurskoðun hafi á nokkurn hátt áhrif á rétt starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi. Þannig geti stefnandi ekki byggt kröfu sína á því að um bindandi samning hafi verið að ræða sem komist hafi á milli aðila, enda sé slík launaröðun algerlega á hendi forstöðumanns en ekki samkomulagsatriði. Tekið er fram að um annars konar verklag hafi verið að ræða varðandi röðun til launa í launaflokka hjá Árbæjarsafni en hjá öðrum stofnunum Reykjavíkurborgar. Hver og einn forstöðumaður stofnana Reykjavíkurborgar þar sem Samiðnarmenn störfuðu hafi raðað störfum sjálfstætt í launaflokka en hjá Árbæjarsafni hafi átt að taka mið af röðun annarrar stofnunar þ.e. Trésmiðju Reykjavíkurborgar og þess vegna hafi verið beðið. Það sé ljóst að ekki hafi verið til neins að bíða eftir niðurstöðu Trésmiðjunnar ef ekki hafi átt að raða störfum á Árbæjarsafni með sama hætti og sambærilegum störfum hjá Trésmiðju Reykjavíkurborgar.

Stefndi vísar til meginreglna vinnuréttar. Krafa um málskostnað byggist á ákvæðum 129. og 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Samkvæmt fyrri kröfulið í dómkröfum stefnanda er þess krafist "að viðurkennt verði að stefndi hafi brotið gegn grein 1.2.1 í kjarasamningi aðila frá 21. maí 2000". Samkvæmt seinni kröfulið í dómkröfum stefnanda er þess krafist að dæmt verði "að stefnda sé skylt að skipa starfsmönnum Árbæjarsafns, Ólafi Axelssyni í launaflokk 134 og Kristni Gunnarssyni í launaflokk 132 frá 1. maí 2000 að telja, á grundvelli ákvörðunar forstöðumanns Árbæjarsafns er byggði á niðurstöðu starfsmats sem framkvæmt var af nefnd sem skipuð var samkvæmt grein 1.2.1."

Af hálfu stefnanda er á því byggt að með því að virða ekki ákvörðun forstöðumanns Árbæjarsafns, borgarminjavarðar, um röðun starfa greindra trésmiða safnsins í launaflokka, í framhaldi af störfum matsnefndar, hafi stefndi brotið gegn greindu ákvæði kjarasamningsins. Í málflutningi hér fyrir dómi var því hreyft af hálfu stefnda að áhöld kynnu að vera um það hvort málið ætti undir valdsvið Félagsdóms, enda lyti sakarefnið naumast að ágreiningi um skilning á kjarasamningi eða túlkun hans, heldur að stjórnvaldsákvörðun og gildi afturköllunar hennar.

Ljóst er að ágreiningur er með aðilum máls þessa um það hvernig skilja ber grein 1.2.1 í kjarasamningi aðila, enda kemur fram að stefnandi telur að ekki verði hróflað við ákvörðun forstöðumanns stofnunar um laun starfsmanna samkvæmt ákvæðinu, sem báðir aðilar uni. Stefndi telur hins vegar að heimilt sé að endurskoða slíka ákvörðun, sem ekki sé komin til framkvæmda, á grundvelli breyttra forsendna eða nýrra upplýsinga. Samkvæmt þessu verður að telja að fyrri kröfuliður í dómkröfum stefnanda varði ágreining um skilning á kjarasamningi sem fellur undir valdsvið Félagsdóms samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, lá fyrir flokkun starfa trésmiðanna og mat á þeim til stiga þegar fundir hófust milli fulltrúa málsaðila um mánaðamótin ágúst/september 2000. Að undangengnum frekari fundarhöldum og samkvæmt grein 1.2.1 í kjarasamningnum ákvarðaði forstöðumaður Árbæjarsafns laun trésmiðanna, þ.e. raðaði störfum þeirra í launaflokka. Fram kom í framburði forstöðumannsins að röðunin hefði byggst á fyrirliggjandi stigamati, en þó hefði störfunum verið raðað hærra, og hefði þessi ákvörðun falið í sér málamiðlun um röðun starfa smiðanna. Þá kom fram hjá forstöðumanninum að smiðunum hefði sérstaklega verið tilkynnt um þessa ákvörðun. Í framhaldi af athugasemdum kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar við röðunina og fundarhöldum af því tilefni endurskoðaði forstöðumaðurinn fyrri ákvörðun sína og tilkynnti smiðunum um nýja röðun í lægri launaflokka. Við útborgun launa 1. desember 2000 var byggt á launaflokkum samkvæmt hinni lægri röðun.

Í grein 1.2.1 í kjarasamningnum er fjallað um launakerfisbreytingu og framkvæmd við að koma henni á. Samkvæmt greininni skal flokka störf og meta þau miðað við þær kröfur sem starfið gerir til starfsmanns. Þá er mælt fyrir um að matsnefnd skuli komið á laggirnar hjá hverri stofnun sem skipuð sé fulltrúum starfsmanna og stofnunar. Sé hlutverk matsnefndar að flokka störf og meta til stiga svo sem nánar greinir. Þegar mat (stigagjöf) liggi fyrir ákvarði forstöðumaður laun starfsmanna, þ.e. röðun í launaflokka. Tekið er fram í greininni að telji starfsmaður eða forstöðumaður mat á starfi óviðunandi geti hann vísað málinu til samstarfsnefndar. Fyrir liggur að starfsmenn undu ákvörðun forstöðumanns og töldu því ekki ástæðu til að vísa málinu til samstarfsnefndar.

Af hálfu stefnda er talið að upphafleg ákvörðun forstöðumanns Árbæjarsafns um röðun smiðanna í launaflokka hafi verið of há miðað við störfin. Eins og fyrr greinir var röðunin byggð á stigamati samkvæmt framburði forstöðumannsins, en þó höfð hærri en það gaf tilefni til. Af hálfu forstöðumannsins var stigamati ekki vísað til samstarfsnefndar samkvæmt 15. kafla kjarasamningsins.

Óumdeilt er að forstöðumaður Árbæjarsafns tók ákvörðun um röðun starfa greindra starfsmanna í launaflokka og tilkynnti þeim um hana. Um var að ræða bindandi ákvörðun sem tekin var af þar til bærum aðila. Þegar þetta er virt og ákvæði greinar 1.2.1 í kjarasamningnum varð ákvörðun þessi ekki dregin til baka, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á það af hálfu stefnda að ákvörðunin hafi byggst á röngum forsendum né röngum eða villandi upplýsingum sem stefnandi ber ábyrgð á. Samkvæmt þessu verður að fallast á það með stefnanda að stefndi hafi við framkvæmd launakerfisbreytinga vegna starfa greindra trésmiða við Árbæjarsafn brotið gegn ákvæði greinar 1.2.1 í kjarasamningi aðila. Samkvæmt þessu er fyrri kröfuliður í dómkröfum stefnanda tekinn til til greina.

Af þessari niðurstöðu leiðir að einnig ber að taka til greina síðari lið í kröfugerð stefnanda.

Stefnda ber að greiða stefnanda málskostnað sem ákvarðast 100.000 kr.

Uppkvaðning dóms þessa hefur dregist vegna mikilla anna dómsins.

 

D Ó M S O R Ð :

Viðurkennt er að stefndi, Reykjavíkurborg, braut gegn grein 1.2.1 í kjarasamningi aðila frá 21. maí 2000.

Stefnda, Reykjavíkurborg, er skylt að skipa starfsmönnum Árbæjarsafns, Ólafi Axelssyni í launaflokk 134 og Kristni Gunnarssyni í launaflokk 132 frá 1. maí 2000 að telja.

Stefndi, Reykjavíkurborg, greiði stefnanda, Alþýðusambandi Íslands f.h. Samiðnar, sambands iðnfélaga vegna Trésmiðafélags Reykjavíkur, 100.000 kr. í málskostnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta