Hoppa yfir valmynd
30. maí 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 12/2001: Dómur frá 30. maí 2001.

Ár 2001, miðvikudaginn 30. maí, var í Félagsdómi í málinu nr. 12/2001.

Fjármálaráðherra f.h.

ríkissjóðs

gegn

Þroskaþjálfafélagi Íslands

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 28. maí sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Kristján Torfason og Magnús I. Erlingsson.

Stefnandi er Fjármálaráðherra, kt. 550169-2829, f.h. ríkissjóðs, Arnarhváli, Reykjavík.

Stefndi er Þroskaþjálfafélag Íslands, kt. 520578-0139, Hamraborg 1, Kópavogi.

 

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að verkfall félagsmanna stefnda í þjónustu ríkisins, sem boðað var með bréfi til fjármálaráðherra dagsettu 15. maí 2001 og hefjast skal kl. 00:00 föstudaginn 1. júní 2001, sé ólögmætt.

Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað vegna meðferðar málsins skv. mati Félagsdóms.

 

Dómkröfur stefnda

Stefndi gerir í málinu kröfu um sýknu af öllum kröfum stefnanda og að viðurkennt verði með dómi, að lögmætt sé verkfall stefnda sem boðað var bréflega þann 15. maí 2001 og stendur frá klukkan 00:00 þann 1. júní 2001. Jafnframt krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu alls málskostnaðar fyrir Félagsdómi, að skaðlausu að mati dómsins.

 

Málavextir

Málavextir eru þeir að stefndi, Þroskaþjálfafélag Íslands, hefur gert kjarasamning við stefnanda, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og grundvallast samningsaðild félagsins á ákvæðum laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Af hálfu stefnda var efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um boðun verkfalls. Sú atkvæðagreiðsla, sem ágreiningur aðila stendur um, var framkvæmd meðal þeirra félagsmanna stefnda sem falla undir kjaraviðræður sem nú standa yfir. Atkvæðagreiðslan fór því fram meðal þeirra félagsmanna stefnda sem starfa hjá íslenska ríkinu annars vegar og þeim sjálfseignastofnunum sem standa að kjaraviðræðum samhliða ríkinu, þ.e. Styrktarfélagi vangefinna, Skálatúnsheimilinu og Reykjalundi, hins vegar. Umrædd atkvæðagreiðsla fór fram dagana
4. maí til 11. maí 2001 og voru atkvæði talin þann 15. maí 2001. Kjörseðlar voru póstsendir félagsmönnum stefnda og var orðalag kjörseðils svohljóðandi.

Þroskaþjálfafélag Íslands

Atkvæðaseðill í atkvæðagreiðslu þroskaþjálfa í Þroskaþjálfafélagi Íslands, starfandi hjá íslenska ríkinu og sjálfseignastofnunum um boðun verkfalls þann 01.06.2001.

Ert þú samþykk(ur) því að Þroskaþjálfafélag Íslands boði til verkfalls, er hefjist þann 01.06.2001, til þess að stuðla að framgangi fyrirliggjandi krafna félagsins.

JÁ NEI

Í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 15. maí 2001, kemur fram að á kjörskrá voru 195 félagsmenn og í atkvæðagreiðslunni tóku þátt 165 eða 84,6 % félagsmanna. Í umræddu bréfi segir ennfremur að verkfallsboðun þessi hafi ennfremur náð til eftirtalinna stofnana:

  • Styrktarfélags vangefinna
  • Skálatúnsheimilisins
  • Reykjalundar

Úrslit atkvæðagreiðslunnar voru svofelld:

165 sögðu já eða 100 % þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni

Af tilgreindum 195 félagsmönnum stefnda voru 137 starfsmenn stefnanda, 42 starfsmenn Styrktarfélags vangefinna, 13 starfsmenn Skálatúnsheimilisins og 3 starfsmenn Reykjalundar. Atkvæði greiddu alls 165, þar af 115 starfsmenn stefnanda, 38 starfsmenn Styrktarfélags vangefinna, 9 starfsmenn Skálatúnsheimilisins og 3 starfsmenn Reykjalundar.

Atkvæðagreiðsla stefnda var þannig framkvæmd að viðkomandi félagsmönnum var sent merkt umslag sem innhélt atkvæðaseðil og annað minna umslag undir sjálfan atkvæðaseðilinn. Að atkvæðagreiðslu lokinni var atkvæðaseðill settur í minna umslagið, það innsiglað og sett í stærra umslagið til póstsendingar. Við móttöku á kjörgögnum skráði stefndi kjörsókn viðkomandi félagsmanna en minna umslagið með atkvæðaseðlinum sjálfum var síðan sett óhreyft í kjörkassa til sérstakrar talningar,

Verkfallsboðun var send stefnanda í samræmi við ákvæði 16. gr. laga nr. 94/1986.

Á fundi aðila, sem haldinn var 25. maí sl. að ósk stefnanda, komu fram efasemdir um lögmæti verkfallsboðunar af hálfu stefnanda, þar sem atkvæðagreiðsla náði einnig til félagsmanna stefnda sem starfa hjá greindum stofnunum Af hálfu stefnda kom fram að reglur aðildarfélaga BHM um framkvæmd atkvæðagreiðslu samkvæmt 15. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna hafi verið lagðar til grundvallar

Framangreindum sjálfseignarstofnunum var ekki send verkfallsboðun og varðar mál þetta því eingöngu lögmæti verkfalls gagnvart stefnanda.

Mál þetta hefur stefnandi höfðað með stefnu útgefinni 26. maí sl. og var málið þingfest samdægurs.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda eru dómkröfur á því byggðar að atkvæðagreiðsla stefnda og talning atkvæða hafi ekki uppfyllt lögboðin skilyrði og því sé boðað verkfall ólögmætt. Stefnandi byggir ennfremur á því að atkvæðaseðill um boðun verkfalls hafi ekki haft að geyma skýlausa tilgreiningu um boðun verkfalls hjá tilteknum/tilgreindum einstökum vinnuveitanda og brjóti sú tilhögun gegn meginákvæðum III. kafla laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. einkum ákvæði 15., 18. og 23. gr. Á grundvelli nefndra lagaákvæða komi það skilyrði fram að svo verkfallsboðun teljist samþykkt þurfi a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna, sem starfa hjá þeim sem verkfallið beinist gegn, að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hluti þeirra samþykkt hana. Af atkvæðaseðli verði ráðið að verkfallsboðun beinist ekki að tilteknum/tilgreindum vinnuveitanda heldur íslenska ríkinu og sjálfseignarstofnunum sameiginlega. Tilgreining þessi hafi ekki að geyma skýra tilvísun um boðun verkfalls hjá tilteknum/tilgreindum vinnuveitanda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 94/1986, enda hafi svo farið að félagsmönnum stefnda sem starfa hjá öðrum vinnuveitendum, ótengdum ríkinu og taka laun samkvæmt sambærilegum kjarasamningi, þ.e. félagsmönnum stefnda sem starfa hjá Styrktarfélagi vangefinna, Skálatúnsheimilinu og Reykjalundi, hafi verið heimiluð þátttaka í atkvæðagreiðslu. Framangreindir aðilar séu sjálfseignarstofnanir eða sjálfstæðar stofnanir. Starfsmenn umræddra aðila hafi aldrei talist til starfsmanna íslenska ríkisins. Þá hafi umræddir aðilar farið með sjálfstætt samningsumboð við gerð kjarasamninga. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að jafnvel þó svo stefnandi hefði farið með samningsumboð fyrir Styrktarfélag vangefinna, Skálatúnsheimilið eða Reykjalund hafi samt sem áður borið að gera greinarmun og viðhafa skýran aðskilnað við boðun verkfalls. Til viðbótar framangreindu hafi atkvæðaseðill verið þeim annmarka háður að upphafstímamark verkfallsboðunar hafi ekki verið tilgreint með nægjanlegum hætti. Í verkfallsboðun hafi einungis verið sagt að verkfall skuli hefjast þann 01.06.2001 en nánari tilgreining upphafstímamarks hafi skort. Tilgreining stefnda í verkfallsboðun, þess efnis, að upphafstímamark skuli miðað við kl. 00:00 föstudaginn 1. júní 2001 styðjist hvorki við verkfallsboðunina sjálfa né önnur gögn. Áðurnefndir annmarkar á atkvæðaseðli um verkfallsboðun leiði í samræmi við framangreint þá þegar til þess að taka beri dómkröfur stefnanda til greina.

Af hálfu stefnanda eru dómkröfur ennfremur á því byggðar að atkvæðagreiðsla og talning atkvæða hafi verið ólögmæt og brotið gegn ákvæðum III. kafla laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. einkum ákvæði 15., 18. og 23. gr. svo og venjur um framkvæmd atkvæðagreiðslu og talningu atkvæða. Á grundvelli ákvæðis 15. gr. áðurnefndra laga skuli ákvörðun um verkfallsboðun tekin af félagsmönnum sem starfa hjá þeim vinnuveitanda sem verkfallsboðun beinist gegn og samkvæmt ákvæði 23. gr. nefndra laga verði ákvarðanir um samninga eða annað, er varða kjör starfsmanna og fari eftir nefndum lögum, aðeins teknar af þeim sem starfa hjá þeim vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem samningur nái til. Af hálfu stefnanda er á því byggt að samningsréttur vinnuveitanda og stéttarfélags sé sjálfstæður að því er hvorn aðila um sig varðar, þ.e. tiltekinn/tilgreindur einstakur vinnuveitandi taki afstöðu til kjarasamninga o.fl. er varða félagsmenn stéttarfélags sem starfa hjá honum og á sama hátt taki einungis félagsmenn stéttarfélags, sem starfa hjá tilteknum/tilgreindum einstökum vinnuveitanda afstöðu til kjarasamnings o.fl. er varðar þann sama vinnuveitanda. Allur réttur samkvæmt ákvæðum laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna sé því sjálfstæður að þessu leytinu til, þ.m.t. réttur til að boða verkfall og beri að aðgreina frá rétti annarra aðila. Þannig hafi dómstólar talið að samningsréttur tiltekins stéttarfélags varði hvern vinnuveitanda fyrir sig og því þurfi samþykki starfsmanna þess vinnuveitanda fyrir kjarasamningi. Slík túlkun hafi verið byggð á jafnræðissjónarmiðum svo og ákvæði 23. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Af hálfu stefnanda er á því byggt að ákvörðun um boðun verkfalls samkvæmt nefndum ákvæðum laga nr. 94/1986 verði því að taka hjá félagsmönnum stefnda hjá tilteknum/tilgreindum einstökum vinnuveitanda sérstaklega. Sú tilhögun stefnda að viðhafa sameiginlega atkvæðagreiðslu og talningu, þ.e. bæði hjá félagsmönnum sem starfa hjá íslenska ríkinu og félagsmönnum sem starfa hjá Styrktarfélagi vangefinna, Skálatúnsheimilinu og Reykjalundi, þ.e. sjálfseignarstofnunum eða sjálfstæðum stofnunum, sé því í andstöðu við ákvæði III. kafla laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. einkum ákvæði 15., 18. og 23. gr. þeirra, venjur og því sé boðað verkfall ólögmætt. Beri því að taka dómkröfur stefnanda til greina. Um framangreind atriði vísiast m.a. til Félagsdóms í máli nr. 13/1992, Launanefnd sveitarfélaga v/Hafnarfjarðarbæjar gegn Fóstrufélagi Íslands.

Stefnandi vísar til ákvæða laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, einkum III. kafla svo og venjur á hlutaðeigandi sviði. Þá vísar stefnandi til meginreglna íslensks vinnuréttar. Um málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um dómsvald Félagsdóms vísast til ákvæða 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. einkum 2. tölul.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er því mótmælt að atkvæðagreiðsla stefnda og talning atkvæða hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1986. Stefndi byggir á því að engin vafi sé um það til hvaða félagsmanna verkfallsboðunin hafi náð, enda alkunna hvaða stofnanir eigi aðild með stefnanda að kjaraviðræðum, auk þess sem allir þeir félagsmenn sem féllu undir atkvæðagreiðsluna taki laun eftir þeim kjarasamningi sem viðræður aðila varða og samninganefnd stefnanda hafi umboð til kjaraviðræðna fyrir hönd þessara sjálfseignastofnana. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafi verið samhljóða og því afgerandi um verkfallsvilja viðkomandi félagsmanna.

Við úrlausn máls þessa beri að hafa í huga að stefndi sé stéttarfélag sem falli undir ákvæði laga nr. 94/1986, sbr. 4. og 5. gr. laganna. Um stefnda gildi því sú algilda meginregla að félagið ráði málefnum sínum sjálft, með þeim takmörkunum einum sem lög bjóða, sbr. til hliðsjónar ákvæði 3. gr. laga nr. 80/1938, sem komi til fyllingar og skýringar lögum nr. 94/986. Af þessu leiði að stefnda sé, sem stéttarfélagi, í sjálfsvald sett hvernig innri málefnum sé háttað, þ.m.t. um framkvæmd atkvæðagreiðslu, að svo miklu leyti sem ekki sé beinlínis kveðið á um annað í lögum. Sjálfstjórnarréttur stefnda sé því meginregla sem m.a. fái stoð í ákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Allar takmarkanir á þessum sjálfstjórnarrétti skuli skýra þröngt.

Í hinum félagslega vinnurétti sé almennt viðurkennt og lögfest að stéttarfélag sé grunneining í kjaramálum, sbr. t.d. orðalag 15., 18. og 23. gr. laga nr. 94/1986. Þannig sé forsenda verkfalls sú að félagsmenn viðkomandi stéttarfélags greiði um það atkvæði, en slík atkvæðagreiðsla skuli vera almenn og leynileg í hverju stéttarfélagi sem sé samningsaðili. Áðurnefnd lög hafi ekki að geyma ákvæði er klofið geti stéttarfélag í tvo eða fleiri hluta að öðru leyti en leiða megi af aðild að tilteknum kjaraviðræðum eða sjálfstæðri ákvörðun hvers stéttarfélags.

Ákvæði 2. málsliðar 15. gr. laganna bjóði það eitt að tilskilinn fjöldi þeirra félagsmanna sem taka eiga þátt í fyrirhuguðu verkfalli þurfi að samþykkja slíka verkfallsboðun. Byggir stefndi á því að þetta ákvæði sem og aðrar formreglur sem gilda um verkföll að þessu leyti, hafi það eina hlutverk að tryggja lýðræðislega framkvæmd ákvarðanatöku um mikilvæga hagsmuni. Af því leiði að þeir félagsmenn stéttarfélags sem ekki eiga aðild að fyrirhuguðu verkfalli eigi eðlilega ekki að geta haft áhrif á ákvörðun um verkfall. Í þessu felst megininntak 2. málsliðar 15. gr. laga nr. 94/1986 og engu öðru.

Stefndi byggir á því að hvorki verði ráðið af ákvæðum 15., 18., 23. né öðrum greinum laga nr. 94/1986 að skilgreina þurfi sérstaklega og nafngreina þá vinnuveitendur sem fyrirhugað verkfall eigi að beinast gegn. Eigi þetta einkum við ef enginn vafi sé um það hvaða vinnuveitendur sé um að tefla eða hvaða félagsmönnum muni ætlað að fara í verkfall. Formreglur laganna hljóti að vera settar til að tryggja að enginn félagsmaður sem greiða eigi atkvæði sé í vafa að þessu leyti. Byggir stefndi á því að tilvísun í kjörseðli sé fullnægjandi og í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1986. Orðalag atkvæðaseðils stefnda hafi ekki verið til þess fallið að valda nokkrum vafa um atkvæðagreiðsluna eða úrlausn hennar enda öllum hlutaðeigndi ljóst hvaða sjálfseignarstofnana hafi verið vísað til.

Alkunna sé að verkfallsboðun sé lögmæt aðgerð í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sem byggjast eiga á kjarasamningi. Aðild að verkfallsboðun sé því afmörkuð á sömu forsendum, þ.e. á grundvelli kjarasamnings eða kjaraviðræðna. Tilgreining viðkomandi kjarasamnings á atkvæðaseðli sé því fullnægjandi, enda ljóst að þeir einir hafi greitt atkvæði sem fara áttu í verkfall og taka mundu laun samkvæmt þeim samningi sem viðkomandi kjaraviðræður fjalli um.

Við úrlausn þess hvort atkvæðagreiðsla stefnda hafi verið lögmæt hvað varðar orðalag atkvæðaseðils beri, auk framanritaðs, að taka tillit til þess að meðan ákvæði laga nr. 94/1986 eða annarra laga bjóði ekki beinlínis á annan veg hafi hið stefnda félag sjálft ákvörðunarrétt um framgang atkvæðagreiðslunnar. Hafi hún og verið framkvæmd í fullu samræmi við reglur BHM. Með vísan til alls framanritaðs byggir stefndi á því að atkvæðagreiðsla um hið umdeilda verkfall hafi verið fullkomlega lögleg og að vísa beri kröfum stefnanda um annað á bug.

Kröfugerð stefnanda er í öðru lagi byggð á því að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laganna með því að tilgreina ekki upphafstíma verkfalls í klukkustundum á kjörseðli. Efnisleg mótmæli stefnda við þessum málatilbúnaði stefnanda megi leiða af framangreindri umfjöllun um aðra meinta formgalla á atkvæðaseðli. Því til viðbótar bendir stefndi á að hvergi í ákvæðum laga nr. 94/1986 sé áskilið að upphafstími sé skilgreindur í klukkustundum. Það sé og venjuhelguð regla að ef boðað verkfall miðist við tiltekinn dag skuli almennt miða við upphafstíma þess dags, þ.e. tímann 00:00, nema annað sé tekið fram. Svo sem fram komi í reglum BHM sé tilgreining klukkustundar ekki almennt efni atkvæðaseðils. Þá verði ekki hjá því litið að þetta ágreiningsatriði verði að túlka frá sjónarhorni stefnda og þeirra sem greiddu atkvæði. Byggir stefndi á því að skortur á tilgreiningu klukkustundar hafi ekki falið í sér neina hættu á misskilningi þannig að í bága fari við grundvallarreglur laga nr. 94/1986. Með vísan til þessara atriða, svo og annara málsástæðna sem tíundaðar séu í greinargerð þessari er kröfugerð stefnanda að þessu leyti vísað á bug.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að um ólögmæta talningu atkvæða hafi verið að ræða. Ekki fáist með nokkrum hætti séð hvernig túlka megi ákvæði 15., 18., og 23. gr. laga nr. 94/1986 með þeim hætti sem stefnandi heldur fram. Hvergi í lögunum sé áskilið beint eða óbeint að atkvæði séu talin sérstaklega meðal starfsmanna hvers vinnuveitanda. Stefndi hljóti því sjálfur að ráða þeim aðferðum sem viðhafðar séu við talningu. Sjálfstjórnarvald stefnda verði ekki takmarkað nema með skýrri lagaheimild sem sæti þröngri túlkun.

Hafi löggjafinn viljað áskilja sérstaklega að talning atkvæða um verkfall yrði aðgreind milli vinnuveitenda hefði verið kveðið á um það í lögunum. Eigi þetta einkum við þegar ákvæði 2. gr. laganna sé skoðað, en eins og þar komi fram sé beinlínis gert ráð fyrir því að lögin varði fleiri vinnuveitendur en íslenska ríkið. Telur stefndi því ljóst að skýrt og ótvírætt lagaákvæði væri fyrirliggjandi ef vilji löggjafans hefði verið þessi. Stefndi ítrekar í þessu sambandi fyrri sjónarmið um að ákvæði 15., 18. og 23. gr. laga nr. 94/1986 bjóði það eitt að þeir sem hafa hagsmuni af tilteknum kjaraviðræðum hafi einir atkvæðisrétt um þá hagsmuni.

Byggir stefndi á því að í málatilbúnaði stefnanda felist krafa um íhlutun í innri málefni stefnda sem brjóti í bága við fyrrnefndar meginreglur. Nái kröfur stefnanda fram að ganga fyrir dómi byggir stefndi þannig á því að vegið sé með afar óeðlilegum hætti að grundvallartilgangi og starfsemi stefnda sem stéttarfélags. Þannig myndi túlkun stefnanda í raun vera til þess fallin að tvístra stéttarfélagi í kjaradeilu, en það eitt sé ekki eingöngu ólögmæt íhlutun í innri málefni stéttarfélaga heldur einnig, og ekki síður, þvert á megininntak vinnuréttar. Verði fallist á kröfur stefnanda muni það fyrirsjáanlega leiða til þess að eingöngu hluti þeirra félagsmanna sem kjaradeila varðar fari í verkfall en hinir sæki vinnu og njóti á endanum þeirra kjara sem verkfallsmenn hafi knúið fram. Þetta brjóti ekki eingöngu gegn meginreglum um jafnræði félagsmanna heldur sé þetta einnig til þess fallið að mismuna vinnuveitendum með jafn alvarlegum hætti. Öllu framangreindu til viðbótar er einnig bent á að túlkun stefnanda myndi stofna í hættu þeim óumdeildu grundvallarreglum sem felist í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Stefndi hafnar því að dómur Félagsdóms í máli nr. 13/1992 hafi fordæmisgildi í málinu. Þá mótmælir stefndi því að fyrir hendi séu venjuhelgaðar reglur sem renni stoðum undir þann skilning stefnanda á lögum nr. 94/1986 sem ráða megi af málatilbúnaði hans.

Við úrlausn málsins verður ekki hjá því litið, að mati stefnda, að þær kjaraviðræður sem eru grundvöllur verkfallsboðunar stefnda, einkennast af samaðild stefnanda og áðurgreindra sjálfseignarstofnana. Leiði það til þess að stefnda sé rétt að líta sameiginlega á stefnanda og sjálfseignarstofnanirnar sem gagnaðila í þeirri kjaradeilu sem hið umdeilda verkfall varði. Þá er einnig á það bent að stefnandi hafi umboð til samningaviðræðna fyrir þessar stofnanir og hitt er ekki síður mikilvægt að stefnandi hafi beinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu kjaraviðræðna umræddra aðila í heild, enda leggi stefnandi umræddum sjálfseignarstofnunum til fjármagn sem m.a. á að standa undir launakostnaði. Stefndi bendir einnig á það að stefnandi hafi um langa hríð og allt þar til eftir hina umdeildu atkvæðagreiðslu skilað stefnda félagsgjöldum starfsmanna sinna og starfsmanna Styrktarfélags vangefinna og Skálatúnsheimilisins, eins og um starfsmenn stefnanda sjálfs væri að ræða. Öll þessi atriði hljóti að hafa í för með sér löglíkur fyrir fullkomnu umboði stefnanda og fyrirsvari í kjaraviðræðum. Byggir stefndi á því að málatilbúnaður stefnanda um innbyrðis sjálfstæði hans og umræddra sjálfseignastofnana hljóti að teljast markleysa af þessum sökum.

Hvað sem líði samaðild stefnanda og greindra stofnana leiði af málshöfðun þessari að stefnandi einn hafi í frammi kröfur og komi þá ekki til álita í málinu hvert gildi verkfallsboðunar eða atkvæðagreiðslu um hana sé gagnvart þessum sjálfseignarstofnunum. Sú spurning sem fyrir dóminum liggi sé því eingöngu sú hvort ákvæðum laga nr. 94/1986 hafi verið fylgt með þeim hætti að enginn vafi leiki á vilja starfsmanna stefnanda til verkfalls.

Taki dómurinn að einhverju leyti undir málatilbúnað stefnanda hvað formreglur varði hljóti efnisleg niðurstaða dómsins samt sem áður að byggjast á því hvaða efnislegu áhrif meint brot á formreglum hafi haft, sem dregið geti úr gildi niðurstöðu atkvæðagreiðslu stefnda gagnvart stefnanda einum.

Ekki sé um það deilt í málinu að tilskilinn fjöldi starfsmanna stefnanda hafi greitt atkvæði né heldur sé um það deilt að tilskilinn fjöldi þeirra sem greiddu atkvæði hafi samþykkt verkfall. Þá sé og fyrirliggjandi að atkvæðaseðill stefnda hafi að geyma beina tilvísun til stefnanda. Stefnanda varði því ekkert um það hvernig staðið hafi verið að atkvæðagreiðslu og boðun verkfalls gagnvart téðum sjálfseignastofnunum. Hafi stefndi brotið reglur laganna sé fyrirliggjandi að ekkert slíkt brot varði stefnanda, eins og málatilbúnaði hans sé háttað.

Fyrirliggjandi sé að niðurstaða atkvæðagreiðslu stefnda sýni óumdeilanlega samstöðu og vilja félagsmanna stefnda til verkfalls hjá stefnanda og hjá því verði ekki litið, enda séu formreglur laga nr. 94/1986 settar til að tryggja að efnislegur vilji til verkfalls sé engum vafa bundinn og að lýðræðisleg vinnubrögð séu tryggð. Byggir stefndi á því að meint brot á formreglum laganna hafi engin áhrif nema hægt sé með eðlilegum rökum að draga efnislega niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í efa vegna hinna meintu brota beinlínis. Slíkur vafi sé alls ekki fyrirliggjandi og því hljóti boðað verkfall að teljast lögmætt.

Stefnandi byggir í málinu á ákvæðum laga nr. 94/1986 með síðari breytingum og þeim venjum og fordæmum sem komi til fyllingar lögunum. Þá byggir stefndi á almennum meginreglum vinnu- og vinnumarkaðsréttar, ákvæðum laga nr. 80/1938 og ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 eftir því sem við á. Jafnframt byggir stefndi á ákvæðum laga nr. 91/1991, þ.m.t. um málskostnað, sbr. einnig lög nr. 50/1988.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Síðast gildandi kjarasamningur aðila, dags. 1. nóvember 1997 gilti til og með 31. október 2000. Stefndi efndi til allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna um boðun verkfalls. Fór atkvæðagreiðslan fram dagana 4. til 11. maí 2001. Með bréfi, dags. 15. maí 2001, tilkynnti stefndi stefnanda um boðun verkfalls sem hefjast skal kl. 00:00 föstudaginn 1. júní 2001. Í bréfinu er tekið fram að verkfallið, sem beinist gegn íslenska ríkinu og þeim stofnunum ríkisins, sem félagsmenn stefnda starfi hjá, sé gert og boðað samkvæmt niðurstöðu úr almennri leynilegri atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls af hálfu félagsins á greindum tíma. Verkfallsboðunin nái ennfremur til Styrktarfélags vangefinna, Skálatúnsheimilisins og Reykjalundar. Þá er í bréfinu greint frá þátttöku í atkvæðagreiðslunni og úrslitum hennar.

Stefnandi byggir kröfu sína um að viðurkennt verði að greint verkfall sé ólögmætt í fyrsta lagi á því að atkvæðagreiðsla stefnda og talning atkvæða hafi ekki uppfyllt lögboðin skilyrði og í öðru lagi á því að atkvæðaseðill hafi ekki haft að geyma skýlausa tilgreiningu um boðun verkfalls hjá tilteknum/tilgreindum einstökum vinnuveitanda. Í þriðja lagi hafi sá annmarki verið á atkvæðaseðli að upphafstímamark verkfalls hafi ekki verið tilgreint á fullnægjandi hátt. Hefur stefnandi vísað til meginákvæða III. kafla laga nr. 94/1986, sbr. einkum 15., 18. og 23. gr. laganna. Þá hefur stefnandi í fjórða lagi borið því við í málflutningi hér fyrir dómi að atkvæðagreiðsla stefnda hafi ekki verið leynileg.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 94/1986 er stéttarfélögum, sem eru samningsaðilar samkvæmt lögunum, heimilt að gera verkfall og samkvæmt 18. gr. laganna tekur það til allra starfsmanna í viðkomandi stéttarfélagi hjá þeim vinnuveitanda sem verkfall beinist gegn nema þeim sé óheimilt að gera verkfall samkvæmt lögunum. Í 15. gr. laga nr. 94/1986 er mælt svo fyrir að boðun verkfalls sé því aðeins lögmæt að ákvörðun um hana hafi verið tekin í almennri leynilegri allsherjaratkvæðagreiðslu í hverju stéttarfélagi sem er samningsaðili. Til að samþykkja verkfallsboðun þurfi a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna, sem starfa hjá þeim sem verkfallið beinist gegn, að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hluti þeirra samþykkt hana. Samkvæmt 16. gr. laganna ber að tilkynna ákvörðun um vinnustöðvun ríkissáttasemjara og þeim sem hún beinist gegn skemmst 15 sólarhringum áður en hún skal hefjast. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 94/1986 skulu ákvarðanir um samninga eða annað, er varðar kjör starfsmanna og fer eftir lögunum, aðeins teknar af þeim sem starfa hjá þeim vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem samningurinn nær til.

Í lögum nr. 94/1986 er ekki til að dreifa neinum nánari ákvæðum um atkvæðagreiðslu félagsmanna um verkfallsboðun en greinir í 15. gr. laganna. Samkvæmt lögskýringargögnum um forsögu þessa ákvæðis er ekki gerð krafa um ákveðið form við atkvæðagreiðslu vegna verkfallsboðunar, sbr. dóm Félagsdóms frá 2. október 1984 (Fd.IX:52).

Í athugasemdum við 23. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 94/1986 segir svo: "Í grein þessari felst að einungis þeir sem starfa hjá þeim vinnuveitendum sem tiltekinn kjarasamningur tekur til geta tekið ákvarðanir um hann, svo sem samþykkt uppsögn og boðun verkfalls. Getur þar verið um að ræða eitt félag að hluta eða heild eða fleiri félög að hluta eða heild eftir því hvernig aðild að viðkomandi kjarasamningi var háttað." Að virtu orðalagi 15. gr. og 1. mgr. 23. gr. laganna og framangreindum athugasemdum verður að leggja til grundvallar að þeir einir taki þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem starfa hjá þeim vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem verkfall beinist gegn og viðkomandi kjarasamningur tekur til.

Af hálfu stefnanda er því borið við að þátttaka í atkvæðagreiðslunni af hálfu þeirra félagsmanna stefnda, sem starfa hjá Styrktarfélagi vangefinna, Skálatúnsheimilinu og Reykjalundi, hafi verið andstæð framangreindum lagaákvæðum og ákvörðun um verkfallsboðun því ólögmæt. Þessir aðilar séu sjálfseignarstofnanir eða sjálfstæðar stofnanir er fari með sjálfstætt samningsumboð við gerð kjarasamninga og starfsmenn þeirra teljist ekki til starfsmanna ríkisins

Gegn mótmælum stefnanda ber stefnda að sýna fram á þau tengsl umræddra aðila og stefnanda við kjarasamningsgerð að rétt hafi verið að hafa þann hátt á atkvæðagreiðslu sem í málinu greinir. Stefndi hefur einungis með almennum hætti skírskotað til slíkra tengsla svo sem að kjaraviðræður einkennist af samaðild stefnanda og þessara þriggja aðila. Engin gögn hafa verið lögð fyrir dóminn þar að lútandi.

Samkvæmt framansögðu hefur atkvæðagreiðslan verið andstæð ákvæðum 15. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 94/1986 og ber því þegar af þeirri ástæðu að fallast á dómkröfu stefnanda um að boðað verkfall stefnda, eins og nánar greinir í dómsorði, sé ólögmætt.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

D Ó M S O R Ð :

Verkfall félagsmanna stefnda, Þroskaþjálfafélags Íslands, í þjónustu ríkisins, sem boðað var með bréfi til fjármálaráðherra dagsettu 15. maí 2001 og hefjast skal kl. 00:00 föstudaginn 1. júní 2001, er ólögmætt.

Málskostnaður fellur niður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta