Mál nr. 5/2001: Dómur frá 27. apríl 2001.
Ár 2001, föstudaginn 27. apríl, er í Félagsdómi í málinu nr. 5/2001.
Alþýðusamband Íslands f.h.
Sjómannasambands Íslands vegna
Sjómannafélagsins Jötuns
gegn
Samtökum atvinnulífsins f.h.
Útvegsbændafélags Vestmannaeyja vegna
Útgerðarfélags Vestmannaeyja hf.
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R
Mál þetta sem dómtekið var 6. apríl sl. er höfðað með stefnu þingfestri 27. febrúar 2001.
Málið dæma Kristjana Jónsdóttir, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.
Stefnandi er Alþýðusamband Íslands f.h. Sjómannasambands Íslands vegna Sjómannafélagsins Jötuns, Skólavegi 6, Vestmannaeyjum.
Stefndi er Samtök atvinnulífsins f.h. Útvegsbændafélags Vestmannaeyja vegna Útgerðarfélags Vestmannaeyja hf., Flötum 25, Vestmannaeyjum.
Dómkröfur stefnanda
Að dæmt verði að stefndu hafi brotið gegn grein 1.14. og 5.15. í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna.
Að stefndu verði dæmd til greiðslu samningsbundinnar sektar samkvæmt grein 1.41 í kjarasamningi aðila.
Að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega, að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnenda.
Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af kröfu um greiðslu sektar.
Þá er þess krafist að stefnendur verði dæmdir, in solidum, til greiðslu málskostnaðar.
Málavextir
Stefndi gerir út skuttogarann Breka VE-61, sem ber skipaskrárnúmer 1459, frá Vestmannaeyjum. Þann 27. desember 2000 fór skipið til veiða með þær fyrirætlanir, að sögn stefnda, að sigla með aflann til sölu erlendis. Föstudaginn 29. desember 2000 kom fram bilun í spilum skipsins og var haldið til hafnar í Reykjavík. Skipið kom til hafnar kl. 19.00 þann 29. desember 2000. Lauk viðgerð sunnudagskvöldið 31. desember 2000. Skipið hélt síðan til veiða um kl. 23.00 á gamlárskvöld.
Meðan skipið var í Reykjavík var afla landað úr skipinu og var hann settur í gáma og fluttur þannig út til sölu á fiskmarkaði í Þýskalandi.
Skipið kom síðan til hafnar á Akranesi aðfaranótt miðvikudagsins 3. janúar 2001, þar sem lokaviðgerð fór fram á spilum skipsins. Skipið hélt síðan úr höfn þann sama morgun.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi hafi brotið gegn fyrirmælum kjarasamnings aðila er varða hafnarfrí, sbr. grein 1.14. og 5.15. með því að veita áhöfn sinni ekki samningsbundið hafnarfrí. Í 1. kafla kjarasamnings aðila sé fjallað um almenn kjör skipverja sem starfi samkvæmt kjarasamningi aðila. Í 2. mgr. greinar 1.14. sé þannig fjallað um reglur er varði jóla- og áramótafrí sem gildi um allar veiðar. Þar komi fram að skipverjum skuli tryggt hafnarfrí frá kl. 16.00 á gamlársdag til kl. 24.00 á nýársdag. Þá komi einnig fram í sömu málsgrein að hafnarfrí um áramót reiknist til viðbótar við lágmarkshafnarfrí. Verði hafnarfrí um áramót því ekki fært eða tekið út á öðrum tíma. Í 3. mgr. sömu greinar sé síðan tiltekið að ákvæði um hafnarfrí, samkvæmt framangreindu, séu frávíkjanleg, ef um sé að ræða skip, sem ætlað sé að sigla með afla sinn á erlendan markað, enda sé skipsáhöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst.
Í 5. kafla sama kjarasamnings aðila sé fjallað sérstaklega um kjör skipverja á skuttogurum. Þar segi í 1. mgr. greinar 5.13. að hver veiðiferð skuli reiknast sem sérstakt kauptryggingartímabil. Í 2. mgr. segi síðan að veiðiferð teljist hafin þegar togari leggi úr höfn og sé lokið þegar hann komi til löndunar og samningsbundnu hafnarfríi ljúki. Þar sem grein 5.14. mæli svo fyrir að skipverjar skuli hafa frí við löndun sé augljóst, að mati stefnanda, að hafnarfrí hefjist um leið og skip komi að landi. Teljist veiðiferð lokið á sömu stundu hvað varðar skipverja á skuttogurum. Loks sé mælt svo fyrir í grein 5.15. að hafnarfrí skuli aldrei vera skemmra en 30 klukkustundir.
Að mati stefnanda sé ljóst að stefndi hafi brotið gegn fyrirmælum kjarasamnings aðila er varða hafnarfrí, sbr. grein 1.14. og 5.15., með því að veita áhöfn sinni ekki samningsbundið hafnarfrí. Sé brot stefnda tvíþætt að mati stefnanda. Annars vegar hafi stefnda skilyrðislaust borið að veita áhöfn sinni áramótafrí eftir að ljóst var orðið að hætt yrði við siglingu með afla á gamlársdag þann 31. desember 2000. Jafnframt hafi skipið átt að koma til hafnar eigi síðar en kl. 16.00 þannig að mögulegt hefði verið að veita samningsbundið hafnarfrí. Hins vegar sé ljóst að veiðiferð skipsins Breka VE-61 hafi lokið með komu skipsins til hafnar í Reykjavík og löndun þess þann sama dag. Hafi þegar af þeirri ástæðu borið að veita áhöfn minnst 30 klukkustunda hafnarfrí samkvæmt grein 5.15. í kjarasamningi aðila.
Af hálfu stefnda hafi verið vísað til þess að heimilt hafi verið að víkja frá nefndum fyrirmælum kjarasamnings aðila um hafnarfrí þar sem ætlunin hafi verið að sigla með aflann til sölu erlendis. Því til stuðnings vísi stefndi til þess að aðeins hafi verið landað hluta aflans, sem hafi verið um borð, þegar skipið hafi landað í Reykjavík og að sú löndun skýrist af bilun í tækjabúnaði skipsins.
Að mati stefnanda breyti framangreindar staðreyndir engu um ætluð brot stefnda. Ljóst sé að veiðiferðinni, sem hófst þann 27. desember 2000, hafi lokið þann 30. desember 2000 þegar landað hafi verið úr skipinu, sbr. skýr ákvæði 2. mgr. greinar 5.13. í kjarasamningi aðila, þar sem fram komi að veiðiferð ljúki þegar skip komi til hafnar og landað sé úr því. Breyti engu í þessum efnum þótt stefndi hafi kosið að skilja einhvern hluta aflans eftir í skipinu, enda hafi verið um smávægilegt magn að ræða. Engu breyti heldur í þessu sambandi þó stefndi hafi upphaflega ætlað sér að sigla með aflann. Raunin hafi orðið önnur og því eigi fyrrgreind ákvæði kjarasamnings aðila um siglingar ekki við. Framferði stefnda við uppgjör launa og launatengdra gjalda staðfesti jafnframt framangreint, þar sem stefndi muni hafa gert upp laun og tengd gjöld þann 14. janúar 2001 eða 15 dögum eftir lok umræddrar veiðiferðar, enda sé slíkt í fullu samræmi við ákvæði 1. mgr. greinar 5.13. í kjarasamningi aðila, sbr. og 1. mgr. greinar 1.12., þar sem fram komi að gera skuli upp laun og önnur gjöld innan 15 daga frá lokum veiðiferðar.
Stefnandi byggir málsókn sína á meginreglum vinnuréttar, lögum nr. 80/1938 og gildandi kjarasamningi aðila. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafist er álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn fyrir því að fá álag er honum nemi dæmt úr hendi gagnaðila.
Málsástæður stefnda og lagarök
Af hálfu stefnda er á því byggt að ákvæði 2. mgr. gr. 1.14. í kjarasamningi aðila, sem stefnandi haldi fram að stefndi hafi brotið, sé frávíkjanlegt. Þannig segi í 3. mgr. sömu greinar að ákvæðin um frí um jól og áramót séu frávíkjanleg ef um sé að ræða skip sem sé ætlað að sigla með afla sinn á erlendan markað, enda sé skipshöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferðin hefst. Ekki fari á milli mála að áhöfninni hafi allri verið um þetta kunnugt og hafi hún gefið skriflega yfirlýsingu um það. Hafi þessi háttur verið hafður á með útgerð Breka til margra ára og öllum sjómönnum á landinu um það kunnugt. Sé mjög eftirsótt að komast í þessar veiðiferðir þar sem eftirtekjan sé mikil. Löndunardagur í Þýskalandi hafi verið pantaður löngu áður en lagt hafi verið úr höfn.
Í gr. 5.13. í kjarasamningi sé fjallað um tryggingartímabil. Segi þar í 1. mgr. að á skuttogurum teljist hver veiðiferð sérstakt kauptryggingartímabil. Í 2. mgr. segi að veiðiferð teljist hafin þegar skipið leggi úr höfn og henni teljist lokið þegar togari komi til löndunar og samningsbundnu hafnarfríi sé lokið.
Kjarni þess ágreinings sem hér sé uppi snúist um það hvort Breki hafi "komið inn til löndunar" er hann kom til hafnar í Reykjavík. Það sé reyndar óumdeilt að hluta aflans var landað við þetta tækifæri, en því sé haldið fram að skipið hafi ekki komið inn "til löndunar" í þeim skilningi að veiðiferð væri lokið. Það hafi frá upphafi verið ljóst að veiðiferðinni mundi ekki ljúka fyrr en skipið kæmi heim til Vestmannaeyja að aflokinni siglingu til Þýskalands og sölu aflans þar. Það hafi verið af óviðráðanlegum og ófyrirséðum (force major) atvikum að skipið hafi orðið að leita hafnar í Reykjavík til viðgerðar. Það sé ekki fyrr en komið sé til hafnar og skoðun hafi farið fram að það liggi fyrir að viðgerð muni taka aðeins meira en nokkrar klukkustundir, en óvíst þó hve langan tíma. Það hafi því verið fullkomlega eðlilegt er útgerðin tók þá ákvörðun, í samráði við yfirmenn á skipinu, að láta landa elsta aflanum í gáma og freista þess að koma honum í sölu erlendis í tæka tíð. Hér hafi ekki verið um að ræða löndun í venjulegum skilningi og veiðiferðinni hafi ekki lokið við það. Stefnendur hafi sjálfir lagt fram vottorð um það að einungis hafi verið um að ræða lítinn hluta aflans og hið sama komi fram á vottorði Löndunar ehf., sem liggur frammi í málinu.
Þeir sem hafi ráðið sig í skipsrúm til þessarar veiðiferðar hafi vitað frá upphafi að það hafi ekki verið ætlunin að fara í veiðiferð sem tæki einn og hálfan sólarhring. Þeir hafi vitað það allir og hafi samþykkt að fara í veiðiferð sem standa myndi í tvær til þrjár vikur, eftir veiði og öðrum atvikum, eins og tíðkist. Áhöfnin hafi heldur ekki, að vitað sé, gert neinar athugasemdir við það hvernig fór. Þegar skipið kom til hafnar í Vestmannaeyjum þann 19. janúar sl., að aflokinni siglingu, hafi áhöfn verið veitt hafnarfrí samkvæmt gr. 5.15. í kjarasamningi og til viðbótar hafi þeim verið veitt frí til uppbótar á áramótafrí samkvæmt 2. mgr. gr. 1.14. í kjarasamningi. Þetta sýni best að allir hafi verið á einu máli um það að veiðiferðin hafi verið samfelld. Skipið hafi verið í höfn frá kl. 13.00 þann 19. janúar til kl. 23.30 þann 25. janúar 2001. Stefndi hafi þannig að fullu staðið við alla kjarasamninga gagnvart áhöfn sinni.
Það athugist að óhappatilviljanir, eins og t.d. bilanir, veiti mönnum ekki sjálfstæðan rétt til fría, nema sérstaklega sé um það samið. Þaðan af síður hafi það skapað stéttarfélögum sjálfstæðan rétt til að beita útgerðir sektum eins og hér sé verið að reyna.
Hvað varði það atriði að gert hafi verið sérstakt uppgjör fyrir þann hluta aflans, sem landað hafi verið í gáma, þá sé það engin sönnun þess að veiðiferðinni hafi verið slitið eða að stefndi hafi litið svo á að henni hafi verið slitið. Eins og greini í 3. mgr. gr. 1.12. í kjarasamningi, skal frestur á uppgjöri siglingarskipa ekki vera lengri en 15 dagar, talið frá söludegi. Ekki sé lagt neitt bann við því að gera upp hluta veiðiferðar eða greiðslu inn á uppgjör á því tímabili að veiðiferð hefst og þar til 15 dögum eftir sölu aflans. Eina skilyrðið samkvæmt kjarasamningnum sé að uppgjörinu sé að fullu lokið innan þessara 15 daga. Þá séu engin ákvæði í kjarasamningum um það hvenær standa eigi skil á greiðslu fyrir afla sem sendur sé í gámum til sölu erlendis.
Eins og hér stóð á hafi verið fullkomlega eðlilegt að gera sjómönnum skil á þeim hluta aflans sem seldur hafi verið sérstaklega og gera skil á þeim gjöldum sem því fylgi. Samkvæmt öllum venjulegum bókhaldsreglum og reyndar fyrirmælum í 14. og 16. grein laga nr. 144/1994 um ársreikninga, skuli færa tekjur og gjöld með þeim árum sem tekjurnar eða gjöldin falla til. Ef stefndi hefði tekjufært sölu umrædds afla, sem landað var fyrir áramót með árinu 2000, án þess að geta þeirra gjalda sem fylgi því að afla þeirra, s.s. eins og aflahlut sjómanna, þá hefði hann brotið fyrirmæli laga um ársreikninga um skráningu tekna og gjalda og ársreikningur ársins 2000 hefði ekki gefið rétta mynd af afkomu ársins 2000. Gjörðir stefnda í þessu máli hafi því verið samkvæmt lagafyrirmælum og hafi í engu brotið kjarasamninga.
Hvað varði kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða sekt samkvæmt einhliða ákvörðun stefnenda/Sjómannafélagsins Jötuns þá fái sú krafa ekki staðist og liggi til þess margar ástæður.
Fyrir það fyrsta hafi stefndi ekki brotið umræddan kjarasamning þannig að ekki séu efni til að taka afstöðu til slíkar kröfu, hvað sem öðru líði. Bilun í skipinu hafi valdið því að skipið hafi orðið að gera stutt hlé á veiðiferð meðan úr var bætt. Séu því engin efnisrök fyrir því að taka til greina meinta einhliða ákvörðun stjórnar Sjómannafélagsins Jötuns um að "beita sektarákvæði kjarasamninganna". Auk þess liggi ekki fyrir dómnum nein sönnun fyrir því að stjórn félagsins hafi tekið slíka ákvörðun, s.s. útdráttur úr fundargerð stjórnar.
Í annan stað sé því mótmælt að Félagsdómur geti dæmt stefnda til greiðslu sektar. Í 65. gr. laga nr. 80/1938 segi reyndar að dómurinn geti dæmt aðila til að greiða sektir. Í 67. gr. segi hins vegar að dómar Félagsdóms séu endanlegir og verði þeim ekki áfrýjað. Þessi ákvæði séu barn síns tíma og hafi nú þurft að víkja fyrir nýjum sjónarmiðum í lögfræði. Endurspeglist þau m.a. í 1. tl. 2. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu en þar segi að hver maður (aðili) sem dæmdur sé sekur eigi málsskotsrétt. Ákveðið hafi verið með lögum nr. 62/1994 að mannréttindasáttmáli Evrópu, ásamt tilteknum viðaukum, þ.m.t. 7. viðauka, skuli hafa lagagildi hér á landi. Hljóti hin yngri lög og þjóðréttarskuldbindingar íslenska ríkisins að víkja hinum eldri lagaákvæðum burt. Þessi sjónarmið hafi íslenska ríkið viðurkennt í máli Siglfirðings ehf. gegn íslenska ríkinu, sem talið hafi verið tækt til efnismeðferðar hjá mannréttindadómstól Evrópu. Í framhaldi af sátt sem gerð hafi verið í því máli hafi verið lagt fram frumvarp til breytingar á lögum nr. 80/1938, þar sem m.a. sé lagt til að ákvörðun Félagsdóms um að gera aðila að greiða sekt sé kæranleg til Hæstaréttar. Þetta lagafrumvarp hafi ekki náð fram að ganga á tveimur þingum og sé ástandið því óbreytt.
Niðurstaða
Stefnandi krefst þess að dæmt verði að stefndi, Útgerðarfélag Vestmannaeyja hf., hafi brotið gegn greinum 1.14. og 5.15. í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna og verði gert að greiða samningsbundna sekt samkvæmt grein 1.41. í kjarasamningi þessum með því að veita áhöfninni á Breka VE-61 ekki samningsbundið hafnarfrí við þær aðstæður og á þeim tíma sem í málinu greinir.
Í grein 1.14. í kjarasamningnum er m.a. fjallað um jóla- og áramótafrí. Þar segir svo í 2. og 3. mgr.:
"Á skipum sem stunda veiðar eftir samningi þessum skal skipverjum tryggt hafnarfrí frá kl. 12.00 á hádegi á Þorláksmessu til kl. 24.00 annan í jólum og frá kl. 16.00 á gamlársdag til kl. 24.00 á nýársdag. Hafnarfrí um jól er heimilt að telja sem 30 klst. í lágmarkshafnarfríum samkvæmt kjarasamningi, en áramótafríið skal vera viðbót við lágmarkshafnarfrí samkvæmt kjarasamningi.
Ákvæði um frí um sjómannadagshelgina og um jól og áramót eru frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætlað er að sigla með afla sinn á erlendan markað, enda sé skipshöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst. Sé siglt á sjómannadegi eða jólum skulu skipverjar fá 36 klst. frí til viðbótar samningsbundnu lágmarksfríi að siglingu lokinni."
Í V. kafla kjarasamningsins er fjallað sérstaklega um kjör skipverja á botnvörpuveiðum, þ.á m. á skuttogurum. Er þar m.a. að finna ákvæði um hafnarfrí, sbr. grein 5.15. í kjarasamningnum, og um hafnar- og siglingaleyfi þegar siglt er með aflann, sbr. grein 5.16. 1. og 2. mgr. greinar 5.15. eru svohljóðandi:
"Hafnarfrí skal vera 1 klst. fyrir hverja 6 ½ klst. af útivistartíma skips. Hafnarfrí skal þó aldrei var (sic) skemmri tími en 30 klst. að lokinni útivist hverju sinni.
Útivist skipsins skal reiknast frá því skipið leggur af stað úr höfn í veiðiferð til þess tíma sem skip kemur til hafnar og hafnarfrí hefst."
Samkvæmt gögnum málsins hélt Breki VE-61 úr heimahöfn til veiða hinn 27. desember 2000. Að sögn stefnda var ætlunin að sigla með aflann á erlendan markað og verður ekki ráðið að það sé út af fyrir sig vefengt af hálfu stefnanda. Hinn 29. desember 2000 kom fram bilun í spilum og var haldið til Reykjavíkur og lagst þar að bryggju um kl. 19.00. Fór þar fram viðgerð á spilunum er lauk um kl. 22.00 31. desember 2000.
Hinn 30. desember, meðan skipið lá í Reykjavíkurhöfn, fór fram löndun á hluta aflans. Um kl. 23.00 31. desember var haldið úr höfn. Enn þurfti að leita hafnar vegna bilunarinnar og var haldið til Akraness síðdegis 2. janúar 2001. Lauk viðgerð kl. 6.30 3. janúar 2001. Skipið hélt síðan til veiða á ný og landaði í Þýskalandi 11. janúar 2001. Til heimahafnar kom skipið 19. janúar 2001.
Stefnandi byggir kröfur sínar einkum á því að veiðiferð Breka VE-61, er hófst 27. desember 2000, hafi lokið með komu skipsins til Reykjavíkur og löndun úr því þar, sbr. ákvæði 2. mgr. greinar 5.13. í kjarasamningnum, og breyti engu um þetta þótt upphaflega hafi verið ráðgert að sigla með aflann eða að hluta aflans hafi ekki verið landað. Þar sem reyndin hafi orðið önnur eigi ákvæði 3. mgr. 1.14. í kjarasamningnum, um siglingar með afla, ekki við.
Aðila greinir á um hversu miklum afla var landað úr skipinu 30. desember 2000. Sá ágreiningur þykir ekki hafa þýðingu við úrlausn málsins. Telja verður óumdeilt að þessi umrædda sjóferð Breka VE-61 hafi verið farin í því skyni að selja aflann á erlendum markaði og að áhöfn skipsins hafi verið um það kunnugt, en í málinu liggur frammi yfirlýsing 10 skipverja þar að lútandi. Þá liggur og fyrir að hlé var gert á veiðiferðinni vegna ófyrirséðrar bilunar í spilkerfi skipsins og að henni var haldið áfram að viðgerð lokinni. Þegar framangreint er virt, svo og að vaktafyrirkomulagi var ekki slitið fyrr en komið var úr siglingunni þann 19. janúar 2001, verður að telja að veiðiferð hafi ekki lokið, í skilningi 2. mgr. gr. 5.13. í kjarasamningnum, heldur hafi verið um samfelldan siglingartúr að ræða þannig að ákvæði 3. mgr. gr. 1.14. eigi hér við. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Útvegsbændafélags Vestmannaeyja vegna Útgerðarfélags Vestmannaeyja hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands f.h. Sjómannasambands Íslands vegna Sjómannafélagsins Jötuns.
Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.