Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2001: Dómur frá 18. apríl 2001.

Ár 2001, miðvikudaginn 18. apríl, var í Félagsdómi í málinu nr. 7/2001.

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands

vegna

Félags íslenskra skipstjórnarmanna

gegn

Samtökum atvinnulífsins vegna

Eimskipafélags Íslands hf.

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R:

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 21. mars sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.

Stefnandi er Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, kt. 520169-3509, Borgartúni 18, Reykjavík vegna Félags íslenskra skipstjórnarmanna, s.st., kt. 580800-3510.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Garðastræti 41, Reykjavík vegna Eimskipafélags Íslands hf., kt. 510169-1829, Pósthússtræti 2, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

Að staðfest verði með dómi, að við ákvörðun launa samkvæmt kjarasamningi stefnanda við stefnda frá 23. nóvember 2000 skuli, þegar ákvörðuð eru laun skipstjóra, miðað við að grunnlaun séu samkvæmt C flokki launaskrár 1. janúar 2000 eftir tvö ár og þegar ákvörðuð eru laun stýrimanna skuli miðað við að grunnlaun séu ákvörðuð samkvæmt svonefndum hagræðingartaxta samkvæmt kaupskrá frá 1. janúar 2000. Þá er krafist málskostnaðar.

 

Dómkröfur stefnda

  1. Að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda um að C-launaflokkur skipstjóra sé lágmarkstaxti skipstjóra samkvæmt kjarasamningi stefnanda við stefnda frá 23. nóvember 2000.
  2. Að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda um að hagræðingartaxti stýrimanna sé lágmarkstaxti stýrimanna samkvæmt kjarasamningi stefnanda við stefnda frá 23. nóvember 2000.
  3. Stefndi gerir kröfu um að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

 

Málavextir

Hinn 23. nóvember 2000 var undirritaður nýr kjarasamningur milli Félags íslenskra skipstjórnarmanna um kaup og kjör skipstjóra og stýrimanna á kaupskipum annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar, en fyrri kjarasamningur gilti frá 1. apríl 1997. Með hinum nýja kjarasamningi var tekið upp nýtt launakerfi, svonefnt fastlaunakerfi, til einföldunar á greiðslufyrirkomulagi launa. Í stað þess að sundurliða laun á launaseðli í mánaðarlaun, frídaga, yfirvinnu, bakvaktir o.s.frv. fólu greidd mánaðarlaun í sér samtölu þeirra greiðsluþátta sem áður höfðu komið fram á launaseðlinum. Reiknaðar voru út heildartekjur fyrir sigldan mánuð sem margfaldaðar voru með vinnumánuðum viðkomandi manns til að finna árstekjur hans miðað við vinnuár hans. Árstekjunum var síðan jafnað á alla mánuði ársins þannig að menn fengju jafnar greiðslur mánaðarlega í stað þeirra sveiflna á milli mánaða sem tíðkast hafði samkvæmt eldra kerfi.

Með aðilum er ágreiningur um það við hvaða launaflokk og launataxta skuli miða við ákvörðun launa samkvæmt hinu nýja launakerfi. Stefnandi gerir kröfu til þess að grunnlaun skipstjóra séu miðuð við C flokk launaskrár frá 1. janúar 2000 en grunnlaun stýrimanna skuli miða við svonefndan hagræðingartaxta, eins og fram kemur í dómkröfum hans. Af hálfu stefnda er sjónarmiðum og skilningi stefnanda um þetta mótmælt.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að enginn vafi leiki á að miða skuli við svonefndan hagræðingartaxta, sem sé að finna í I. kafla kjarasamningsins, að því er stýrimenn varðar. Um það hafi verið samið á endaspretti samningaviðræðnanna og komi þessi skilningur skýrt fram í fylgiskjali með samningnum, sem er útreikningsdæmi sem sett hafi verið upp og undirritað af aðilum. Þetta dæmi hafi, eins og mörg önnur, sem komið hafi frá Samtökum atvinnulífsins, verið lagt til grundvallar við kynningu samningsins, enda hafi aðrir en Eimskipafélag Íslands hf. farið eftir þessu og lagt hagræðingartaxta til grundvallar launaútreikningum sínum. Megi því ætla að sá skilningur hafi verið ríkjandi. Að því er skipstjóra varðar sé einnig ljóst af framlögðum dæmum, að miða skyldi við þann taxta, sem krafist sé í kröfugerð. Ágreiningur þessi hafi verið tekinn upp í úrskurðarnefnd um ágreiningsmál aðilanna, án samkomulags.

Stefnandi telur, að með afstöðu sinni gangi stefndi, Eimskipafélag Íslands hf., í berhögg við það sem samið hafi verið um með kjarasamningnum frá 23. nóvember 2000 og þannig brotið gegn öllum samningarétti. Mál þetta snúist um ágreining um skilning á vinnusamningi og heyrir því undir Félagsdóm samkvæmt 2. tl. 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Málskostnaðarkrafa byggir á 65. gr. sömu laga og 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Um kröfu 1

Mótmælt er sem röngu og ósönnuðu að með kjarasamningi milli Félags íslenskra skipstjórnarmanna og Samtaka atvinnulífsins, sem undirritaður var 23. nóvember 2000 hafi A-launaflokkur skipstjóra verið felldur niður og C-launaflokkur skipstjóra gerður að lágmarkslaunum.

Samkvæmt I. kafla kjarasamnings skipstjóra séu þrír launaflokkar skipstjóra. A-flokkur fyrir skipstjóra sem standi ekki vaktir, B-flokkur fyrir skipstjóra á skipum með einn stýrimann, þar sem skipstjóri standi 12 klst. vakt í brú á siglingu á móti stýrimanni, svo og C-flokkur fyrir skipstjóra á tveggja stýrimanna skipum þar sem skipstjóri standi 4 klst. vakt og hvor stýrimaður standi þá 10 klst. sjóvakt á sólarhring í stað 12 klst. á skipum þar sem skipstjóri standi ekki vaktir eins og í A-flokki skipstjóra.

Krafa stefnanda sé órökstudd og styðjist ekki við nein gögn málsins. Hana sé hvorki að finna í kjarakröfum stefnanda né í kjarasamningi. Gerð sé krafa um að skipstjóralaun skuli ávallt vera 15% hærri en sem nemi launum næsta manns. Í kjarasamningi sé hvergi á það minnst en í bókun með samningnum sé ákvæði um að skipstjóri skuli að öllu jöfnu vera launahæsti maður á skipinu. Með því sé útgerð og skipstjóra falið að tryggja það að svo sé, sbr. ákvæði 4. gr. kjarasamningsins um persónubundin laun skipstjóra.

Um kröfu 2

Mótmælt er sem röngu og ósönnuðu að með kjarasamningi milli Félags íslenskra skipstjórnarmanna og Samtaka atvinnulífsins, sem undirritaður var 23. nóvember 2000 hafi hagræðingartaxti (vinnuhagræðingarflokkur) stýrimanna samkvæmt kjara- samningnum verið gerður að lágmarkstaxta stýrimanna.

Samkvæmt I. kafla kjarasamnings stýrimanna séu fimm launataxtar stýrimanna. Sé þar um að ræða lágmarkskaup og hagræðingartaxta sem sé 4% hærri. Til þess að fá kaup samkvæmt hagræðingartaxta þurfi stýrimaður að uppfylla skilyrði bókunar VIII frá 1997 í kjarasamningi, þ.e. að sinna sérstökum verkefnum fyrir skipið sem leiði til kostnaðarlækkunar. Þessi krafa sé enn í fullu gildi þar sem engin ákvæði séu í kjarasamningi stýrimanna sem dragi úr þeirri kröfu.

Í bréfi stefnanda dags. 28. nóvember 2000 sé staðfest efnislega að heildartekjur skipstjóra og stýrimanna skuli hækka um þar tilgreindar prósentur á samningstímanum. Dæmi um útreikninga hafi verið sett upp til þess að auðvelda mönnum útfærsluna og minna á það hvaða launaþættir séu innifaldir í mánaðarlaunum í fastlaunakerfinu.

Sameiginlega um kröfu 1 og 2

Í viðhengi við kjarasamning aðila sé samantekt ríkissáttasemjara í 11 liðum á því sem hann hafi talið að samkomulag væri orðið um þann 22. nóvember 2000, kvöldið áður en kjarasamningurinn var undirritaður. Þar séu tilgreindar prósentuhækkanir launa yfir samningstímabilið og ýmis önnur atriði sem færð séu inn í kjarasamninginn sem var undirritaður 23. nóvember. Í 3. og 4. gr. samningsins séu tilgreindar þær breytingar á eldri skipstjórasamningi sem þurfi að gera þegar tekið sé upp fastlaunakerfi skipstjóra. Samsvarandi breytingar á stýrimannasamningi séu í 5. til 7. grein. Séu þar m.a. tilgreindir þeir launaþættir sem greiddir hafi verið sérstaklega en eigi nú að falla inn í mánaðarlaun í fastlaunakerfinu. Það sé misjafnt hve margir af þessum launaþáttum eigi við hjá hverjum skipstjóra eða stýrimanni fyrir sig. Fari það eftir gerð skipa og verkefnum, fjölda stýrimanna um borð og ýmsu fleiru. Hafi ýmis dæmi verið reiknuð þar sem teknar voru af handahófi launatölur úr gildandi kaupgjaldsskrá.

Af hálfu samninganefndar útgerða hafi verið litið á þessi dæmi sem hjálpargögn til skilnings og útfærslu á fastlaunakerfi en ekki að þar væri verið að staðfesta einhverja nýja lágmarkstaxta fyrir skipstjóra eða stýrimenn. Þá blandi stefnandi saman því sem sé kjarasamningsbundið og persónubundnum þáttum eins og fram komi í bréfi til forstjóra Eimskips dags. 29. janúar sl. Þar fari stefnandi út fyrir verksvið sitt þegar hann telji sig hafa einhvern ákvörðunarrétt um þau atriði sem séu umfram kjarasamninga og samið sé um í persónubundnum samningum milli útgerðar og viðkomandi skipstjóra eða stýrimanns.

 

Niðurstaða

Hinn 23. nóvember 2000 var undirritaður nýr kjarasamningur milli aðila máls þessa. Með kjarasamningnum voru síðast gildandi kjarasamningar aðila framlengdir til 1. mars 2004 með þeim breytingum og fyrirvörum, sem fólust í hinum nýja samningi, og falla þeir þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar, sbr. 1. gr. kjarasamningsins. Þágildandi kjarasamningar höfðu verið undirritaðir 14. maí 1997 og gilt frá 1. apríl þ.á. til 1. nóvember 2000. Var þar um að ræða tvo kjarasamninga, annars vegar kjarasamning skipstjóra og hins vegar kjarasamning stýrimanna á kaupskipum.

Með hinum nýja kjarasamningi voru gerðar grundvallarbreytingar á launakerfum skipstjóra og stýrimanna sem felast í því að tekið var upp fastlaunakerfi með þeim hætti að lagðir eru saman tilgreindir launaliðir og fundið mánaðarlegt jafnaðarkaup samkvæmt umsömdum forsendum, sbr. 3.-6. gr. kjarasamningsins. Fastlaunakerfið er skilgreint svo í 3. og 5. gr. kjarasamningsins: "Fastlaunakerfi eru persónubundin heildarlaun fyrir óskilgreindan vinnutíma á sigldan mánuð. Í mánaðarlaunum fyrir sigldan mánuð eru innifaldar greiðslur samkvæmt neðangreindum greinum kjarasamningsins." Síðan eru taldar upp þær greiðslur sem innifaldar eru í mánaðarlaunum samkvæmt framansögðu. Tekið er fram að árslaun skuli reiknast með þeim hætti að mánaðarlaun fyrir sigldan mánuð skuli margfölduð með vinnumánuðum viðkomandi manns á ári, sem nánar eru skilgreindir í samningnum, og til jöfnunar launagreiðslna yfir árið skuli deilt með 12 til ákvörðunar á greiddum launum á mánuði. Í málinu kemur fram að hið nýja launakerfi feli í sér að launþegar fái jafnar greiðslur mánaðarlega í stað þeirra sveiflna á milli mánaða sem fylgdu eldra kerfi sem fól í sér greiðslur sundurliðaðra launaliða á hverjum tíma.

Samkvæmt I. kafla kjarasamnings skipstjóra, sem undirritaður var 14. maí 1997, eru launaflokkar skipstjóra þrír, A, B og C-flokkur, eftir fjölda stýrimanna á skipi, og samkvæmt kjarasamningi stýrimanna frá sama tíma eru launaflokkar stýrimanna tveir, lágmarkstaxti og hagræðingartaxti.

Í málinu er ágreiningur um það hvaða launaflokk skuli leggja til grundvallar við ákvörðun launa samkvæmt hinu nýja launakerfi. Af hálfu stefnanda er á því byggt að um það hafi verið samið að þeir launaflokkar, sem tilgreindir eru í dómkröfum, skuli lagðir til grundvallar í þessum efnum, þ.e. launaflokkur C að því er varðar skipstjóra og hagræðingartaxti í tilviki stýrimanna. Að því er stýrimenn varðar er sérstaklega vísað til þess að í útreikningsdæmi, sem er fylgiskjal með kjarasamningnum, sé hagræðingartaxti lagður til grundvallar, og hvað snertir skipstjóra er vísað til annarra útreikningsdæma þar sem byggt sé á launaflokki C.

Af hálfu stefnda er því mótmælt sem ósönnuðu og röngu að með kjarasamningnum frá 23. nóvember 2000 hafi launaflokkur A hjá skipstjórum verið felldur niður og launaflokkur C gerður að lágmarkslaunum og hagræðingartaxti (vinnuhagræðingarflokkur) stýrimanna verið gerður að lágmarkstaxta, enda hafi stefndi litið á greind útreikningsdæmi sem hjálpargögn til skilnings og útfærslu á hinu nýja launakerfi.

Með kjarasamningnum frá 23. nóvember 2000 var ekki haggað við launaflokkum skipstjóra og er það óumdeilt í málinu. Samkvæmt framburði Guðjóns Petersen, framkvæmdastjóra stefnanda, og Ómars Karlssonar, stýrimanns, sem voru í samninganefnd Félags íslenskra skipstjórnarmanna, kom til tals í lok samningaviðræðnanna að nota launaflokk C sem viðmiðunarflokk skipstjóra við framkvæmd hins nýja launakerfis. Kristján Ólafsson, deildarstjóri hjá Samskipum hf., sem átti sæti í samninganefnd f.h. Samtaka atvinnulífsins, kannaðist hins vegar ekki við að þetta hafi verið rætt. Í málflutningi og við skýrslutökur fyrir dómi kom fram að launaflokkur C hafi ekki verið notaður, m.a. vegna andstöðu stýrimanna, sem missi við það yfirvinnu. Stefndi heldur því fram að krafa stefnanda um viðmiðun við launaflokk C sé órökstudd og styðjist ekki við gögn málsins og bendir jafnframt á að slík viðmiðun sé í ósamræmi við laun, þ.m.t. launabil, milli skipstjóra og stýrimanna, og launahækkanir sem um hafi verið samið.

Þegar það er virt, sem að framan er rakið, verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að sýna fram á, gegn mótmælum stefnda, að svo hafi samist að byggja beri á launaflokki C sem viðmiðun í tilviki skipstjóra í hinu nýja launakerfi. Var óhjákvæmilegt að tekið yrði af skarið um þetta í kjarasamningnum sjálfum, sérstaklega í ljósi ákvæða kjarasamningsins frá 14. maí 1997 um launaflokka, en skilningur stefnanda þýddi að sú launaflokkaskipan hefði ekki lengur þýðingu. Ber því að sýkna stefnda af þessum lið í dómkröfum stefnanda.

Kjarasamningnum frá 23. nóvember 2000 fylgdi útreikningsdæmi sem sérstaklega var staðfest af samningsaðilum við undirritun kjarasamningsins. Í útreikningsdæmi þessu, sem tekur mið af 2. stýrimanni í millilandasiglingum, er byggt á hagræðingartaxta. Í framburði Guðjóns Petersen og Ómars Karlssonar, svo og Magnúsar Harðarsonar, yfirstýrimanns, sem einnig átti sæti í samninganefnd Félags íslenskra skipstjórnarmanna, kom fram að þeir litu svo á að hagræðingartaxti hefði verið gerður að grundvallartaxta í samningaviðræðunum. Í framburði Kristjáns Ólafssonar kom fram að hann samdi umrætt útreikningsdæmi og kvaðst hann hafa valið dæmið af handahófi, en fjöldi dæma hefði verið reiknaður. Í skýrslutökum fyrir dómi kom fram að ekki hefði komið til tals að taka fram í kjarasamningnum sjálfum um þýðingu hagræðingartaxtans að þessu leyti.

Með kjarasamningnum frá 23. nóvember 2000 var ekki hróflað við launaflokkum stýrimanna. Skilningur stefnanda myndi leiða til þess að lágmarkstaxti hefði ekki lengur þýðingu.

Að því er varðar fyrrgreint útreikningsdæmi er ljóst, að sjálfstæða þýðingu hafði, vegna þeirra róttæku breytinga á launakerfinu, sem í málinu greinir, að setja fram útreikninga samkvæmt hinu nýja launakerfi í því skyni að sýna tilhögun og framkvæmd þess.

Þegar það er virt, sem að framan er rakið, og sérstaklega er haft í huga að ekki var hróflað við launaflokkum stýrimanna með kjarasamningnum frá 23. nóvember 2000, verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að sýna fram á, gegn andmælum stefnda, að með umræddu útreikningsdæmi eða öðrum slíkum dæmum hafi svo um samist að hagræðingartaxtinn fengi slíkt almennt gildi sem krafist er. Ber því einnig að sýkna stefnda af þessum lið í dómkröfum stefnanda.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Samtök atvinnulífsins vegna Eimskipafélags Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands vegna Félags íslenskra skipstjórnarmanna, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Erla Jónsdóttir

Valgeir Pálsson

 

Sératkvæði

Gunnars Sæmundssonar

Ég er sammála þeirri niðurstöðu meirihluta dómenda, að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að um það hafi samist að byggt skuli á launaflokki C sem viðmiðun fyrir skipstjóra í hinu nýja launakerfi. Ég get hins vegar ekki fallist á að sama gildi um svonefndan hagræðingartaxta sem viðmiðun fyrir stýrimenn. Eins og fram er komið liggur fyrir í málinu skjal sem ber fyrirsögnina "Dæmi um útreikning fastra mánaðarlauna. Miðað er við nýráðinn 2. stýrimann í millilandasiglingum." Skjalið geymir sundurliðaðan útreikning á launum stýrimanns sem ráðinn er nýr til starfa og nefnir ekki aukastörf. Það er áritað með fangamörkum af öllum sömu mönnum og rituðu undir kjarasamning málsaðila þann 23. nóvember 2000. Af framburði framkvæmdastjóra Félags íslenskra skipstjórnarmanna, sem fór með formennsku í samninganefnd félagsins, og því að í skjalinu er yfirvinna vegna skörunar vakta tilgreind sérstaklega í stað þess að vera innifalin í heildarfjölda yfirvinnutíma eins og samantekt ríkissáttasemjara frá 22. nóvember gerði ráð fyrir, er ljóst að gengið var frá umræddu skjali þegar kjarasamningur aðila var undirritaður næsta dag og að það er fylgiskjal með honum. Þegar þetta er virt verð ég að telja að skjalið sé hluti af kjarasamningnum og hafi sama gildi og hann. Við skýringu þess ber því að beita sömu aðferðum og almennt er beitt við skýringu samninga.

Af framburðum samningamanna stefnanda sem komið hafa fyrir dóminn og því á hvern veg þeir kynntu félagsmönnum sínum samninginn er ljóst að þeir töldu að samkomulag hefði orðið um að hagræðingartaxtinn gilti sem sú viðmiðun fyrir stýrimenn sem laun þeirra skyldu reiknuð út frá. Jafnframt er óumdeilt að skjalið var útbúið af Kristjáni Ólafssyni sem sæti átti í samninganefnd kaupskipaútgerðanna. Ekki hefur komið fram af hálfu stefnda viðhlítandi rökstuðningur fyrir þeirri málsástæðu hans að umrætt skjal sé aðeins hjálpargagn til skilnings og útfærslu á fastlaunakerfi en ekki að þar sé verið að staðfesta nýjan lágmarkstaxta. Sé hið umþrætta skjal túlkað samkvæmt orðanna hljóðan verður niðurstaðan sú að þar séu tilgreind lægstu laun stýrimanns í millilandasiglingum, sem kemur heim við túlkun stefnanda, jafnframt því sem það sýnir útreikning launa í fastlaunakerfi eins og því sem lýst er í sjálfum samningnum. Að svo vöxnu máli verður hið stefnda félag að bera hallann af því ef efni þessa þáttar samningsins varð annað en vilji þess stóð til. Samkvæmt því tel ég að taka beri dómkröfur stefnanda til greina, að því er stýrimenn varðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta