Hoppa yfir valmynd
30. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Niðurstöður könnunar á heilsu fatlaðs fólks

Háskóli Íslands - myndVelferðarráðuneytið

Hér með eru birtar niðurstöður könnunar á heilsu fatlaðs fólks; Fötlun og heilsa, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið. Könnunin náði til fullorðinna notenda þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin veita á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks. Í úrtaki voru 921 einstaklingur og var svarhlutfallið 63%.

Niðurstöður rannsóknarinnar verða m.a. nýttar við innleiðingu aðgerða í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017-2021, en þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks er nú til meðferðar á Alþingi.

Lýðheilsukannanir eru reglulega lagðar fyrir almenning hér á landi og veita þær innsýn í mikilvæga þætti sem tengjast heilsu og heilbrigði. Slíkar kannanir hafa hins vegar ekki náð til fatlaðs fólks nema að litlu leyti þar sem einstaklingar sem búa á stofnunum og í sértækum búsetuúrræðum eru alla jafna útilokaðir frá þátttöku, auk þess sem ekki hefur verið lögð áhersla á að spurningalistarnir séu aðgengilegir fötluðu fólki. Með könnuninni Fötlun og heilsa var markmiðið að ná til fatlaðs fólks og fá upplýsingar um sambærilega heilsutengda þætti og aflað er í reglubundnum lýðheilsukönnunum. Einnig var bætt við nokkrum spurningum sem taka betur mið af aðstæðum fatlaðs fólks. Leitast var við að ná fram víðtækri mynd, m.a. með því að skoða hvernig þættir eins og kyn, fjárhagur og ofbeldi tengjast heilsu og líðan.

Könnunin leiðir m.a. í ljós að það er algengara að fatlað fólk glími við heilsufarsvanda en almennt gerist hjá þjóðinni í heild. Þetta er í samræmi við niðurstöður erlendra kannana. Fram kemur að rúmlega helmingur svarenda hefur upplifað langvinnan kvíða eða spennu og 38% hópsins langvinnt þunglyndi sem er mun hærra en hjá þjóðinni í heild.

Fatlað fólk sætir fremur ofbeldi en ófatlaðir

Rannsóknarniðurstöður leiða í ljós  áhrif slæmrar fjárhagsstöðu á heilsu og líðan fatlaðs fólks og sömuleiðis áhrif ofbeldis. Fatlað fólk verður frekar fyrir líkamlegu ofbeldi og kynferðislegu ofbeldi en raunin er hjá þjóðinni almennt. Um 38% fatlaðs fólks hafði upplifað líkamlegt ofbeldi, þar með talið kynferðisofbeldi á móti 18% í þjóðarúrtaki.

Niðurstöður varpa einnig ljósi á tengsl ofbeldis og heilsubrests. Af þeim sem höfðu orðið fyrir ofbeldi mátu u.þ.b. 64% líkamlega heilsu sína sæmilega eða lélega, samanborið við 42% þeirra sem ekki höfðu orðið fyrir ofbeldi. Munurinn verður enn meiri við mat á andlegri heilsu, þar sem 62% þeirra sem höfðu orðið fyrir ofbeldi töldu andlega heilsu sína sæmilega eða lélega, samanborið við 33% annarra þátttakenda.

Niðurstöður sýna oft marktækan mun á svörum eftir fjárhagsstöðu. Þeir sem búa á heimilum sem komast vel af eða tekst að ná endum saman meta líkamlega og andlega heilsu sína mun betri en þeir sem búa á heimilum þar sem erfitt eða mjög erfitt var að ná endum saman. Þeir sem búa við bágan fjárhag voru líklegri til að hafa fundið fyrir miklum verkjum undanfarnar fjórar vikur, höfðu frekar fundið fyrir þrekleysi, áhyggjum og kvíða, verið með langvinnt þunglyndi, vöðvabólgu og ýmsa verki. Þeir tjáðu sig einnig fremur um svefnörðugleika en aðrir. Það voru einnig meiri líkur á því að þeir sem búa við bágan fjárhag hefðu verið innlagðir á sjúkrahús á sl. 12 mánuðum en þeir sem bjuggu við betri kjör. Bág afkoma leiðir einnig til þess að einstaklingarnir fara sjaldnar til tannlæknis og þess að hætta við eða fresta för til læknis, sem og þess að borða sjaldnar grænmeti og ávexti.

Niðurstöður sýna einnig kynjamun þar sem staða kvenna er að mörgu leyti verri en staða karla. Þær  eru líklegri til að meta heilsu sína lélega, eru t.d. líklegri en karlar til að vera með þungar áhyggjur, langvinnan kvíða eða spennu og kljást við langvinnt þunglyndi. Líklegra er að konur en karlar hafi orðið fyrir ofbeldi, en 15% þeirra höfðu orðið fyrir þremur tegundum ofbeldis (líkamlegu-, andlegu- og kynferðisofbeldi) samanborið við 6% karla. Karlar hins vegar eru síður líklegir til að fá stuðning eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta