Fundur um framtíðarskipan ákæruvalds og dómstóla
Innanríkisráðuneytið boðaði í dag til fundar þar sem rætt var um framtíðarskipan ákæruvalds og dómstóla og um endurupptöku dæmdra mála. Til fundarins var boðið fulltrúum frá dómstólum, lögreglu, sýslumönnum, saksóknara, þingmönnum, fulltrúum réttarfarsnefndar og refsiréttarnefndar auk sérfræðinga ráðuneytisins.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ávarp í upphafi fundar, Ragnheiður Harðardóttir, fulltrúi í réttarfarsnefnd, flutti hugleiðingar um framtíðarskipan ákæruvaldsins og Eiríkur Tómasson, formaður réttarfarsnefndar, flutti hugleiðingar um framtíðarskipan dómstóla, millidómstig og endurupptöku dæmdra mála. Fundarstjóri var Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri.
Að loknum inngangserindum Ragnheiðar Harðardóttur og Eiríks Tómassonar urðu miklar umræður um hugmyndir og valkosti sem fram hafa komið. Í lokaorðum fundarins sagði innanríkisráðherra að unnið væri að aðgerðaráætlun um réttaröryggi þar sem fjallað væri um samspil réttarkerfisins og yrði hún hluti af innanríkisstefnu. Aðgerðaráætlunin væri ein af átta aðgerðaráætlunum sem unnar væru á vegum ráðuneytisins.