Fundur um stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar á Íslandi
Innanríkisráðuneytið stendur fyrir opnum morgunverðarfundi um hvort að ráðast eigi í að stofna sjálfstæða mannréttindastofnun á Íslandi fimmtudaginn 4. október næstkomandi kl. 8.30–11 í Iðnó í Reykjavík. Þetta er sjöundi og næstsíðasti fundur í röð ráðuneytisins um mannréttindamál sem haldnir hafa verið í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum. Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.
Íslensk stjórnvöld hafa fengið athugasemdir og tilmæli á grundvelli flestra þeirra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að um að hér sé ekki starfandi sjálfstæð mannréttindastofnun í samræmi við svokölluð Parísarviðmið. Í reglubundnu allsherjareftirliti með mannréttindaskuldbindingum (UPR) sem fram fór á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna síðastliðið haust hétu stjórnvöld því að kanna rækilega hvort ráðast skyldi í að koma á laggirnar stofnun í samræmi við athugasemdir alþjóðlegra eftirlitsaðila.
Umfangsmikil vinna fer nú fram á vegum stjórnvalda í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum. Með fundaröðinni er leitast við að fá sem flesta til að taka þátt í stefnumótun í málaflokknum til að hún eigi sér ekki aðeins stað innan veggja ráðuneyta heldur í samstarfi og í beinum tengslum við hagsmunaaðila, fræðasamfélag og almenning.
Dagskrá í Iðnó 4. október 2012 kl. 8.30 til 11
- Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpar fundinn
Erindi flytja:
- Oddný Mjöll Arnardóttir, lektor við lagadeild Háskóla Íslands
- Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis
- Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands
Að erindum loknum gefst tími til almennrar umræðu og fyrirspurna.
Hægt verður að kaupa hressingu á fundinum.
Innanríkisráðuneytið hvetur alla áhugasama til þess að mæta á fundinn.