Aðgangur veittur að Íraksskjölum
Utanríkisráðuneytið hefur veitt þeim fjölmiðlum sem eftir því óskuðu, aðgang að alls 67 skjölum er varða aðdraganda stuðnings Íslands við Íraksstríðið. Um er að ræða beiðnir frá fréttastofum RÚV og Stöðvar 2, Fréttablaðinu, Fréttatímanum, DV, Pressunni og Smugunni.
Ráðuneytið hefur á grundvelli upplýsingalaga farið yfir þau skjöl sem það býr yfir varðandi framangreint mál. Skjölin eru 92 talsins, samtals 399 blaðsíður. Í samræmi við upplýsingalög er aðgangur að 67 skjölum heimilaður og hefur fréttamiðlunum þegar verið veittur aðgangur að þeim. Önnur skjöl eru undanþegin aðgangi þar sem þau varða samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir eða eru vinnuskjöl.