Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Sjóður til styrktar augnlækningum á Landspítala

Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga hefur stofnað sjóð til styrktar augnlækningadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss. Tilkynnt var um stofnun sjóðsins í húsakynnum augndeildarinnar í dag en Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga leggur fram 25 milljónir króna í hann. Stjórn sjóðsins skipa þeir Einar Stefánsson prófessor, Helgi S. Guðmundsson og Benedikt Sigurðsson af hálfu stofnenda sjóðsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, var viðstaddur þegar tilkynnt var um stofnun sjóðsins og lýsti ánægju með framtak fyrirtækisins. Í ávarpi sem Guðlaugur Þór flutti af þessu tilefni sagði hann meðal annars: “Það hafa verið miklar framfarir í augnlækningum á Íslandi hin síðari ár og framfarirnar eiga eftir að verða enn meiri á komandi árum. Almennt séð skýrist þetta af heilbrigðisþjónustunni sem hér er veitt, en fyrst og fremst af menntun, rannsóknum og reynslunni sem íslenskir augnlæknar búa yfir.

En það er ekki nóg að tryggja menntunina, stunda rannsóknir og afla sér reynslu. Framfarir í lækningum, framfarir í þjónustu augnlækna, helgast öðrum þræði af tækjunum, sem menn hafa yfir að ráða til að geta þjónað sjúklingunum.

Augndeildina hér skortir ýmis tæki, sum eru komin á tíma og fyrirsjáanlegt að ný tæki opna augnlæknunum hér nýja möguleika. Það er þannig að Augndeildin hefur þurft á auknu fé að halda til að geta fylgt eftir þeirri öru þróun sem orðin er í tæknivæðingu augnlækninga í heiminum.  Lækningaraðferðum fleygir fram og með nýrri og aukinni tækni hafa skapast tækifæri til að hjálpa fólki, sem þjáist af sjónskerðingu, tækifæri til lækninga, sem gáfust ekki fyrr.

Mér er sagt að fyrsta verkefni sjóðsins verði að sjá svo til að koma megi upp hornhimnubanka en með banka af því tagi er von til þess að tugir einstaklinga fái verulega bót á sjóndepru sinni.

Framtak Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga er kærkomið af þeim ástæðum sem hér hefur verið getið um.

En framtak fyrirtækisins er ekki síður athyglisvert fyrir þá sök, að hér er fyrirtæki á markaði sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum til skapa forsendur fyrir því að hér á Íslandi verði augnlækningar og blinduvarnir með því besta sem gerist. Þessu fagna ég sérstaklega.

Ég veit að fagfólkið og stjórnendur spítalans fagna þessu og það er full ástæða fyrir sjúklingana að fagna líka. Ég vil leyfa mér að þakka forsvarsmönnum fyrirtækisins, og þeim öðrum sem undirbúið hafa sjóðsstofnunina, fyrir þeirra hönd.”

Í fréttatilkynningu frá Eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga segir m.a.: “Samvinnutryggingar vilja fá tækifæri til að styðja við þessa auknu tæknivæðingu við augnlækningar með nokkru fjárframlagi.  Hefur því félagið stofnað sjóð í þessu skyni og lagt í hann 25 milljónir króna sem stofnframlag. 

Fyrsta verkefni sjóðsins mun verða að koma til móts við spítalann við fjármögnun við að koma upp svo kölluðum hornhimnubanka.  Munu þá skapast möguleikar á því að nokkrir tugir manna hér á landi fái verulega bót á sjóndepru sinni áður en langur tími líður.

Er það von Samvinnutrygginga að með þessu framlagi og öðrum í næstu framtíð  nái spítalinn að fylgja eftir þeirri öru tæknivæðingu í augnlækningum, sem er að verða í heiminum.  Spítalinn hefur á að skipa afar færu fagfólki, sem með eðlilegri endurnýjun tækja mun geta veitt sjúklingum jafngóða þjónustu í augnlækningum og þá sem best gerist í heiminum.”

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta