Hoppa yfir valmynd
31. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýtt úrræði til að sporna við atvinnuleysi

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, tekur undir með forystu atvinnulífsins og hvetur fyrirtæki sem sjá fram á samdrátt að draga úr uppsögnum starfsfólks eins og kostur er en semja fremur um lækkun starfshlutfalls. Nýju úrræði um hlutabætur Atvinnuleysistryggingasjóðs er ætlað að ýta undir þessa leið. Fjallað var um frumvarp til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa, sem felur þetta í sér, á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Ríkisstjórnin samþykkti að senda það áfram til þingflokka en endanlegt kostnaðarmat mun liggja fyrir eftir helgi. Ráðherra bindur vonir við að frumvarpið fái skjóta meðferð á Alþingi og geti komið til framkvæmda sem fyrst.

Í frumvarpinu felst í fyrsta lagi að sá tími sem heimilt er að greiða fólki tekjutengdar atvinnuleysisbætur verður lengdur hlutfallslega í samræmi við lækkað starfshlutfall. Í þessu felst að starfsmaður sem hefur áunnið sér fullan rétt til atvinnuleysisbóta en lækkar úr 100% starfshlutfalli í 50% getur fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í samtals sex mánuði í stað þriggja áður.

Í öðru lagi verður skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf felld niður. Í þessu felst að föst laun starfsmanns fyrir 50% starfshlutfall eða meira munu ekki skerða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur eins og verið hefur.

Í þriðja lagi er frumvarpinu ætlað að vernda réttindi launafólks hjá Ábyrgðasjóði launa. Verði fyrirtæki gjaldþrota munu greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa miðast við tekjur samkvæmt því starfshlutfalli sem viðkomandi gegndi áður en til samdráttar kom í fyrirtækinu á tímabilinu 1. október sl. til og með 31. janúar 2009 og að fram hafi komið krafa um gjaldþrotaskipti á búi atvinnurekanda innan tólf mánaða frá þeim tíma sem starfshlutfall starfsmanns var lækkað.

Enn fremur ber að ítreka það að foreldrar á vinnumarkaði halda áunnum rétti sínum til greiðslna samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna þrátt fyrir atvinnumissi.

Félags- og tryggingamálaráðherra hvetur fyrirtæki og stofnanir sem sjá fram á samdrátt í starfsemi sinni að forðast í lengstu lög að segja upp starfsfólki sínu við þær aðstæður sem nú eru uppi. „Ég bind vonir við að frumvarpið verði atvinnurekendum hvatning til að lækka starfshlutfall starfsmanna sinna fremur en að grípa til uppsagna, enda geti sú leið þjónað hagsmunum fyrirtækja sem þurfa að draga saman seglin, frekar en að slíta að fullu ráðningarsambandi við starfsmenn. Þessi leið ætti að vera öllum í hag, bæði fyrirtækjum, starfsfólki og samfélaginu í heild.“



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta