Ársfundur Vinnumálastofnunar
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, fjallaði um alvarlega stöðu á vinnumarkaði og mögulegar aðgerðir til að sporna við vaxandi atvinnuleysi þegar hún ávarpaði ársfund Vinnumálastofnunar sem haldinn er í dag.
Fram kom hjá ráðherra að atvinnuleysi er nú 2,3% og hefur aukist mjög hratt á síðustu vikum. Í byrjun þessa árs voru um 1.500 manns skráðir atvinnulausir en um 2.500 í lok september. Við lokun hjá Vinnumálastofnun í gær voru 4.140 skráðir án atvinnu, um það bil 2.240 karlar og 1.890 konur sem er 2,3% atvinnuleysi. Á síðustu vikum hafa 50-70 einstaklingar skráð sig atvinnulausa á degi hverjum hjá skrifstofu Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu. Á öðrum skrifstofum stofnunarinnar er samanlagður fjöldi nýskráninga á bilinu 30-40 á dag.
Hrina hópuppsagna er hafin og hafa Vinnumálastofnun á síðustu dögum borist upplýsingar um hópuppsagnir sem ná til rúmlega 2000 einstaklinga sem hætta munu störfum eftir einn til þrjá mánuði. „Ég held fast í þá von að þessar uppsagnir þurfi ekki allar að koma til framkvæmda“ sagði ráðherra sem á fundinum sagði frá lagafrumvarpi sem hún lagði fram í ríkisstjórn í morgun og hefur það meginmarkmið að ýta undir að fyrirtæki semji frekar við starfsmenn um lækkað starfshlutfall fremur en að grípa til hópuppsagna.
Ráðherra ræddi mikilvægi þess að nýta allar leiðir og öll úrræði sem kostur væri á til að draga úr örum vexti atvinnuleysis en jafnframt til að styðja við bak þeirra sem misst hafa vinnu sína. Þá gerði hún fólksflótta að umtalsefni og ræddi áhyggjur af niðurstöðum könnunar sem fjölmiðlar birtu í morgun og sýna að um helmingur ungs fólks á aldrinum 18-24 ára hefur hugleitt að flytjast af landi brott. „Þetta eru skelfileg tíðindi sem við verðum að taka mjög alvarlega. Við þurfum að koma í veg fyrir atgervisflótta og grípa til allra mögulegra ráða í því skyni. Við sem hér erum í dag þurfum því líka að skoða allar leiðir sem við teljum færar til að huga að þessum hópi.“
Ráðherra brýndi fundarmenn enda skipti öllu nú að missa ekki kjarkinn, hún sem ráðherra, Vinnumálastofnun, samtök atvinnurekenda og launþega þyrftu að vinna þétt saman. Ákvarðanir um aðgerðir þyrfti að taka hratt en þó af yfirvegun. „Nú er grundvallaratriði að við nýtum öll tækifæri og hlustum á reyndustu menn hér á landi og í alþjóðasamfélaginu dag frá degi og bregðumst hratt við til þess að tryggja virk úrræði vinnandi fólki og fyrirtækjunum til handa.“
Ávarp Jóhönnu Sigurðardóttur á ársfundi Vinnumálastofnunar 2008