Ávarp ráðherra við opnun sambýlis við Jöklasel þann 21. október
Ágætu gestir,
Mér er það sérstök ánægja að vera viðstaddur opnun þessa heimilis við Jöklasel í dag. Aðdragandinn að opnun heimilisins hefur verið langur og stundum erfiður en nú stöndum við hér og getum ekki annað en glaðst yfir því að þetta glæsilega hús skuli vera risið.
Húsið er reist í samræmi við ýtrustu kröfur um þjónustu við fólk sem hefur miklar þjónustuþarfir og þarf því á sérstöku umhverfi að halda til að geta haldið áfram að þroskast og dafna í samfélagi okkar. Húsið býður einnig upp á fyrirmyndaraðstöðu fyrir starfsfólk heimilisins. Slíkt er nauðsynlegt til að tryggja að þjónustan sé alltaf í samræmi við þarfirnar sem hér þarf að koma til móts við. Það er mikilvægt að benda á að gæði þjónustunnar ráðast ekki umhverfinu sem hún er veitt í þó svo að það skipti miklu máli.
Ég hef þann stutta tíma sem ég hef verið ráðherra lagt áherslu á að málefni fatlaðra njóti forgangs í félagsmálaráðuneytinu. Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að fjárveiting til málaflokks fatlaðra aukist um 165 milljónir króna þegar frá eru dregnar almennar launa- og verðlagsbreytingar. Það er því gert ráð fyrir 25 nýjum búsetuúrræðum á árinu 2004, til viðbótar þeim 20 úrræðum sem gert er ráð fyrir að tekin verði í notkun á yfirstandandi ári. Gangi áætlanir ráðuneytisins eftir, munum við eftir tvö ár tala frekar um biðtíma eftir þjónustu en um eiginlegan biðlista.
Megi gæfa og gengi fylgja þessar starfsemi um ókomin ár.